« Kaþólska fréttasjáin: Vikan 21. til 28. maí 2006Heilög Fílómena blóðvottur – Litli katakompudýrlingurinn »

24.05.06

  14:39:28, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 119 orð  
Flokkur: Bænalífið

Kom þú Heilagur Andi – í tilefni Uppstigningardags

Kom þú, Heilagur Andi,
og send ljósgeisla þinn frá himnum.
Kom þú, faðir fátækra, þú gjafari gæðanna,
og ljós hjartnanna.
Hjálparinn besti, ljúfi gestur sálarinnar,
ljúfa hressing hennar.
Hvíld hennar í erfiði, forsæla í hitum,
huggun í sorgum.
þú blessaða ljós, lát birta til
í hugskoti fylgjenda þinna.
Án þinnar velvildar er maðurinn ekkert,
án þín er ekkert ósaknæmt.
Lauga það sem er saurgað,
vökva það sem er þornað,
græð það sem er í sárum.
Mýktu það sem er stirnað,
vermdu það sem er kólnað,
réttu úr því sem miður fer.
Gef fylgjendum sem treysta þér,
þínar heilögu sjöföldu gjafir.

Amen.

3 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér, Jón Rafn. – Þetta er, lesendur góðir, sequenzían eða sálmurinn þekkti, Veni, Sancte Spiritus, sem sunginn er í kaþólskum messum á hvítasunnu ár eftir ár og öld eftir öld um allan heim. Hann er sennilega frá 11. eða 12. öld [1]; grein um hann er að finna á Catholic Encyclopedia (sjá einnig Google). En hvítasunnu má kalla messu Heilags Anda.

Veni, Sancte Spiritus er hrífandi fallegur texti, eins og við greinum líka á íslenzku þýðingunni hér ofar. Má ég svo bæta við, að ég held mikið upp á þrjár línur þarna, sem virðast kannski hljóma býsna harðar, en eru einungis hin hliðin á þeirri evangelísku, and-pelagíönsku kenningu kirkjunnar, að maðurinn frelsast á engan hátt af eigin verkum, heldur fyrir náð og kraft Guðs: Sine tuo numine nihil est in homine, nihil est innoxium, þ.e.a.s.: “Án þíns andlega máttar er ekkert í manninum, ekkert [það sem] ekki [sé] skaðsamlegt.” Það er sannarlega kaþólsk kenning (og Ágústínusar kirkjuföður og postulans Páls) – og ekki síður kenning okkar lúthersku bræðra (sem og trúlega hvítasunnumanna, sem Vörður Traustason fræðir okkur um, að séu nánast 10 sinnum fleiri en Lútheranar [2]).

Ásamt samþykktum staðbundnu sýnódunnar eða kirkjuþingsins í Orange (Concilium Arausicanum II) í Suður-Frakklandi árið 529 e.Kr. (sem staðfestar voru og viðurkenndar af sama vægi og samþykktir almennra kirkjuþinga af Bonifaciusi II páfa 530) – þess þings sem gekk endanlega frá semi-pelagíanismanum [3] – er Veni, Sancte Spiritus ein skýrasta áminning kaþólsku kirkjunnar til hinna trúuðu að hafna öllu mannsins verkaréttlæti frammi fyrir Guði sínum. Að mínu mati hefur samþykkt Orange-þingsins lykilhlutverki að gegna í þeirri viðleitni höfuðkirknanna að sameina mótmælendur og kaþólska. Mætti það gjarnan með Guðs náð gerast ekki síðar en árið 2029, þegar 1500 ár verða liðin frá þessari tímamótasamþykkt. Mun ég væntanlega skrifa sérstaka grein síðar um þessi mál.

Óska svo öllum kristilegs og gleðilegs uppstigningardags á morgun – í samfélagi við bræðurna og systurnar í heilagri messu.
––––––––––––––––
[1] Sequenzían hefur helzt verið talin eftir einhvern þessara fjögurra: Róbert II guðrækna (970-1031), Frakkakonung, Innocentius páfa III (1161-1216), skáldið, stærðfræðinginn og annálahöfundinn Hermann Contractus (1013–1054) eða Stephen Langton (d. 1228), erkibiskup af Kantarabyrgi 1207–28.

[2] Viðtal við Vörð Traustason: ‘Hvítasunnukirkjan Fíladelfía: sjötíu ára. Hátíðarsamkoma og karnivalstemmning á afmælinu’, Frétta-blaðið, laugardag 20. maí 2006, s. 28: “Nú tilheyra yfir sex hundruð milljónir manna [hvítasunnu]hreyfingunni, en til samanburðar telur lútherska kirkjan 61 milljón.” – Það er afar merkilegt, ef hér er rétt skilið, að þetta sé í raun meðlimatala hvítasunnukirkna, sem allar hafi orðið til frá því að hreyfingin hófst í Los Angeles árið 1906, – og sýnir þá geysilegan árangur í kristniboðsstarfi á sjálfri 20. öldinni, þegar aðrar kirkjur máttu reyna bæði minnkandi kirkjusókn og fráfall frá trúnni. Þar á ofan er virkni fólks í hvítasunnusöfnuðum trúlega meiri en t.d. í ensku þjóðkirkjunni (Church of England) eða lúthersku kirkjunni í Þýzkalandi og norrænum löndum – þótt hér sé á engan hátt gert lítið úr því góða starfi sem fram fer í þeim kirkjum. Að meðlimatala allra lútherskra kirkna heimsins sé ekki meiri en 61 milljón, kemur mér á óvart, veit enda ekki við hvað er miðað, en aðrir geta líka komið hér að nákvæmari athugasemd um það mál.

[3] Denzinger (& Bannwart & Karl Rahner): Enchiridion symbolorum, definitionum et declarationum de rebus fidei et morum (ed. 31, Herder 1957), nr. 173b-200 & 200a-b. Þetta rit er hið opinbera safn samþykktra trúarjátninga og annarra útkljáðra trúarsetninga kaþólsku kirkjunnar í trúar- og siðferðisefnum.

24.05.06 @ 18:35
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Stutt, en skýr og skilmerkileg grein um Orange-þingið (reyndar bæði það fyrra og síðara) er á www.newadvent.org/cathen/11266b.htm.

24.05.06 @ 21:51
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

La madre fundadora hl. Teresa frá Avíla greinir svo frá:

Dag einn þegar ég hafði varið löngum tíma til að biðja og ákalla Drottin um að koma mér til hjálpar og að ég mætti vera honum velþóknanleg í öllu, tók ég að fara með sálminn [Kom Heilagur Andi]. Meðan ég hafði hann yfir komu hrifin skyndilega yfir mig, þannig að ég var hrifin á brott frá sjálfri mér. Þetta var eitthvað sem ég gat ekki efast um vegna þess að þetta var afar áþreifanlegt. Þetta var í fyrsta skiptið sem Drottinn gaf mér að reyna þessa náðargjöf hrifanna. Ég heyrði þessi orð: „Ég vil ekki að þú talir framar við menn, heldur við englana“ (Saga lífs míns, 24. 6).

24.05.06 @ 23:23