« Spaugstofumenn þurfa – og fá – gagnrýniFellið vændismálið! - Opið bréf til þingheims og dómsmálaráðherra »

28.03.07

  20:50:44, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 608 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Siðferði og samfélag, Kristindómur og stjórnmál

Kristin stjórnmálasamtök – kristinn flokkur?

Þann 9. marz hófst á vefsvæði Morgunblaðsins birting greina á vefsetri nýrra, kristinna stjórnmálasamtaka. Pistlarnir eru ekki birtir undir nafni (heldur K1, K2, K3 o.s.frv.), en nú þegar er þar samt ýmislegt áhugavert að finna, eins og sjá má á yfirskrift greina á borð við Hver er þessi flokkur kristinna lífsgilda?, Sé fjölskyldan sterk, munu aðrir þættir þjóðfélagsins eflast, Friðun og verndun (um nauðsyn fósturverndar) og Gjöldum varhug við frumvarpi um tilraunir á stofnfrumum. (Vel að merkja var það frumvarp ...

ekki afgreitt á því Alþingi, sem nú var að ljúka störfum, en full ástæða er til að vera á varðbergi, því að áformað er að halda vor- eða sumarþing, sem skeinuhætt getur orðið kristnum siðferðisgildum eins og allnokkur fyrri löggjafarþingin.)

Einnig er fylgzt með hinu afleita vændismáli á nefndri síðu, sjá þar greinina "Verið að lögleiða vændi á Íslandi". Má segja, að þar sé höfðinu ekki stungið í sandinn, eins og sjá mátti við lestur leiðara Fréttablaðsins í gær, þar sem því er blákalt haldið fram, að vændi sé ólöglegt á Íslandi þrátt fyrir hina nýju lagasetningu!

Á títtnefndu vefsetri er einnig gerð nokkuð skipuleg grein fyrir viðhorfum samtakanna til þjóðmála og verkefna á stjórnmálasviði, ekki sízt í tveimur samhangandi pistlum undir heitinu Stefna kristilegs stjórnmálaafls.

Hér skal enginn dómur lagður á gæði þessara skrifa, heldur er lesendum látið það eftir að dæma um það, hver fyrir sig.

Ekki hefur hin kristna vefsíða farið á mis við gagnrýni, einkum all-hastarlega strax á fyrsta degi af hálfu femínista. Mátti þá mörgum sýnast sem fljótt væri farið út í að dæma viðkomandi stjórnmálasamtök, áður en þau höfðu haft tækifæri til að kynna nokkuð hugmyndir sínar að heitið gæti. Í dag birti Framsóknarmaður og frambjóðandi hér í borg, Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, stuttan pistil, en efnislítinn um nefnd samtök. Má ýmsum virðast sem hann sé órór og áhyggjufullur yfir tilurð þessara nýju samtaka.

Tíminn verður að leiða í ljós, hvort stjórnmálahugsjón reist á kristnum gildum eigi framtíð fyrir sér hér á landi. Vonandi verður þess ekki langt að bíða, að samtök þessi geti betur komið fram í dagsljósið, að greinarhöfundar fari að skrifa þar undir nafni og að almenningur fái tækifæri til að kynnast samtökunum á opnum kynningar- eða félagsfundi.

Lesendum Kirkjunetsins sendi ég góða kveðju mína og bið þá afsökunar á því, hve óvirkur ég hef verið hér í skrifum alllengi, en í staðinn hef ég verið þeim mun virkari að byggja upp mínar Moggabloggsíður, sem kallast Lífið og lífsgildin*, og hef verið að kynna ýmis málefni, m.a. að verja þar kristin gildi, t.d. í vændismálinu (á um það ýmsar greinar nýlega og fleiri á leiðinni). Þá má einnig lesa þar fjörug skoðanaskipti við andmælendur mína og samherja í málum. Ein nýjasta grein mín þar ber heitið Almannafé ausið í samkynhneigða, grein sem rituð var af ærnu tilefni og fekk mikinn fjölda heimsókna í nokkra daga (um 1700 á birtingardaginn). Alls hafa nú 36.133 heimsóknir verið skráðar á nefnt bloggsetur mitt frá upphafi, en 4293 síðustu sjö dagana.
------------------------
Til að komast inn á Moggablogg mitt, sláið inn: jonvalurjensson.blog.is.

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Í dag er mikið skrifað um vændismálin á þessari síðu kristinna stjórnmálasamtaka, einkum með hliðsjón af því, að komið er í ljós í nýbirtri skoðanakönnun, að 70% almennings vilja, að teknar verði upp refsingar við vændiskaupum. Stjórnmálamennirnir voru einfaldlega ekki í takt við hug sinnar þjóðar, þegar þeir opnuðu á vændisrekstur í þessu landi !

31.03.07 @ 12:23
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

free blog software