« Gekk Halldór Laxness í Benediktínaregluna? | Ráðgert að stofna munkaklaustur á Úlfljótsvatni » |
Hinn 4. júní 1989 blessaði Jóhannes Páll II páfi stóran kross úr límtré og málmi í hátíðlegri messu sem fram fór fyrir framan Basilíku Krists konungs í Reykjavík. Þessum krossi var síðar komið fyrir á Úlfljótsvatni til minningar um heimsókn páfa. Krossinn á að minna á þúsund ára kristinn sið á Íslandi sem páfi hvatti æsku Íslands til að varðveita. [1]
Á sunnudaginn kemur, 27. apríl verður Jóhannes Páll II tekinn í tölu heilagra ásamt forvera sínum Jóhannesi 23. Gera má ráð fyrir að sú vegsemd hafi í för með sér að fleiri veiti krossinum á Úlfljótsvatni athygli og vilji leggja leið sína þangað í pílagrímsferð. Nýverið tilkynnti Pétur biskup um þá fyrirætlan sína að koma á fót munkaklaustri á Úlfljótsvatni. Ef sú áætlun gengur eftir má gera ráð fyrir að Úlfljótsvatn verði einhvern tíma í framtíðinni eftirsóttur staður til að heimsækja. Þar er nú þegar hægt að fara gönguferð í fagurri náttúru staðarins og eiga kyrrðarstund í einveru uppi við krossinn, og ef munkaklaustur verður staðsett þar má jafnvel gera ráð fyrir að munkarnir muni taka á móti gestum. Þeir sem notið hafa gestrisni klausturfólks og hlýlegrar nærveru þess vita að fátt jafnast á við slíkt. Slíkur staður gæti orðið staður íhugunar og andlegrar endurnýjunar fyrir neysluþreytt og ferðalúið nútímafólk sem orðið er leitt á innantómri afþreyingu.
Ísland á ekki bara Úlfljótsvatn sem vakið gæti áhuga ferðamanna sem ferðast í trúarlegum tilgangi. Hér má sjá yfirlit yfir nokkra áhugaverða helgistaði kristninnar á okkar landi: http://www.kirkju.net/index.php/sumarie-er-timi-pilagrimsferea?blog=8