« Úr Sumarljóðum 1991Sinnaskipti fósturdeyðingarmanna, eftir Frank Pavone »

21.07.06

  13:56:30, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 719 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Siðferði og samfélag, Kristindómur og stjórnmál

Kristin þjóðmálahreyfing

Eftirfarandi bréf sendi ég allmörgum vinum, er ég hafði fengið mig fullsaddan af fregnum af sorglegum uppákomum veraldarhyggjunnar á Íslandi.

Rvík, 5. febr. 2005. – Sælir, kristnu bræður, og gleðilegt nýtt ár.
– Fundarboð í dag um hugsanlegt 'kristilegt framboð', sennilega á vegum sömu aðila og staðið hafa að slíku áður, vakti mig til umhugsunar. Reyndar hef ég ekki áhuga á því framboði – er og hef verið í öðrum flokki og mun reyna að vinna þar að málum áfram, ekki sízt kristnum siðgæðismálum, svo sem fósturvernd og varðstöðu um fjölskylduna o.m.fl. Hitt er annað mál, að mér finnst að kristnir menn í öllum flokkum og utan allra flokka eigi að mynda með sér samband til að kanna möguleika á samstöðu um helztu mál og knýja á um kristnar áherzlur á ýmsum vettvangi, m.a. í pólitísku flokkunum og einstökum félögum þar, s.s. ungliðadeildum og staðbundnum félögum. Eins getur þetta orðið heildarvettvangur til að örva til aðgerða, til dæmis mótmælagöngu gegn fóstureyðingum, sem eru okkar stærsta siðferðisböl og mest knýjandi úrlausnarefni. Og með ýmsum hætti gæti slíkt heildarsamband kristins fólks innan og utan stjórnmálaflokka orðið hvatning til þess, að í stjórnmálaflokkunum verði stofnaðir kristnir málefnahópar eða til dæmis vinnuhópar um lífsverndarmál.

Slíkir hópar gætu þá tekið að sér verkefni eins og gerð kynningar- eða upplýsingabæklings, sem dreift yrði aðallega innan viðkomandi flokks, enda skrifaður með hliðsjón af grundvallarstefnu þeirra flokka, hvers fyrir sig; einnig að funda skipulega og móta þar stefnuna og markmiðin, eins og hæfir bezt í viðkomandi flokki, og leggja svo til ræðumenn á landsfundum eða þingum flokkanna eða ungliðasambanda o.s.frv., fyrir utan það sjálfsagða mál að koma sér upp heimasíðu eða vefsetri.

Þetta kann að virðast áhorfsmál, en þá má gera þá athugasemd, að það verður alltaf erfitt verkefni að tryggja kristnum stefnumálum framgang á Alþingi. Ég held við verðum að vinna á ýmsan hátt í grasrótinni og meðal annars byggja upp starfsemi af því tagi, sem ég lýsti hér, þ.e. eins konar regnhlífarsamtök kristins fólks, sem vill vinna að heilbrigðu þjóðlífi og siðferði, þótt það greini kannski á um leiðirnar og hina ýmsu farvegi að þeim markmiðum. Sjálfum hefur mér áður flogið í hug nafnið Kristin þjóðmálahreyfing um slík allsherjarsamtök. Þau yrðu þá ekki ópólitísk ("ópólitísk" í þeirri merkingu, að þar verði ekkert fjallað um pólitík), en yrðu vitaskuld að vera gersamlega laus við að vera 'flokkspólitísk' (t.d. í þeirri mynd, að einn flokkanna gæti hugsað sér að "taka yfir" samtökin), því að það sem sameinar á einungis að vera kristin trú og siðferðisviðhorf og vilji til að vinna þjóð sinni vel. Hitt er annað mál, að þar geta menn kynnt það, hvað hver hópur innan samtakanna er að gera á sínum flokksvettvangi, til þess að við lærum hvert af öðru.

Þótt það verði mikið átak að koma slíkri kristinni þjóðmálahreyfingu af stað, þá hygg ég, að með því vinnist, að eftirleikurinn verði þeim mun léttari.

Með góðum óskum.
Jón Valur Jensson.

---------------
Hr. Árni Björn Guðjónsson sendi mér í dag [5/2/2005] eftirfarandi fundarboð:

Kristilegt framboð. Áhugahópur um kristilegt framboð býður þér á fund laugardaginn 5. febr. kl. 16:00 í Færeyska sjómannaheimilinu við Skipholt í Reykjavík. Þekkir þú einhverja sem gætu haft áhuga á málefninu, þá er þér velkomið að taka þá með. Fundarmenn eru óbundnir af nokkurs konar loforðum, en þetta getur orðið fullkomið tækifæri fyrir þig til að leggja af mörkum kristilegar áherslur og skoðanir inn í stjórnmálin á Íslandi.

PS. Smálagfæringar á orðalagi mínu hafa verið gerðar hér vegna þessarar netútgáfu. JVJ.

No feedback yet

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution CMS