« Um íslamismann, naívismann og guðlastsákvæðinFocolare hreyfingin telur nú 2 milljónir meðlima »

21.05.08

  20:14:41, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 965 orð  
Flokkur: Páfinn, Önnur trúarbrögð

Krefst páfinn tilbeiðslu allra manna?

Á dögunum barst mér í hendur bókin „Deilan mikla milli Krists og Satans“ eftir Ellen G. White sem gefin er út af Frækorninu - bókaforlagi Aðventista í Reykjavík. Eintakið sem ég er með í höndunum er önnur útgáfa 2003. Í 3. kafla bókarinnar er miklu rými varið í ádeilu á rómversk-kaþólsku kirkjuna fyrr á öldum og páfadóminn eins og sjá má t.d. á blaðsíðu 34:

Þegar Konstantín gerðist kristinn að nafninu til á öndverðri fjórðu öld, vakti það mikinn fögnuð og heimshyggjan gekk inn í kirkjuna sveipuð sýndarréttlæti. Nú komst skriður á spillinguna. Heiðindómurinn sem í orði kveðnu átti að heita sigraður var hinn raunverulegi sigurvegari. Andi hans réð lögum og lofum í kirkjunni. Heiðnar kenningar, siðir og hindurvitni voru felld inn í trúariðkanir og tilbeiðslu þessara svonefndu fylgjenda Krists. Málamiðlunin milli heiðindóms og kristni hafði í för með sér tilkomu „manns syndarinnar“ sem spáð hafði verið að koma mundi til að berjast gegn Guði og hreykja sér yfir hann. Þetta risavaxna kerfi falstrúar er meistaraverk valds Satans ..

Látum vera þó lýsingarnar séu málaðar býsna sterkum dráttum og aðstæður túlkaðar einhliða páfadóminum í óhag, það er ný og gömul saga, en það sem kom mér samt á óvart að höfundurinn virðist missa sig í frásagnargleði sinni og útlistunum út í beinar missagnir og rangfærslur. Tökum dæmi af blaðsíðu 35 þar sem segir:

Það er ein meginkenning rómversku kirkjunnar að páfinn sé hið sýnilega höfuð allsherjarkirkju Krists og í höndum hans sé hið æðsta vald yfir biskupum og prestum í öllum hlutum heims [þetta er ekki rangt]. Og það sem meira er, [hér fer höfundurinn á flug]páfanum hefur verið eignað guðlegt vald [sic!] Hann hefur verið nefndur „Drottinn Guð páfinn“ [sic!!] og sagður óskeikull [óskeikulleiki páfans er rétt fullyrðing hvað varðar siðfræðileg og trúarleg úrskurðarefni á kirkjuþingum og merkir í raun að hann hafi úrskurðarvald]. Hann krefst tilbeiðslu allra manna. [sic!!! leturbr. RGB]. Sama krafan, sem djöfullinn bar fram í eyðimörk freistingarinnar, er enn framborin af honum með tilstilli rómversku kirkjunnar..[sic!!!! leturbr. RGB]

Ég er búinn að vera kaþólskur síðan 1987 og hef lesið töluvert um kaþólska trú en aldrei hefur mér verið boðað að setja skuli páfann á þann stall sem talað er um þarna, að kalla hann Drottin Guð páfann né heldur hef ég séð þess merki að hann hafi nokkurn tíma verið tilbeðinn og aldrei hef ég séð neinar heimildir um slíkt í kirkjusögunni. Hafi það verið gert nokkurn tíma þá hefur það verið einhver kyndug sérviska. Páfinn krefst svo sannarlega ekki tilbeiðslu allra manna og hann er ekki af neinum kaþólikka kallaður 'Drottinn Guð páfinn', því það væri gróft brot á fyrsta boðorðinu. White tilgreinir heldur engar heimildir og er því ekki trúverðug hvað þessar fullyrðingar varðar. Mínar fyrstu hugsanir voru að það væri í rauninni ótrúlegt að nútímafólk skyldi setja aðra eins dellu á blað og bera á borð fyrir nútímalesendur. En bíðum við. Hver er Ellen G. White? Í Wikipedia alfræðiritinu kemur fram að þessi kona var:

Ellen Gould White (née Harmon) (November 26, 1827 - July 16, 1915), born to Robert and Eunice Harmon, was an American Christian leader whose prophetic ministry was instrumental in founding the Sabbatarian Adventist movement that led to the rise of the Seventh-day Adventist Church.

Aha. Konan er fædd árið 1827 og dáin árið 1915. Það gat varla verið að nútímakona setti nafn sitt við annað eins og hér hefur verið tilvitnað því aðstæður hafa breyst hvað varðar upplýsingaflæði á þeim liðlega hundrað árum sem hljóta að vera liðin frá ritun bókarinnar. Á þeim tíma var eflaust mun auðveldara að fara með rangt mál því upplýsingar bárust hægt á milli manna en í dag berast leiðréttingar í alla króka og velflesta menningarkima með upplýsingaveitum nútímans. Eftir stendur að í þessu tilfelli eru það nútímamenn sem halda áfram að bera aldagamlar ragnfærslurnar á borð fyrir nútímafólk. Í nafnlausum formála þar sem ritað er undir 'Útgefandi' er ekki minnst einu orði á eða gefið í skyn með neinum hætti að farið sé með rangt mál um páfann heldur er sagt m.a.:

„Tilgangur þessarar bókar er að hjálpa kvíðinni sál að finna rétta lausn allra þessara vandamála[sic!]“ ... „Fyrri útgáfur bókarinnar hafa leitt margar sálir til hins sanna hirðis“[sic!!]

Ekki skal það lastað að reynt sé að leiða sálir til hins góða hirðis en að það sé gert með þessum hætti árið 2008! Þar sem ég ber virðingu fyrir aðventistum og mörgu góðu starfi þeirra þá læt ég hér staðar numið. Ég trúi einfaldlega ekki að það góða fólk sem þann söfnuð fyllir láti í fyrsta lagi segja sér annað eins, né heldur að það reyni að halda þessu á lofti og hlýt að ætla að birting þessara setninga í téðri bók án athugasemda í formála eða neðanmálsathugasemda á blaðsíðu hljóti að vera mistök sem muni verða leiðrétt í næstu útgáfum Frækornsins af bókinni.

8 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Sammála er ég þér, Ragnar, að dapurlegt er að sjá hvernig ýmsir söfnuður meðal mótmælenda halda blygðunarlaust áfram að halda fram rangfærslum hvað áhrærir kaþólsku kirkjuna. Það dæmi sem þú tiltekur er ekki einsdæmi. Stundum hef ég horft á sjónvarpsstöðina Omega og þar halda lúterskir prédikarar þessari iðju stöðugt áfram með því að halda fram ýmsum rangfærslum um kaþólsku kirkjuna og iðulega er ekki unnt annað en að draga þá ályktun, að þeir tali gegn betri vitund: Séu bókstaflega að blekkja fólk! Ákveðið sannleikskorn býr þó að baki „hnignunar“ kirkjunnar á fjórðu öld:

Fyrstu þrjár aldirnar í sögu kirkjunnar voru meðlimir hennar að stórum hluta andlegir menn og konur. Þau urðu að fórna miklu til þegar þau játuðu trú sína fyrir mönnum. Kirkjan var samfélag heilagra, játenda og píslarvotta og í fjölmörgum tilvikum urðu hin heilögu að bera trú sinni vitni með því á úthella blóði sínu. Á þessu varð róttæk breyting þegar Konstantín keisari (280?-337) gerði kristindóminn að ríkistrú Rómaveldis árið 313 e. Kr. Fólk streymdi í kirkjuna og ný tegund trúaðra varð til: Hinn nafnkristni maður:

Þetta fólk lifði á útjöðrum kirkjunnar, líkt og gerist enn í dag, og sótti guðsþjónustur af og til að eigin geðþótta og játaði stofnunarkirkjuna með varajátningu, en hirti ekkert um hinn innri og andlega boðskap Krists hvað áhrærði hlutverk náðargjafanna sem guðdómlegar gjafa sem ætlaðar voru til að byggja upp hinn lifandi líkama og meðlimi hans. Áherslan á koinonia eða samfélag hinna heilögu var höfuðeinkenni fornkirkjunnar. Hið fyrra andrúmsloft guðrækni og helgunar breyttist með svo afgerandi hætti á einum mannsaldri, að Jóhannes Krýsostom sagði þegar hann vék að náðargjöfum fyrri tíma að „mörg þau kraftaverk sem áttu sér stað þá, hafa nú horfið með öllu“ [1].

Þann lærdóm sem draga má af kirkjusögunni á því tímaskeiði sem páfavaldið varð að leiksoppi kauphéðna í Feneyjum má draga saman í þessum orðum: Veikt páfavald, kirkja í nauð.

Enginn gagnrýndi misbeitingu páfavaldsins á tímum Mediciættarinnar eins harkalega eins og hin heilögu kirkjunnar (Hl. Katrín frá Siena m.a.)

Dante stakk þannig einum þessara páfa kauphéðnanna á haus í miðju víti í Divina Commedia. Eins og við vitum báðir er páfi einungis óskeikull (og það einungis í trúarlegum og siðrænum efnum), ef hann lætur stjórnast af Heilögum Anda og í fullu samráði við hina alheimslega biskupastefnu. Þá er hann klettur (Pétur).

[1]. Tilvísun úr Christian Initiation and Baptism in the Holy Spirit, bls. 253.

22.05.08 @ 10:00
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Jón. Já vissulega er margt til í gagnrýni á kirkjunnar menn en að þeir hafi kallað páfann ‘Drottin Guð páfann’ hef ég bara aldrei heyrt áður. Ætli Ellen G. White hafi dottið þetta í hug sjálfri? Svo er niðurstaða hennar, þ.e. að rómarkirkja beri fram fyrir hina trúuðu freistingu djöfulsins með algerum ólíkindum og merkilegt að upplýst nútímafólk skuli hampa þessum rithöfundi og endurútgefa hvað eftir annað.

22.05.08 @ 13:54
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Hjartanlega sammála þér en einhver komst svo að orði að með því að endurtaka sömu fásinnuna nægilega oft tækju fávísar sálir að trúa henni. Til þess er leikurinn gerður.

Ég get ekki með neinum hætti séð að það sé unnt að kenna hinum heilögu kirkjunnar um „tvískinnungshátt“ vegvilltra manna, fyrrum fremur en í dag, fólks sem gengur í kirkjuna af einhverjum dularfullum ástæðum líkt og Tony Blair í Englandi sem sannarlega hefur hneykslað kaþólska í Englandi.

22.05.08 @ 14:05
Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Ég rakst á þetta á þessari síðu (http://egwdatabase.whiteestate.org):

REVISIONS ADOPTED BY THE E. G. WHITE TRUSTEES NOVEMBER 19, 1956,
AND DECEMBER 6, 1979

PAGE 50. TITLES.–IN A PASSAGE WHICH IS INCLUDED IN THE ROMAN CATHOLIC CANON LAW, OR CORPUS JURIS CANONICI, POPE INNOCENT III DECLARES THAT THE ROMAN PONTIFF IS “THE VICEGERENT UPON EARTH, NOT OF A MERE MAN, BUT OF VERY GOD;” AND IN A GLOSS ON THE PASSAGE IT IS EXPLAINED THAT THIS IS BECAUSE HE IS THE VICEGERENT OF CHRIST, WHO IS “VERY GOD AND VERY MAN.” SEE DECRETALES DOMINI GREGORII PAPAE IX (DECRETALS OF THE LORD POPE GREGORY IX), LIBER 1, DE TRANSLATIONE EPISCOPORUM, (ON THE TRANSFERENCE OF BISHOPS), TITLE 7, CH. 3; CORPUS JURIS CANONICI (2D LEIPZIG ED., 1881), COL. 99; (PARIS, 1612), TOM. 2, DECRETALES, COL. 205. THE DOCUMENTS WHICH FORMED THE DECRETALS WERE GATHERED BY GRATIAN, WHO WAS TEACHING AT THE UNIVERSITY OF BOLOGNA ABOUT THE YEAR 1140. HIS WORK WAS ADDED TO AND RE-EDITED BY POPE GREGORY IX IN AN EDITION ISSUED IN 1234. OTHER DOCUMENTS APPEARED IN SUCCEEDING YEARS FROM TIME TO TIME INCLUDING THE EXTRAVAGANTES, ADDED TOWARD THE CLOSE OF THE FIFTEENTH CENTURY, ALL OF THESE, WITH GRATIAN’S DECRETUM, WERE PUBLISHED AS THE CORPUS JURIS CANONICI IN 1582. POPE PIUS X AUTHORIZED THE CODIFICATION IN CANON LAW IN 1904, AND THE RESULTING CODE BECAME EFFECTIVE IN 1918. {GC 679.1}

FOR THE TITLE “LORD GOD THE POPE” SEE A GLOSS ON THE EXTRAVAGANTES OF POPE JOHN XXII, TITLE 14, CH. 4, DECLARAMUS. IN AN ANTWERP EDITION OF THE EXTRAVAGANTES, DATED 1584, THE WORDS “DOMINUM DEUM NOSTRUM PAPAM” ("OUR LORD GOD THE POPE") OCCUR IN COLUMN 153. IN A PARIS EDITION, DATED 1612, THEY OCCUR IN COLUMN 140. IN SEVERAL EDITIONS PUBLISHED SINCE 1612 THE WORD “DEUM” ("GOD") HAS BEEN OMITTED. {GC 679.2}

Ég nenni nú ekki að athuga þetta, hef hvorki mikla trú á heimildarvinnu White né fylgismönnum hennar.

28.06.08 @ 19:08
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Hjalti. Svo virðist sem þessi titill hafi birst í einhverjum ‘extravagantes’ viðaukum og komið fyrir í lagatexta kirkjuréttarins á tímabilinu frá 1584-1612 og byggi á þeirri forsendu að páfinn sé staðgengill eða ráðsmaður Krists. Hvað varðar fullyrðinguna um að titillinn fái lagagildi frá 1918 veit ég ekkert um. Greinilegt er að það þarf kunnáttumenn í kirkjurétti til að rekja slóð þessa undarlega titils, en ef marka má heimildirnar þá hefur hann komið fram og þetta er ekki skáldskapur hjá White þó líklega sé þarna um eitthvað óvenjulegt jaðartilfelli að ræða. Hin fullyrðingin að páfinn krefjist tilbeiðslu allra manna er líka sérlega brött og ef hún er líka byggð á einhverjum viðaukum aftan úr öldum þá er nú hæpið að ætla að byggja heildstætt mat á henni sömuleiðis. Sú setning er þó höfð í nútið hjá White. En fróðlegt er þetta og fróðlegt væri að fá fleiri athugsemdir um þetta inn á síðuna. Það getur skýrt hvernig þessir gagnrýnendur páfadómsins búa sér til málstað.

29.06.08 @ 12:29
Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Mig grunar nú að upphaflegu heimildirnar séu ekki þessi skjöl sem þessi nefnd vísaði í árið 1956 og 1979. Heldur hafi White lesið einhver and-kaþólsk áróðursrit hjá einhverjum mótmælendum. Ég hef ekki mikla trú á rannsóknarvinnu hennar.

Annars kom einn fylgjandi hennar (mofi) með tilvitnanir sem virðast vera mjög “háleitar” varðandi páfann hérna: http://mofi.blog.is/blog/mofi/entry/582174

Það væri gaman að fá að heyra hvað þið hafið að segja um þær fullyrðingar.

02.07.08 @ 15:50
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Allar þessar upplýsingar um páfann er að finna í trúfræðsluritinu sem er til á íslensku í bráðabirgðaútgáfu. Hérna er t.d. staða páfans skýrð nákvæmlega:

Félagshópur biskupanna og höfuð hans, páfinn

880. (552, 862) Þegar Kristur grundvallaði þá tólf “skipaði hann þá í félagshóp eða sérstakan flokk, og setti Pétur, er hann valdi úr hópi þessum, sem yfirmann þeirra”: [14] “Heilagur Pétur postuli og hinir postularnir mynduðu einn postullegan félagshóp, eins og vilji Drottins var að þeir gerðu; og á sama hátt eru hinn rómverski yfirbiskup, sem eftirmaður heilags Péturs, og biskuparnir, sem eftirmenn hinna postulanna, tengdir saman.” [15]

881. (553, 642) Drottinn gerði Símon, sem hann nefndi Pétur, einn að “kletti” kirkju sinnar. Hann gaf honum lykla kirkju sinnar og skipaði hann hirði allrar hjarðarinnar. [16] “Lyklavaldið sem veitt var heilögum Pétri var einnig veitt hinum postulunum, er voru í samneyti við höfuðið.” [17] Hirðisembætti Péturs og hinna postulanna er hluti af sjálfum grundvelli kirkjunnar og því er haldið áfram af biskupunum undir forystu páfans í krafti yfirtignar hans.

882. (834, 1369, 837) Páfinn, biskup Rómar og eftirmaður Péturs, “er hin stöðuga og sýnilega uppspretta og grundvöllur einingar biskupa kirkjunnar og allra þeirra er Krist játa”. [18] “Því það er í krafti embættis hans sem staðgengill Krists og yfirhirðir allrar kirkjunnar, að hinn rómverski biskup hefur algert, æðsta og algilt vald yfir allri kirkjunni; hann getur og einnig notað þetta vald sitt óhindraður.” [19]

Sjá: http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/871.html. Ég held ég sé ekkert að svara Mofa sérstaklega. Hann getur kynnt sér þessi mál ef hann ætlar að skrifa um þau. Ég veit ekkert úr hvaða bókum þessar ensku tilvitnanir hjá honum eru teknar eða í hvaða samhengi þær eru settar fram. Ég sé þó að það sem kemur fram þar síðast, þ.e. að páfinn og Guð séu einn og hinn sami er ekki kenning kaþólsku kirkjunnar. Ég hef aldrei í þau 21 ár sem ég hef verið meðlimur þessarar kirkju heyrt nokkurn mann halda því fram eða neinu sem kemst í hálfkvisti við það. Það að hann sé kallaður staðgengill Krists og yfirhirðir kirkjunnar þýðir ekki að hann geti gert það sem honum sýnist, svo sem búið til ný boðorð eða breytt grundvallarreglum trúarinnar að geðþótta heldur þýðir það að hann er ráðsmaður og yfirhirðir hjarðarinnar og hefur úrskurðarvald í álitamálum sem varðar túlkun erfikenningarinnar og ritningarinnar.

02.07.08 @ 18:49
Athugasemd from: Gunnar Friðrik Ingibergsson
Gunnar  Friðrik Ingibergsson

Það verður nú að viðurkennast Jón Rafn
og Ragnar að þó að ég sé ekki sammála
öllu sem páfinn segir að þá finnst mér
það aðdáunarvert þegar Jóhannes Páll (2)
fyrirgaf manninum sem reyndi að drepa sig
Það eru ekki margir sem myndu gera það.
En þetta er gott fordæmi fyrir okkur hinn
enda verður Benedikt aldrei eins vinsæll
Jóhannes Páll páfi var (2) Eða það er mín s
skoðun.04.07.08 @ 00:19