« Heilagur Jósef - Verndari hinnar helgu fjölskylduUm bókina „Jesús frá Nasaret“ »

26.06.11

  08:26:23, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 612 orð  
Flokkur: Pjetur Hafstein Lárusson

Kynferðisglæpir innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi

Pjetur Hafstein Lárusson skrifar

Í gærkvöldi birti ég hér á kirkju.net hugleiðingar varðandi þá stöðu, sem nú er komin upp innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, vegna kynferðisglæpa gegn börnum. Því miður urðu mér á þau leiðu mistök, að nefna nöfn í því sambandi. Eins og staðan er nú, er það í raun ekki mitt, að birta þau. Hugleiðingar mínar snúa að viðbrögðum kirkjuforystunnar. Birti ég því greinina hér aftur, með breytingum á því atriði, sem hér er fjallað um, um leið og ég biðst velvirðingar á mistökum mínum.

Fyrir tæpum tuttugu árum bjó ég steinsnar frá Maríukirkju, kirkju kaþólikka í Seljahverfi í Reykjavík. Ég hafði lengi haft áhuga á kaþólsku kirkjunni og tók því að sækja guðþjónustu í umræddri kirkju.. Þar var og er enn til siðs, að kirkjugestir komi saman í safnaðarheimilinu að lokinni messu.

Mér leið vel í þessum félagsskap. Þarna kynntist ég einlægu og elskulegu fólki af ýmsu þjóðerni. Það tók trú sína alvarlega en án fordóma gagnvart þeim, sem aðrar trúarskoðanir höfðu. Og ekki spillti presturinn, séra Denis O’ Leary fyrir, með sinn írskra húmor og sína hleypidómalausu trú. Er ekki að orðlengja það, að ég gerðist kaþólskur.

Fljótlega eftir að ég gerðist kaþólikki, tók ég að heyra ýmsar sögur af ónefndum klerki, sem gengdi stöðu skólastjóra Landakotsskóla. Þær voru fæstar fagrar, þó ekki væri þar minnst á þau stórmæli, sem nú eru lýðum ljós. Auðvitað vissi ég, að meðal kaþólskra leikmanna voru sumir, sem töldu sig standa trúbræðrum og systrum sínum skör hærra. Annað hvort væri nú; slíkt gerist í hvaða félagsskap, sem vera skal og þarf ekki trúfélög til. Ég leiddi þetta hjá mér, sem og það sem ég heyrði um skólastjórann enda hafði ég ekki hugsað mér, að gerast félagsmálanaut innan kirkjunnar.

Nýustu tíðinda af ofbeldisverkum umrædds skólastjóra og kennslukonu einnar við skólann, sem og prests nokkurs, sem beindust gegn börnum, knýja mig hins vegar til að fjalla um þau mál á þessum vettvangi.

Sadismi og kynferðisleg brenglun eru einstaklingsbundin fyrirbæri. Þannig segir það t.d. ekkert um menntakerfið, þótt stöku kennar fullnægi fýsnum sínum á nemendum. Kaþólska kirkjan á Íslandi á heldur ekki að þurfa að líða fyrir brenglun umræddra einstaklinga.

En því miður er málið ekki svona einfalt. Í ljós hefur komið, að allar götur frá árinu 1963, eða í hartnær hálfa öld, vissu a.m.k. prelátar kaþólsku kirkjunnar hér á landi um glæpsamlegt athæfi skólastjórans og kennslukonunnar og þögðu þunnu hljóði. Hve langt niður eftir virðingarstiga kaþólsku kirkjunnar þessi vitneskja náði veit ég ekki.

Með þögn sinni hylmdu biskupar kaþólsku kirkjunnar á Íslandi og í það minnsta aðrir prelátar yfir glæpastarfsemi gegn börnum. Þar með urðu þeir ekki aðeins sjálfir samsekir; þeir gerðu kirkjuna sem stofnun einnig samseka þessu fólki.

Nú virðist það vefjast fyrir prelátunum, að biðja það fólk, sem þeir áratugum saman beittu ofbeldi þagnarinnar, afsökunar á því níðingsverki, sem í þögninni felst.

Skyldu eftirfarandi orð Krists aldrei koma þessum mönnum í hug: “Allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér og mér gjört”.

Við skulum ekki gleyma því, að eftir að þáverandi biskup fékk upplýsingar um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum innan kirkjunnar árið 1963 og kaus að þegja, hvílir ábyrgðin á herðum kirkjunnar. Þeirri ábyrgð verður ekki af henni létt, fyrr en prelátarnir sjálfir og aðrir innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, leiknir sem lærðir, sem hugsanlega vissu hvað var að gerast, hafa leitt þjóðina í allan sannleika þessa máls, undanbragðalaust og leitast fölskvalaust eftir fyrirgefningu fórnarlambanna.

Það liggur svo í hlutarins eðli, að íslenskir dómstólar fjalli um mál þeirra, sem hylmdu yfir með barnaníðingunum, sem dauðinn hefur frelsað undan armi laganna. Þeir, sem fyrir dómstólum reynast sýknir saka geta þá að sjálfsögðu haldið áfram störfum sínum innan kirkjunnar, hinir ekki.

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Greinilega hefur þú, Pjetur, þurft að sjá að þér varðandi a.m.k. eina nafnbirtingu hér (og þá á ég ekki við séra Georg, heldur annan prest). Þessi grein virðist mér þó að mestu óbreytt frá í gær, nema hvað hin fyrri var þurrkuð út og þessi sett í staðinn. Um leið ávinnur þú það, að all-ýtarleg athugasemd mín hefur þurrkazt út. Þess skal getið, að það er gert án nokkurs samráðs við mig.

Það er eins gott, að ég þurfi ekki að reyna að skrifa hér glænýja athugasemd, eins vel og ég hafði nú vandað mig við hina fyrri. Svo vill nefnilega til, að ég er vanur að taka afrit af öllum athugasemdum mínum, sem máli kunna að skipta á netinu. Þá athugasemd get ég því endurtekið hér og geri það, en sleppi þó nafni fyrrnefnds prests (ekki Georgs). En með því að taka það allt út, sem þú skrifaðir um þann prest, virðist mér þú óbeint vera að viðurkenna, að þú hefur hlaupið á þig og jafnvel engar heimildir haft fyrir fullyrðingum þínum um þann nú ónefnda prest.

Hér er þá innlegg mitt frá í gærkvöldi, með þeirri einu breytingu sem sjá má í 1. lið:

Athugasemd frá Jóni Val Jenssyni

Fáeinar spurningar, Pjetur, eftir lestur þessarar athyglisverðu greinar þinnar.

1. Hver er heimildin fyrir því, að séra […] hafi staðið í slíku athæfi sem beindist gegn börnum? – Spyr sá, sem ekki veit, því að hér frétti ég fyrst af þessu, hafði ekki séð það annars staðar, nema hvað minnzt hafði verið á ónafngreindan prest auk Georgs.

2. Biskup kaþólskra árið 1963 var Jóhannes Gunnarsson. (Hinrik H. Frehen tók við 1968, eftir að Jóhannes hafði farið til prestsstarfa í Norður-Ameríku; og eftir á að hyggja var sú breyting á starfsferli Jóhannesar mjög dularfull, því að hér voru safnaðarbörn hans og hans ættfólk.) – En vegna orða þinna: “Í ljós hefur komið, að allar götur frá árinu 1963, eða í hartnær hálfa öld, vissu a.m.k. prelátar kaþólsku kirkjunnar hér á landi um glæpsamlegt athæfi séra Georgs og Margrétar Muller og þögðu þunnu hljóði,” spyr ég: Hvernig telurðu þig vita, að “prelátar” (í fleirtölu) í kirkjunni hér hafi vitað um glæpsamlegt athæfi séra Georgs og Margrétar?
Ég spyr, (a) vegna þess að í vitnisburði Iðunnar Agnesar Andrésd. í Fréttatímanum í gær er ekkert minnzt á, að faðir hennar hafi talað um neitt annað við biskupinn (1963) heldur en áníðslu séra Georgs. Er vitað til, að kvartað hafi verið yfir Margréti við Jóhannes biskup?
(b) Hver er heimildin fyrir því, að Jóhannes biskup hafi sagt öðrum frá þessu? Getur hann ekki hafa farið með vitneskju sína í gröfina?

3. Hvaða preláta áttu við með þessum orðum þínum: “Nú virðist það vefjast fyrir prelátunum, að biðja það fólk, sem þeir áratugum saman beittu ofbeldi þagnarinnar, afsökunar á því níðingsverki, sem í þögninni felst.”

4. Ennfremur: Hvaða biskupa “og í það minnsta” aðra preláta áttu við hér: “Með þögn sinni hylmdu biskupar kaþólsku kirkjunnar á Íslandi og í það minnsta aðrir prelátar yfir glæpastarfsemi gegn börnum.”

Þú hlýtur að vita, hvað þú hefur skrifað um þetta og þar með að geta gert grein fyrir heimildum þínum. Ef þær hafa hvergi birzt opinberlega, væri fróðlegt að vita, hverjar þær eru.

25.06.11 @ 22:42

26.06.11 @ 11:07