« Vændi á Íslandi? Nei takk!Til hamingju með daginn, 1. maí – Verkalýðsbarátta og frjálst flæði vinnuafls »

02.05.06

  16:24:30, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 659 orð  
Flokkur: About our website. Kirkju.net

Hin ótrúlega auðlegð greinarskrifa Jóns Rafns

Mestu og dapurlegustu tíðindin í ritunarsögu Kirkjunetsins á þessu vori eru án alls efa þau, sem lesendur urðu áskynja um við lestur á grein Jóns Rafns Jóhannssonar: Kveðjuorð – en óvenjulítil virkni í skrifum hefur ríkt hér síðan þá. Það eru greinileg umskipti frá því sem var.

Þegar menn fara inn á greinayfirlit Jóns Rafns á Kirkjunetinu, verður þeim kannski fyrst fullljós sú ótrúlega auðlegð sem hann hefur látið hér eftir sig. Á því yfirliti – sem er um leið handhægur lykill að öllum skrifum hans hér – er að finna hvorki fleiri né færri en 149 greinar frá því að hann byrjaði þann 23. janúar á þessu ári 2006 (með grein, sem bar hið táknræna nafn: Hin heilaga arfleifð). 149 greinar á 95 dögum, þótt helgarnar séu taldar með!

Svo að dæmi sé tekið til samanburðar, hef ég, sem þetta rita og hófst hér handa þann 31. júlí 2005, ekki skilað af mér nema 27 greinum, eins og sést af greinayfirliti mínu. Á nær þrefalt skemmri tíma hefur hann þá skilað af sér nær sexfalt fleiri greinum!

Segja má, að svo ört hafi greinar Jóns Rafns borizt inn á vefsetrið, að á stundum hafi maður vegna dagsins anna ekki komizt yfir að lesa þær allar í kjölinn sem vert væri. Sjálfur hef ég þekkt Jón Rafn frá því um það leyti sem ég var tekinn upp í kaþólsku kirkjuna (1983). Því var mér fullljóst, að þekking hans á málefnum trúarinnar var mikil – ekki sízt á hinni heilögu arfleifð frá kirkjufeðrunum grísku, auk annarra trúrra votta, þ.á m. heilagra manna Rússlands. Jón Rafn þýddi fyrir mörgum árum rit eftir franskan guðfræðing um Heilaga Þrenningu, og kom það út á vegum kaþólsku kirkjunnar. Oft hef ég verið á spjalli með nafna mínum eftir messu og ausið af þekkingarbrunni hans. Mér var einnig kunnugt, að hann hafði um langt skeið unnið sem kortagerðarmaður á dagblöðum, en frétti nokkuð seint af störfum hans að blaðamennsku á Süddeutsche Zeitung. Þrátt fyrir þessa vitneskju varð ég jafn-undrandi og margir aðrir, þegar Jón Rafn hófst handa hér á Kirkjunetinu – með þvílíkum afköstum sem raun ber vitni. Fyrir utan greinar hans, nærfellt hálf annað hundrað, hefur hann verið afar virkur í athugasemdum við greinar okkar hinna, lagt þar margt ómetanlegt til málanna, og er honum hér með þakkað það.

Jón mun ekki hætta ritstörfum, þrátt fyrir að hann hverfi nú af þessum vettvangi. Hann hefur um árabil unnið að þýðingu á Ljóði andans (Cantico espiritual), einu höfuðriti spænskra og evrópskra trúarbókmennta (nánar tiltekið mystísku arfleifðarinnar), eftir heil. Jóhannes frá Krossi (1542–1591, sem lýstur var helgur maður 1726), sbr. kynningargrein Jóns um það ritverk hans hér á Kirkjunetinu, ásamt fyrstu viðbrögðum lesenda. Texti Jóns er afar ljóðrænn og fagur, og er einsætt, að verk þetta þarf nauðsynlega að komast á prent, þar sem það yrði einhver veigamesta viðbót við fremur fáskrúðugt úrval kristinna hugleiðslu- og helgunar-bókmennta á okkar tungu, en til þeirra má einna helzt telja Breytni eftir Kristi eftir Tómas à Kempis og Passíusálma séra Hallgríms Péturssonar, fyrir utan ýmsa Biblíutexta, svo sem Ljóðaljóðin og Síraksbók í Gamla testamentinu og enn frekar Jóhannesarguðspjall og Jóhannesarbréfin í Nýja testamentinu.

Ég vil aftur færa Jóni Rafni hugheilar þakkir fyrir samfélag okkar og samstarf hér á Kirkjunetinu. Lesendur get ég fullvissað um, að vefsíður hans verða hér áfram, og hvet ég þá til að hagnýta sér það til hins ýtrasta.

Vale, frater carissime. Pax Domini tecum.

1 athugasemd

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Síðan í febrúar 2005 er ég búinn að skila inn líklega 77 greinum. Hann hefur því afkastað meira en við báðir til samans og gott betur þennan stutta tíma sem hann skrifaði! Það er kannski táknrænt fyrir þessi afköst að daginn sem hann hætti mældist mesti fjöldi innlita á vefsetrið á einum sólarhring frá upphafi, alls 817 ef vísanir og innlit frá leitum eru talin með.

Þessi mikli áhugi var án efa verðskuldaður því við fengum auk alls þessa sem þú nefnir líka að njóta líflegs stíls, lásum frásagnir af Marínó kennara, ‘kerlingum á honum Siglufirði’ og strákum sem stýrðu fragtara upp í ölduna svo að kokkurinn brást reiður við.

Skelegg málsvörn hans fyrir hina ófæddu er líka eftirtektarverð og hefur án efa vakið marga til umhugsunar um lífsverndarmál.

Ég endurtek það sem ég hef látið koma fram áður á þessum vettvangi að ég bið og vona að heilsa hans og kraftar styrkist svo honum auðnist ekki bara að ljúka þeim verkefnum öðrum sem hann hefur ætlað sér heldur líka að hann geti kannski síðar fært efni inn á kirkju.net.

02.05.06 @ 20:43
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software