« Padre Pio – Presturinn heilagiKaþólska fréttasjáin: Vikan 7 til 13. maí 2006 »

15.05.06

  19:52:11, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1028 orð  
Flokkur: Hið flekklausa hjarta Maríu

Logi Elsku hins Flekklausa Hjarta Maríu og boðskapur systur Erzsbet (Elísabetar) Szantos o.c.d.s

Mig langar að greina hér örlítið frá hinum athyglisverða boðskap þessar ungversku karmelsystur sem vakið hefur heimsathygli síðan hann var gefinn út á prenti. Hún fæddist í Búdapest þann 11. apríl 1913 og andaðist á föstudaginn langa eða 11. apríl 1985, 73 ára gömul. Skrif hennar eru í dagbókarformi og ná yfir 20 ára tímabil frá 1961 til 1981. Rit hennar var upphaflega gefið út á ungversku af austurríska og þýska útgefandanum Mediatrix Verlag, en hefur nú verið þýtt á fjölmörg tungumál, þar á meðal ensku undir heitinu: The Flame of Love of the Immaculate Heart of Mary með undirfyrirsögninni: The Spiritual Diary of a Third Order Carmelite, a widow with six children. [1] Ég birti hér þýðingu á skrifum hennar frá 19. maí 1963:

Jesús: „Þú skalt forðast falska auðmýkt sem er einungis til hindrunar til að nálgast mig. Veistu hvers vegna ég segi þetta? Það er sökum þess að margir afsaka sig fyrir að nálgast mig ekki meira með því að segja: „Ég er slíks ekki verður.“ Já, syndir ykkar gera ykkur óverðug, en þið ættuð að gera ykkur verðug með því að iðrast synda ykkar. Ég vil að þú þjáist fyrir þetta fólk. Leiddu þetta fólk til mín með þjáningum þínum. Komið til mín! Þjáningin er einungis myrk meðan þið eruð jarðbundin. Dóttir mín, skilur þú það sem ég segi?

Þegar þú fæddist skráði ég þjáninguna á bókfell þitt. Nú varpa ég ljósi á gildi hennar. Eftir því sem þú nálgast mig meira, því meira gildi öðlast þjáning þín. Þegar þú dvelur í nærveru minni muntu sjá frammi fyrir hásæti Heilags Anda ævarandi gildi og fegurð þjáningarinnar. Þar mun ég leiða hana til þroska og sameina minni eigin verðskuldun sem mun gera hana yfirskilvitlega svo að hún mun snerta við öllum sálum í uppljómuðum andlegum hrifum.

Kenning mín er einföld og barnsleg, Himininn tilheyrir barnslegum sálum sem velta hlutunum ekki of mikið fyrir sér. Hún fellur þeim í skaut sem hlusta á mig undrandi og trúa á mig. Sjáðu, ég ávarpa þig ekki á tungumáli vísindanna. En sem komið er hefur slíkt ekki orðið neinum til blessunar! Meðtaktu einfalda kenningu mína svo að hún festi rætur í barnslegri sál þinni. Það er slíkum sálum sem konungsríki mitt fellur í skaut!“

Meðan hann var að tala virtust orð hans renna saman við orð hinnar blessuðu Meyjar, rétt eins og þau væru eitt.

Í stormi samtímans.
Jesús: „Þú sérð að heimurinn er líkt og sjálf náttúran nú áður en fárviðrið skellur á. Hann er eins og eldfjall sem komið er að því að springa sem kæfir allt með eldinum sem logar í iðrum þess, deyðir, blindar og leggur allt í auðn. Þetta er hið skelfilega ástand sem ríkir á jörðu nú um stundir. Það kraumar í eldgíg hatursins. Með deyðandi ösku sinni vill hann umhverfa mannssálinni sem sköpuð er í mynd Guðs svo að hún glati lit sínum.“

Nú heyrði ég hina Alhelgu Mey tala: „En Logi Elsku minnar er tekinn að skína. Ég, hinn bjarti árdegisroði, mun blinda Satan. Ég mun bjarga mannkyninu frá reykjarbrælu syndugs hraunstraums syndarinnar. Þannig mun engin deyjandi manneskja fara til vítis. Logi Elsku minnar er þegar tekinn að ljóma. Útvaldar sálir verða að berjast við höfðingja myrkursins. Skelfilegt fárviðri mun skella á líkt og fellibylur sem mun leggja allt í auðn. Og það sem er alvarlegra er að hann hefur í hyggju að tortíma trúnni og öllu trúnaðartrausti hjá hinum útvöldu. Ég mun verða með ykkur þegar fárviðrið nálgast. Ég er Móðir ykkar. Ég get og mun hjálpa ykkur. Þið munið finna og sannreyna alls staðar leiftur Loga Elsku minnar sem mun uppljóma reikular og myrkvaðar sálir.

Gerir þú þér ljóst hvað ég hef verið að segja þér? Logi Elsku minnar er að leita sér að bústaðar ásamt hl. Jósef á myrkum strætum Betlehem. Við flýjum hatur Heródusar. Veistu hverjir verða ofsækjendurnir? Hugleysingjarnir! Þeir sem óttast að glata forréttindum sínum, hinir ofurvarkáru, lötu og þeir sem þykjast vita allt og andmælendurnir sem sífellt eru að brjóta heilann! Þeir munu ráðast að Loga Elsku minnar rétt eins og Heródus réðst að Jesúbarninu. En rétt eins og hinn himneski Faðir verndaði og bjargaði Jesúbarninu, þannig mun hann bjarga Loga Elsku minnar. Hinn himneski Faðir mun koma þessu í kring!“

Þessi orð hinnar blessuðu Meyjar voru áhersluþyngri en nokkuð annað sem hún hafði sagt áður. Þau glæddu með mér þá tilfinningu að hún sé DROTTNING HEIMSINS. Hin almáttuga og alvalda drottning sem mannkynið mun lúta sem iðrandi sálir.

Eftir stuttu þögn tók hún aftur að tala í sál minni: „Sjáðu litla barnið mitt. Ég hef þig upp og lyfti til hinna eilífu heimkynna sem heilagur Sonur minn ávann þér með ósegjanlegum píslum sínum.“

Ég hafði aldrei áður heyrt hina blessuðu Mey tala með þessum hætti. Rödd hennar var gædd hátign og mætti og hún ávarpaði mig af festu. Ég hlýddi á hana af lotningarfullri aðdáun sem útilokað er að lýsa.

Eftir nokkurra mínútna þögn ávarpaði hin heilaga Móðir mig með allt öðrum hætti af ástúðlegri móðurblíðu: „Litla dóttir mín, nú ert þú að hefja starf þitt. Vertu ekki óttaslegin! Trúðu á móðurlegan styrk minn litli samverkamaðurinn minn.“

[1]. Ensku útgáfuna er unnt að nálgast hjá: Padre Pio Bookshop, 254 Vauxhall Bridge Road Victoria London SW1V 1BB. Tel. (44) 0207 834 5363

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Eins og ég hef sagt er ég nú að þýða bók Elísabetar á íslensku og mun hún birtast á Vefrit Karmels í nóvember á þessu ári.

Undarlegir og huldir eru vegir Drottins okkar og heilagrar Móður hans. Nú ætlar Yoko Ono að reisa friðarsúlu í Viðey. Engu er líkara en að með þessu sé Guðsmóðirin að áminna okkur um mikilvægi þess að láta ljóssúlur elsku og friðar rísa til himins til hins himeska Föður, ljóssúlur loga elsku hins Flekklausa Hjarta síns.

SJÁ ENNFREMUR:

Meymóðirin segir að þessar ljóssúlur bænarinnar – logi elsku síns Flekklausa Hjarta, munu blinda Satan og svartengla hans. Megi þær rísa daglega upp úr sem flestum íslenskum hjörtum, frá íbúum þess lands sem er með fjórverurnar í skjaldarmerki sínu og þannig undir sérstakri vernd Guðs (sjá 91. Davíssálminn). Í versum eitt og tvö er vikið að fjórverutákninu:

BÆN:

Drottinn. Gef að friðarboðskapur þinn megi skína frá þessu eylandi meðal eyja norðursins í hafinu mikla. „Verið hljóð og hlustið á mig, þér eylönd. Safni þjóðirnar nýjum kröftum, gangi svo nær og tali máli sínu. Vér skulum eigast lög við. Hver hefir vakið upp manninn í austrinu, sem réttlætið kveður til fylgdar? Hver leggur þjóðir undir vald hans og lætur hann drottna yfir konungum? Hver gjörir sverð þeirra að moldarryki og boga þeirra sem fjúkandi hálmleggi, svo að hann veitir þeim eftirför og fer ósakaður þann veg, er hann aldrei hefir stigið á fæti sínum? Hver hefir gjört það og framkvæmt? - Hann sem kallaði fram kynþáttu mannanna í öndverðu, ég, Drottinn, sem er hinn fyrsti, og með hinum síðustu enn hinn sami. Eylöndin sáu það og urðu hrædd, endimörk jarðarinnar skulfu. Þeir þyrptust saman og komu“ (Jes 41. 1-5). Amen

09.10.06 @ 08:46