« Ólafur helgi NoregskonungurEiríkur helgi Svíakonungur »

08.04.08

  10:06:51, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 1279 orð  
Flokkur: Dýrlingarnir og hetjur

Knútur Danakonungur

Knútur var sonur Sveins konungs sem ríkti í Danmörku 1047-1074. Þegar konungurinn dó völdu Danir fyrst Harald sem eftirmann hans. Þegar hann dó 1080, tók Knútur (fjórði konungur Dana með því nafni) við konungdómi.

Á hinum skammvinna stjórnartíma sínum lét hann boða kristna trú í Kúrlandi, Samogitíu og Litháen. Knútur sótti fast að efla konungsvaldið gegn aðlinum og bæta hina veiku stöðu kirkjunnar í Danmörku. Hann skipaði biskupa til þess að leysa hina veraldlegu aðalsmenn af hólmi og hann reyndi að bæta fjárhagsstöðu kirkjunnar með því að leggja á tíund. Þá kom hann örlátlega á fót líknarstofnunum til þess að bæta álit kirkjunnar meðal Dana. Líf hans, ekki aðeins hið pólitíska heldur einnig hið persónulega, einkenndist af ………

………kristilegri hugsun.

En viðleitni hans til endurbóta á ríkisrekstrinum gerði marga að óvinum hans. Hann lagði til atlögu við heri Vilhjálms sigursæla en beið ósigur og 1086 braust út uppreisn gegn honum.
Knútur reyndi að ná aftur völdum í Óðinsvéum og á Fjóni, en sú tilraun fór út um þúfur. Þegar hann gerði sér ljóst að hann kæmist ekki framar til valda, dró hann sig í hlé í kirkju heilags Albans og dó þar á grátunum þegar spjóti var varpað að honum. Það var árið 1086.

Heilagur Knútur konungur leitaði aðeins leiða og efna til þess að gera þegna sína hamingjusama. Hann kom á fyrirmyndar skipulagi í öllu ríkinu og þar sem fordæmi aðalsins er helsta fyrirmynd fólksins, hófst hann handa um að koma á kristilegum aga og hinum bestu siðum í höll sinni. Við þær dyggðir sem prýddu hinn mikla konung bætti hann öllum þeim sem hinir miklu dýrlingar voru þekktir fyrir. Hann agaði líkama sinn með ströngu föstuhaldi og dálæti hans á deyðingu holdsins gekk svo langt að í viðbót við harða ögun líkamans var hann í yfirbótarskyrtu úr hörðu hári. Hann var oft niðursokkinn í innilegar samræður við Guð til þess að biðja hann um þá náð sem hann þarfnaðist. Hann sóttist eftir að kynnast guðhræðslu annarra og verndaði þá og heiðraði sem þjónuðu Guði. Þeir sem störfuðu á vegum kirkjunnar fundu sérstaklega fyrir áhrifum örlætis hans. Hann veitti prestum ýmis forréttindi og frelsi. Tilgangur hans með því var að gera þá sem virðulegasta í augum fólksins. Hann lét einskis ófreistað til þess að sannfæra þegna sína um að gjalda yrði kirkjunni tíund til framfærslu prestanna. Hann leit svo á að sú viðleitni væri allrar athygli verð að útbreiða ríki Jesú Krists. Af því stafaði sá brennandi áhugi sem hann bar í brjósti fyrir að fræða fólk um gleðiboðskapinn. Af þeim áhuga spratt örlæti hans við kirkjurnar sem hann lét byggja og bjó konunglegu skrauti. Kirkjunni í Hróarskeldu á Sjálandi, sem var aðsetursborg hans og höfuðstaður, gaf hann gullfallega kórónu sem hann bar við helgar tíðir þar.

Árið 1086 hóf nokkur hluti aðalsins uppreisn gegn konunginum. Hann reyndi fyrst að lægja þær deilur á friðsamlegan hátt, en honum varð brátt ljóst að hann hafði verið svikinn og uppreisnarmenn sóttu nú hratt í áttina til Óðinsvéa til þess að ráðast á hann sjálfan. Þótt honum bærust fréttir af því tók hann því með ró og stillingu og hélt að venju til Albanskirkju til þess að vera viðstaddur heilaga messu. Henni var naumast lokið þegar menn báru honum þær fréttir að óvinirnir sæktu hratt fram. Þegar Eiríkur greifi réð honum til þess að leggja á flótta, svaraði hann: “Nei, nei, ég legg ekki á flótta, fyrr vil ég lenda í höndum óvina minna en yfirgefa þá sem mér eru hollir. Og svo er það ekki annað en líf mitt sem þeir sækjast eftir.”

Hinn heilagi konungur hugsaði nú ekki um neitt annað en búa sig undir dauðann sem var að nálgast. Hann lagðist niður frammi fyrir altarinu þar sem hann þáði í fullkominni ró heilagt altarissakramenti, þegar hann hafði auðmjúklega játað syndir sínar og lýst því hátíðlega yfir að hann fyrirgæfi óvinum sínum. Þá tók hann Saltarann (sálma Davíðs) til þess að styðjast við hann í bænum sínum. Nú voru óvinir hans komnir að kirkjunni og réðust að henni frá öllum hliðum. Benedikt, bróðir konungsins, varði dyrnar með þeim fáu hermönnum sem hann hafði ráð yfir. Meðan þeir sýndu af sér undraverðan kraft og hugrekki, lenti steinn á enni Knúts við augnabrýnnar. Þeim steini var kastað utan frá inn um kirkjuglugga. Konungurinn baðst fyrir án afláts og þrýsti sárinu saman með hendinni til þess að draga úr blóðrásinni. Þar sem uppreisnarmennirnir gátu ekki brotið sér braut inn um dyrnar, unnu þeir eið að því að gera ekkert frekar af sér. Einn af leiðtogum þeirra bað um að fá að tala við konunginn með það að yfirvarpi að hann ætlaði að bera fram vopnahléstillögu. Knútur skipaði svo fyrir að honum skyldi hleypt inn. Benedikt einn setti sig upp á móti vilja hans þar sem hann grunaði að um svik væri að ræða en ekki var farið eftir því, þótt það kæmi brátt í ljós að hann hafði haft rétt fyrir sér, því þegar óþokkinn Egwind laut konungi djúpt, eins og hann vildi heilsa honum, reis hann upp, dró rýting undan kápu sinni og rak hann í líkama konungs. Morðinginn snaraði sér upp á altarið til þess að komast undan gegnum gluggann, en þegar hann var kominn út til hálfs greiddi Palmar, einn af bestu herforingjum konungs, honum slíkt högg með sverði að tók gegnum líkamann svo að annar hlutinn valt út en hinn inn í kirkjuna. Þegar varmennin sáu þetta, óx bræði þeirra um allan helming og þeir tóku að kasta grjóti og múrsteinum inn um gluggana. Helgiskríninu, sem geymdi bein heilags Albans og heilags Ósvalds og Knútur hafði komið með frá Englandi, var velt um koll. En heilagur Knútur lá nú frammi fyrir altarinu með útbreidda arma, fól Guði sálu sína og beið dauða síns með guðrækilegri undirgefni. Hann lá í þessum stellingum þegar kastspjót, sem varpað var inn um glugga, fullkomnaði fórn hans. Bróðir hans féll líka og með honum sautján aðrir. Þetta gerðist 10. júlí 1086. Hinn heilagi konungur hafði setið um það bil sex ár að völdum, og honum fylgdi eftir Ólafur IV bróðir hans.

Á myndum er Knútur sýndur sem konungur. Hann heldur á ör og lensa eða rýtingur er hjá honum. Danir heiðra Knút sem tekinn var í tölu heilagra sem verndardýrlingur 1101 og var því lýst yfir að hann væri fyrsti píslarvottur Dana.

Grein þessi birtist í Kaþólska kirkjublaðinu í júlí / ágúst 2005.

No feedback yet