« Páfi íhugar leyndardóm svika JúdasarOg Guð þarfnast líka okkar! »

13.04.06

  12:26:45, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 895 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Krossinn er hásæti elskunnar

Guðspjall Jesú Krists á Föstudaginn langa þann 14 apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 19. 17-30

Og hann bar kross sinn og fór út til staðar, sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata. Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra sinn til hvorrar handar; Jesús í miðið. Pílatus hafði ritað yfirskrift og sett hana á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. Margir Gyðingar lásu þessa yfirskrift, því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni, og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku. Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: „Skrifaðu ekki ,konungur Gyðinga', heldur að hann hafi sagt: ,Ég er konungur Gyðinga'.“ Pílatus svaraði: „Það sem ég hef skrifað, það hef ég skrifað.“ Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú, tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti, og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn, en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr. Þeir sögðu því hver við annan: „Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um, hver skuli fá hann.“ Svo rættist ritningin:

Þeir skiptu með sér klæðum mínum
og köstuðu hlut um kyrtil minn.

Þetta gjörðu hermennirnir. En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena. Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan sagði hann við lærisveininn: „Nú er hún móðir þín.“ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín. Jesús vissi, að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann, til þess að ritningin rættist: „Mig þyrstir.“ Þar stóð ker fullt af ediki. Þeir settu njarðarvött fylltan ediki á ísópslegg og báru að munni honum. Þegar Jesús hafði fengið edikið, sagði hann: „Það er fullkomnað.“ Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann.

Hugleiðing

Hl. Gregoríos frá Nyssa (335-395) sagði: „Guð beitti beitu holdsins á öngul hjálpræðisins og Satan gleypti hana umhugsunarlaust.“

Hl. Ágústínus frá Hippo (354-430) sagði: „Rétt eins og þau mænum við einnig á krossinn. Við sjáum blóð hans á dauðastundinni. Við sjáum það gjald sem Endurlausnarinn innti af hendi og snertum sár upprisunnar. Hann lýtur höfði, rétt eins og hann ætli að kyssa okkur. Hjarta hans lýkst upp sökum elsku hans á okkur. Armar hans eru útréttir eins og hann vilji faðma okkur að sér. Allur líkami hans blasir við sjónum okkur til endurlausnar. Íhugið undursamleika þessa alls. Látið þetta allt greypast í hugskot ykkar. Allt var þetta til þess að sá sem gerði sérhvern hlut líkama síns sýnilegan á krossinum megi nú markast í sérhvern hluta sálar ykkar.“

Rupert frá Deutz, ábóti, skrifaði á tólftu öld: „Kross Krists er hliðið til himins, lykillinn að Paradís, hrösunarhella djöfulsins, upphefð mannkynsins, huggun fangelsisvistar okkar og frelsisgjald.“

Kross Krists er vörn trúar okkar, fullvissa vonar okkar og hásæti elskunnar. Hann er ummerki elsku Guðs og sönnun um fyrirgefningu syndanna. Á krossinum hefur Jesús goldið fyrir syndir okkar og afmáð sekt okkar. Hann er vegur friðar, gleði og réttlætis sem liggur til konungsríkis Guðs og sigurbrautin gagnvart synd, örvæntingu og dauða fyrir Drottin Jesú Krist.

„Þess skulum vér Guð biðja, að honum sé mest dýrð í að veita oss, en vér verðim farsælstir af að þiggja, að hann varðveiti oss í dag og nótt og hverja stund frá annarri, meðan vér erum í þessum heimi, en eftir andlát vort láti hann engla sína leiða andir órar í frið og fögnuð Paradísar. En þá er vér komum fyrir dómstól á dómsdegi, laði hann oss blíðlega, sín börn, heim í himnaríkis dýrð ei og ei [æ og ævinlega] með sér að vera.“ [1]

Sálmur 31:3,7,13-18,24

3 Hneig eyru þín til mín, frelsa mig í skyndi, ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar!
7 Ég hata þá, er dýrka fánýt falsgoð, en DROTTNI treysti ég.
13 Sem dáinn maður er ég gleymdur hjörtum þeirra, ég er sem ónýtt ker.
14 Ég heyri illyrði margra – skelfing er allt um kring – þeir bera ráð sín saman á móti mér,
hyggja á að svipta mig lífi.
15 En ég treysti þér, DROTTINN. Ég segi: „Þú ert minn GUÐ.“
16 Í þinni hendi eru stundir mínar, frelsa mig af hendi óvina minna og ofsækjenda.
17 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn, hjálpa mér sökum elsku þinnar.
18 Ó DROTTINN, lát mig eigi verða til skammar, því að ég ákalla þig.
Lát hina guðlausu verða til skammar, hverfa hljóða til Heljar.
25 Verið öruggir og hughraustir, allir þér er vonið á DROTTIN.

[1]. Hómilíubók, bls. 94.

No feedback yet