« Nú vill 41 Þjóðkirkjuprestur bylta kristinni kenningu með því að gifta kynhverfa!Spaugstofumenn þurfa – og fá – gagnrýni »

15.04.07

Landsfundur Sjálfstæðismanna leggur á ráðin um grófa ríkisíhlutun í innri málefni kirkjunnar

Sú frétt var að berast af landsfundi stærsta stjórnmálaflokksins, að þar hafi verið samþykkt sú ályktun, að "forstöðumönnum trúfélaga skuli gert heimilt að staðfesta samvist samkynhneigðra." Hér er hlutazt til um kenningarleg málefni kirkjunnar, reynt að veita prestum veraldlega "heimild" til að gera það, sem Heilög Ritning fyrirbýður öllum kristnum mönnum að ljá máls á. Með þessu, ef hrint verður í framkvæmd á Alþingi, rýfur ríkisvaldið grið á kirkjunni, ryðst inn á hið andlega svið með kröfur veraldarhyggjunnar, leggur þrýsting á kirkjur landsins og gefur í skyn, að "forstöðumenn trúfélaga" hafi vald til að gera eitthvað, sem þau sem trúarsamfélög hafa aldrei samþykkt að taka í mál og ekki samrýmist grundvelli kristinnar trúar.

Þetta var vanhugsuð ályktun landsfundar; afleiðingar hennar geta m.a. orðið óhlýðni og klofningur innan Þjóðkirkjunnar, ef róttækir prestar taka þetta sem grænt ljós á að ganga í berhögg við samþykktir kirkjunnar sjálfrar um þessi mál. Bresti varnir Þjóðkirkjunnar og hleypi hún inn þeirri villu, að prestar hennar geti "staðfest samvist" samkynhneigðra, sem aldrei hefur verið og má aldrei verða meðal verkefna kirkjunnar, þá gæti önnur afleiðing auðveldlega orðið sú, að þau trúfélög, sem gegn þessu standa, verði höfð að skotspæni háðs og spotts, úthrópuð sem fordómafull, jafnvel beitt frekari þvingunum og harðræði. Dæmi þess hafa nú þegar komið upp, m.a. í Kanada og á Ítalíu.

Frá upphafi kristins siðar hafa samfarir fólks af sama kyni ævinlega verið álitnar meðal stærri synda og því forboðnar, enda var skýrt bann Gamla testamentisins við slíku ítrekað í bréfum Páls postula, útvalins sendiboða Krists [1]. Kenning Jesú bendir í sömu átt, því að hann staðfestir sögulegt sanngildi atburðanna í Sódómu, sem og réttmæti dómsins yfir henni [2], og yfirhöfuð gildi Gamla testamentisins, þ.m.t. lögmálsins, [3] og setur þar að auki fram skýr fyrirmæli um, að hjónabandið sé ætlað einum manni og einni konu [4], ekki fólki af sama kyni.

Það er vert að halda hér til haga nokkrum helztu ritningartextum, sem sýna þetta bann eða augljósa siðferðislega andstöðu við samkynja mök:

1) I. Mós. 19.1–14: Englarnir tveir komu um kveldið til Sódómu. Sat Lot í borgarhliði. Og er hann sá þá, stóð hann upp í móti þeim og hneigði ásjónu sína til jarðar. Því næst mælti hann: Heyrið, herrar mínir, sýnið lítillæti og komið inn í hús þjóns ykkar, og verið hér í nótt og þvoið fætur ykkar. Getið þið þá risið árla á morgun og farið leiðar ykkar. En þeir sögðu: Nei, við ætlum að hafast við á strætinu í nótt. Þá lagði hann mikið að þeim, uns þeir fóru inn til hans og gengu inn í hús hans. Og hann bjó þeim máltíð og bakaði ósýrt brauð, og þeir neyttu. En áður en þeir gengu til hvíldar, slógu borgarmenn, mennirnir í Sódómu, hring um húsið, bæði ungir og gamlir, allur múgurinn hvaðanæva. Og þeir kölluðu á Lot og sögðu við hann: Hvar eru mennirnir, sem komu til þín í kveld? Leið þú þá út til vor, að vér megum kenna þeirra. Lot gekk þá út til þeirra, út fyrir dyrnar, og lokaði hurðinni að baki sér. Og hann sagði: Fyrir hvern mun, bræður mínir, fremjið ekki óhæfu. [Sbr. Dóm.19.22–23.] Sjá, ég á tvær dætur, sem ekki hafa karlmanns kennt. Ég skal leiða þær út til yðar, gjörið við þær sem yður gott þykir. Aðeins megið þér ekkert gjöra þessum mönnum, úr því að þeir eru komnir undir skugga þaks míns. Þá æptu þeir: Haf þig á burt! og sögðu: Þessi náungi er hingað kominn sem útlendingur og vill nú stöðugt vera að siða oss. Nú skulum vér leika þig enn verr en þá. Og þeir gjörðu ákaflega þröng að honum, að Lot, og gengu nær til að brjóta upp dyrnar. Þá seildust mennirnir út og drógu Lot til sín inn í húsið og lokuðu dyrunum. En þá, sem voru úti fyrir dyrum hússins, slógu þeir með blindu, smáa og stóra, svo að þeir urðu að gefast upp við að finna dyrnar. Mennirnir sögðu við Lot: Átt þú hér nokkra fleiri þér nákomna? Tengdasyni, syni, dætur? Alla í borginni, sem þér eru áhangandi, skalt þú hafa á burt héðan, því að við munum eyða þennan stað, af því að hrópið yfir þeim fyrir Drottni er mikið, og Drottinn hefir sent okkur til að eyða borgina.

2) III. Mós. 18.22–31: Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð. Þú skalt ekki eiga samlag við nokkra skepnu, svo að þú saurgist af. Né heldur skal kona standa fyrir skepnu til samræðis við hana. Það er svívirðing. Saurgið yður ekki með nokkru þvílíku, því að með öllu þessu hafa heiðingjarnir saurgað sig, sem ég mun reka á burt undan yður. Og landið saurgaðist, og fyrir því vitjaði ég misgjörðar þess á því, og landið spjó íbúum sínum. Varðveitið því setningar mínar og lög, og fremjið enga af þessum viðurstyggðum, hvorki innborinn maður né útlendingur, er býr meðal yðar, því að allar þessar viðurstyggðir hafa landsbúar, er fyrir yður voru, framið, og landið saurgaðist, svo að landið spúi yður ekki, er þér saurgið það, eins og það spjó þeirri þjóð, er fyrir yður var. Því að hver sá, er fremur einhverja af þessum viðurstyggðum, þær sálir, sem það gjöra, skulu upprættar verða úr þjóð sinni. Varðveitið því boðorð mín, svo að þér fylgið eigi neinum af þeim andstyggilegu venjum, er hafðar voru í frammi fyrir yðar tíð, og saurgið yður ekki með því. Ég er Drottinn, Guð yðar.

3) I. Kor. 6.9–11: Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villizt ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né bleyðimenni [malakoi] né karlmenn sem hafa samfarir með karlmönnum [arsenokoitai], [5] þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa. Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast, þér eruð helgaðir, þér eruð réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists og fyrir anda vors Guðs.

4) I. Tím. 1.8–10: Vér vitum, að lögmálið er gott, noti maðurinn það réttilega og viti að það er ekki ætlað réttlátum, heldur lögleysingjum og þverbrotnum, óguðlegum og syndurum, vanheilögum og óhreinum, föðurmorðingjum og móðurmorðingjum, manndrápurum, frillulífismönnum, karlmönnum sem hafa samfarir með karlmönnum [arsenokoitais], mannaþjófum, lygurum, meinsærismönnum, og hvað sem það er nú annað, sem gagnstætt er hinni heilnæmu kenningu.

5) Rómverjabréfið 1.25–27: Þeir hafa skipt á sannleika Guðs og lyginni og göfgað og dýrkað hið skapaða í stað skaparans, hans sem er blessaður að eilífu. Amen. Þess vegna hefur Guð ofurselt þá svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar.

Kristnum, Biblíutrúum mönnum nægja svo ótvíræðir vitnisburðir til að láta sig ekki dreyma um að gifting samkynhneigðra komi nokkurn tímann til greina í trúfastri kirkju Krists. Í þeirra huga eru allar hugmyndir um slíkt óhafandi með öllu, og þannig var það einnig í frumkristninni, t.d. í ritinu merka, Didache ('Kenningu hinna tólf postula', talið frá lokum 1. aldar), 2. kafla, þar sem þetta bann við samræði manna af sama kyni var ítrekað. Í slíkri mynd barst kristindómurinn einnig hingað til lands. [6] – Ekki einn einasti meðal kirkjufeðranna, né heldur ein einasta kirkjusamþykkt í fornöld eða í Vestur- og Austurkirkjunni fram á þennan dag, hefur afnumið lögmálsbannið við samkynja kynmökum.

Þetta hefur kannski lítil áhrif á veraldlega þenkjandi menn, andstæðinga "bókstafstrúar". Þeir geta hins vegar leyft sér að vera miklu bókstafstrúaðri á lög íslenzka ríkisins heldur en Guðs lög. Lítum þá í lokin á lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar (1997, nr. 78, 26. maí), en þar segir svo í 1.–2. grein (feitletr. mínar, JVJ):

Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni. Ríkisvaldinu ber að styðja og vernda þjóðkirkjuna. Skírn í nafni heilagrar þrenningar og skráning í þjóðskrá veitir aðild að þjóðkirkjunni. [2. gr.:] Þjóðkirkjan nýtur sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu innan lögmæltra marka.

Og í 20. gr. segir svo:

Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka. Málefni, er varða kenningu kirkjunnar og agavald, heyra þó undir biskup Íslands, sbr. 10., 11., 19. og 28. gr. Samþykktir um kenningarleg málefni, guðsþjónustuhald, helgisiði, skírn, fermingu og altarissakramenti verða að sæta umfjöllun prestastefnu áður en þær hljóta endanlega afgreiðslu á kirkjuþingi.

Af þessu er ljóst, að jafnvel í landslögum er Þjóðkirkjunni áskilið sjálfræði um sín innri mál, sérstaklega kenningar- og agamál og helgisiði. Ætti það að sýna valdhöfum hvers tíma, að þeir hafa ekki íhlutunarrétt um þau innri mál – ekki fremur en þeir hafa það gagnvart öðrum kirkjum eða trúfélögum. Það er því reginmisskilningur af hálfu þingmanna, sem aðhyllast forræðishyggju gagnvart kirkjunni, sem og af hálfu róttækra, kenningardaufra presta, að þeir síðarnefndu geti fengið bessaleyfi til þess frá íhlutunarsömu Alþingi að hefja "staðfestingu samvistar" eða jafnvel "hjónavígslu" homma og lesbía og það jafnvel í trássi við safnaðarfélög sín. Löggjöfin, sem landsfundur D-listamanna leggur til, yrði þannig lögleysa og að engu hafandi.

Þessi lagalegi grundvöllur, sem sýnir sjálfstæða stöðu trúfélaga um sín innri kenningarefni, staðfestir á sinn hátt löggjöf Þjóðveldisins, því að árið 1253 var samþykkt í Lögréttu, að "þar sem á greindi Guðs lög og landslög, þá skyldu Guðs lög ráða."

Það verður eftir því tekið, ef veraldarhyggjan á Alþingi reynir að umturna þeim lagagrundvelli, sem hér var sagt frá, og hætta að "styðja og vernda þjóðkirkjuna" (eins og kveðið er á um í 1. grein laganna frá 1997), heldur ofsækja hana með andkristnum lagaboðum. Hér er mikil málefnabarátta fyrir höndum, ef kristnir menn vilja verjast slíkum ólögum.

–––––––––––––––––––––
NEÐANMÁLSGREINAR:

[1] Róm.1.1, 1.5, 15.15–16, Gal.1.15, 2.8-9, Post. 9.15, 26.16–18.

[2] Mt. 11.23. – "Jesús minnist oftar á Sódómu en nokkur annar kennimeistari Nýja testamentisins" (próf. James B. De Young, Homosexuality. Contemporary Claims Examined in the Light of the Bible and other Ancient Literature and Law, Grand Rapids, 2000, s. 218; sjá þar áfram).

3] Mt. 5.17–19: "Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki;" – Mark. 7.8–13, sem talar um lögmál Móse, ekki aðeins boðorðin 10, heldur líka aðra kafla úr Mósebókum og ber þetta saman við mannasetningar Farísea og segir síðan: "Þannig látið þér erfikenning yðar, sem þér fylgið fram, ógilda orð Guðs" (7.13, en með þessu staðfestir hann, að Móse-lög eru orð Guðs; sbr. Torrey: Kristur, Biblían og vantrúin, s. 11); Jóh. 10.35: "Ritningin getur ekki raskazt" (1981-þýðingin: "og Ritningin verður ekki felld úr gildi"); sbr. og Lúk. 16.29–31, 24.27 og 5.47.

[4] Mt.19.5, Mk. 10.7–8. Jesús segir þar afar skýrum orðum: "Því skal maður yfirgefa föður sinn og móður og búa saman við eiginkonu sína" – EKKI mann sinn!

[5] Um orðið arsenokoites (et.; flt.: arsenokoitai), uppruna þess (hjá Páli postula, út frá grísku orðunum í III. Mós. 18.22) og merkingu, sjá þessa vefsíðu á Guðfræðiannálnum, í nokkrum innleggjum mínum þar þann 21/4/2005 kl. 17.50–17.59.

[6] Sjá um ákvæði Skriftaboða Þorláks biskups helga (frá um 1178), einkum í neðanmálsgr. [2] þar.

27 athugasemdir

Athugasemd from: Gunnar Friðrik
Gunnar Friðrik

Trúum við ekki öll á sama guðinn hvort sem við erum Baptistar,kaþólikkar,lútherstrúar, Mormónar. Bara eins og öll nöfnin leggjum við ólíka ef samfélögum á það hvernig guð er. Hvað finnst þér Jón Valur sem kaþólikki.? Alla vegna Biskupa kirkjan hefur tekið skrefið.?

16.04.07 @ 13:18
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Fjögur (eða a.m.k. 4) af þessum fimm trúarsamfélögum, sem þú nefndir, eru kristin, og allir kristnir menn trúa á hinn eina og sama – og eina sanna – Guð. En þegar þú vitjar okkar aftur, Gunnar Friðrik, viltu þá láta eftirnafn þitt fylgja.

16.04.07 @ 14:02
Athugasemd from: Gunnar Friðrik Ingibergsson
Gunnar Friðrik Ingibergsson

Já ég skal láta eftir nafn mitt fylgja. Ég var að velta því fyrir mér hvert er fjölmennasta kaþólska ríki í heiminum. Ég hefði giskað á Brasilíu ? Þó að það séu fjölmargir kaþólikkar í Bandaríkjunum.

[Ath.: Svarið við þessu hefur ratað efst í athugasemdalistann!! – JVJ.]

16.04.07 @ 18:40
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég man það ekki, Gunnar, en líklega er þetta rétt hjá þér. Vinir mínir hér hafa kannski nokkuð nákvæmt svar.

[Ath.: Þessi athugasemd er á röngum stað vegna tæknil. rugls, hún er svar við annarri hér neðar, kl. 20.40 í kvöld. – JVJ.]

16.04.07 @ 18:52
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Já, Sjálfstæðisflokkurinn er ekki sá sami og fyrrum. Ég veigra mér við því að hafa orð á því opinberlega hvað býr þessari áherslu hans að baki. Jón Valur veit við hvað mér býr í huga!

En hryggilegt er að sjá hversu ósjálfstæðir nýju forystumennirnir eru: Sannkallaður Ósjálftæðisflokkur eða hjörð.

17.04.07 @ 09:24
Davíð Rósenkrans Hauksson

Því ber að sjálfsögðu að fagna að forstöðumönnum trúfélaga skuli nú vera heimilt að staðfesta samvist samkynhneigðra. Þeir sem það ekki vilja sleppa því einfaldlega en þeir hinir sem vilja það, og hafa jafnvel farið þess á leit líkt og Ásatrúarfélagið og Fríkirkjan í Reykjavík (að ég held líka), hafa nú fullt umboð og leyfi til þess. Ásatrúarfélagið fylgir ekki kristnum sið og skiptir það því engu máli þó að í biblíunni segi að samfarir samkynhneigðra séu af hinu illa. Það er nefnilega svo að ekki eru öll trúfélög og trúarbrögð það ill að fordæma kynlíf og ástir samkynhneigðra þó kristin geri það.
Hitt er hins vegar forræðishyggja að banna trúfélögum að gefa saman samkynhneigða. Fyrir slíku banni eru engin rök þó að ein trúarbrögð álíti samkynhneigð svívirðu og synd. Á Íslandi er nefnilega trúfrelsi.

17.04.07 @ 10:15
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Davíð Rósinkrans er ekki einungis hlutdrægur í þessu máli, heldur illa upplýstur. Það er alls ekki rétt hjá honum “að forstöðumönnum trúfélaga skuli nú vera heimilt að staðfesta samvist samkynhneigðra,” það er engin heimild fyrir því, hvorki í lögum Guðs né manna, hvorki í Þjóðkirkjunni né samkvæmt landslögum. Hitt er annað mál, að í vanhugsun sinni lagði landsfundur D-listamanna þetta til, þessa móðgun við kirkjuna.

Davíð kallar það “forræðishyggj[u] að banna trúfélögum að gefa saman samkynhneigða,” en svo vill nú til, að Kristur vill hafa forræði yfir kirkju sinni, og það forræði hans skulum við ekki lítilsvirða með því að hengja á það einhvern orðalepp úr félagspólitískri umræðu. Guðs lög eru yfir manna lög hafin.

17.04.07 @ 11:47
Davíð Rósenkrans Hauksson

Eilítil fljótfærni í mér. Ég geri mér grein fyrir því að þetta var einungis ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins en ekki ný lög. Þeirri ályktun ber hins vegar að fagna.
Guðs lög eru ekki æðri manna lögum. Hér ríkir nefnilega lýðræði ekki guðræði.
Vel má vera að Jesús hafi forræði yfir sinni kirkju. Ályktunin gefur ekki til kynna að það verði tekið af honum. En Jesús hefur ekki forræði yfir öðrum trúarbrögðum eður trúfélögum.
Segjum sem svo að samkynhneigt par sé í einhverju trúarfélagi sem aðhyllist ekki kristna trú, t.d. Ásatrúarfélaginu. Verði þessi ályktun Sjálfstæðisflokksins einhvern tíma að lögum mætti forstöðumaður þess trúarhóps gefa parið saman og það kemur kristnum mönnum einfaldlega ekki við. Eins og staðan er í dag gæti forstöðumaður þessa trúfélags ekki gefið parið saman svo um löggjörning væri að ræða. Að það skuli ekki vera hægt er mismunun á grundvelli kynhneigðar og þar er Ríkið að skipta sér af innri málum trúarfélaga. Ef þetta par væri í trúfélagi sem heimilaði ekki slíka vígslu er ekkert sem parið getur gert nema að yfirgefa trúhópinn og skrá sig í trúfélag sem byði samkynhneigð pör velkomin. Ef þjóðkirkjan vill ekki gefa saman samkynhneigð pör þá gerir hún það ekki.
Þetta skaltu hafa í huga, Jón, áður en þú ferð að troða kristilegu siðferði upp á þá sem ekki kæra sig um það. Við sem trúum ekki á guð kærum okkur ekki um að menn sem ganga á guðs vegum ráðskist með líf okkar.
Millinafn mitt er Rósenkrans en ekki Rósinkrans.

17.04.07 @ 12:29
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

[Frá ritstj.: Þetta innlegg er svar við þarnæsta innleggi (ekki því síðasta) hér á undan.]

Davíð Rósenkrans (fyrirgefðu mismælið) ætti fremur að orða mál sitt svo: “Hér ríkir nefnilega þingræði” – sem oft er reyndar = flokksræði. Í þær hendur vilja jú sumir leggja allt sitt ráð …

Það eru alltaf einhverjir sem “ráðskast með” þitt líf, Davíð, hvort sem þeir ganga á Guðs vegum eða vantrúarinnar. Þú getur ekki að því gert, að þú ert settur undir löggjafarvaldið; en óhlýðnast máttu, ef hlýðnin bryti gegn samvizku þinni. Á sama hátt eiga prestar að óhlýðnast því, sem brýtur gegn Guðs lögum. Þar á meðal er allt, sem virkað getur sem stuðningur við samkynja kynlíf, “blessun” þess eða tilraun til að gefa saman tvo karlmenn eða tvær konur.

Davíð talar eins og það sé eingöngu trúarlegt siðferði (m.a. kristið og islamskt) sem mæli gegn giftingu samkynhneigðra. En það gerir líka náttúrlegt siðferði, það rök- og heimspekilega sannalega siðferði, sem skynsemi mannsins getur uppgötvað og áttað sig á, alveg án tillits til trúar og trúarbragða.

“Ef þjóðkirkjan vill ekki gefa saman samkynhneigð pör þá gerir hún það ekki,” segirðu, lætur hér sem þér finnist þetta réttlætismál, þ.e. að hún fái að ráða þessu án þrýstings ríkisvaldsins. Mig grunar, að þetta sé bara tímabundin taktík hjá þér, nógu herskár hefurðu verið í athugasemdum þínum hér á Kirkjunetinu. Þú vilt sem sé núna, að þessi “heimild” verði veitt, sem landsfundurinn tiltók, af því að það hentar sem áfangi í ykkar markvissu baráttu (ykkar baráttumannanna), en hvað tekur svo við? Myndir þú tjá þig ósammála t.d. séra Bjarna Karlssyni, ef hann ætlaði sér að taka samþykkt slíkra laga sem grænt ljós á, að hann sjálfur, án samráðs við biskup, Kirkjuþing né Prestastefnu, mætti “gifta” saman tvo karlmenn eða tvær konur? Svaraðu þessu.

[Frá ritstj.: Hér hefur orðið tæknibrengl á röðun innleggja. Þessu innleggi hefur Davíðs Rósenkrans nú svarað, en það svar er næst á undan þessu! Lesendur eru beðnir velvirðingar á því.]

17.04.07 @ 13:17
Davíð Rósenkrans Hauksson

[Frá ritstj.: Hér hefur orðið tæknibrengl á röðun innleggja. Þetta innlegg Davíðs er svar við öðru frá JVJ, sem er ekki hér ofar, heldur næst á eftir þessu! Lesendur eru beðnir velvirðingar á því.]

Okkar tegund af lýðræði má e.t.v. kalla þingræði en við fáum almennt að kjósa þann flokk eða það fólk sem okkur líst best á inn á þing. Fullkomnu lýðræði er örugglega erfitt að koma á laggirnar. Það væri hugsanlega hægt í anarkísku samfélagi en það er önnur saga.

Mitt siðferði mælir ekki gegn giftingu samkynhneigðra þó guðlegt siðferði geri það. Það er bara þitt mat að náttúrulegt siðferði mæli gegn giftingu samkynhneigðra. Því sé ég enn ekki hvað er að því að leyfa trúfélögum að gifta samkynhneigð pör.

Mér er alveg sama þó að þjóðkirkjan vilji ekki gefa saman samkynhneigð pör og dytti mér ekki í hug að fara fram á að gifta mig innan hennar eða annarra sem vilja ekkert með samkynhneigða hafa. Það er ekki satt hjá þér að það sé tímabundin taktík hjá mér að finnast það gott ef þessi heimild yrði veitt. Ég vil ekki að ríkisvaldið þvingi kirkjur til að gefa samkynhneigða saman. En ég vil heldur ekki að ríkisvaldið þvingi aðra trúsöfnuði til að gera það ekki. Hins vegar vildi ég gjarna að þegar pör væru gefin saman yrði það fyrst gert hjá sýslumanni eða einhverjum öðrum veraldlegum leiðtoga og héti hjúskaparformið sama nafni óháð kynhneigð para, hvort sem það væri hjónaband eða eitthvað annað. Þar ætti löggjörningurinn sér stað og ef parið óskaði þess að giftast svo inn í eitthvert trúfélag gæti það þá gert það eftir á. Þessi leið er farin í Hollandi og e.t.v. víðar. Ef parið er samkynhneigt og þjóðkirkjan vill ekki gefa það saman verður svo að vera. Enda skil ég ekki hvernig fólk getur verið í trúarfélagi sem fordæmir líferni þess.

Mér þætti það ekki gott ef prestur innan þjóðkirkjunnar gæfi saman samkynhneigt par ef slíkt væri ekki leyft innan hennar. Ég myndi samt ekki skipta mér af því þar sem að innri málefni kirkjunnar koma mér ekki við. Hann hefði væntanlega heldur ekkert umboð til þess og því myndi sú gifting væntanlega ekki öðlast neitt gildi og síst af öllu fyrir framan guð.

Ég skil ekki enn þessa hræðslu hjá þér að þjóðkirkjan muni einangrast út í horn ef hún vill ekki gefa saman samkynhneigð pör. Ef hún vill fá tíma til að hugsa málið þá getur hún það óháð því hvort önnur trúfélög geti gefið saman samkynhneigð pör á meðan. Ef hún vill ekki gefa saman samkynhneigð pör þá segir hún það bara. Guðs orð þekkjum við. Þau standa í biblíunni. Samkynhneigð er synd. Þjóðkirkjan ætti nú ekki að eiga í vandræðum með þetta.

17.04.07 @ 16:29
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég mun svara svarinu hans Davíðs.

18.04.07 @ 00:19
Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Já, þetta er undarleg “gróf íhlutun". Það að gefa trúfélögum meira vald og frelsi er íhlutun!

Nú er konum bannað að gerast prestar í kaþólsku kirkjunni. Væri ekki best ef ríkið myndi banna konum að gerast forstöðumenn trúfélaga? Því núna leyfir hún trúfélögunum að ráða því (sem hlýtur skv rökum Jóns að vera “gróf íhlutun").

18.04.07 @ 15:04
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta er marklaus útúrsnúningur. Hjalti gengur fram hjá því, að Þjóðkirkjan er að fást við þessa ákvörðun sjálf. Íhlutun “frjálslyndra” sjálfstæðismanna í það mál kirkjunnar er óumbeðin af hennar hálfu og afar óvelkomin*, ef notuð verður til að gefa uppreisnargjörnum prestum færi á að búa til, í trássi við vilja Prestastefnu, Kirkjuþings og biskups Íslands, gervikristið hjónaband samkynhneigðra – söfnuðunum til hneykslunar**, kristindómi til vansæmdar og Þjóðkirkjunni til skaða, bæði inn á við og í samskiptum við önnur kristin trúarsamfélög. En hinn vantrúaði Hjalti Rúnar kippir sér auðvitað ekki upp við það.

––––––
* Menn geta svarað því til, að slík lagasetning yrði ekki óvelkomin fyrir Fríkirkjusöfnuð Hjartar Magna í Reykjavík. En ef verið er að biðja um slíka heimild fyrir hann, af hverju er það á ekki látið nægja? – af hverju þarf að stofna til leiðinda og uppreisnar í Þjóðkirkjunni vegna þess?
** Í Digranessöfnuði var nýlega safnaðarfundur um þessi blessunar- og hjúskaparmál, og þar var áberandi sterk andstaða frá flestum, sem töluðu, en mikil þátttaka var í þeim umræðum.

18.04.07 @ 15:47
Björn Friðgeir

Auðvelt er að svara til hvers vegna ekki eru tiltekin trúfélög, þar er hægt að vísa til meginreglu. Annars þyrfti lagabreytingu til í hvert sinn sem nýtt trúfélag er viðurkennt.
Hitt er ekki augljóst hvers vegna kaþólikkar hafa svona mikinn áhuga á innri málefnum þjóðkirkjunnar

18.04.07 @ 16:13
Björn Friðgeir

Það er væntanlega ekki nóg að fullt nafn mitt komi fram neðst á bloggi mínu, né að tvínefni mitt sé einstakt í veröld allri… eða hvað?

18.04.07 @ 16:22
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Nei, við viljum fullt nafn. Núna!

“Auðvelt er að svara til hvers vegna ekki eru tiltekin trúfélög, þar er hægt að vísa til meginreglu. Annars þyrfti lagabreytingu til í hvert sinn sem nýtt trúfélag er viðurkennt,” segir Björn Friðgeir og lætur þetta hljóma eins og of mikið erfiði fyrir Alþingi. Það lýsir vanþekkingu á störfum þess, því að jafnvel vegna smálagabreytinga þarf sérstaka löggjöf og eins vegna sölu á smákoti í eigu ríkisins. Svo þyrfti ekki “lagabreytingu til í hvert sinn sem nýtt trúfélag er viðurkennt,” heldur þegar eitthvert trúfélag bæði um slíka “heimild til að staðfesta samvist samkynhneigðra.” Frumkvæðið kæmi þá frá söfnuðunum (lýðræðislegt) og “heimildin” kæmi frá ríkisþinginu (gott fyrir sjálfsálit veraldlegra þingmanna) – en auðvitað ekki frá Guði, því að þaðan fæst hún aldrei.

“Hitt er ekki augljóst hvers vegna kaþólikkar hafa svona mikinn áhuga á innri málefnum þjóðkirkjunnar,” segir sami maður enn. Ég bendi honum á þessa grein, ….
(set það inn á eftir).

18.04.07 @ 16:51
Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Þetta er marklaus útúrsnúningur.

Og hvar sný ég út úr málflutningi þínum?

Ef við ímyndum okkur að lög bönnuðu konum að gerast forstöðumenn trúfélaga (og prestar), væri það þá “gróf íhlutun” að gefa trúfélögunum leyfi til þess að hafa kvenpresta?

Hjalti gengur fram hjá því, að Þjóðkirkjan er að fást við þessa ákvörðun sjálf.

Nei, ég geng ekki fram hjá því. Þjóðkirkjan getur vel bannað prestum sínum að gefa saman samkynhneigða (þeas í samkynja hjónaband). Hvaða máli skiptir það að Þjóðkirkjan sé ekki búinn að ákveða sig?

Ef “uppreisnargjarnir prestar” ætla að brjóta gegn “vilja Prestastefnu, Kirkjuþings og biskups Íslands” þá er það mál kirkjunnar. Væri þetta ekki bara fín hreinsun í Þjóðkirkjunni á ofurfrjálslyndum prestum sem brjóta gegn skýrum orðum Jesú (og ég er fullkomlega sammála þér hvað skoðun hans varðar)?

18.04.07 @ 20:15
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ríkið á ekki að hlutast til um innri kenningarmál kirkjunnar. Nægir það Hjalta ekki til að átta sig á svarinu við spurningunni um kvenprestana? Eða finnst honum t.d., að ríkið eigi að vera með íhlutun í það hvernig áhugamannafélög starfa?

“Hvaða máli skiptir það að Þjóðkirkjan sé ekki búinn að ákveða sig?” spyr Hjalti. SVAR: Það væri uppátroðsla og yfirgangur að trufla það ákvörðunarferli eða reyna að gefa prestum undir fótinn með, að þessi “heimild” megi eða eigi að vera til staðar – sér í lagi með hliðsjón af því, að slík tillaga kemur ekki frá öðrum en svokölluðum “frjálslyndum” í Sjálfstæðisflokknum (les: óprincíperuðum, óbundnum upplýstum trúnaði við kristna kenningu).

Við tölum ekki hér um “skoðun Jesú", heldur þekkingu hans. Þú ert með Skapara þinn fyrir augunum, þegar þú horfir til hans, Drottin drottnanna, konung konunga, rétt eins og Pílatus hinn heiðni var með Sannleikann fyrir augunum, þegar hann spurði þó eins og uppflosnaður, póstmódernískur kjáni: “Hvað er sannleikur?"!

18.04.07 @ 21:19
Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Ríkið á ekki að hlutast til um innri kenningarmál kirkjunnar.

Hjartanlega sammála. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna þér finnst það vera íhlutun að gefa kirkjunni leyfi til þess að gera eitthvað, en ekki að banna henni það.

Nægir það Hjalta ekki til að átta sig á svarinu við spurningunni um kvenprestana? Eða finnst honum t.d., að ríkið eigi að vera með íhlutun í það hvernig áhugamannafélög starfa?

Nei, þetta svar nægir ekki. Væri það gróf íhlutun í ímyndaða dæminu mínu að gefa trúfélögum leyfi til þess að hafa kvenpresta?

Það væri uppátroðsla og yfirgangur að trufla það ákvörðunarferli eða reyna að gefa prestum undir fótinn með, að þessi “heimild” megi eða eigi að vera til staðar – sér í lagi með hliðsjón af því, að slík tillaga kemur ekki frá öðrum en svokölluðum “frjálslyndum” í Sjálfstæðisflokknum (les: óprincíperuðum, óbundnum upplýstum trúnaði við kristna kenningu).

Þetta væri einmitt hvorki uppátroðsla né yfirgangur. Og hvaða ákvörðun eiga prestarnir að taka ef þeir hafa ekki einu sinni heimild (af hverju seturðu heimild innan gæsalappa?) til þess að gifta samkynhneigða. Ef við ímyndum okkur að Þjóðkirkjan myndi ákveða að hún vildi gefa samkynhneigða saman, þá gæti hún það ekki núna! Af því að ríkið leyfir það ekki. Hún gæti bara tekið þessa ákvörðun ef hún hefur heimild.

Við tölum ekki hér um “skoðun Jesú", heldur þekkingu hans.

Ég tala um skoðun Jesú, því ég tel hann bara hafa verið venjulegan heimsendaspámann (og þar að auki falsspámann ef tekið er mark á því sem er eignað honum í guðspjöllum Nýja testamentisins).

Þú ert með Skapara þinn fyrir augunum, …Er tölvuskjárinn minn “Skapari [m]inn"? :S

19.04.07 @ 23:04
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

1. svar Hjalta hér sniðgengur allt sem ég hef sagt um þetta mál.

Sp. Hjalta: “Væri það gróf íhlutun í ímyndaða dæminu mínu að gefa trúfélögum leyfi til þess að hafa kvenpresta?” – Svar: Svo hlýtur að vera, vegna þess að þetta væri afskiptasemi af innri málum kirkjunnar. Það, sem kirkjan má eða má ekki, á ekki að vera undir ríkinu komið, nema eitthvert trúfélag færi að standa fyrir einhverju sem rækist á raunveruleg grundvallar-mannréttindi.

HRÓ: “Ef við ímyndum okkur að Þjóðkirkjan myndi ákveða að hún vildi gefa samkynhneigða saman, þá gæti hún það ekki núna! Af því að ríkið leyfir það ekki. Hún gæti bara tekið þessa ákvörðun ef hún hefur heimild.” – Svarið er einfalt: Ef hún vildi falla út af veginum, sem stofnendur kristinnar kirkju hafa lagt, og fá heimild til þess að gifta saman tvo karla, þá myndi hún einfaldlega í sinni villu biðja ríkið um heimild til að færa slíka “hjónavígslu” inn fyrir dyr kirkjunnar. Með því væri hún raunar að kljúfa sjálfa sig og hrinda frá sér fjölda kristinna manna.

Með því að segjast telja Jesúm hafa verið “falsspámann” er Hjalti kominn út undir brún þess að fara með guðlast hér á þessum vef; auðvitað liggur beint við að túlka þetta sem einbera staðhæfingu (ósannaða auðvitað) um að Hjalti trúi þessu; því er það látið standa óáreitt, enda léttvægt sem slíkt, en hann er varaður við því að ganga lengra og beðinn að halda sér við efni greinarinnar.

“Þú ert með Skapara þinn fyrir augunum, þegar þú horfir til [Jesú],” hafði ég sagt. Hjalti er ekki að horfa til Jesú, þegar hann lítur á tölvuskjá sinn; hér var ekki átt við hans efnislegu augu.

20.04.07 @ 09:01
Davíð Rósenkrans Hauksson

Jón Valur segir:

“Sp. Hjalta: “Væri það gróf íhlutun í ímyndaða dæminu mínu að gefa trúfélögum leyfi til þess að hafa kvenpresta?” – Svar: Svo hlýtur að vera, vegna þess að þetta væri afskiptasemi af innri málum krikjunnar. Það, sem kirkjan má eða má ekki, á ekki að vera undir ríkinu komið, nema eitthvert trufélag færi að standa fyrir einhverju sem rækist á raunveruleg grundvallar-mannréttindi.”

Ég spyr Jón hvað séu raunveruleg grundvallarmannréttindi að hans mati. Eru það ekki raunveruleg mannréttindi að kyn ráði því ekki hvort fólk sé ráðið til preststarfa heldur að leitað sé eftir hæfasta aðilanum til að inna það starf af hendi óháð kyni hans?

Ég vil meina að það séu grundvallarmannréttindi að fólki sé ekki mismunað eftir kyni. Jón Valur virðist vera á öðru máli.

Jafn framt segir Jón Valur hér fyrr:

“Ég mun svara svarinu hans Davíðs.”

Ég bíð spenntur.

20.04.07 @ 11:04
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

“Eru það ekki raunveruleg mannréttindi að kyn ráði því ekki hvort fólk sé ráðið til preststarfa heldur að leitað sé eftir hæfasta aðilanum til að inna það starf af hendi óháð kyni hans?” spyr Davíð Rósenkrans og gerir ráð fyrir jákvæðu svari í sinni leiðandi spurningu. En þegar Kristur stofnaði til þessarar þjónustu prestsins, var það hans fullvalda, eigin ákvörðun, ekki til komin af því, að eitthvert lýðræði hefði ætlazt til þess af honum. Kaþólskir og orþódoxir biskupar vilja að sjálfsögðu fá hæfa menn til prestsstarfa – en ekki konur, einfaldlega af því að Kristur valdi vísvitandi og viljandi einungis karlmenn sem postula sína. Það geta því ekki verið nein “grundvallarmannréttindi” að konur fái slík störf í þeim kirkjum, sem vilja halda sig við þessa grunnreglu kirkjunnar frá upphafi og hlýðni við vilja Krists, ekki frekar en það séu “grundvallarmannréttindi” allra annarra barna en þinna eigin, að þú gefir þeim dót um leið og þú gefur barni þínu afmælisgjöf.

Þar að auki ber að skoða prestsstarfið sem verkefni sem útheimtir ákveðnar kröfur og skyldur af viðkomandi kirkjuþjóni, ekki sem einhver jarðnesk, veraldleg “réttindi".

20.04.07 @ 14:29
Davíð Rósenkrans Hauksson

Það sem þú, Jón Valur, gengur út frá er að engin grundvallarmannréttindi séu brotin í kristni. Þú ert væntanlega á þeirri skoðun því þú telur að guðinn þinn sé alvitur og alsjáandi og viti því hvað mannréttindi séu. Þetta getur hvaða söfnuður sem er jafn framt sagt og vísað þá í sitt helgirit frá sínum guði jafnvel þó að grundvallarmannréttindi séu hugsanlega brotin í lagalegum skilningi orðsins.

Það virðist sem þú álítir kristna trú æðri annarri trú og þess vegna skuli löggjöf (hvað má og hvað má ekki) um trúfélög miða út frá siðaboðskap kristskirkju.

Það er einfaldlega brot á mannréttindum samkynhneigðra og réttindum trúfélaga að heimild skuli ekki vera fyrir því að gefa saman samkynhneigða, sérstaklega í ljósi þess að staðfest samvist samkynhneigðra er leyfð hér á landi.

20.04.07 @ 17:07
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Davíð, þú reyndir ekki einu sinni að skilja rök þess sem ég sagði. Kristur, Drottinn og frelsari, Guðssonurinn eilífi, dómari lifenda og dauðra (allt þetta er margstaðfest kristin kenning í Nýja testamentinu) hlýtur að vera – þó jafnan í hlýðni við vilja Föður síns – allsendis fullvalda um það, hverjir eigi að vera prestar hans, ekkert síður en sú ákvörðun var með fullum rétti sett fram í Gamla testamentinu, að menn af einni kynkvísl Ísraelsmanna, Levítarnir, skyldu gegna prestsþjónustu þar. Ef afi þinn stofnar styrktarsjóð með hluta eigna sinna og tiltekur í skipulagsskrá, að jafnan skuli stjórnin skipuð ættingjum hans og afkomendum, þá hafa aðrar fjölskyldur engan rétt til þess í nafni jafnréttis eða andófs gegn “mismunun” að krefjast sætis í þeirri stjórn.

Já, að sjálfsögðu tel ég mig vita, að kristindómurinn er æðri en öll önnur trú, ég er ekki haldinn neinum misskilnings-umburðarlyndis-komplex í þeim efnum, slæ ekki af þeirri játningu minni, að Jesús Kristur er vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Það er engin heimild fyrir því í öllum heimildum kristindóms og gyðingsdóms, að gefa megi saman karl og karl eða konu og konu. Slíkt þjónar heldur engum tilgangi í raun. Blessun slíkra sambanda er sömuleiðis andstæð öllum anda Heilagrar Ritningar, sem tiltekur sérstaklega blessun karls og konu með hjónabandinu og gefur þeim um leið ávexti blessunarinnar, börn og aðra afkomendur. Blessun Guðs fellur aldrei dauð til jarðar, er ekki orðin tóm. En um þá, sem reyna að blessa það, sem Guð blessar ekki, fer Ritningin hörðum orðum í spámannaritunum.

Menn gætu allt eins farið í nafni “víðsýnis", “lýðræðis” og “umburðarlyndis” að krefjast þess að fá að iðka einhver önnur siðlaus verk í kirkjunni, fjölga sakramentunum, lesa upp úr trúvilluritum í stað guðspjallsins, gefa fólk saman í fjölkvæni og fjölveri, ritskoða Biblíuna til hagsbóta fyrir ræningja o.s.frv. eins og að krefjast þess, að þeir, sem iðka hina alvarlegu synd samkynja kynmaka, fái að giftast hvorir öðrum frammi fyrir altarinu. Kirkjan er ekki staður til þess að allir geti fengið óskalista sína uppfyllta, heldur til að framfylgja vilja Guðs, bera fram orð hans og helgandi áhrif til réttlætis og góðra verka.

Láttu þér skiljast þetta, Davíð. Til að vinna innan kristinnar kirkju þarftu að lúta henni, ekki ganga að henni með yfirgangi og kröfum um að hún geri það sem henni er bæði þvert um geð og henni leyfist alls ekki samkvæmt sínum innri rökum og frumheimildum. Það er áhorfsmál hið mesta að óhlýðnast lifanda Guði, hvað þá heldur ef menn vilja taka hús á kirkju Krists og vanhelga hana með annarlegri, vegvilltri kenningu, eins og eldri ofstækismenn reyndu í stjórnarbyltingunni frönsku.

20.04.07 @ 18:05
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hér er svar við stóru meginatriði í innleggi Davíðs fyrr í umræðunni (17.4. kl. 18:29), þar sem hann sagði: “Það er bara þitt mat að náttúrulegt siðferði mæli gegn giftingu samkynhneigðra. Því sé ég enn ekki hvað er að því að leyfa trúfélögum að gifta samkynhneigð pör.”

En þetta er ekki “bara” mitt “mat", heldur þróuð fræði náttúruréttarins, og þarf ekki kristindóm til, að menn kannist við þau sannindi, ef þeir kynna sér rökin vel.

Ég endurtek hér að hluta eldra skrif mitt um þessi mál, þar sem vísað er til mikilvægrar heimildar: Afstaða mín er raunar sú, að ríkið eigi ekki í þessu fjölhyggjuríki að amast við frelsi samkynhneigðra til sambúðar, en hins vegar sé alrangt að löghelga þá sambúð með heitinu hjónaband – hvort heldur það væri veraldlegt hjónaband á vegum ríkisins eða kirkjuleg hjónavígsla. Afstaða mín er sú sama og kirkjunnar, að hjónabandið sé af náttúrunnar hendi og að vilja skaparans ætlað karli og konu, aldrei karli og karli eða konu og konu. Fyrir þessu eru góð og gild náttúruréttarleg rök. Viðráðanlega stóra (þ.e. nógu stutta!) fræðiritgerð, sem gerir skýra og góða grein fyrir þessum náttúruréttarrökum, ber að vísa á hér : Is Marriage a Form of Discrimination? eftir Raphaelu M.T. Schmid við St. Hugh’s College, Oxfordháskóla. Hvet ég alla, sem áhuga hafa á þessum málum og ráða við vel skrifaða, akademíska ensku, að kynna sér þá grein almennilega. Hefðu alþingismenn okkar Íslendinga haft aðgang að góðri þýðingu á þeirri grein, hefðu varnir þeirra gegn villu hómósexúalismans og þrýstingi hlutdrægra hagsmunaaðila trúlega orðið traustari en sýnt hefur sig í reynd.

PS. “Samkynhneigð er synd,” segir Davíð í sama innleggi, annaðhvort spotzkur eða til að lýsa kristinni afstöðu. Þetta eru reyndar hans orð, ekki mín, því að ég hef oft lýst því áliti mínu, að hneigðin sem slík, meðan ekki er alið á henni, sé ekki synd, heldur tali Biblían um kynmök samkynja fólks sem synd. En talsmönnum samkynhneigðra þykir einmitt henta að setja málið fram á þessum nótum: “Trúirðu því, að samkynhneigð sé synd?” Biblían ræðir það bara ekki, hún ræðir ekki samkynhneigð sem hneigð, heldur um samkynja mök í þessu sambandi. En nefndir talsmenn sjá það sem hentugt að láta líta svo út sem kristnir menn tali með fordæmandi orðum um “samkynhneigð", einmitt af því að fjölda fólks finnst óeðlilegt að fordæma menn fyrir einhverja hneigð sem þeir finni til með sér og ráði naumast eða ekki við. Og hentugt þykir þessum talsmönnum sömuleiðis að láta líta svo út sem einhver vísindi hafi sýnt fram á, að hneigðin sjálf sé “meðfædd” – þeim mun fremur fá þeir ýmsa á band með sér til að trúa því, að “hinir bókstafskristnu” séu “fordómafullir, fáfróðir, grimmir og óumburðarlyndir” að vera að fordæma fólk fyrir eitthvað sem það fæddist með og ráði ekki sjálft. En í 1. lagi er samkynhneigð ekki meðfædd, genetísk né arfgeng, og í 2. lagi finnast ekki í bókstöfum Biblíunnar neinar yfirlýsingar um samkynhneigð sem undirliggjandi grunnhneigð og heldur ekki um syndsemi hennar. Það eru athafnirnar, sem eru bannaðar þar, svo einfalt er það; en um alvöru þess banns ættu menn að lesa aftur ritningartextana í sjálfri vefgreininni hér ofar.

20.04.07 @ 18:32
Davíð Rósenkrans Hauksson

Svo ég endurtaki mig þá snýr þessi ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins ekki sérstaklega að trúfélögum er tilbiðja Jehóva og vini eins og Jón Valur virðist halda þegar lesið er yfir það sem hann hefir skrifað hér.

Mér er alveg sama ef trúfélög kristin eður íslömsk vilja ekki gefa saman samkynhneigð pör og mér er reyndar sama þó aðrir trúsöfnuðir vilji það ekki heldur. En ríkið á ekki að taka af þeim þetta vald, þ.e. að fá að ákveða það sjálfir hvort þeim finnist í lagi að gefa saman samkynhneigð pör ellegar eigi, nú þegar stðafest samvist samkynhneigðra hefur verið í gildi í næstum 11 ár. Ef kristnum trúfélögum finnst að sér vegið ef önnur trúfélög ákveða að leyfa að gefa saman samkynhneigð pör er það þeirra höfuðverkur. Flóknara er þetta ekki. Styrkur kristinna trúfélaga ætti þá að koma í ljós, hvort sem hann er mikill eða ekki. Ef Þjóðkirkjan segir já og amen við þessu veistu væntanlega að hún er ekki lengur kristin. Allur vafi farinn.

Auðvitað vissi ég að Jón Valur teldi kristna trú æðri öðrum trúarbrögðum og finnst mér það eðlilegt af kristnum manni. En þetta útskýrir líka sennilega afstöðu hans í þessu máli, þ.e. að önnur trúfélög en kristin eigi að beygja sig undir kristilegt siðferði

20.04.07 @ 20:14
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hættu hér með að skipta þér þessum innri málum kristinnar kirkju, Davíð! Þetta er ekki á þínum vettvangi, þú hefur sýnt þig að vera guðvana mann, segir ekki aðeins: “Guðs lög eru ekki æðri manna lögum,” heldur: “Við sem trúum ekki á guð …” (17/4 kl. 14:29); ætlastu svo til, að við, upplýstir kristnir menn og kaþólskir, förum að beygja okkur undir þitt ókristna siðferði, með því að samþykkja þinn málflutning, eins og hann er nú mótaður af hagsmunahyggju hómósexúalista?

Það er vegna kristinna undirstaðna í stjórnarskránni og Þjóðkirkju-lögunum frá 1997 (sjá vefgreinina), sem ég minni á, að ríkið á að styðja Þjóðkirkjuna, ekki veitast að henni eða trufla hana í störfum sínum (hefur ekki Karl biskup beðið um starfsfrið í þessu máli?). Og vegna eðlilegs náttúruréttar er fráleitt að viðurkenna staðfesta samvist samkynhneigðra sem eitthvert ígildi hjónabands, enda varðaði lagasetningin um hana – ásamt með ýmsum heimildafölsunum á seinni árum – brautina til þess, að samkynhneigðir fengu s.k. rétt til að ættleiða börn og lesbíur til að fara í tæknifrjóvgun, þvert gegn betri ráðum.

Ég held þessi umræða við hina trúlausu hafi staðið alveg nógu lengi, enda hef ég nú seinustu vikuna tekið upp þá almennu reglu á mínu Moggabloggi að hafa aðeins opið einn sólarhring á umræður, ella hefði maður lítið annað að gera en að svara athugasemdum, sem ég hef hingað til reynt að gera vel og ýtarlega.

20.04.07 @ 21:34
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution