« Heil. Polýkarp (69-155), byskup og píslarvottur – í þýðingu Reynis K. GuðmundssonarUm dyggð langlyndisins í bæninni – Jóhannes Tauler frá Strassborg og einn af Vinum Guðs (Gottesfreunde) í Rínardalnum »

25.04.08

  10:23:33, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 797 orð  
Flokkur: Bænalífið, Kristselskan

Ljós Maríu í hinni myrku nótt móður Teresu frá Kalkútta – Hvernig hin blessaða Mey huggaði „dýrling göturæsanna.“

Fyrir skömmu var heimspressan full af fréttum um það hvernig móðir Teresa hefði gengið í gegnum „krísu“ í trúarlífi sínu áratugum saman. En kyrrt var látið liggja hvernig María studdi Teresu á þessu tímaskeiði.

Til að fræðast nánar um þetta snéri ZENIT sér til föður Joseph Langford, en hann stofnaði í samráði við Teresu Kærleikstrúboð presta. Hann er höfundur bókarinnar „Mother Teresa: In the Shadow of our Lady,“ sem kom út í s. l. viku.

Faðir Langford greindi ZENIT frá því hvernig móðir Teresa hefði leitað skjóls hjá Maríu í hinni myrku nótt sinni og hvernig við getum nálgast Maríu með því að fylgja því fordæmi sem Teresa gefur okkur.

Sp: Hvað varð til þess að þú ákvaðst að nú væri tímabært að greina frá þessum þætti í lífi hennar?

Faðir Langford: Ákvörðunin að gefa út „In the Shadow of Our Lady“ og greina meira frá hinu innra lífi móður Teresu má rekja til tveggja ástæðna: Nú er 10 ára dánarminning hennar og nýleg skrif um „hina myrku nótt“ sálar hennar.

Sp: Hvernig myndir þú lýsa tímaskeiði móður Teresu í myrkrinu og hvað hefur þú að segja um missagnirnar um „myrka nótt“ hennar?

Faðir Langford: Þvert á það sem sagt er í pressunni, gekk móðir Teresa ekki í gegnum „krísu“ í trúnni. Barátta hennar stóð alls ekki í trúnni, heldur að hún „glataði tilfinningunni“ fyrir trúnni og jafnframt fyrir nærveru hins guðdómlega. Þegar hún gekk út úr klaustrinu og inn í fátækrahverfin í Kalkútta lauk þeirri huggun skyndilega sem hún hafði notið í bæninni.

Þrátt fyrir að hún gerði sér það ekki ljóst fyrr en síðar, þá var hún beðin um að bera hið sama innra myrkur, þær sömu þolraunir í trúnni, sem hinir snauðu og yfirgefnu verða að reyna – og gera þetta þeirra vegna og vegna elsku sinnar á Drottni.

Henni gafst að reyna fjarveru Guðs og í fyrstu var hún angistarfull þegar tengslin rofnuðu milli tilfinninga hennar og trúar, þrátt fyrir að þessi skortur á tilfinningum leiddi aldrei til skorts á trú.

Í reynd opinberar hin myrka nótt Teresu djúpið í trú hennar sem engin önnur köllun hefði gert. Myrkur hennar gerði henni ekki einungis kleift að láta reyna á einstaka trú sína til fulls, þetta gerir okkur – lærisveinum nútímans sem iðulega höfum „litla trú“ – kleift að uppgötva hina sönnu breidd sem felst í trúnni, jafnvel í þurrki og nótt.

Hún vildi hvetja okkur til að gera hið sama í okkar eigin Kalkútta, okkar eigin myrku nótt: Í stað þess að gera þolraunir okkar og sársauka að fangelsi, getum við eins og hún gert sársauka okkar að brú til sársauka annarra, að einingarbandi, að orkumiðstö kærleikans.

Sp: Hvernig varð samband hennar við Maríu til að hjálpa henni í þolraunum hennar?

Faðir Langford: Rétt eins og Ísraelsmönnum var gefinn eldstólpi til að leiða þá áfram á nóttinni, þannig var móður Teresu fært sitt eigið ljós til leiðsagnar í gegnum trúarnótt sína með Maríu mey.

Gjöf móður Jesú – sem hl. Jóhannesi var gefin á Krosshæðinni ásamt öllum hinum heilögu í aldanna rás – veitti móður Teresu styrk til að axla eiginn sársauka og að gera hann að huggun fyrir sársauka hinna snauðu.

Guðsmóðirin hjálpaði henni ekki einungis að trúa í nóttinni, heldur að elska í nóttinni – að ummynda leyndardóm krossins, bæði hið innra með sjálfri sér og í umhverfi sínu og gera að sæði upprisu.

Rétt eins og það var hin blessaða Mey sem leiddi hl. Jóhannes, þann eina í hópi postulanna, til að standa trúfastan við rætur krossins, þá var það Meyjan sem leiddi móður Teresu í gegnum það hafrót þjáninga sem laukst upp fyrir henni þannig að hún gæti ljómað í ljósi elsku Guðs í garð hinna snauðu . . .

Á netinu:

"Mother Teresa: In the Shadow of Our Lady": http://www.osv.com/BooksNav/MotherTeresaIntheShadowofOurLady/tabid/4738/Default.aspx.


Kæru Kristssystkin. Við skulum öll læra af reynslu móður Teresu og biðja fyrir okkar eigin stjórnvöldum sem eru svo snauð af elsku til Drottins, að þau hafa lagt fram hvert lagaboðið eftir annað sem stríðir gegn boðum hans á undanförnum árum.

No feedback yet