« FATÍMA Í PORTÚGAL 1916-17: FRIÐARÁÆTLUN AF HIMNI OFAN (6)Hversu margar hafa opinberanir Guðsmóðurinnar verið síðustu aldirnar? »

05.01.07

  11:29:08, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2612 orð  
Flokkur: Opinberanir Maríu Guðsmóður sem njóta kirkjulegrar viðurkenningar

KNOCK Á ÍRLANDI 1879: MÓÐIR GUÐS OG ÞÖGULLAR LOFGJÖRÐAR Í SAMFÉLAGI KIRKJUNNAR [5]

Knock_1

SAMFÉLAG LOFGJÖRÐARINNAR OPINBERAST Á GAFLI
SÓKNARKIRKJUNNAR Í KNOCK

Samræmið í opinberunum hinnar blessuðu Meyjar er undravert og eins markvisst eins og að fylgja perlum róasakransins eftir frá uppsprettu sinni, einungis til að hverfa til hennar að nýju í óræðisdjúpi trúarinnar. Leyndardómur Dýrðarbænarinnar sem Guðsmóðirin opinberaði Bernaettu þegar hún bað rósakransinn með henni við hellinn í fyrstu opinberuninni birtist með áþreifanlegum hætti 21 ári síðar í afskekktu þorpi á vesturströnd Írlands sem heitir Knock. Örnefnið Knock er dregið af gelíska orðinu „Cnoc“ sem þýðir hæð. Það er hér sem hin sæla Guðsmóðir leiðir okkur upp á tind hins andlega Síonfjalls.

Mary McLoughlin, hússtýra erkidjáknans Cavanaghs, hafði verið í heimsókn hjá vinafólki og þegar hún ákvað að snúa heim á leið, þá bauðst Mary Beirne að fylgja henni áleiðis til prestsetursins að kveldi þess 21. ágúst árið 1879. Þegar þær nálguðust kirkjuna hrópaði Mary Beirne upp yfir sig: „Sjáðu þessar fallegu styttur! Hvenær lét erkidjákninn koma þessum styttum fyrir þarna við gafl kirkjunnar?“ Mary McLoughlin fullvissaði vinkonu sína um að það hefði ekki verið erkidjákninn sem staðið hafði fyrir því. Þegar þær komu nær tóku þær eftir skæru ljósi sem lék um gafl kirkjunnar. Mary Beirne hrópaði upp yfir sig: „Þetta eru ekki styttur, þær hreyfast. Þetta er blessuð Guðsmóðirin!“ Báðar voru stúlkurnar þrumulostnar að „sjá svona sýn sem maður sér aldrei i þessu lífi“. Stúlkurnar sáu að veran í miðjunni var Guðsmóðirin, sú sem stóð henni til hægri handar hl. Jósef og Mary Beirne kannaðist við þá þriðju sem hl. Jóhannes guðspjallamann, svo mjög líktist hann líkneski sem hún hafði séð í kirkjunni í Lecanvey.

Mary Beirne hljóp þegar í stað heim til að segja móður sinni, frú Beirne, bróður sínum Dominick og litlu systur sinni Chaterine, að koma til að sjá hina blessuðu Mey. Síðan þaut hún á stað til að greina öðrum í þorpinu frá þessu undri. Bróðir hennar var síður en svo hrifinn og bað móður sína að ná í Mary „áður en hún gerir sig að kjána í allra augum“. Frú Beirne ákvað hins vegar að fara út að kirkjunni. Að skammri stundu liðinni höfðu átján manns safnast saman til að bera þetta kraftaverk augum. Hvað var það sem þetta fólk sá, sem síðar var sagt vera „áreiðanlegt og fullnægjandi“, að dómi þeirra presta sem rannsökuðu þetta atvik nánar fyrir hönd kirkjunnar?

Viðstaddir sáu suðurgafl kirkjunnar í Knock baðaðan og umvafinn gullnu ljósi, skæru ljósi sem lýsti kvöldhúmið upp eins og um hábjartan dag, ljós sem hvarflaði fram og aftur og hófst stundum upp frá jörðu og upplýsti himininn fyrir ofan og umhverfis kirkjugaflinn . . . Fyrir aftan verurnar þrjár mátti sjá altari og stóran kross og fyrir framan hann stóð lamb sem „horfði til vesturs.“

Drengur einn sá tvo engla sem „flögruðu um allan tímann, í eina og hálfa stund eða lengur“. Hann sá þá „blaka vængjum, en ekki höfuð þeirra né andlit vegna þess að þeir litu ekki til mín“. Eldri maður tók eftir englum og helgum mönnum sem skornir voru út á altarið að neðanverðu. En það voru verurnar þrjár sem héldu öllum viðstöddum hugföngnum:

Kyrtill Guðsmóðurinnar sem var skínandi hvítur var hulinn slá sem næld var saman við hálsin og liðaðist í fellingun allt til fóta. Á höfði bar hún skínandi kórónu sem skrýdd var geislandi gullkrossum að ofan og á enni hennar þar sem kórónan hvíldi fyrir ofan augnabrýrnar mátti sjá fagra rós. Hún breiddi út faðminn og hóf hendur til himins í stellingu sem engin sjónarvottanna hafði nokkru sinni séð á neinu líkneski eða mynd, „í sömu stellingu eins og þegar prestur lyftir höndunum þegar hann biður í heilagri messu.“ Augnatillit hennar beindist til himna og hún leit aldrei til hópsins sem safnast hafði saman við húsgaflinn . . . Hl. Jósef stóð hægra megin við Guðsmóðirina og laut höfðinu til hennar líkt og í virðingarskyni og tilbeiðslu. Ásjóna hans var rjóðari heldur en hinna veranna. Hár hans og skegg var grátt, „hann virtist hniginn að árum.“ Hann stóð lengst til vinstri víð gafl kirkjunnar og hl. Jóhannes, sem var aðeins hægra megin við gaflinn, stóð öndvert við Guðsmóðurina og á þeim stað þar sem ritningarlesturinn er lesinn við altarið sem var fyrir aftan hann. Hann var klæddur sem byskup, en bar ekki eins háan mítur eins og byskupar gera. Hann hélt á stórri opinnin bók í vinstri hendi jafnframt því sem hann hóf fingur hægri handar á loft, líkt og hann væri að predika eða kenna . . . Ekkert þeirra þriggja mælti aukatekið orð af vörum, fremur en sjónarvottarnir. Þau voru þögul og báðust fyrir hvert með sínum hætti. Kirkjuþjónninn Dominick Beirne var frá sér numinn og þetta hafði svo djúp áhrif á hann að hann táraðist.

Allan þann tíma sem sýnin stóð yfir „var úrhellisrigning.“ Upp úr klukkan ellefu hurfu allir karlmennirnir á brott að undanskyldum Dominick Beirne. Kona ein, Judith Campell, varð næst til að fara, líklega þjökuðu vegna slæmrar samvisku vegna þess að hún hafði skilið móður sína sem lá fársjúk heima, eftir eina. Nokkrum mínútum síðar kom hún aftur og sagði að móðir síns hafði andast. Þetta var ekki alls kostar rétt vegna þess að gamla konan andaðist ekki fyrr en daginn eftir. Allir viðstaddra hröðuðu sér nú heim með frú Campell. Þegar Dominick og Mary Beirne snéru til baka til kirkjunnar um það bil stundarfjórðungi yfir ellefu, var ekkert lengur að sjá.

ÁHRIF OPINBERANANNA Í KNOCK

Fréttirnar af atburði þessum bárust eins og eldur í sinu út um allt Írland og reyndar um allan hinn kaþólska heim, þrátt fyrir þá staðreynd að dagblöðin hefðu verið beðin um að halda þessum atburði leyndum þangað til rannsókn hefði farið fram. Þegar fréttirnar spurðust út tóku pílagrímar að streyma þúsundum saman til Knock með sjúka ættingja. Greint var frá fjölmörgum og óvæntum lækningum. Þeir sem læknuðust skildu eftir hækjur sínar og stafi við kirkjugaflinn. Vorið 1880 var styttu af Vorri Frú frá Knock komið fyrir á staðnum. Þorpið Knock var orðið að fjölmennum pílagrímastað

ENN FREKARI OBINBERANIR OG KRAFTAVERK

Enn frekari opinberanir gerðust þann 6. febrúar og aftur þann 10. og 12. sama mánaðar með nákvæmlega sama hætti og áður. María Guðsmóðir stóð í miðju hins himneska ljóss og heil. Jósef henni til hægri handar og heil. Jóhannes á vinstri hönd. Tíu dögum eftir fyrstu opinberunina gerðist fyrsta lækningaundrið. Stúlka sem fæðst hafi daufdumba læknaðist. Um áramótin 1880/81 höfðu 300 tilvik um lækningar verið skráðar í dagbók sóknarprestsins.

Kirkja hóf opinbera rannsókn á vitrununum í Knock árið 1879 og enn að nýju árið 1936. Niðurstöðurnar voru þær að frásagnir fólks væru sannverðugar og ekkert í þeim stangaðist á við trúarsetningarnar. Fjórir páfar hafa vottað Knock virðingu sína. Píus páfi XII blessaði fána Knocks í Péturskirkjunni á Allraheilagramessu árið 1945 á Maríuárinu og skrýddi heiðurspeningi. Við þetta tækifæri tilkynnti hann einnig nýja hátíð Maríu til heiður: Hátíð Maríu drottningar, en fjölmargir nefndu Guðsmóðirina í Knock hinu forna nafni: Drottingu englanna. Jóhannes páfi XXIII sendi sérstaklega blessað kerti til Knock á Kyndilmessunni árið 1960. Hann leit ætíð á kirkju Vorrar Frúar af Knock sem einstæðan helgidóm. Páll páfi VI blessaði hornstein Basilíku Vorrar Frúar í Knock og Drottningar Írlands þann 6, júní árið 1974. Jóhannes páfi II kom í persónulega pílagrímsferð til Knock þann 30. september 1979. Hann ávarpaði hina sjúku og hjúkrunarfólkið, saung messu og gaf helgidóminum gullna rós og kraup síðan niður og baðst fyrir við kirkjugaflinn þar sem opinberunin átti sér stað.

HIN BLESSAÐA MEY VAKIR ÁVALLT YFIR HINNI STRÍÐANI KIRKJU MEÐ ÞÖGULLI NÆRVERU SINNI

Menn voru ekki alls kostar ásáttir um hvaða skilning bæri að leggja í þessa opinberun í upphafi. Sumir gengu jafnvel svo langt að fullyrða, að enginn boðskapur fælist henni að baki þar sem engin orð hefðu verið höfð um hönd. En smám saman gerðu menn sér ljóst hversu samofin hún er sjálfum leyndardómi messunnar og að opinberunin í Knock sé ein af þeim merkari í sögu kirkjunnar. Hvers vegna? María Guðsmóðir var þögul og mælti ekki orð af vörum. Hún kom einfaldlega til barna sinna til að vera með þeim á stund neyðarinnar.

HUNGURSNEYÐIN KNÝR ENN DYRA

Árið 1879 blasti enn að nýju við mikil hungursneyð á Írlandi líkt og á árunum eftir 1840, hungursneyð af mannavöldum vegna þess að landeigendurnir fluttu alla kartöfluuppskeruna úr landi. Af þessum sökum hafði Cavanaugh erkidjákni sungið 100 messur í röð sem helgaðar voru þeim sem látist höfðu úr hungri. María Guðsmóðir opinberaðist íbúunum í Knock sama kvöldið og 100. messan var sungin að kveldi þess 21. ágúst. Í miðri neyð írsku þjóðarinnar kom Móðir Drottins til barna sinna til að taka þátt í hörmungum þeirra með þögulli nærveru sinni.

En þetta þýddi ekki að áhrif hennar væru ekki þau sömu og í Mexíkó árið 1531. Leigan hækkaði stöðugt, bændurnir urðu að taka fé að láni hjá veðmöngurum og landflóttinn var mikil. Neyð almennings og vonleysið var átakanlegt. Samband stórjarðeiganda kom saman í apríl 1879 í Irishtown skammt frá Knock. Þetta markaði upphaf endaloka ofurveldis þeirra.

AN GORT MOR – HUNGURSNEYÐIN MIKLA 1840 til 1850

Árin á undan opinberuninni í Knock voru þau hryggilegustu í allri sögu Írlands. Hungursneyð og ósegjanlegar hörmungar gengu yfir allt landið. Skip fluttu nautpeninginn og kornið á úr landi og almenningur svalt heilu hungri í landi sem 300 árum áður hafði verið það auðugasta í Evrópu.

Í dag hefði hjálp alðþjóðasamfélagsins streymt til þessa hrjáða fólks þegar greint hefði verið frá henni í fjölmiðlum. Á nítjándu öldinni var ekki um neina slíka hjálp að ræða. Þegar hungursneyðinni virtist aðeins létta jókst fólksflóttinn frá landinu því meira.

Mest var neyðin í vesturhluta landsins. Um milljón manns dó af völdum þessa skelfingarástands úr hreinu hungri. Þrjár milljónir stóðu daglega í biðröðum við „súpueldhúsin“ sem komið hafði verið upp á vegum kirkjunnar. Tvær milljónir manna flúðu land og fólk dó þúsundum saman í „líkistuskipunum“ sem streymdu vestur um haf til Bandaríkjanna. En önnur milljón Íra flúði landið áður en dróg að lokum nítjándu aldarinnar.

Íbúum Írlands fækkaði um helming og annars eins landflótti á sér fá dæmi í sögunni. Einn þeirra sem upplifði þessa skelfilegu hungursneyð og lifði hana af komst svo að orði:

Svona átakanlegt var ástandið í raun og veru – hryllingurinn blasti alls staða við sjónum á því svæði þar sem ég var alinn upp. Mér skildist að ástandið væri síst skárra annars staðar á Írlandi. Og til að gera ástandið en dekkra, þá var það ekki að vilja Guðs að ástandið væri svona slæmt. Allt mátti rekja þetta til mennskra ákvarðana.

Þessa síðustu athugasemd má túlka sem svo: Að veita leiguliðum réttindi var að auðsýna stórjarðeigendum óréttlæti!

AFLEIÐING MENNSKRAR GRÆÐGI OG ÓRÉTTLÆTIS

Slíkar hörmungar eru með öllu óþekktar í dag meðal hinna auðugu þjóða á Vesturhveli jarðar, en alls ekki svo fátítt í fjölmörgum þriðjaheims löndum. En Vesturlönd sem eru svo auðug af fjármunum eru svo blásnauð af kærleika – eins og móðir Teresa frá Kalkútta komst að orði – að þau deyða miskunnarlaust minnstu og varnarlausustu meðbræðra sinna: Hin ófæddu börn. Í reynd fölnar hungursneyðin mikla á Írlandi þar sem milljónirnar féllu úr hor í samanburði við heiftaræði dauðamenningar barnamorðanna miklu þar sem einn milljarður þessara varnarlausu barna hefur fallið í valinn á síðustu tveimur áratugum.

Í þriðja heiminum er milljónum barna haldið ánauðugum eins og þrælum til að þjóna neyslugræðgi hinna ríku á breiðstrætum neysluæðisins. Spyrja mætti: Er Guð hljóður, lætur hann sig þetta engu máli skipta?

HIÐ ÁRVÖKULA SAMFÉLAG HINNAR SIGRANDI KIRKJU HIMNANNA

Þvert á móti. Guð gefur framferði mannanna nánar gætur á jörðinni ásamt Guðsmóðurinni og heilögum englum sínum og hinum heilögu í hinni sigrandi kirkju. Það er þetta sem opinberanirnar í Knock árið 1879 leiða okkur fyrir sjónir. Þar birtist okkur með ljóslifandi hætti sá sami leyndardómur og endurtekur sig í sérhverri messu á jörðu, eða með orðum hinnar mætu konu Hildigard frá Bingen:

Þegar presturinn íklæddur helgum klæðum sínum gekk að altarinu til að bera fram hina helgu leyndardóma, streymdi skyndilega bjartur dýrðarljómi af himnum ofan. Englar stigu niður til jarðar og ljós ljómaði um altarið. Eftir að friðarguðspjallið hafði verið lesið og fórnargjafirnar höfðu verið lagðar fram á altarinu og presturinn söng lofgjörðina Guði til handa: „Heilagur, heilagur, heilagur, Drottin Guð Sabaoth,“ lukust himnarnir upp á þessu andartaki. Ægibjartur ljósbjarmi féll yfir fórnargjafirnar og umlauk þær í hátign sinni, með sama hætti og sólin þegar hún skín á einhvern hlut . . . Englarnir stigu niður og ljósið uppljómaði altarið . . . Himneskir andar laðast ávallt að helgri þjónustu. [1]

Við sjáum af hvaða árvekni er fylgst með mennskum athöfnum á jörðu í næstu opinberun hinnar blessuðu Meyjar í Fatíma í Portúgal árið 1916-17.

[1]. Wisse die Wege Scivias, II. 2.

Frásögnin er byggð á: Delaney, John J., A Woman Clothed with the Sun, Doubleday, New York, 1990 og: http://www.catholicculture.org/docs doc_view.cfm?recnum=1204

No feedback yet