« „Sonur þinn lifir.“En armar krossins merkja ást Guðs »

26.03.06

  07:56:15, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1366 orð  
Flokkur: Fóstureyðingar og vernd

Lífsvernd og skuggi nasismans

Eftirfarandi grein, „Lífsvernd og skuggi nasismans,“ var samin af ítalskri konu sem starfar sem prófessor við „La Sapienza háskólann í Róm. Hér dregur hún saman kenningar Romano Guardini (1885-1968) um lífsvernd og tæknifrjóvganir.

Grein sína skrifaði hún sökum þess að þann 12. júní 2005 var lagt fram breytingarákvæði við lög númer 40/2004 sem takmörkuðu mikið rétt til tæknifrjóvgana á Ítalíu. Breytingarákvæðin miðast einnig við víðtæka útvíkkun réttarins til fóstureyðinga.

Benedikt páfi XVI hefur einmitt lagt áherslu á það við ótalmörg tækifæri að kenningar Romano Guardinis hafi haft djúpstæð áhrif á sig og hann hafi svo að segja mótast af kenningum hans ásamt kenningum þeirra Möhlers, Newmans, Scheebens, Rosminis, de Lubacs, og von Balthasars.

Þann 7. maí 2005, eða sama daginn og Benedikt páfi XVI var settur inn í embætti mátti sjá endurútgáfu á einum fyrirlestra Romanos í hillum ítalskra bókaverslana: „Rétturinn til lífs fyrir fæðingu.“

Guardini samdi ritgerð sína þegar lagafrumvarp um rétt til fóstureyðinga var lagt fram í Þýska sambandslýðveldinu 1947, en röksemdafærslur hans eru meira aðkallandi en nokkru sinni fyrr. Þetta eru fyrst og fremst heimspekileg rök sem vísvitandi „forðast hina afgerandi kristnu afstöðu.“

Það er fróðlegt að bera rök Guardinis saman við afstöðu þeirra dr. Reynis Tómasar Geirssonar í Mbl. 25. okt. 2000 og Sóleyjar Bender í sama blaði 11. nóv. og Jón Valur fjallar um með svo miklum ágætum í grein sinni „Um neyðragetnaðarvörn – rangfærslum og lögleysu mótmælt.“ Framganga þessa hóps fólks í opinberri umræðu um þessi mál á Íslandi ættu að vera hverjum hugsandi einstakling á Íslandi áhyggjuefni þar sem öll andmæli eru „stimpluð“ sem ofstæki eða fáfræði. Því er aðkallandi að kynnast með enn fyllri hætti afstöðu mestu hugsuða tuttugustu aldarinnar til þessa máls.

Lífsvernd og skuggi nasismans

eftir Lucetta Scaraffia

Þessi stutta en gagnorða ritgerð eftir þýska heimspekinginn og guðfræðinginn Romano Guardini virðist hafa verið samin í tilefni þeirra áköfu deilna sem risu á Ítalíu sökum þingsályktunar 40/2004. Hún heitir „Rétturinn til lífsins fyrir fæðingu“ og var samin 1947, þegar lögin um að rjúfa vísvitandi meðgöngu voru lögð fyrir þýska sambandsþingið og samþykkt 1949.

Hún kemur á óvart sökum skarpskyggni sinnar og hvernig fjallað er um flókin mál líkt og manngildið og hvernig vernda beri lífið, og sökum þess hversu málin eru krufin til mergjar með yfirveguðum hætti og yfirsýn sem hávaðamönnum samtímans auðnast sjaldnast að ná.

Hún kemur einnig á óvart vegna þess að inntak hennar er varið án þess að grípa til trúarlega raka.

Vandamálið sem felst í því að nýta fósturvísa og við teljum að vaknað hafi til lífs með tækni þeirri sem felst í gervifrjóvgun, voru þegar fyrir hendi í huga Guardinis á þeim tíma sem þýsku fóstureyðingarlögin komust í sviðsljósið og er samofið sögulegri meðvitund hinnar nýlegu fortíðar nasismans sem kemur í veg fyrir að fólki sé unnt að sjá „að öllu brot á persónulegum réttindum, einkum þegar slíkt birtist sem lagaboð, undirbýr jarðveginn fyrir alræðisríkið.“

Heimspekingurinn hefur umfjöllun sína með því að hafna því að fóstureyðingar séu sérstakt málefni sérfræðinga: Lögfræðinga, lækna og félagsfræðinga. Þetta er fremur vandamál sem „snertir allt samband einstaklingsins og þjóðfélagsins og felur í sér grundvallarinntak mennskrar tilveru.“

Hann heldur síðan áfram með því að andmæla þeirri afstöðu nútímans „að maðurinn sé eini gerandi og mótandi tilveru sinnar“ og ber saman við „fyrri afstöðu sem grundvallaðist á helgi mennsks lífs.“

Hvað áhrærir þessar tvær ólíku gildisviðmiðanir, telur Guardini að nasisminn hafi gegnt lykilhlutverki vegna þess að hann innleiddi réttinn til að fyrirfara fötluðum og í kjölfarið langjúkum og hinum öldruðu, þeim sem voru ekki lengur „gagnlegir þjóðfélaginu,“ heldur væru því til byrði og hindrunar: „Ef tekið er að líta á slíka hindrun sem gilda ástæðu til að beita mennskt líf ofbeldi, er ekki unnt að setja nein takmörk.“

Heimspekingurinn er í reynd fullviss um að „virðing fyrir manninum sem einstakling sé forsenda sem ekki megi draga í efa: Á henni hvíli mannhelgin og velferðin og að lokum öll tilvist mannkynsins. Ef þessari forsendu sé hafnað, leiði slíkt til villimennsku (barbarism).“

Guardini svarar fyrirfram kröfu kvenna um að þeir séu algildir eigendur eigin líkama og þannig einnig barnsins: „Kona hefur ekki rétt til að fyrirfara eigin líkama og hún er ekki eigandi þess lífs sem vex í henni, sem er hins vegar falið henni á hendur. Þegar til alls kemur hefur hún ekki meiri rétt yfir því en lifi sérhvers annars einstaklings.“

Hér kemur samanburðurinn við nasismann einnig til: „Ef sagt er að barnið í móðurskauti sé einfaldlega hluti líkama konunnar er það eitt og hið sama og að fullyrða, að maðurinn sé einfaldlega hluti ríkisins“ og þar með “hljóti þessi afstaða að fela í sér rétt fyrir ríkið til að fyrirfara þeim sem tilheyra því.“

Heilum kafla er varið til að fjalla um fóstrið, það er að segja að líta beri á það sem mennska veru frá fyrsta andartaki tilurðar þess.

Guardini svarar svo til að líffræðilega birtist mennsk vera bæði í einstæðri mynd og tímanlegri til samræmis við þau stig sem mennsk vera hefur lagt að baki eða bíði hennar að leggja að baki. Hann segir að báðar þessar birtingarmyndir, hin áþreifanlega og verðandi „séu ein óaðskiljanleg heild sem leiði báðar í ljós lífveruna, önnur í rúmi en hin í tíma. Í báðum tilvikum sé um sýnilega einingu að ræða“ vegna þess að maðurinn „sé heilstæður tilvistarfræðilegur veruleiki, sem sé ekki einungis náttúrlegur, heldur sögulegur og feli ekki einungis í sér þróun, heldur örlög.“

Ef þessum veruleika sé hafnað og litið sé svo á að mennsk vera eigi sér ekki náttúrlega tilurð, heldur sé eitthvað sem unnt sé að framleiða í æðri eða óæðri mynd, þá verði afleiðingin óhjákvæmilega gildismat sem einskorðist ekki einungis við fóstrið, heldur allan lífsferilinn í heild. Þannig sé unnt að draga upp mynd af fullkomnu ríki sem birtist í andhverfu sinni í aldurshrörnun, fötlun og sjúkdómum, þannig að „sjúkur, veikbyggður eða misheppnaður einstaklingur er óæðri og því minnki réttur hans til að kalla sig mennska veru.“ Þetta sé hin fullkomna rökfræði nasistanna um „líf sem er þess ekki vert að því sé lifað.“

Vörn Guardinis fyrir lífsréttinum helst í hendur við vörn hans gagnvart villimennsku (barbarism) sem blasti einmitt við sjónum á valdaárum einræðisstjórnar Hitlers. Rökföst framsetning hans eru varnaðarorð til þess að sömu mistökin verði ekki endurtekin sökum þess að „óréttmætar aðgerðir,“ jafnvel þó að þær virðist vera hagkvæm lausn, leiða að lokum til hruns.“

Guardini andmælir þeim sem fullyrða að fóstureyðingar og val á fósturvísum til rannsókna séu sjálfstæðar og einstaklingsbundnar ákvarðanir en ekki þvinguanraðgerðir af hálfu ríkisvaldsins, líkt og átti sér stað meðan nasisminn var og hét. Hann fullyrðir að kjarni málsins sé einn og samur og jafnframt hættan á villimennskunni (barbarism).

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Mér auðnaðist að finna grein Romanos Guardini í heild á þýsku: Das Recht des werdenden Menschenlebens. Þar sem frumheimildin er ætíð best ætla ég mér að þýða skrif hans í heild í næstu viku, jafn mikilvæg og þau eru og birta á kirkju.net

26.03.06 @ 11:19