« Af ummælum erkibiskupsins í MósambikLífið er ekki mannsins að gefa né taka »

23.09.07

  12:31:36, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1001 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni, Trúarpælingar

Kristindómurinn hafnar fíkninni ákveðið og alfarið

Fregnir af því þegar yfirvöld náðu að stöðva stórfellt fíkniefnasmygl í skútu til landins í vikunni hafa skiljanlega valdið umtali og umhugsun. Magnið sem gert var upptækt sýnir svo ekki verður um villst að markaður fyrir eitrið er orðinn allt of stór hér á landi. Hvað veldur? Er þessi fíkn eitthvað nýtilkomin? Hefur fíknin ekki alltaf verið vandamál? Nútímasamfélagið er flókið fyrirbæri en þó á því megi sjá galla þá hefur það líka marga kosti. Margbrotið og kröfuhart lífið í því getur þó líklega verið erfitt fyrir suma að höndla og þá er að grafast fyrir um ástæður.

Þættir eins og félagsleg einangrun spila þar inn í en trúlega einnig rótleysi og tengslaleysi við menningu og uppruna. Líklegt er að fólk sem ekki hefur mótað sér neina jákvæða og uppbyggilega lífsskoðun, þ.e. hefur ekki fundið sig að neinu marki í lífinu sé í áhættuhópi hvað fíkn varðar. Jóhann Sigurjónsson orti:

Reikult er rótlaust þangið
rekst það um víðan sjá,
straumar og votir vindar,
velta því til og frá

En eru ekki allar lífsskoðanir og trúarbrögð eins og því jafngild? Nei - hæpið er að halda því fram. Eitt af einkennum kristninnar er t.d. að hún heldur skýrt fram hinum góða tilgangi lífsins. Sjá hér: [Tengill]. Eitt af því sem einkennir menninguna og hefur trúlega alltaf gert að einhverju marki er hömluleysi - að 'sleppa fram af sér beislinu' hefur ekki þótt hafa á sér neikvæðan blæ. Hugtakið um 'útrásina' sem gjarnan er haldið að fólki er þó athugunar vert. Fólk á að fá útrás fyrir þetta og hitt. Útrásarhugtakið er ekki nýtt og það á trúlega rætur sínar að rekja til 'kaþarsis' hugtaks Aristótelesar sem hann notaði til að lýsa listrænum áhrifum spennufalls í harmleik síns tíma á áhorfendur. Hugmyndin um 'útrásina' í nútímanum virðist þó vera frekar óljós en hún virðist geta átt við æði margt.

Hér er komið að kjarna málsins en hann er sá að útrásarhugtakið hentar ekki og hjálpar alls ekki til að varpa neinu allsherjarljósi á hegðun manna. Atferlisvísindi nútímans færa einmitt heim sanninn um að hið gagnstæða er frekar tilfellið. Hegðun styrkist þeim mun meir sem hún er endurtekin oftar. Ef maður neytir fíkniefna í þeim tilgangi að fá útrás fyrir vanlíðan sína hvort sem hún stafar af einmanaleika, streytu eða þreytu þá eru allar líkur á að hann styrki þetta hegðunarmynstur. Það atferli sem fyrir valinu verður hverju sinni styrkist. Hér haldast trú og skynsemi í hendur því lífsviðhorf kristninnar nálgast manninn eins og efnivið sem er í stöðugum vexti, nánast eins og tré sem hægt er að klippa og móta. Sjá t.d. þessa tilvitnun í Mattheusarguðspjall:

Ef hægra auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr og kasta frá þér. Betra er þér, að einn lima þinna glatist, en öllum líkama þínum verði kastað í helvíti. Ef hægri hönd þín tælir þig til falls, þá sníð hana af og kasta frá þér. Betra er þér, að einn lima þinna glatist, en allur líkami þinn fari til helvítis.

Þessi tilvitnun hefur trúlega oft orðið mönnum umhugsunarefni. Hvað ef taka ætti Krist bókstaflega hér? Það hefur samt enginn gert svo sögur fari af því hér á Kristur við hinn andlega líkama mannsins og vísar til hins andlega vaxtar. Hann horfir í hina áttina þegar ástæða er til og hann lætur vera að lyfta hönd til illra verka eða ganga veg glötunarinnar. Kristindómurinn hafnar fíkninni því ákveðið og alfarið.

Fyrir kemur að sumir herskáir trúleysingjar halda því fram að kristnin sé ekkert annað en vitleysa sem fólk hafi úr 2000 ára gömlum bókum. 'Hver myndi styðjast við 2000 ára gömul sjókort' heyrðist í umræðunni fyrir nokkrum mánuðum. Þetta gerist þrátt fyrir að boðskapur Krists sanni sig aftur og aftur. Hugmyndir á borð við fyrirgefningu, iðrun, siðferðilegan vöxt andans og hvatningar til góðverka virðast ætla að eldast býsna vel. Nútímafólk stendur frammi fyrir vali. Það getur valið óljósar hugmyndir um útrás, hömluleysi og taumleysi. Það er frjálst að velja lífsskoðanir tómhyggju eða efahyggju sem boða óljósan eða engan sérstakan tilgang lífsins, það er frjálst að velja trúarbrögð sem gera engar sérstakar kröfur til siðlegrar breytni, það er frjálst að því að gera upp á milli stóru trúarbragðanna, það er frjálst að velja einhverja hliðargrein kristninnar og það er frjálst að því að velja einu kristnu trúarbrögðin sem sannanlega byggja á næstum 2000 ára gamalli órofinni hefð, þ.e. kaþólsku kristnina. Hafir þú ekki gert upp hug þinn um hvað þú átt að velja lesandi góður þá skaltu ekki hafna kaþólsku kristninni fyrirfram eða vegna þess sem hatursmenn hennar segja um hana. Rannsakaðu hana sjálfur, með því að heimsækja kaþólska kirkju, eiga þar stund íhugunar eða jafnvel fá að spjalla við kaþólskan prest eða reglusystur. Karmelklaustrið í Hafnarfirði er t.d. einn af þeim stöðum bæna og íhugunar sem hægt er að heimsækja til að eiga kyrrðarstund. Þar eru daglegar messur virka daga kl. 8.00 og sunnudaga kl. 8.30. Þangað eru allir velkomnir. Gengið er inn í kapelluna um hægri dyr. Sjá www.karmel.is.

No feedback yet