« Ritningarlesturinn 18. október 2006Ritningarlesturinn 17. október 2006 »

17.10.06

  10:23:39, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1238 orð  
Flokkur: Trúarljóð

Ljóð andans eftir Jóhannes af Krossi

SÖNGUR SÁLARINNAR OG
BRÚÐGUMANS

BRÚÐURIN

1. Hvar hefur þú hulið þig
Ástmögur minn, og skilið mig eftir í tárum?
Þú flúðir sem hjörturinn
eftir að hafa sært mig.
Ég gekk út og hrópaði, en þú varst horfinn.

2. Hirðar, þið sem farið
um sauðabyrgið til hæðarinnar,
ef þið skylduð sjá hann
sem ég elska mest af öllu,
segið honum þá að ég er sjúk, þjáist og dey.

3. Í leit minni að elskunni
hverf ég til fjallanna og árbakkanna,
ég hirði ekki um blómahafið
fremur en að óttast villidýrin.
Ég geng hjá hinum sterku og fyrirstöðunum.

4. Ó skógar og runnagróður
handverk Ástmögurins!
Ó grænu engi
skrýdd blómamynstri,
segið mér, gekk hann hér hjá?

5. Þúsund náðargjafir gaf hann
er hann gekk skjótt hjá þessum lundum.
Þegar hann horfði til þeirra
með ímynd sinni einni
íklæddi hann þá fegurð.

6. Æ, hver megnar að græða mig?
Gefstu mér nú til fulls,
sendu mér ekki núna
fleiri sendiboða,
þeir geta ekki sagt mér það
sem ég þrái að heyra.

7. Allir frelsingjarnir
greina mér frá þér á ótal vegu
með náðarríkun hætti
og særa mig enn frekar
og skilja mig deyjandi eftir,
ég veit ekki hvað felst í stemi þeirra.

8. Hvernig fær þú afborið
ó líf! að lifa þar sem þú lifir ekki
og stendur við dauðans dyr
sökum örvanna sem bera þér
áskynjun þína á Ástmögurnum.

9. Hvers vegna, sökum þess að
þú hefur sært mig
græðir þú ekki þetta hjarta
sem þú hefur sært?
Hvers vegna, sökum þess að
þú rændir mig því,
lætur þú það eitt eftir,
og hirðir ekki um ránsfeng þinn?

10. Slökktu þessi harmkvæli
því að enginn annar megnar slíkt,
einungis að augu mín megi sjá þig
vegna þess að þú ert ljós þeirra
og ég lýk þeim einungis upp fyrir þér.

11. Opinbera nærveru þína,
megi ásæi fegurðar þinnar deyða mig.
Sjá, sjúkdómur
elskunnar er ólæknandi
nema með nærveru þinni og ímynd.

12. Ó kristaltæra lind!
Einungis að þú í þessari
silfruðu líkingu þinni
mótaðir skjótlega
þau augu sem ég þrái
og mörkuð eru sem frumdrög
djúpt innra með mér!

13. Snú frá mér augum þínum, Ástmögur
því að ég flýg á brott!

BRÚÐGUMINN

Snú til baka, dúfan mín,
hjörturinn særði
sést á hæðinni
endurnærður af gusti flugs þíns.

BRÚÐURIN

14. Ástmögur minn, fjöllin,
skógi klæddir dalir óbyggðanna,
framandi eylönd,
dunandi fallvötn,
hvísl elskuríks vindblæsins.

15. Kyrrlát nótt
í árdegisroðanum,
þögul hljómlist,
samhljómur einveru,
máltíð sem endurnærir elskuna.

16. Náið fyrir okkur refunum
vegna þess að víngarður okkar
stendur í blóma,
og meðan við úr rósunum
myndum furuköngul,
að enginn birtist á hæðinni.

17. Nem staðar,
deyðandi norðanvindur,
kom sunnnanvindur
sem glæðir elskuna,
blástu um garð minn,
lát ilm hans streyma fram
svo að Ástmögurinn nærist
meðal blómanna.

18. Ó, Júdeumeyjar!
meðal blómanna og rósanna
dreifir rafið angan sinni,
nemið staðar í jaðarbyggðunum,
komið ekki nærri dyrastaf okkar.

19. Hyl þig, ástin mín
og bein ásjónu þinni til fjallanna
og mæl ekki orð að vörum,
horfðu fremur á þessa samferðamenn
sem fara með henni um framandi eylönd.

BRÚÐGUMINN

20. Hraðfleygu fuglar,
ljón, hjartardýr og fótfráu rádýr,
fjöll, sléttur og árbakkar,
vötn, vindar, hitamóða,
vökull ótti næturinnar:

21. Í ljúfleika hörpuhljóms
og söng sirenunnar, býð ég ykkur
að stilla reiði ykkar
og snerta ekki múrvegginn,
svo að brúðurin njóti friðar svefnsins.

22. Brúðurin hefur gengið inn í
unaðsgarð þrár sinnar,
hún endurnærist í gleði hans
og háls hennar hvílir
í gæskuríkum örmum Ástmögurins.
23. Undir eplatrénu
útvaldi ég þig sem mína,
þar gaf ég þér hönd mína
og græddi þig
þar sem móðir þín saurgaðist.

BRÚÐURIN

24. Beð okkar blómstrar
umlukið ljónabælunum,
skrýtt purpura,
grundvallað á friði
og krýnt þúsundum gullskjalda.

25. Er þær rekja fótspor þín
skunda meyjarnar eftir veginum,
snerting eldneistans
og kryddvínsins
fær balsam Guðs til að streyma um mig.

26. Í hinum innri vínkjallara
bergði ég á Ástmögur mínum
og þegar ég hvarf út
um alla þessa dali
vissi ég ekki lengur neitt
og missti sjónar af hjörðinni
sem ég fylgdi eftir.

27. Þar gaf hann mér brjóst sín,
þar uppfræddi hann mig í ljúfleika spekinnar,
og þar gafst ég honum
og hélt engu eftir,
þar hét ég að verða brúður hans.

28. Sál mín hefur nú einsett sér
að verja allri orku sinni til að þjóna honum.
Ég leiði hjörðina ekki lengur í haga
og tek mér ekkert fyrir hendur
það er elskan ein sem nú ríkir.

29. Ef ég á torginu
verð ekki séð eða fundin,
segið þið að að ég sé týnd,
lostin elskunni,
glataði ég mér og var fundin.

30. Úr blómum og smarögðum
týndum á svölum morgni
vefum við blómsveigi
blómstrandi í elsku þinni,
riðnir úr einu hára minna.

31. Einungis þetta eina hár
sem liðaðist um háls mér hreif þig,
þú einblíndir á það á hálsi mínum
og eitt augna minna særði þig.

32. Þegar þú horfðir á mig
mörkuðu augu þín mig náð þinni,
því elskaðir þú mig af ástarfuna
og í þessum náðarvotti
tilbáðu augu mín það sem þau sáu í þér.

33. Fyrirlíttu mig ekki
því að ef ég var áður svört í augum þínum,
nú getur þú sannarlega horft á mig
vegna þess að þú hefur litið til mín
og veitt mér náð og fegurð.

BRÚÐGUMINN

34. Hvíta dúfan smávaxna
hefur snúið til arkarinnar
með olífuviðargrein.
Og nú hefur turtildúfan
fundið þráðan maka sinn
á árbökkunum iðjagrænu.

35. Hún lifði í einveru
og nú er hreiður hennar reist í einveru,
í einverunni uppfræðir hann hana,
hann sem einn ber
kærleikssárið í einveru.

BRÚÐURIN

36. Fögnum, Ástmögur minn,
við skulum fara og njóta fegurðar þinnar
í okkur sjálfum,
förum til fjallsins og hæðarinnar,
þangað sem hin tæru vötn streyma,
og höldum áfram inn í skógarþykknið.

37. Og síðan förum við til hárra
hellanna í klettinum
sem eru svo vel huldir.
Þangað göngum við inn
og njótum fersks safa granateplanna.

38. Þar munt þú sýna mér
það sem sál mín hefur leitað,
og þá munt þú gefa mér
þig, líf mitt, gefa mér það
sem þú gafst mér á hinum deginum.

39. Andblær loftsins
og sætur söngur næturgalans,
lundurinn í fegurð sinni
í næturkyrrðinni
ástarlogi sem brennir upp án særinda.

40. Enginn leit á hana
og Aminadab birtist ekki,
umsátrinu lokið
og riddaraliðið
fór niður þegar vötnin birtust.

No feedback yet