« Kristindómurinn hafnar fíkninni ákveðið og alfariðEr eitthvað athugavert við símauglýsinguna? »

16.09.07

  08:36:54, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1221 orð  
Flokkur: Lífsvernd

Lífið er ekki mannsins að gefa né taka

Á bloggsíðu Höllu Rutar hafa spunnist athyglisverðar umræður í kjölfar færslu sem hún ritaði 1.9. sl. um fósturdeyðingu. Það sem er þó einna athyglisverðast er að í dag 16. september þegar þetta er skrifað eru athugasemdirnar við færsluna orðnar 813. Slóðin á færsluna ásamt athugasemdum er hér: [Tengill]. Í athugasemdunum kennir margra grasa og þar hafa komið fram ýmis athyglisverð sjónarhorn sem vert er að skoða betur ef tími vinnst til. Þar heldur Jón Valur Jensson uppi málstað lífsvernarinnar og á hann hrós og heiður skilinn fyrir dugnað sinn og elju. Jón er rökfastur og tekur vanstillingu sumra málefnaandstæðinga sinna ávallt af ljúfmennsku og skilningi.

Meðal þeirra sem einnig styðja málstað lífsins eru Guðmundur Pálsson læknir, Ólafur Haukur Árnason tónlistarmaður og sagnfræðinemi og Magnús Ingi Sigmundsson tæknimaður og formaður Lífsverndar auk margra annarra eins og gefur að skilja. Ég lagði inn athugasemd í umræðuna í gær og kemur hún hér á eftir:

Lífið er ekki mannsins að gefa og því ber að vernda það allt sitt skeið og ekki hvika frá því markmiði hvorki við upphaf þess né við endinn þó það sé stundum gert undir merkjum hagræðingar eða hagkvæmni. Þetta geta hinir vantrúuðu kallað áskorun. Hinir trúuðu kjósa gjarnan að orða það svo að lífið sé heilagt.

Það hlýtur því að vera athugunarefni alls hugsandi og góðviljaðs fólks að stjórnmálaflokkarnir hafa einlita stefnu í þessum málum. Stjórnmálaflokkar sem buðu fram til alþingiskosninga árið 2007 voru spurðir eftirfarandi 5 spurninga:

1. Finnst ykkur að líf ófædds fósturs sé alltaf jafn heilagt og líf fæddra barna, þ.e að það megi ekki aflífa það með fóstureyðingu?

2. Finnst ykkur að líf ófædds fósturs eigi að vernda ef líf móður stafar ekki hætta af meðgöngu? (þ.e. þá að ekki eigi að leyfa að það sé aflífað með fóstureyðingu)

3. Finnst ykkur rangt að ófædd fóstur séu aflífuð með fóstureyðingu ef þau greinast með galla, svo sem Down syndrome?

4. Finnst ykkur rangt að ófædd fóstur séu aflífuð með fóstureyðingu ef móðirin gefur "félagslegar ástæður" fyrir vilja sínum til þess?

5. Ef svar við einhverjum spurningum hér að ofan er jákvætt: Eruð þið tilbúin til að reyna að fá breytingum framgengt í þessu efni? Svörin voru undantekningarlaust: 'Nei' hjá öllum flokkum nema Frjálslynda flokknum en þar eru svörin 'í vinnslu.' Sjá hér: [Tengill].

Því hefur verið haldið fram að fósturdeyðingar séu nauðsynlegar til að tryggja réttindi kvenna, en allt eins má halda því fram að þær, eða hlutfallslega mikill fjöldi þeirra séu einmitt staðfesting hins gagnstæða. Í rauninni ættu þær aðstæður sem knýja fólk til fósturdeyðingar aldrei að þurfa að koma upp í nútíma þjóðfélagi og það er mikið athugunarefni af hverju þær gera það. Það er varla rétt að segja að ákvörðunin sé val kvennanna því um hvað stendur valið þegar lítil er hjálpin? Spurningin um samfélagslega ábyrgð verður því býsna áleitin í þessu sambandi og svo er auðvitað hægt að hafa skiptar skoðanir á því um hvað sé lítil hjálp og hvað sé nægileg hjálp.

Stuðningsmenn frjáls vals virðast líta svo á að fósturdeyðing sé eins konar neyðarréttur - eins konar neyðarhemill eða brunastigi ef eldur skyldi koma upp og því megi ekki taka hann í burtu. En ef vel er að málum staðið eru eldsvoðar stöðvaðir áður en komið er í óefni og hraði er ekki aukinn þannig að til vandræða horfi. Það er verkefni stjórnmálamanna að leysa þessi verkefni en hér bendir því miður margt til þess að þeir séu að bregðast þeirri áskorun sem lífið færir þeim þarna og geri ekki annað en að vera sáttir við að byggja brunastiga á meðan aðgæsla í meðferð eldsins sem og aðrar forvarnir væri etv. skynsamlegri - en ég vil þó ekki dæma þá of hart heldur. Kannski eru þeir ekkert annað en spegilmynd af þjóðfélaginu og endurspegla þau viðhorf sem efst eru á baugi hverju sinni.

Vestanhafs er umræða um þessi málefni fjölbreyttari eins og gefur að skilja og þar eru m.a. starfræktir sjálfshjálparhópar kvenna sem hafa verið knúnar til að deyða fóstur. Læknanemi nokkur sagði við mig fyrir um 20 árum að hann teldi að flestar þær konur sem færu í fósturdeyðingu upplifðu meiriháttar krísu einhvern tíma á lífsleiðinni vegna þess. Hvað vitum við um það? Líklega heldur fátt. Mér er ekki kunnugt um að þetta hafi verið kannað sérstaklega. Það er margt svona sem þyrfti að skoða heildstætt. En kannski og vonandi er þessi umræða vísir þess að hið staðnaða viðhorf síðustu 30 ára til þessara mála sé að breytast.

Meðal þess sem fram hefur komið á bloggsíðunni er m.a. það viðhorf að kaþólska kirkjan á Íslandi hafi ekki beitt sér gegn fósturdeyðingum. Þetta er alrangt og nægir að fletta upp í trúfræðsluriti hennar þar sem stendur:

Fóstureyðing
2270. Mannlegt líf verður að virða og vernda með öllum ráðum frá því andartaki að getnaður á sér stað. Það ber að viðurkenna að mannsbarninu ber réttur einstaklings frá fyrsta andartaki tilveru þess - þar á meðal órjúfanlegur réttur hverrar saklausrar mannveru til lífs. "Áður en ég myndaði þig í móðurlífi, útvaldi ég þig, og áður en þú komst af móðurkviði, helgaði ég þig." "Beinin í mér voru þér eigi hulin þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar."
2271. Alveg frá fyrstu öld hefur kirkjan lýst því yfir að allar fóstureyðingar væru siðferðisbrot. Þessi kenning hefur ekkert breyst og er hún eftir sem áður óbreytanleg. Bein fóstureyðing, það er að segja fóstureyðing sem annaðhvort er markmið aðgerðar eða leið að því, brýtur með alvarlegum hætti gegn siðalögmálinu: Nýtt líf skalt þú ekki drepa með fóstureyðingu og ekki skaltu stuðla að því að nýfæddu barni sé eytt. Guð, Drottinn lífsins, hefur falið mönnunum það göfuga hlutverk að vernda líf og mennirnir verða að inna það af hendi eins og þeim sæmir. Líf verður að vernda af fremsta megni frá því andartaki að getnaður á sér stað: Fóstureyðing og barnsmorð eru viðurstyggilegir glæpir.

Sjá nánar hér: [Tengill]

No feedback yet