« Heil. Jóhannes af Krossi: Um vöku Drottins í mannshjartanuEiningarkirkjan á Norðurlöndunum verður reist við Östenbäckklaustrið í Svíþjóð »

03.02.08

  13:04:38, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 449 orð  
Flokkur: Bænalífið

Kristsrósakransinn – náðarrík hjálp í samlíkingunni við hið Alhelga Hjarta Jesú

Rósakransinn er hafinn með hefðbundnum hætti með Dýrðarbæninni, Faðirvorinu og Heil sért þú . . . á hinum þremur hefðbundnu perlum. Það sem er sérkenni hans er hið Alhelga Hjarta Drottins.

Á fyrstu deildinni er beðið (10 x):

Alhelga Hjarta Jesú. Líknarríkt náðardjúp loga lifandi elsku. Miskunna þú mér syndugum manni svo að mitt bersynduga hjarta samlíkist þér í náðinni í brennandi logum elsku þinnar. Amen.

Á stóru perlunni er síðan beðið:

Blíða og flekklausa Hjarta Maríu. Umvef okkur í hjúpi verndar þinnar eins og Juan Diego á Tepeyachæðinni í Mexíkó forðum.

Heilagur Jósef og ástvinur hins Alhelga Hjarta Jesú og hins Flekklausa Hjarta Maríu. Bið þú fyrir mér syndugum manni svo að ég öðlist náð til að sjá hið Óskapaða ljós í hreinleika hjartans.

Á annarri deildinni er síðan beðið fyrir öllum mönnum eða eins og heil. Silúan frá Aþosfjalli sagði: „Bræður okkar og systur eru líf okkar.“ Því segjum við:

Alhelga Hjarta Jesú. Líknarríkt náðardjúp loga lifandi elsku. Miskunna þú okkur syndugum mönnum svo að bersyndug hjörtu okkar samlíkist þér í náðinni í brennandi logum elsku þinnar. Amen.

Þannig höldum við áfram á víxl allar deildirnar og endurtökum ákallið til Guðsmóðurinnar og heil. Jósefs á stóru perlunum á milli deildanna.

Það var heil. Jóhannes sem hallaði sér að hjarta Drottins í kvöldmáltíðinni í loftherberginu, lærisveinninn sem hann elskaði mest af öllum. Jóhannes stóð einnig á krosshæðinni ásamt Maríunum þremur og sá með eigin augum þegar rómverski hermaðurinn rak spjótið í síðu Drottins þannig að það gekk upp til Hjartans og sá vatnið og blóðið streyma fram. Það var þetta lifandi vatns sem Drottinn gaf samversku konunni að bergja af við brunninn. Þegar við stöndum í sporum heil. Jóhannesar undir krossinum drýpur dreyri hins heilaga blóðs Drottins á okkar eigin hjörtu og hreinsar þau af allri synd.

Drottinn metur Kristsrósakransinn mikið og hlýðir á miskunnaráköll okkar eins og hann lagði eyra við miskunnarákalli ræningjans á krossinum.

Fyrstu áhrif bænarinnar birtast í hjartaklökkvanum sem ummerki um nærveru Drottins í okkar eigin verundardjúpi. Síðan taka hjörtu okkar að brenna í elsku hans eins og lærisveinanna á veginum til Emmaus. Þá lýkur hann upp andlegum skilningi okkar (nous) eins og lærisveinanna svo að þeir skildu Ritningarnar. Þannig rætist fyrirheit hans: „Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá“ (Mt 5. 8)

Honum sé dýrðin að eilífu og um aldir alda!

No feedback yet