« Ritningarlesturinn 26. september 2006Ritningarlesturinn 25. september 2006 »

25.09.06

  07:35:48, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 995 orð  
Flokkur: Bænalífið

Ljós Krists í djúpi mannshjartans og svartnætti syndarinnar

Í hugleiðingunni með Ritningarlestrinum í dag (25. september) áminnir heil. Jóhannes Chrysostomos okkur á ljós Krists, eins og Drottinn gerir jafnframt sjálfur. Í silfurtærri lind guðspjallanna áminnir Drottinn okkur auk þess á þessa staðreynd með eftirfarandi orðum:

Auga þitt er lampi líkamans. Þegar auga þitt er heilt, þá er og allur líkami þinn bjartur, en sé það spillt, þá er og líkami þinn dimmur. Gæt því þess, að ljósið í þér sé ekki myrkur. Sé því líkami þinn allur bjartur og hvergi myrkur í honum, verður hann allur í birtu, eins og þegar lampi lýsir á þig með loga sínum" (Lk 11. 34-36).

Veitið því athygli að Drottinn talar um auga, ekki augu. Hér víkur hann að auga hjartans sem í kristinni helgunarguðfræði er æðsta verundardjúp mannsins sem gerir honum kleift að bera skyn á Drottin í náðinni, eins og heil. Jóhannes segir einnig: „Þannig bregðist þið við helgri köllun ykkar í lífi ykkar svo að náð Guðs sé boðuð alls staðar.“ Öll finnum við hversu létt okkur verður um hjarta eftir að við höfum skriftað: Það er eins og hjartað dansi af gleði frammi fyrir Guði. Þetta er sökum þess að það hefur verið hreinsað af saurgun óvinar alls lífs og engin saurgandi hugsun er lengur til staðar í því. En við verðum að vaka yfir þessum hreinleika því að óvinur hjálpræðisins reynir eftir fremsta megni að saurga þennan hreinleika í slægð sinni.

Það er þetta sem við lærum að gera í Bænaháskóla Guðsmóðurinnar og þessi andlega árvekni er óaðskiljanlegur hluti þeirrar auðmýktar, hlýðni og andlegu fátæktar sem við lærum hérna. Þetta er áminning frá Drottni: „Sá ber mikinn ávöxt, sem er í mér og ég í honum, en án mín getið þér alls ekkert gjört“ (Jh 15. 5). Ef við finnum að náðin dvínar í okkur eða hverfur, þá er það sökum einhverrar ódrengskaparhugsunar sem glæðst hefur í hjartanu. Ein slík hugsun nægir til að svipta sálina náð Guðs. Því skulum við snúa okkur samstundis til Drottins og ákalla hann um hjálp:

Drottinn minn og Guð! Fyrirgefðu mér synd mína. Afmá sekt mína. Fyrirgefðu mér Drottinn í gæsku miskunnar þinnar!

Þá finnum við hvernig náðin glæðist að nýju og sálinni verður létt um hjarta. Við skulum nú íhuga þau fyrirheit í silfurtærri lind Orðsins sem Drottinn Jesús gefur okkur um syndafyrirgefningu. Guð er réttlátur og fyrirgefur skjótlega þeirri sál sem ákallar miskunn hans á stund neyðarinnar. Guð biður syndugan mann að gæta fyllstu auðmýktar og játa syndir sínar og iðrast þeirra:

Ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti“ (1Jh 1. 9).

Þess vegna skulum við ekki hika við að biðja Guð um syndafyrirgefningu á sama andartaki og við verum þess áskynja að við höfum drýgt synd með óhreinni hugsun:

Látið eigi dragast á langinn að snúa yður til Drottins, frestið því eigi frá einum deginum til þess næsta, því að óvænt mun reiði Drottins blossa upp (Ekkl. 5. 8-9).

Guð hlustar á bænir hins auðmjúka þegar hann gerir iðrun:

Sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta (Sl 50. 19).

Verið skjót til að játa syndir ykkar og leynið þeim ekki þegar þið gangið til skrifta:

Sá sem hylur yfirsjónir sínar, verður ekki lángefinn, en sá sem játar þær og lætur af þeim, mun miskunn hljóta (Ok 28. 13).

Drottinn vék sjálfur að þeim fögnuði sem gagntaka mun þann sem iðrast yfirsjóna sinna:

Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, er ekki hafa iðrunar þörf (Lk 15. 7).

Sjálfir báru postularnir gott skyn á syndafyrirgefninguna og hvernig við öðlumst hana:

Gjörið því iðrun og snúið yður, að syndir yðar verði afmáðar (P 3. 19).

Bersyndugur maður þarf einungis að nálgast farveg náðarinnar í sakramenti iðrunarinnar. Eftir upprisu sína opinberaðist Drottinn okkar Jesú Kristur postulunum og gaf þeim og arftökum þeirra máttinn til að fyrirgefa syndirnar:

Meðtakið Heilagan Anda. Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað“ (Jh 20. 23).

Sum aðskyldra kristsystkina okkar nú á dögum hafna þeirri ríku áherslu sem Drottinn lagði á að iðrast yfirsjóna sinna og játa afbrot sín. Sum þeirra ganga jafnvel svo langt að segja að það sem er synd sé ekki synd. Má vera að slíkir hafi til að bera mikinn bókalærdóm um Guð, en það er ekki það sama og að bera skyn á Drottin í lífi náðarinnar. Þegar sálin ber skyn á Drottin sinn og Ástmögur í bæninni verður henni létt um hjarta og skundar til hans í gleði sinni vegna þess að „dýrmætari er ást þín en vín“ (Ll 4. 10). Hún elskar Drottin og hlýðnast því boðorðum hans. Þetta er það sem við lærum í Bænaháskóla Guðsmóðurinnar og þá verður sálin lángefin að eilífu vegna þess að sundrung syndarinnar er liðin undir lok sem útilokaði hana frá náðrríku samfélagi sínu við Guð.

BÆN

Alhelga Hjarta Jesú
uppsrettulind hins háheilaga blóðs.
Gef í miskunnarríkri gæsku þinni
að allir íbúar jarðarinnar
megi bera skyn á þig
í náð Heilags Anda.

No feedback yet