« LOURDES Í FRAKKLANDI 1858: DROTTNING OG UPPSPRETTA ALLRAR NÁÐAR (4)Íkona Guðsmóður hliðsins (Portaitissa) »

01.01.07

  10:42:06, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2158 orð  
Flokkur: Opinberanir Maríu Guðsmóður sem njóta kirkjulegrar viðurkenningar

LA SALETTE Í FRAKKLANDI 1846: HIN GRÁTANDI GUÐSMÓÐIR Í MIÐJU HRINGS (3)

Salette_1

MÓÐIR TÁRANNA

Það er mannshjartað sem er uppspretta allrar helgunar og hlið til himins í samlíkingu sinni við hið Alhelga Hjarta Jesú og hið Flekklausa Hjarta Maríu, eða eins og Hallgrímur Pétursson kemst að orði í Passíusálmunum:

Gegnum Jesú helgast hjarta
í himininn upp ég líta má,
Guðs míns ástar birtu bjarta
bæði fæ ég að reyna' og sjá,
hryggðar myrkrið sorgar svarta
sálu minni hverfur þá.

Þetta er þungamiðja hinnr nýju heimsskipunar Jesú og Maríu sem opinberaðist Catherine Labouré í Rue du Bac. Það er hið Alhelga Hjarta Jesú sem umbreytir mannshjartanu í spegil sinnar eigin dýrðar: Í hið sanna hjarta kirkjunnar, hið hreina og Fekklausa hjarta Maríu, Móður hins gullna hjarta, eins og hún opinberaði sig í Beauraing í Belgíu árið 1932 (sjá síðar). Þegar mannshjartað snýr spegli hjartans frá Guði, þá verður það helkulda myrkurs Satans að bráð í þeirri spegilmynd sem það endurvarpar: Helmynd hins fallna verndarkerúba.

Það er einmitt þetta sem fríhyggjumenning Evrópu nítjándu aldar tók að gera í síríkara mæli í hugvillum hugsæishyggjunnar með jafn markvissum hætti og afkvæmi hennar á tuttugustu öldinni: Dauðamenningin barnamorðanna miklu, menning sem slítur úr sér sitt eigið hjarta af ekki minni ofsa heldur en astekaprestarnir rifu hjörtun úr fórnardýrum sínum til að svala blóðþyrstu grimmdaræði allrar illsku í mynd skelfingargoða á borð við hinn fiðraða höggorm Quetzalcoatl og hins tryllta stríðsgoðs Huizilopochtli. Eini munurinn er sá að þessi skelfilegu goð samtímans bera önnur heiti í huliðshjúpi efnahagslegs ávinnings og siðblindu taumlausrar græðgi mennskar tálsýna veraldarhyggjunnar.

Það er einmitt þessi staðreynd sem setti mark sitt á menningarsamfélög þau sem risu upp úr blóðflaumi frönsku byltingarinnar og mótaði líf manna í þorpinu Ablandins í La Salette sókninni í Grenoblebiskupsumdæminu í Frakklandi þar sem Guðsmóðurin opinberðist tveimur smölum þann 19. september árið 1846. Þegar atburður þessi átti sér vöktu börnin tvö, Melanie Mathieu fjórtán ára gömul, og Maximin Giraud ellefu ára, yfir kúm foreldra sinna. Þeim hafði runnið í brjóst og þegar Melanie vaknaði var það fyrsta sem hún gerði að vekja Maximin. En ótti hennar reyndist með öllu ástæðulaus: Kýrnar voru á beit skammt frá. Hún tók að seðja hungur sitt að því sem eftir var af nestinu hennar, en vart hafði hún borið fyrsta brauðmolann að vörum sínum, þegar hún varð þrumu lostin. Í gildragi fyrir neðan sig kom hún auga á stóran hring úr skæru ljósi sem var mun skærari en sjálfir sólargeislarnir. Að skammri stundu liðinni hafði hún jafnað sig svo mikið að hún gat hrópað til Maximin: „Komdu eins og skot! Sjáðu ljósið þarna fyrir neðan!“

Salette_2

Hvar?“ vildi hann vita. Hún benti og nú sá hann einnig ljóshringinn. Þar sem þau stóðu sáu þau hvernig styrkur ljóssins jókst svo að þau sveið í augun. Þau voru ráðvillt og óttaslegin og voru í þann veginn að leggja á flótta, þegar þau veittu því eftirtekt að ljóshringurinn laukst upp. Smám saman tóku þau að greina konumynd. Hún sat með andlitið hulið í lófum sér harmi lostin og grét sáran. Ofurhægt og með ójarðneskri mýkt reis hún á fætur. Hún snéri sér til þeirra með krosslagðar hendur á brjósti og höfuðið laut örlítið til hliðar. Gæska sú sem streymdi frá sorgmæddri ásjónu hennar var ósegjanleg. En þau tóku einnig greinilega eftir klæðnaði hennar: Yfir slæðu hennar mátti sjá lýsandi kórónu og föt hennar voru skrýdd ljóshjúp. Rósir brydduðu skó hennar og hún bar gullinn róðukross í keðju um hálsinn . . . Og um þetta lék allt dýrðarljómi.

Þar sem börnin stóðu þarna þrumulostin, heyrðu þau að konan tók að ávarpa þau með rödd sem var hvort tveggja í senn, skipandi og hvetjandi: „Komið til mín börnin mín. Verið ekki óttaslegin.“ Börnin komu nær og hún talaði til þeirra á frönsku, en ekki á þeirra eigin mállýsku sem var „patois.“ Þau veittu tárunum athygli á vöngum Guðsmóðurinnar um leið og hún ávarpaði þau að nýju:

Ef þjóð mín vill ekki hlýða mér, þá neyðist ég til að sleppa tökum á armleggi Sonar míns. Hann er þungur, svo ógnarþungur að ég megna ekki lengur að halda aftur af honum. Hversu lengi hef ég ekki þjáðst fyrir ykkur! Ég verð statt og stöðugt að bera upp fyrirbænir fyrir ykkar hönd svo að Sonur minn snúi ekki baki við ykkur. En þið takið ekkert tillit til þessa. Hversu vel sem þið munið biðja í framtíðinni, hversu ágæt sem breytni ykkar verður, þá munið þið aldrei geta bætt mér upp það sem ég hef þjáðst ykkar vegna.

Í opinberuninni í La Salette sjáum við Guðsmóðurina í hlutverki sínu „sem hlíf okkar og skjöldur“ í nýu ljósi, hlutverki sem hún lagði áherslu á í opinberuninni á Teypeyachæðinni í Mexíkó. Við sjáum hana sem Móðir táranna sem grátbiður um miskunn mannkyninu til handa þegar réttlætisarmur Sonur hennar rís á loft: Grátbiður fyrir kirkju sem hefur snúið baki við boðum Sonar hennar. Þetta getum við séð af hinum áminnandi orðum hennar:

Einungis örfáar aldraðar konur sækja messu á sumrin. Allir aðrir vinna alla sunnudaga á sumrin. Og á veturna þegar þeir hafa ekkert annað fyrir stafni, þá sækja þeir aðeins messu til að hæðast að trúnni. Á föstunni streyma þeir til slátrarans líkt og rakkar.

„Börnin mín. Þetta verðið þið að gera kunnugt meðal allrar þjóðar minnar.“ Hægt og sígandi leið Guðsmóðurin upp gildragið og endurtók boðskap sinn: „Þetta verðið þið að gera kunnugt meðal allrar þjóðar minnar.“ Hún fór enn ofar upp í gildragið og börnin fylgdu henni eftir. Hún nam andartak staðar og hófst síðan á loft. Börnin sáu hvernig hún horfði til himins og augu hennar tóku að ljóma af gleði og tárin hurfu.

Börnin gerðu þennan boðskap kunnan um allt Frakkland og sannkölluð veisluhöld hófust í blöðum veraldarhyggjunnar og trúleysingjanna og sjálft Dóms- og menningarmálaráðuneytið sá ástæðu til að ítreka afstöðu síns sérstaklega við de Bruillard biskup: „Það er afar brýnt að þér gerið yður ljóst, að það verður að sporna gegn þessari illsku og segja fólki sannleikann . . .“ Orð Jesaja spámanns koma ósjálfrátt upp í hugann: „Vei, ég skal ná rétti mínum gagnvart mótstöðumönnum mínum og hefna mín á óvinum mínum. Og ég skal rétta út hönd mína til þín og hreinsa sorann úr þér, eins og með lútösku, og skilja frá allt blýið“ (Jes 1. 24-25). Löngu síðar víkur Jesús að þessu blýi syndarinnar í einni opinberana sinna við systir Erzsebet Szanto í Ungverjalandi sem hvílir líkt og ok eða málmskjöldur á mannkyninu. [1]

FYRIRBÆNIR GUÐSMÓÐURINNAR OG OKKAR EIGIN FYRIRBÆNIR
Í HINNI STRÍÐANDI KIRKJU Á JÖRÐU

Við horfumst hér í augu við einhvern djúpstæðasta leyndardóm kristindómsins sem Guðsmóðirin opinberaði í La Salette í Frakklandi árið 1846:

Ef þjóð mín vill ekki hlýða mér, þá neyðist ég til að sleppa tökum á armleggi Sonar míns. Hann er þungur, svo ógnarþungur að ég megna ekki lengur að halda aftur af honum. Hversu lengi hef ég ekki þjáðst fyrir ykkur! Ég verð statt og stöðugt að bera upp fyrirbænir fyrir ykkar hönd svo að Sonur minn snúi ekki baki við ykkur.

Frjálslyndisguðfræði póstmódernismans hafnar Kristi reiðinnar, almætti hans þegar hann kemur til að hreinsa musteri sitt eins og forðum:

Þá gjörði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra, og við dúfnasalana sagði hann: „Burt með þetta héðan“ (Jh 2. 15. 16).

Guðsmóðirin vék að þeim sama sannleika í La Salette sem Esekíel spámanni opinberaðist og er ef til vill einhver leyndardómsfyllstu orðin í öllum í öllu Gamla testamentinu:

Og ég leitaði að einhverjum meðal þeirra, er hlaða vildi garð eða skipa sér í skarðið gegn mér, landinu til varnar, til þess að ég legði það ekki í eyði, en ég fann engan. Þá úthellti ég reiði minni yfir þá, og gjöreyddi þeim með eldi gremju minnar, ég lét athæfi þeirra þeim í koll koma, – segir Drottinn Guð (Esk 22. 30, 31).

Guðsmóðirin skipar sér þannig í skarðið til að forða heimsbyggðinni frá tortímingu líkt og sérhver sú sál sem sem tekur hana sér til fyrirmyndar. Árið 1376 öðlaðist Katrín frá Síena andlegt innsæi á kirkjunni sem „gekk frá illu til enn verra“ og þannig leiddi Drottinn henni fyrir sjónir að úr ösku brunarústanna blési hann lífi í lemstraðan líkama kirkjunnar og gæfi henni að nýju þá fegurð sem brúði sinni sem hann hefði fórnað lífinu fyrir:

Rétt eins og sekt heimsins leiddi þennan Frelsara til jarðar í fátækt hennar, kemur þessi sami Endurlausnari sem einn megnar að græða hana sem örsnautt og auðmjúkt samfélag sitt. Katrín tók að skilja, að rétt eins og rósin blómgast meðal þyrna, þannig öðlast kirkjan einungis græðslu og hreinleika með þolraunum. [2]

Það var þessi sama brennandi vandlætingasemi sem brann í hjarta „la Madre fundadora“ Teresu frá Avíla þegar hún stofnaði klaustur sín til að biðja fyrir sálunum, eins og hún víkur að í Veginum til fullkomleikans. Það var þessi sami heilagi eldur sem skíðlogaði í hjarta Edith Stein þegar hún skrifaða príorinnu sinni bréf og bað hana um að hún mætti verða að lifandi fórn fyrir Gyðinga og hl. Silúan frá Aþos úthellti þessum sömu tárum og Guðsmóðirin í fyrirbænum sínum fyrir mannkyninu vegna þess að hann gerði sér ljóst, að ef enginn skipaði sér í skarðið tortímdist heimsbyggðin í svartnætti mennskra hugvillna:

Ég hef skipað varðmenn yfir múra þína, Jerúsalem (Jes 62. 6).

Þessi sami sannleikur var hjartfólgin hinum heilögu feðrum til forna. Heil. Fulgentíus frá Ruspe (467-532) komst svo að orði:

Í styrk elsku sinnar sigraðist hann [Stefán] á illsku Sáls þannig að ofsækjandi hans á jörðu varð félagi hans á himnum. Í heilagari og þrotlausri elsku sinni vildi hann beina þeim til bænarinnar sem honum auðnaðist ekki að sannfæra með áminningarorðum sínum. Nú fagnar Páll endanlega með Stefáni og ásamt Stefáni gleðst hann nú í dýrð Krists. Ásamt Stefáni ber hann nú fram lofgjörð, nú ríkir hann með Stefáni. Stefán var sá fyrri sem hvarf á braut grýttur með þeim steinum sem Páll lét grýta hann með. Páll hvarf síðar á brott í styrki bæna Stefáns. [3]

Við skulum því biðja Guðsmóðurina um þá náð að mega dvelja með henni í hinum gullna hring og bera upp fyrirbænir fyrir meðbræðrum okkar á nóttu sem degi – og úthella tárum sökum ódæðisverka dauðamenningar barnamorðanna miklu. Þetta skulum við gera að ilmfórn Drottni okkar til handa í upphafi nýs árs!

„Ég hef skipað varðmenn yfir múra þína, Jerúsalem“ (Jes 62, 6).

[1]. Opinberun 23. maí 1962: Logi elsku hins Flekklausa Harta Maríu, bls. 50. Sjá:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/index.html
[2]. Catherine of Siena's Way, bls. 191.
[3]. Predikun 3. 1-3, 5-6.

Frásögnin er byggð á: Delaney, John J., A Woman Clothed with the Sun, Doubleday, New York, 1990.

No feedback yet