« Krukkufórnir og barnamorð Panhagían (Hin Alhelga) »

09.02.06

  09:21:43, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1060 orð  
Flokkur: Fóstureyðingar og vernd

Lífsmenning ljóss og elsku eða dauðamenning?

Kæru bræður og systur! Um aldir hefur orðið hin stríðandi kirkja á jörðu verið haft um hönd í kaþólskri guðfræði. Með kaþólskri guðfræði á ég við guðfræði rómversk kaþólsku kirkjunnar og Rétttrúnaðarkirkjunnar. Við tölum einnig um hina sigrandi kirkju himnanna, samfélag heilagra á himnum, og hina líðandi kirkju eða kirkju þjáninganna í hreinsunareldinum (Austurkirkjan í eldinum). Þetta samfélag myndar eina órofna heild og fyrri limirnir tveir bera statt og stöðugt fram fyrirbænir fyrir kirkju þjáninganna í eldinum eilífa. Þetta er það lífssamfélag sem Endurlausnarinn lagið grundvöllinn að í holdtekju sinni á jörðu og þar er hann höfuð líkamans. Kirkjan er því ekki „grasrótarhreyfing“ eins og einn fylgjenda endurskoðunarguðfræði póstmódrnismans komst að orði. Hún lýtur valdi Drottins Jesú Krists af auðmýkt. Kristur er konungur kirkjunnar, við hins vegar þegnar hans.

Ég bið lesendur einnig að misskilja mig ekki þegar ég stend fast á kristnum gildum. Þetta felur alls ekki í sér að ég lítilsvirði önnur trúarbrögð. Ég vitna í þessu sambandi til Nostra Aetate, yfirlýsingu Annars Vatíkansþingsins til afstöðu kirkjunnar til annarra trúarbragða (1-2):

„Á okkar tímum þegar mannkynið verður sífellt meira að einni heild og sambandið milli ólíks fólks verður nánara, þá íhugar kirkjan betur afstöðu sina til trúarbragða sem ekki eru kristin. Í viðleitni sinni til að skapa einingu og elsku meðal manna, í reynd meðal þjóðanna, leggur hún megináherslu á það í þessari yfirlýsingu sem menn eiga sameiginlegt og hvað leiðir til nánara samfélags þeirra.

Samfélag mannanna er eitt, uppruninn einn og samur, sökum þess að Guð skapaði eitt mannkyn og lét það byggja allt yfirborð jarðar (P 17. 26). Lokatakmarki er jafnframt eitt og hið sama: Guð. Ráðsályktun hans, opinberun gæsku hans, allt hjálpræðisverk hans er fyrirhugað öllum mönnum (sjá SS 8. 1; P 14. 17; Róm 2. 6-2 og 1 Tm 2. 4), uns hinir fyrirhuguðu sameinast í Borginni helgu, borginni sem leiftrar í dýrð Guðs og þar sem þjóðirnar munu ganga í hans ljósi (sjá Opb 21, 23 o. áfr.).

Í hinum ýmsu trúarbrögðum vænta menn svars við óleystum ráðgátum mennskra aðstæðna, sem nú eins og fyrr á tímum snerta hjörtu mannanna með djúpstæðum hætti . . . Trúarbrögðin leitast við að horfast í augu við eirðarleysi mannshjartans, hvert með sínum hætti, með því að leggja fram „leiðir“ sem fela í sér kenningar, reglur og helgirit.

Kaþólska kirkjan hafnar engu sem er í samhljóðan við sannleikann og heilagt í þessum trúarbrögðum. Hún lítur af mikilli virðingu til lífsafstöðu þeirra, fyrirmæla og kenninga sem eru þrátt fyrir það að ýmsu leyti frábrugðnar hennar eigin, en endurvarpa engu að síður geislum þess Sannleika sem uppljómar alla menn. Í reynd og ávallt verður hún að boða Krist sem „veginn, sannleikann og lífið“ (Jh 14. 6). Það er í honum sem mennirnir geta fundið fyllingu trúarlífsins sökum þess að það er í honum sem Guð hefur sætt oss við sig fyrir Krist (sjá 2 Kor 5. 18-19).“

Þannig finnur kaþólska kirkjan til mikillar samkenndar með Íslam í baráttunni fyrir þeirri lífsmenningu ljóss og elsku sem er andhverfa þess sem hún kallar dauðamenningu síðkristinna (post-christian) samfélaga sem birtist í fóstureyðingum. Hún á einnig samstöðu með Íslam gagnvart óheftri og viðurstyggilegri klámvæðingu hins vestræna heims á síðustu áratugum.

Nú er svo komið að tvö menningarsvæði sem tilheyra hinum kristna heimi hafa gefið út afdráttarlausar lagaheimildir þar sem andstaðan gegn hómósexualisma er skilgreind sem kynvilluandúð (hómófóbía) og ákveðinn boðskapur heilagra Ritninga skilgreindur sem hatursáróður. Þetta eru Kanada og Evrópubandlagið. Þannig mega kristnir menn gera ráð fyrir ofsóknum á hendur sér á næstu árum þar sem prestar og leikmenn verða dæmdir til fjársekta og frelsissviftingar fyrir að boða Orðið. Þá reynir á trúfestu þeirra sem beygja ekki kné sín fyrir Baal. Svo er komið í afkristnun þjóðanna, að ríkisvaldið á þessum menningarsvæðum er orðið fjandsamlegt kristnum siðagildum.

Seint hefði ég trúað því að svo færi að bræður okkar og systur í Gídeonfélaginu ættu eftir að horfast í augu við að verða dæmd fyrir að útbreiða „hatursáróður.“ En það er þessi staðreynd sem blasir nú við sem blákaldur veruleikinn.

En og aftur snýr kaþólska kirkjan sér til Panhagíunnar, rétt eins og hún hefur gert í aldanna rás, til hinnar alsælu Maríu Guðsmóður, Meyjar hinnar sínálægu hjálpar, eða með orðum prófessors Peter Kreeft:

Ákallið Maríu, hina síðari Evu, konuna sem sigraði höggorminn sem tældi hina fyrri Evu (1 M 3. 15). Hún vann sigur á þessum höggormi fyrir tvö þúsund árum (sjá Opb 12) og að nýju í Mexíkó árið 1531, og enn að nýju í Þýskalandi árið 1945 og aftur í Rússlandi árið 1989. Þennan sigur getur hún fullkomnað að nýju meðal þjóða sem guðræknir múslimar kalla „hinn mikla Satan,“ menningu sem úthellir blóði milljóna saklausra barna árlega í gráðugan munn Móloks. Það er einungis Drottning englanna og himneskar hersveitir hennar sem megnar að sigra þennan engil illskunnar og umbreyta menningu okkar úr „dauðamenningu“ í lífsmenningu ljóss og elsku.

Sjálfur tel ég að mér verði auðsýndur mikill heiður og náð fyrir að verða dæmdur í fjársektir og til fangelsisvistar fyrir að standa við hlið þess sem er „vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jh 14. 6) þegar hin nýju ólög verða innleidd á Íslandi. Það er sómi sérhvers sannkristins einstaklings, karla sem kvenna. Við fylgjendur póstmóderniskar endurskoðunarguðfræði segi ég einungis þetta: Hafið ekki þökk fyrir framlag ykkar.

sjá: http://www.narth.com/docs/criminalize.html

17 athugasemdir

Athugasemd from: Róbert Björnsson
Róbert Björnsson

Það er grátbroslegt að fylgjast með boðberum haturs og óréttlætis reyna að telja fólki trú um það að sjálfir séu þeir “fórnarlömb” eineltis sökum þess að heilbrigt fólk kærir sig ekki um að hlusta á meiðyrði þeirra.

Ekki hef ég samúð með nýnasistum í Evrópu sem dæmdir hafa verið í fjársektir eða fangelsi fyrir að hafa dreyft út hatursáróðri gegn útlendingum og gyðingum og ekki mun ég hafa samúð með illkvittnum og öfgafullum hommahöturum sem bætast í þann hóp.

Þeir sem í öðru orðinu breiða út óhróður, fjandskap og lygar um hóp sambræðra sinna og kenna sig svo við “lífsmenningu ljóss og elsku” í hinu orðinu hljóta að teljast hræsnarar af verstu gerð.

Hvað er kristið við það að leggja fólk í einelti? Boðaði Kristur hatur og misrétti? Ekki í minni Biblíu.

Þeir sem þykjast í orði vera sannir fylgjendur Krists ættu að vara sig á að leggja nafn Guðs síns við hégóma með því að breiða út ÓKRISTILEG siðagildi í Jesú nafni. Slíkt getur aðeins talist til guðlasts og ættu þeir sem það iðka að skammast sín.

Það verður fróðlegt að sjá hversu margir “píslarvottar” fara að stunda hungurverkfall á Litla Hrauni í framtíðinni en eitt er víst…telji þeir málstað sinn í anda þess sem er “vegurinn, sannleikurinn og lífið” skjátlast þeim hrapalega.

09.02.06 @ 15:21
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Svo mörg voru þau orð. Ég veit ekki til þess að kirkjan ofsæki samkynhneigt fólk eins og nasistar
ofsóttu Gyðinga. Slík gífuryrði dæma sig sjálf. Þetta er einmitt sá málfutningur sem séra Bjarni Karlsson reyndi að grípa til þegar hann varð rökþrota í sjónvarpinu og séra Geir Waage benti honum á í fullri vinsemd, að væru fjarri öllum sanni, það er að segja að kirkjan ofsótti samkynhneigða.

09.02.06 @ 15:38
Athugasemd from: Magnús Ingi Sigmundsson
Magnús Ingi Sigmundsson

Mjög merkilegt að lesa þennan reiðilestur frá Róberti, því hann er nákvæmlega það sem Jón Rafn talar um í pistli sínum. Róbert gæti ekki gefið okkur betra dæmi um hvað Jón Rafn á við.
Dæmigert líka hvernig Róbert reynir að hlaða stimplum utan á fólk. Þeir sem eru andvígir samkynhneygðum lifnaði eru “boðberar haturs og óréttlætis” og “illkvittnir og öfgafullir hommahaturumen", en þeir sem eru sömu skoðunar og hann sjálfur eru “heilbrigt fólk” Það er í raun dæmigert fyrir alla þá sem ráðast á krisna með þessum hætti að allir vilja þeir slá sig til riddara fyrir umburðalyndi sitt og góðmennsku.

09.02.06 @ 18:52
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Magnús. Slík stimplahleðsla eða merkimiðar er alkunnugt dæmi úr sálarfræðinni og nefnist speglun eða yfirfærsla: Þú sérð það í öðrum sem þú ert sjálfur. Þannig var Adolf H. af Gyðingaættum. Slíkt er annað hvort talið dæmi um djúpstæða sektarkennd eða sjálfshatur.

09.02.06 @ 21:28
Athugasemd from: Róbert Björnsson
Róbert Björnsson

Jæja, nú líst mér á það…búið að sálgreina mig og allt! :-)

Þetta er reyndar rétt hjá þér Jón, speglun/yfirfærsla er vel þekkt í sálfræðinni og má sem dæmi nefna að margir sem haldnir eru hvað verstu tilfellunum af homophobíu eru sjálfir hommar í mikilli afneitun. En nei, ég er ekki að saka ykkur um það.
Þið ættuð að kynna ykkur hvað American Psychiatric Association hefur að segja um homophobiu og í framhaldi af því hvað þeir telja heilbrigt og óheilbrigt í þeim efnum.

Varðandi djúpstæða sektarkennd og sjálfshatur, þá verð ég reyndar því miður að viðurkenna að einu sinni glímdi ég við slíkt. Það var hrikalega erfið lífsreynsla en sem betur fer læknaðist ég. Hvernig? Jú, ég kom út úr skápnum.

En að öðru, ég hef hvergi sagt að “kirkjan” ofsæki samkynhneigða eins og nasistar. Hafir þú skilið það á orðum mínum harma ég það mjög. Ég tel þvert á móti að bæði Hr. Karl Sigurbjörnsson og meira að segja sr. Geir Waage séu góðir menn og vilji engum illt. Jafnvel þó Þjóðkirkjan ákveði á næsta ári að hún muni ekki gefa saman samkynhneigða þá er það engan vegin ofsóknir að mínu mati.
Ég hef meira að segja heldur hvergi sagt að Kaþólska kirkjan, sem stofnun, ofsæki samkynhneigða, þó svo hún komist mun nær því heldur en hin íslenska þjóðkirkja.
Þeir sem ég hef nefnt “boðbera haturs og óréttlætis” og “illkvittna og öfgafulla hommahatara” eru þeir örfáu (sem betur fer) öfgasinnuðu einstaklingar, sem svífast einskis til að breiða út homophobíu.

Ég er að tala um menn eins og Jerry Fallwell, Pat Robertson og sérstaklega Fred Phelps yfirprest Westboro Baptist Church í Topeka, Kansas sem heldur úti vefsíðunni www.godhatesfags.com (!) Þessir menn hafa bókstaflega hvatt til ofbeldis og morða. Phelps segir alla homma eiga það skilið að deyja eins og Matthew Shepard.

Sjálfur hef ég búið í miðvesturríkjum Bandaríkjanna, meðal annars í Oklahoma fylki, sem eins og ykkur er sjálfsagt kunnugt er í miðju “Biblíubeltinu” svokallaða. Þar er það reglan, frekar en undantekning að hommar eru lagðir í einelti, útskúfaðir af sinni eigin kirkju og fjölskyldu og í mjög mörgum tilfellum lenda þeir í endurteknum barsmíðum. Sjálfur varð ég vitni af því að bíll kunningja míns var rústaður nokkrum dögum eftir að hann setti “regnboga-límmiða” á stuðarann.

Það er ÞETTA sem löggjöf í Kanada og Evrópusambandinu er að reyna að koma í veg fyrir. Herra Karl Sigurbjörnsson verður ekki settur í steininn fyrir að neita að gifta homma…en þeir sem breiða út hatursáróður og hvetja til ofbeldis (andlegs eða líkamlegs) og það í nafni kristinnar trúar (rétt eins og Ku Klux Klan) eiga að mínu mati skilið að rotna í fangelsi.

10.02.06 @ 00:34
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Kæri bróðir Róbert í Kristi,

Á svari þínu heyri ég að þú ert skynsamur maður. Ég vil einungis leggja þunga áherslu á það atriði, að kaþólska kirkjan heldur ekki upp hatursáróðri gegn samkynhneigðu fólki. Ef til vill er þessi hópur hvergi jafn fjölmennur en einmitt í kaþólsku kirkjunni sökum stærðar hennar. Ég vísa einungis í ummæli trúfræðslurits okkar:

“Þeir karlar og konur sem hafa djúpstæða samkynhneigð er ekki lítill hópur. Þessi tilhneiging, sem á hlutlægan hátt er röskun, er fyrir flest þeirra erfið raun. Þau ber að umgangast af virðingu, samúð og nærgætni. Sérhverja tilhneigingu til óréttmætrar mismununar gagnvart þeim ber að forðast. Þau eru kölluð til að uppfylla vilja Guðs í lífi sínu og, ef þau eru kristin, að sameina þá erfiðleika, sem skapast vegna ástands þeirra, fórn Drottins á krossinum.”

Svo mörg eru þau orð. Þetta er kaþólska trúfræðsluritið. Forvitnir geta skoðað greinar 2357 og 2359 sem fjalla líka um þessa hneigð. Þessa texta má finna á vefslóðinni: http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/2196.html#6

Ég er líka hjartanlega sammála þér hvað varðar svo kallaða fundamentalista í Bandaríkjunum. Þetta fólki á enga samleið með meginstraumum kristindómsins í heiminum. Sama má segja um þetta fólk eins og öfgamenn innan Íslam: Það er kirkjunni og samfélagi því sem það býr í til skammar.

Við megum aldrei missa sjónar af því að stærstur hluti múslima er afar heiðvirt og grandvart fólk. Þetta komst einn kunningja minna áþreifanlega að raun um í Teheran fyrir nokkrum árum. Hann glataði veski sínu með öllum pappírum og 1200$ úti á götu og bjóst aldrei við að sjá það aftur. Um kvöldið kom fátæklega klæddur átta ára gamall drengur í lobbíið á hótelinu og skilaði veskinu með öllu óhreyfðu í því. Þetta var greinilega blásnauður drengur og peningarnir því mikil auðæfi fyrir hann. Þannig er þessi drengur fjölmörgu kristnu fólki hreinasta fyrirmynd.

Bandarískur prestur sagði mér frá ungri konu sem hafði verið meþódisti en gerðist kaþólsk. Í skriftum greindi hún honum frá því að í æsku hafi hún búið við hlið baptistafjölskyldu og hún hefði aldrei mátt leika við börnin vegna þess að samkvæmt kenningunni átti öll þessi baptistafjölskylda að fara til helvítis. Slík andleg sár tekur langan tíma að græða.

En þegar svo langt er gengið á hinn veginn af öflum fjandsamlegum kristindóminum, að dæma á heilaga Ritningu sem hatursáróður hljóta kristnir menn að rísa upp til varnar um allan heim. Og í reynd eru þeir stór hópur þegar til alvörunnar kemur.

Það er þetta sem ég átti við. Öfgar á báða bóga eru því varhugaverðir. Og hvað varðar „samvistir“ hómósexualista mun hvorki kaþólska kirkjan né Rétttrúnaðarkirkjan samþykkja slíkt vegna þess að hjá þeim er hjónaband karls og konu eitt sakramentanna sjö.

Guð blessi þig.

10.02.06 @ 09:06
Athugasemd from: Róbert Björnsson
Róbert Björnsson

Kæri Jón,

Ég fagna því að við virðumst sammála um “fundamentalista", hvort sem þeir eru Bandarískir, Arabískir eða Íslenskir.
Ég efast heldur ekki um að megin þorri múslíma er heiðvirt og gott fólk og það sama á við um kristna, hvort sem það eru Kaþólikkar eða aðrir. Vandamálið er bara þessir fáu öfgamenn sem koma óorði á alla hina. Það eru þeir sem skortir umburðarlyndi og nærgætni við tilfinningar þeirra sem hafa aðra lífssýn en þeir sjálfir.

Það eru vissulega heldur ekki eingöngu þeir “strangtrúuðu” sem geta sýnt af sér ónærgætni og fljótfærnislegar fordæmingar. Í þeirri miklu umræðu sem verið hefur í gangi í þjóðfélaginu að undanförnu varðandi réttindi samkynhneigðra hafa báðir aðilar gerst sekir um að láta orð falla í hita leiksins sem betur hefðu verið látin ósögð. Sjálfur hef ég e.t.v. ekki gætt orða minna nógu vel og er það miður. Vissulega ber manni að reyna að sýna stillingu þrátt fyrir að hlusta á særandi og óþolandi málsflutning í fjölmiðlum. En þrátt fyrir “ruslahauga-ræðu” biskups þótti mér óþarfi og frekar leiðinlegt að heyra suma í “mínum röðum” gera gagnárás á biskup með óþarfa orðbragði.
Ég er því sammála þér í því að öfgar á báða bóga eru varhugaverðir, og ég reyni að halda aftur af mér þrátt fyrir að ég láti stundum frekar stór orð falla. Kannski nærvera mín við fundamentalistana í Ameríku hafi gert mig örlítið óþolnari gagnvart hvers kyns niðrandi ummælum “kristinna” manna heldur en gengur og gerist með íslendinga.

Varðandi hjónabandið og kaþólsku kirkjuna, þá veit ég ekki til þess að á íslandi hafi verið sett pressa á ykkur til þess að brjóta gegn sakramentunum sjö. Varðandi Þjóðkirkjuna, þá er það nú reyndar svo eins og oft hefur komið fram að undanförnu að hjónabandið er ekki sakramenti samkvæmt Lútherskum sið. Þrátt fyrir það, vil ég meina að meint “pressa” á Þjóðkirkjuna til þess að gefa saman samkynhneigða sé stórlega ýkt. Lagafrumvarpið sem liggur fyrir Alþingi er alls ekki fyrirskipun til kirkjunnar, einungis heimild til þess að gera það sem hún vill. Það mikilvægasta í þessu er hins vegar það að hvorki Þjóðkirkjan, né sú Kaþólska, né nokkur önnur kirkja á að eiga rétt til þess að koma í veg fyrir að Fríkirkjan og önnur trúfélög sem vilja gefa saman samkynhneigða geti gert það sem þau vilja. Þjóðkirkjan ætti fremur að una vel við það enda myndi hún þá væntanlega losna við alla vandræðahommana úr sínum kirkjum.

Að lokum eitt varðandi ummæli trúfræðslurits kaþólskra. Það er vissulega góðra gjalda vert að páfinn vilji sýna okkur nærgætni og virðingu og koma í veg fyrir óréttmæta mismunun.
En jafnframt felast í þessum orðum lítilsvirðing og niðurlæging. Því er haldið fram að samkynhneigð sé “röskun” eða sjúkdómur og að okkur skuli vera sýnd “samúð” vegna “ástands” okkar. Finnst þér í alvöru talað ekki að í þessu felist homophobia? Ég vona allavega að þú skiljir af hverju fólki sárnar svona framsetning. Samúðarkveðjur og fyrirbænir um lækningu eru vinsamlegast afþakkaðar.

Guð veri með þér og þínum.

10.02.06 @ 17:50
Athugasemd from: Aðalbjörn Leifsson
Aðalbjörn Leifsson

Já klámvæðingin er ógeðsleg, en kristin kirkja á enga samleið með Islam, Allah eða Múhameð. En við eigum að virða múslimana, samkynhneigða og klámdýrkendurna, ekki eiga samleið með þeim heldur vísa þeim veginn sem er Jesús Kristur. Jóh 14:6. Þessi tvö menningarsvæði Kanada og Evrópubandalagið sem skilgreina Heilaga Ritningu eða ákveðinn boðskap hennar sem kynvilluandúð(hómófobíu) og hatursáróður, er þetta ekki andkristins andi sem um er talað í 1. Jóh 4:3 ? Og hver sem talar gegn Ritningunni haldinn Bileams anda? En hver sá sem er kristinn hann elskar bræður sína og systur hvernig svo sem þau eru. Ritningin segir: Virðið alla menn. 1.Pét 2:17. Guð blessi ykkur í Jesú nafni Amen.

10.02.06 @ 19:13
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Kæri bróðir í Kristi,

Ég sé að það var klaufalegt af minni hálfu að nota orðið „fundamentalisti“ vegna þess að það veldur misskilningi. Ég hefði einfaldlega átt að grípa til orðanna „kristnir öfgamenn,“ rétt eins og ég tala um öfgamenn Íslam. Mér hefur skilist að þetta fólk hafi gripið til skotvopna í Bandaríkjunum og jafnvel sprengjunnar, það er að segja sprengt heislugæslumiðstöðvar í loft upp. Þetta hefur það gert í baráttu sinni við fóstureyðingar.

Þetta stríðir gegn kærleiksboðskap Krists. Í garðinum sagði hann: „Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla“ (Mt 26. 52). Hann víkur einnig að sverði á öðrum stað í silfurtærri lind orðsins: „Ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörðu. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð“ (Mt 10. 34). Hér á hann við stríð kærleikans og elskunnar gagnvart óvini alls lífs sem blæs hatri og mannvonsku í brjóst fylgisveina sinna. Mér er ekki kunnugt um að kristnir öfgamenn séu fyrirfinnanlegir á Íslandi, fólk sem grípur til að mynda til líkamlegs ofbeldis gagnvart samkynhneigðum eða hefur gert skotárásir á starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar.

Stundum hefur minn góði bróðir í Kristi, Gunnar Þorsteinsson í Krossinum, verið gerður að persónugervingi slíks fólks. Það er fjarri öllum sanni. Gunnar er góður drengur, ósérhlífinn baráttumaður fyrir kross Krists og afar bænheitur maður. Ég þakka Guði iðulega fyrir að gefa okkur slíka baráttumenn í styrjöldinni gegn framsókn guðsafneitunarinnar í landinu. Í reynd minnir Gunnar mig alltaf á Jóhannes skírarara, rödd hrópandans í eyðimörkinni, eða þá Móse þegar hann þrumaði yfir Aron í eyðimörkinni fyrir skuðrgoðadýrkun hans (gullkálfinn). Orð þau sem Gunnar hafði um hönd eftir innrás Bandaríkjamanna í Írak á Omega urðu mér einnig hugstæð: Þannig leysa kristnir menn ekki úr vandamálunum, hér skortir kærleikann í verki. Auk þess veit ég að Gunnar hefur reynst mörgu samkynhneigðu fólki afar vel.

Þegar Gunnar vék að innrás Bandaríkjanna endurtók hann sama sanneikann og birtist í stefnu Vatíkansins. Í reynd búa um 600.000 rómversk kaþólskir á stór-Bagdadsvæðinu og þar er kardínáli. Vatíkaninu bárust því áreiðanlegar fréttir af þeim hörmungum sem viðskiptabannið leiddi yfir íraskann almenning þegar þúsundir barna féllu í valinn í farsóttum sökum lyfjaskorts hvað eftir annað. Auk þess var utanríkisráðherrann rómversk kaþólskur og sat í Vatíkaninu ásamt Jóhannesi Páfa II, blessaðrar minningar, fram á síðustu stundu og reyndi að finna leið til sátta. Misskildu ekki orð mín, ég er ekki að bera blak af ógnarstjórn Saddams, en kristnir menn verða í lengstu lög að leita allra ráða, áður en tekið er við að sprengja blásaklaust fólk í loft upp, ég á við almenning í landinum.

Í reynd tel ég að þeir þarna í Washington DC hafi blindast af olíugræðginni, rétt eins og Þjóðverjar reyndu að brjótast í gegnum Krím til þessara sömu olíulinda í síðari heimstyrjöldinni. Sem betur fer misheppnaðist þeim það, annars er ekki gotta að vita hvernig farið hefði í þessum hildarleik. Sem sagt, ég tel að Bandaríkjamenn hafi ekki haft réttlætið að leiðarljósi í þessu máli, hvað þá virt kærleiksboðskap Krists.

Kæri bróðir. Þér finnst að kirkjan tali niður til samkynheigðs fólks í tilvísuninni. Hún víkur að samkynhneigðu fólki, rétt er það, en þannig talar kirkjan einnig við gagnkynhneigt fólk. Sannleikurinn er sá, að við erum öll „í klessu“ eftir erfðasyndina og þörfnumst átakanlega græðslu Drottins, gagnkynhneigðir sem samkynhneigðir. Ef fólk hafnar þessum sannleika, þá getur þú lesið um það í 6. kafla Jóhannesarguðspjalls hvernig Kristur brást við þegar Gyðingarnir snéru við honum baki: „Upp úr þessu hurfu margir af lærisveinunum hans frá og voru ekki framar með honum“ (Jh 6. 66). HANN KALLAÐI EKKI Á ÞÁ TIL BAKA.

Það skiptir mig engu máli hvað endurskoðunarguðfræði póstmódernismans, strákarnir og stelpurnar í guðfræðideild Háskóla Íslands og sumir prófessorana boða, fremur en fríkirkjuprestarnir málglöðu. Kristið fólk verður að hafa hugrekki til að horfast í augu við sjálft sig og játa syndir sínar, bæði gagnkynhneigðir og samkynhneigðir. Þetta er sá dýrmæti fjársjóður sem kaþólsku kirkjurnar hafa boðað í tvö þúsund ár, fjársjóður, sem þær eiga sameiginlegan með Hvítasunnuhreyfingunni um allan heim. Þetta kemur ekki á óvart vegna þess að þetta er sannleikur sem Heilagur Andi skráir á hjartaspjöld úr lifandi holdi.

Guð blessi þig, bróðir. Ég vona að ég særi þig hvorki eða meiði með þessum orðum.

11.02.06 @ 11:49
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Svar til Aðalbjarnar: Í upphafi litu kirkjufeðurnir, líkt og hl. Jóhannes frá Damaskus, á Íslam sem enn einn klofningshópinn út úr kristinni kirkju, líkt og aríanismann og nestoríanana. Íslam er samsuða kenninga frá Gyðingum og kirkjunni og þeir hafa nægilegt ljós frá þessum uppsprettum til að berjast gegn fóstureyðingum og klámvæðingunni. (umhugsunarvert hversu sjaldan eða aldrei þetta orð heyrist í nútíma fjölmiðlum).

Ég er hjartanlega sammála þér hvað varðar anda lyginnar. Þetta er andi fráfallsins mikla sem hl. Páll vék að í 2. Þessaloníkubréfinu, andi Antíkrists (sjá 2 Þ 2. 3-5). En asni Efnahagsbandalagsins sem gengur undir guðsafneitun þess (Bíleam) mun stöðvast þegar engill Drottins varnar honum að halda áfram göngu sinni.

Nú um stund er afar mikilvægt að allt kristið fólk sameinist í bænum sínum. Tími baráttunnar er framundan við andaverur vonskunnar í himingeimnum. Kíktu á bæn Leós páfa XIII, bróðir.

11.02.06 @ 14:46
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Kæri Róbert.

Mig langar að þakka þér síðustu tvö innlegg þín hingað á síðuna. Þau eru bæði málefnaleg og fróðleg. Ég fór að þínum ráðum og kynnti mér bæði síður Westboro Baptist Church sem og American Psychiatric Association. Ég verð að segja að þessi baptistasíða er hreint út sagt hræðileg! Ég hafði séð hana áður einu sinni en ekki nennt að skoða þessa dellu frekar. Núna ákvað ég að láta slag standa og leit inn - og hvílíkur hryllingur! Það er ótrúlegt að þessi baptistahópur skuli telja sig kristinn! Ég hefði fyrirfram talið að þessir dreifimiðar þeirra væru í síðasta lagi frá því í þrælastríðinu miðað við útlitið nema hvað dagsetningarnar og sú staðreynd að þeir eru á pdf formi sýna ótvírætt að þetta er að gerast í dag. Eitthvað í þessum dúr hlýtur að hafa myndað (og mynda) hugmyndafræðilegt bakland ofbeldishópa á borð við Klanið. Það er auðvelt að skilja að allir góðviljaðir menn fordæmi svona hatursáróður og reyni að stöðva þetta með einhverjum ráðum - það hefur víst verið reynt m.v. upplýsingar á síðunni en eftir áfrýjun sluppu þeir. Líklega vegna tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar. Þá vantar líklega eitthvað í líkingu við grein 233a í ísl. hegningarlögunum í sín hegningarlög þarna. Við vitum að fátt er BNA-mönnum heilagra en tjáningarfrelsið, og menn geta greinilega gengið býsna langt í nafni þess.

Varðandi orðið homophobia þá skilgreinir Merriam-Webster orðabókin það svona:

Main Entry: ho·mo·pho·bia
Pronunciation: “hO-m&-’fO-bE-&
Function: noun
: irrational fear of, aversion to, or discrimination against homosexuality or homosexuals

Íslenskun þess er líklega orðrétt “hommafælni". Aðrir kjósa að nota “hommahatur” eða “kynvilluandúð". Hvaða orð sem menn nú nota þá er skilgreining orðabókarinnar sú að hómófóbía sé það að sýna skhn. ástæðulausan ótta, að sýna skhn. andúð eða óbeit, eða mismunun. Sjá t.d. þýðingu nafnorðsins ‘aversion’ bls. 67 í ensk- ísl. orðabók Arnar og Örlygs frá 1991. Nafnorðið hefur þarna mun sterkari merkingu en lýsingarorðið ‘averse’ sem merkir frekar fráhverfur, frábitinn eða mótfallinn. Ég tek fram að ég hef engin próf utan bekkjarpróf menntaskólans í ensku svo gott væri að fá leiðréttingar ef þetta er misskilningur hjá mér.

Samkvæmt þessari skilgreiningu þykir mér nú frekar langsótt að telja að greinar 2357-2359 í kaþ. trúfræðsluritinu endurspegli eða feli í sér hómófóbíu, http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/2196.html#6 Ekkert er þarna sem gæti gefið til kynna að um sé að ræða ótta- eða óttaviðbrögð heldur er um að ræða rökstudda afstöðu grundvallaða á trúarvissu og hefð. Andúð eða óbeit er enn langsóttara miðað við samhengið og tekið er fram að mismunun beri að forðast, svo skv. orðabókarskilgreiningunni þá kem ég ekki auga á neitt sem bendir til að um h. sé að ræða. Orðið mismunun gæti þó í þessu tilfelli verið túlkunum háð og fólk utan kaþ. kirkjunnar talið að í þessu tilfelli væri um hana að ræða. Það mál er þó miklu flóknara en virðist við fyrstu sýn. Jón Rafn kom aðeins inn á það, og það lýtur að heimild fólks til að meðtaka sakramentin. Um það væri hægt að rita nokkuð langt mál með mörgum dæmum t.d. um endurgift fólk og stöðu þess innan k.k. sem og mismunandi afstöðu lúthersku og kaþ. kirkjunnar til heimilda fólks utan viðkomandi kirkjudeildar til að meðtaka sakramentin.

En hafandi séð baptistasíðuna þá skil ég vel að fólk sem hefur verið á þeim slóðum eða gengið í gegnum erfiðleika kynhneigðar sinnar vegna sé viðkvæmt fyrir allri umfjöllun um þann hóp sem það tilheyrir. Það er því viðeigandi að enda á feitletruðum orðum trúfræðsluritsins um skhn.:

„Þau [samkynhneigða] ber að umgangast af virðingu, samúð og nærgætni. Sérhverja tilhneigingu til óréttmætrar mismununar gagnvart þeim ber að forðast.“

Bestu kveðjur,
RGB.

11.02.06 @ 20:24
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég sé af skrifum þínum Róbert, að þú hefur greinilega reynslu af slíku mannhatri. Ég játa fúslega að ég hef einungis rætt slík mál við kaþólska presta í Norrðurríkjakirkjunni. Það var eins og ég greindi frá, einmitt kaþólskur skriftafaðir sem greindi mér frá sögunni af stúlkunni hér að framan. Hann sagði mér jafnframt að fólk sem hefði slíkt trúarlegt uppeldi að baki, þarfnaðist mikillar andlegrar græðslu sökum þess að það væri búið að skemma það svo mjög.

Það er hins vegar afar erfitt fyrir þau okkar sem hrærst höfum í evrópska menningarheiminum að skilja slíkan hugsanahátt. Ég hef aldrei heyrt um þessa baptistasíðu, en ætla að kíkja á hana á morgunn. Eins og Ragnar þakka ég þér fyrir málefnalegar umræður sem vonandi verða til þess að auka víðsýni okkar allra.

Hafðu þökk.

11.02.06 @ 22:34
Athugasemd from: Aðalbjörn Leifsson
Aðalbjörn Leifsson

Eg heilsa þér Jón Rafn í nafni Jesú, þakka þér fyrir skrif þín þau eru fín. Ó já Aríaísmi og Nestorismi er það sem Kristin kirkja kallar einu nafni villutrú. Það er aðeins einn Guð og hann þríeinn. Elsku Jón minn ég lít ekki á þig sem Katólskan mann heldur sem Kristinn mann heilagan upplýstan af Guði og fullan af heilögum anda. Þú þekkir Ritninguna vel í 1. Jóh.bréfi 1. kafla segir allt sem segja þarf um Islam og eins í öðrum kaflanum sama bréfi versum 1-2. Ég er að vinna með fólki úr þinni kirkjudeild Jón þeirri Katólsku, þetta er trúað fólk og svo einlægt í trú sinni og bænum. Þetta fólk breytti skoðun minni á Hinni Heilögu Almennu Kirkju deild þinni. Hallelúja Guð er góður. Drottinn minn blessaðu Jón Rafn og bræður og systur hans og Hirði þeirra í Jesú nafni Amen.

12.02.06 @ 08:10
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þakka þér hlýleg orð. Þetta eru þau orð sem hinir heilögu feður og mæður kusu að kalla kirkjuna (qahal, samfélag hinna aðskildu frá anda heimsins) á grísku Nýja testamentisins: ha hagia ekklesia kaþolike (hin heilaga og almenna kirkja). En varaðu þig á áhrifum veraldarhyggjunnar. Einn sannur Guð í Þrennum greinum, eins og bróðir Eystinn kemst að orði í Lilju. Þrenningin (alltaf með stórum staf, ta hagia Triades) í þremur lifandi Persónum sem bera sérnöfn rétt eins og lifandi fólk: Faðir, Sonur og Heilagur Andi, einn Guð (alltaf með stórum staf). Þannig segir hl. Elísabet af Þrenningunni í frægri bæn: moi Troia (mínir Þrír). Þannig skrifa þeir Guð alltaf sem guð í textanum á sjónvarpsskjánum! Þetta eigum við ekki að láta hafa áhrif á okkur í skrifum okkar. Eins verðum við alltaf að gæta að því að setja stóran staf í allar Biblíutilvitnanir. Agree?
Pace Tecum

12.02.06 @ 08:46
Athugasemd from: Aðalbjörn Leifsson
Aðalbjörn Leifsson

Amen.

12.02.06 @ 09:08
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég vil sérstaklega þakka Jóni Rafni góð orð og verðskulduð sem hann lét falla hér í garð Gunnars bróður okkar Þorsteinssonar í Krossinum. Gunnar er sannur vitnisberi þess fagnaðarerindis sem hann sér sig kallaðan til að flytja, skýrari vottur og trúrri en margir sem tala í nafni kristindómsins á þessum síðustu dögum, sívaxandi maður í anda og krafti. Þetta segi ég ekki sízt í tengslum við það málefni, sem hér var mikið til umræðu, varðandi samkynhneigð og þann lífshátt. Í þætti sínum á Omega í dag ræddi Gunnar það mál af miklu upplýstari huga en flestir aðrir í þessu þjóðfélagi, ræddi málið af raunsæi og festu, engin undanbrögð, engin dómharka heldur, bara sú virðing að gefa sig að þessu máli af sannleiksleitandi, einlægum huga með erindi Guðs sjálfs, skapara okkar, þótt heimshyggjan öll andæfi og bölsótist út í okkur kristna menn. En heimshyggjan er í þessu máli á valdi fordóma sinna varðandi samkynhneigð, eðli hennar, útbreiðslu og einkenni. Því meira sem ég hef kynnt mér hina færustu sérfræðinga um þau mál, verður mér þetta æ betur ljóst; – og sá Gunnar, sem við sáum á skjánum í Omega í dag, er maður þekkingarinnar í þeim efnum, flestum Íslendingum fremur. Og af því að þátturinn verður örugglega eða vonandi endurtekinn, hvet ég alla lesendur þessara orða til að vera á vaktinni og reyna að ná þessum bráðnauðsynlega boðskap Gunnars í nefndum þætti.

12.02.06 @ 15:57
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Já, sammála þér bróðir. Gunnar er einn af stólpunum í Tjaldbúð Drottins á jörðu og mun þaðan aldrei út ganga. Einungis að Guð gefi okkur fleiri slíka stólpa.

Eftir þetta mun ég aftur koma og endurreisa hina föllnu tjaldbúð Davíðs. Ég mun reisa hana úr rústum og gjöra hana upp aftur, svo að mennirnir, sem eftir eru, leiti Drottins, allir heiðingjarnir, sem nafn mitt hefur verið nefnt yfir, segir Drottinn, sem gjörir þetta kunnugt frá EILÍFU. (P 15. 16, 17).

12.02.06 @ 16:42