« Tíbet og sjálfsstjórnarvæðin - kort á íslenskuINNGANGUR – að Prestkonungum Adamskynslóðarinnar »

29.03.08

  07:43:07, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1752 orð  
Flokkur: Kynþáttahyggjan og átök þjóða, Tíbet: Ákall frelsisunnandi þjóðar

Lifi frjálst Tíbet!!!

Enn í dag minnumst við hins frækilega hlaups Feidippídesar frá vígvellinum á Maraþonsléttunni á Attíkuskaganum í Grikklandi til Aþenu eftir orustuna við Persa (490 f. Kr). Fróðir menn segja að fjarlægðin sé 42, 2 kílómetrar. Hann flutti Aþeningum sigurtíðindin um að Grikkir hefðu sigrað her Kýrusar Persakeisara og hné síðan andvana niður. Maraþonhlaup var ein þeirra greina sem tekin var upp þegar Olympíuleikarnir voru endurreistir 1896 til minningar um þennan atburð.

Persum sveið ósigurinn mjög gegn þessari örverpisþjóð og því snéri Xerxes Peraskeisari til baka með her sem skipaður var meira en 100.000 vígamönnum auk mikils flota. Grikkir brugðust þannig við að mynda Hellenska bandalagið og í því bundust höfuðandstæðingarnir, Aþena og Sparta, fastmælum um að sigra her Persa. Faðir sagnfræðinnnar, Heródótus, greinir okkur frá því að fyrir herförina á hendur Grikkjum hafi Xerxes viljað kynnast hugarfari væntanlegra andstæðinga sinna. Honum var meðal annars greint frá Olympýuleikunum sem Grikkir héldu á fjögurra ára fresti og voru í reynd grundvöllur gríska tímatalsins. Þá vildi hann vita hver sigurlaunin væru. Þegar keisarinn heyrði að það væru hvorki gull né dýrir steinar heldur lárviðrasveigur varð honum ljóst, að hér væri við frelsisunnandi hugsjónamenn að ræða og að asnar hlaðnir gulli kæmu til lítils: Að slík þjóð létu ekki múta sér með glóandi gulli þegar frelsið lægi að veði.

Fræg er einnig vörn Spartverjanna 240 sem vörðu Þermópílæskarðið til síðasta manns árið eftir. Eftir fall þeirra stóð persneska fótgönguliðinu leiðin opin og meðal annars tók það Aþenu sem Persar rupluðu og rændu. Grikkir hörfuðu hins vegar yfir á Pelóponnesusskagan. Grikkjunum vegnaði hins vegar betur á sjó. Bæði var að galeiðuþríræður þeirra létu mun betur að stjórn en þung og svifasein skip Persa og þeir voru auk þess þaulreyndir sæfarendur. Þetta notfærðu þeir sér til hins ítrasta og leiddu flota Xerxesar í gildru í þungum hafstraumum Salamissundsins og tortímdu honum. Xerxes hörfaði í skyndi til Asíu og árið eftir galt persneski herinn afhroð í orustunnni við Plataæ. Frá og með þessari stundu ógnaði Persaveldi Grikkjum aldrei framar.

Öll er þessi saga samofin sögu Olympíuleikanna og hefur verið frelsisunnandi þjóðum sem heróp í aldanna rás um að láta ekki deigan síga gegn ofurefli valdaníðinga og landbrotsmanna. Ógnarstjórn sósíalfasistanna í Beijing í Kína telst til þessa hóps. Ég var aðeins fimm ára gamall þegar kínverski herinn „frelsaði“ Tíbeta (væntanlega frá sjálfum sér) þannig að það fór eðlilega fram hjá mér. Ég var hins vegar kominn nægilega til vits og ára árið 1959 þegar Dalaí Lama ásamt tugum þúsunda Tíbeta hrökkluðust úr landi undan harðstjórn Rauðahersins um fjallaskörð Himalajafjallanna í vályndum vetrarveðrum sem urðu mörgum þeirra að aldurtila. Frá og með þessari stundu varð ég Tíbetvinur sem ég hef verið síðan.

Ég tók til að kynna mér sögu þessarar framandi þjóðar með bókalestri og löngu síðar þegar ég lauk prófi í kortagerð var Tíbet eitt af þemaverkefnum mínum. Þrátt fyrir að enskukunnáttan væri ekki upp á marga fiska á þessum árum auðnaðist mér einhvern veginn að stauta mig fram úr bókunum sem ég fékk yfirleitt hjá Magnúsi heitnum Torfa í Mál og Menningu. Eitt þessara rita hét „Tibet’s Great Yoga Milarepa,“ en hann var eins konar hl. Frans frá Assisí þeirra Tíbeta: Þjóðardýrlingur. Löngu síðar var athygli mín vakin á því að kristnir trúboðar frá Tómasarkirkjunni á Góaströnd Indlands hefðu brotist upp til Tíbets á 6. öld og verið vel tekið. Annað atvik sem gerðist þremur árum áður en Dalaí Lama var hrakinn úr landi var Ungverjalandsuppreisnin 1956. En er nafn Imre Nagys líkt og greypt í minni mitt. Í Búda-Pest voru ungverskir frelsisunnendur brotnir á bak aftur undir skriðbeltum rússneskra skriðdreka og drekkt í eigin blóði. Þetta varð ógnarstjórninni í Beijing að fyrirmynd þegar þeir létu bryndreka sósíalfasismans merja ungmenni af eigin þjóð til dauða á Torgi hins himneska friðar. Enginn veit í rauninni hvað fórnardýrin voru mörg, en það sem vegur þyngst er hugarfarið sem býr hér að baki: Harðstjórn sem stendur svo mikil ógn af tjáningarfrelsinu að hún leggur allt í sölurnar til að kæfa það í fæðingu.

Stundum heyrum við suma segja kommúnísku ógnarstjórninni til afsökunar að hún hafi „komið“ á jákvæðri efnahagsþróun sem bætt hafi hag kínversku þjóðarinnar. Ég myndi fremur orða þetta sem svo, að þrátt fyrir þessa ógnarstjórn kommúnista hafi þessi þróun hafist. Spyrja mætti einnig: Hvar væri Kína statt í dag ef Kínverjar hefðu notið frelsis líkt og nágrannar þeirra á Taívan og í Suðurkóreu? Spyrji hver sjálfan sig.

Í ár eru 49 ár liðin frá því að kínverska ógnarstjórnin herti tök sín á Tíbetum og í ár verða Olympíuleikarnir haldnir í Beijing sósíalistafasistunum til heiðurs. Eðlilegt er að Tíbetar noti þetta tilefni til að minna umheiminn á þá staðreynd að þeir eru undir járnhæl ógnarstjórnar sósíalfasismans í Beijing. Þessi barátta þeirra hefur þegar borið árangur á alþjóðavettvangi: Vinir Tíbets víða um heim hafa vaknað sem af þyrnirósarsvefni þeim til stuðnings, einnig hér á Íslandi. Þar hafa farið fremst í flokki þau Birgitta Jónsdóttir listakona og okkar Frater dilectissime Jón Valur Jensson guðfræðingur. Þannig hefur Jón Valur skrifað fjölmörgar greinar á Moggablogg sitt með skilmerkilegum hætti og m. a. flett ofan af sögufölsun kínversku sósíalfasistanna hvað áhrærir sögu Tíbeta sem sjálfstæðrar þjóðar. Hafi þau Guðs þakkir fyrir framtak sitt málsstað Tíbeta til stuðnings. Ég hvet fólk eindregið til að lesa þær!

Þótt ég sé ekki sammála Jóni Baldvini Hannibalssyni í ýmsum efnum á hann þakkir skilið fyrir einarðan málflutning sinn árum saman til stuðnings Eystrasaltsþjóðunum í frelsisbaráttu þeirra. Hann er lýsandi dæmi um það að þunnskipuð sveit – já, jafnvel einn maður – getur velt grettistaki.

Minnumst þess að Spartverjarnir í Þermópílæskarðinu sem heftu framför persneska hersins forðum voru einungis 240 en fordæmi það sem þeir gáfu með hetjudauða sínum blés Grikkjum slíkan eldmóð í brjóst að þeir lögðu ofureflið að velli. Minnumst þess jafnframt að það eru ekki einungis Tíbetar einir sem sæta kúgun harðstjórnar sósíalfasistanna í Beijing. Milljónir kristinna manna – einkum kaþólskir og hvítasunnumenn – hafa sætt harðræði sem jafnast á við píslarvotta frumkirkjunnar forðum. Þessu er best lýst með orðum eins kínversku hvítasunnumannanna, en nú hafa þeir hafið trúboð í Arabalöndum Íslam: „Við höfum ekkert að óttast. Hér heima höfum við verið drepnir, fangelsaðir og pyntaðir áratugum saman. Þetta getur ekki orðið verra í þessum löndum en hér heima. Og svo er Guðs Heilagur Andi með okkur.“

Nú hefur Sarkozy Frakklandsforseti lýst því yfir að hann ætli ekki að sækja opnunarathöfn Olympíuleikanna í Beijing á komandi sumri ef kínversk stjórnvöld ætla að grípa til ritskoðunar á sjónvarpsútsendingunum. Sama hefur yfirmaður franska ríksissjónvarpsins gert og gengið enn lengra: Við munum einfaldlega ekki sýna neitt frá Olympíuleikjunum í Beijing ef sú verður raunin. Jafnvel lobbýliðið í Brüssel virðist vera að vakna af svefni og er þá lang til jafnað.

Enn að nýju stendur Davíð (Tíbet) frammi fyrir Golíat (Kína) sem forðum. En ef steinvala frelsisins hittir risann á réttum stað liggur hann óvígur að leikslokum: Steinvalan er tjáningarfrelsið. Biðjum fyrir Tíbezku þjóðinni og öllum þeim sem ofsóttir eru undir járnhæl ægivalds sósíalfasistanna í Beijing! Minnumst þess einnig að hlaupararnir sem fara með olympýukyndilinn um Tíbet hlaupa til að minnast hlaups Feidippídesar forðum og loginn er tákn frelsisins, þess frelsis sem að lokum svíður hlekki harðstjóranna í sundur.

Þetta ljós sem logar á kyndlinum skírskotar ekki einungis til hins jarðneska frelsis: Það skírskotar til hins eilífa ljóss: Ljóss Krists! Kjarni lamaisma Tíbeta er að sjá þetta eilífa ljós í hreinleika hugskotsins, rétt eins og þetta er kjarni kristindómsins: „Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá [í ljósi Krists] (Mt 5. 8). Það er þetta ljós sem valdaníðingarnir í Beijing óttast svo mjög vegna þess að það boðar frelsi og elsku meðal mannanna barna á jörðinni og í tærleika þess og flekkleysi hverfur lífslygi heimskommúnismans í sannleika þeim sem það boðar. Því var það til Vatíkansins í Róm sem Dalaí Lama beindi för sinni í fyrstu ferð sinni til Vesturlanda forðum. Lifi frjálst Tíbet!!!

PS: Viðbót! Í Fréttablaðinu í dag les ég að krumla valdníðinganna teygir sig nú til Íslands. Eftir stuðningsyfirlýsingu Bjarkar við frelsi Tíbeta fá íslenskar hljómsveitir ekki lengur að heimsækja þessa dýrðarparadís Marxismans. Líklegast mun ég sjálfur heldur ekki lengur fá vegabréfsáritun til Kína því að árvökul eru augun á Víðimelnum. Ekki svo að ég sækist eftir því vegna þess að ég fékk mig fullsaddan eftir heimsókn til Prag á sínum tíma eftir að vorbylting Tékka var brotin á bak aftur 1967 með hefðbundnum aðferðum sósíalfasismans: Ofbeldi og kúgun. „Lítlilla sanda, lítilla sæva, lítið er geð guma.“

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kröftug er þessi grein þín, Jón bróðir minn í andanum, og heilar þakkir áttu skildar fyrir lifandi lýsingar og talandi stuðning þinn við Tíbetþjóð. Inngangurinn þar á undan, með fræðandi frásögn úr Hellas hinu forna, gleður fróðleiksfúst hjarta og þá sem leita skilnings á örlögum þjóða. – Meira myndi ég skrifa, væri ekki orðið svona framorðið, en ég bið þér heilla og blessunar, sem og fjallaþjóð Tíbets, sem þú líkir svo glögglega, vonandi einnig spámannlega, við Davíð í baráttu hans við Golíat. – Lifi frelsi þess smáa og réttlætið!

03.04.08 @ 01:51
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

„Lítlilla sanda, lítilla sæva, lítið er geð guma.“ Ég las viðtal við stúlku í Fréttablaðinu í s. l. viku. Hún sagði að hljómsveit hennar „fengi“ að fara til Kína ef hún gæfi kínverskum stjórnvöldum færi á að lesa textana yfir og lagfæra til samræmis við afstöðu stjórnvalda. Þetta fannst stúlkunni meira en í lagi vegna þess að stjórnmál skipti hana engu máli, heldur söngurinn!!!

Lifi Björk! Lifi frjálst Tíbet!

05.04.08 @ 09:31