« Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 13Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 12 »

17.10.07

  17:39:07, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 232 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Kristsboðinn á austurhimnum

Alltaf hlýnar mér um hjartaræturnar um miðbik októbermánaðar þegar Kristsboðinn birtist á himinhvolfinu. Hér á ég við Konungsstjörnuna (Regúlus) í Ljónsmerkinu. Fögur var hún í morgun þegar hún ljómaði yfir Reykjavík í heiðskýrunni rétt fyrir dagmál.

Undarlegt er til þess að hugsa að það var einn prestkonunga Adamskynslóðarinnar – Enok – sem gerði þessa fögru stjörnu að tákni Mannssonarins sem gekk með hinum Aldna aldanna.

Konungstjarnan boðar okkur að jólin nálgist nú óðum og þannig mun hún rísa hærra yfir sjónbaug með hverjum deginum sem líður fram til jóla og færast yfir á suðurhvolf himins.

Allur endurómar þessi sannleikur í 19. Davíðssálminum:

Himnarnir segja frá Guðs dýrð,
og festingin kunngjörir verkin hans handa.
Hver dagurinn kennir öðrum,
hver nóttin boðar annarri speki.
Engin ræða, engin orð,
ekki heyrist raust þeirra.
Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina,
og orð þeirra ná til endimarka heims.
Þar reisti hann röðlinum tjald.
Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu,
hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.
Við takmörk himins rennur hann upp,
og hringferð hans nær til enda himins,
og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans . . .

No feedback yet