« Gunnar Þórðarson semur messutónlist | Um tjáningarfrelsið og guðlastsákvæðin » |
Morgunblaðið greindi frá því 22. febrúar sl. að lög Megasar við Passíusálmana yrðu flutt í Hallgrímskirkju laugardag fyrir föstubyrjun. Það er lagasmiðurinn og meistarinn sjálfur sem flytur lögin með aðstoð barnakórs og hljóðfæraleikara. Fluttir verða sjö sálmar auk nokkurra veraldlega texta. Í samtali við blaðamann Mbl. sagði Megas m.a:
"Fólk á mínum aldri vandist á það að heyra Passíusálmana lesna. Það mátti ekki slökkva á útvarpinu meðan á lestrinum stóð, og ýmis helgi yfir lestri þeirra [...] Ég hef líka alltaf haft gaman af eldri skáldskap, finnst hann skondinn og hugsanir sniðuglega orðaðar.[1]"
Óskandi er að upptökumenn Ríkisútvarpsins missi nú ekki af þessum einstæða viðburði og nái að festa hann á filmu svo þeir landsmenn sem utan höfuðborgarsvæðisins búa og ekki eiga heimangengt fái að njóta hans líka. Þarna væri komið ágætt sjónvarpsefni til að sýna í sjónvarpi allra landsmanna eitthvert kvöldið í dymbilvikunni, t.d. á föstudaginn langa.
RGB/Heimild
[1] "Það gengur allt oní Drottin allsherjar". Viðtal Bergþóru Jónsdóttur við Megas. Morgunblaðið, miðvikudagur 22. febrúar 2006. Bls. 25.