Nú eru fimm dagar rúmir til hátíðlegrar biskupsvígslu í Kristskirkju í Landakoti, öðru nafni Basiliku Krists konungs. Séra Jakob Rolland minnti á þetta í hámessu nýliðins sunnudags og hvatti alla kaþólska til að sækja þessa vígslumessu, sem verður nk. laugardag, 31. október, kl. 18.00.
Séra Davíð Tencer, kapúcínamunkur og sóknarprestur í sókn heilags Þorláks á Reyðarfirði, hefur verið kallaður og útvalinn til að taka við af herra Pétri Bürcher sem biskup kaþólskra á Íslandi. Við fögnum þessu og biðjum fyrir því að hann fái þjónað sínu nýja embætti af sömu gleðinni og fúsleikanum sem hefur einkennt störf hans hingað til. Um lífshlaup hans og ævistarf var fjallað hér nýlega í þessum pistli (með mynd): Nýtt biskupsefni kaþólskra.
Svo vildi til, að þetta sunnudagskvöld var stutt, en mjög áhugaverð frétt í Sjónvarpinu frá Kollaleiru í Reyðarfirði, þar sem sagt var frá starfi munkanna þar, en einkum frá byggingu kaþólskrar kirkju, Þorlákskirkju, á staðnum, og hvernig hjálp margra hefur gert hana mögulega, einkum viðirnir í hana, en þar er um bjálkabyggingu að ræða, úr fallegum ljósum viði. Mest af bjálkunum er gefið af vinum munkanna í Slóvakíu. Einnig er sagt frá ýmsum helgigripum sem kirkjunni hafa borizt; – "eins og Davíð sagði: Guð undirbýr allt."
Sjón er sögu ríkari, því að þetta er á vef Sjónvarpsins, þar sem líka sést í séra Davíð fyrir altarinu (í eldra helgihúsi á staðnum) og ómur heyrist af tilbeiðslutextum: Hér eru þessar kvöldfréttir Sjónvarpsins, umfjöllun um kaþólsku kirkjuna byrjar þar þegar um 20 mín. eru liðnar af fréttatímanum.
Mikill er máttur Lilju. 62. og 69. erindi:
María, vertu mér í hjarta,
mildin sjálf, því að gjarnan vilda' eg,
blessuð, þér, ef mætta' eg meira,
margfaldastan lofsöng gjalda;
lofleg orð í ljóðagjörðum
listilegri móður Christi
öngum tjáir að auka lengra:
Einn er drottinn Maríu hreinni.
Rödd engilsins kvenmann kvaddi,
kvadda af engli drottinn gladdi,
gladdist mær, þá er föðurinn fæddi,
fæddan sveininn reifum klæddi,
klæddan með sér löngum leiddi,
leiddr af móður faðminn breiddi,
breiddr á krossinn gumna græddi,
græddi hann oss, er helstríð mæddi.
Þó grét hún nú sárra súta
sverði nist í bringu og herðar,
sitt einbernið, sjálfan drottin,
sá hún hanganda' á nöglum stangast,
armar svíddu af brýndum broddum,
brjóst var mætt. Með þessum hætti
særðist bæði sonur og móðir
sannheilög fyrir græðing manna.
Fyrir Maríu faðm inn dýra,
fyrir Máríu grát inn sára
lát mig þinnar lausnar njóta,
lifandi guð með föður og anda.
Ævinlega með lyktum lófum
lof ræðandi á kné sín bæði
skepnan öll er skyld að falla,
skapari minn, fyrir ásján þinni.
Í nýrri Kilju Egils Helgasonar, endursýndri í gær, átti hann mjög gott viðtal við dr. Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing, sem staðið hefur fyrir víðtækum uppgreftri rústa Skriðuklausturs á Austurlandi, fyrsta heildar-uppgreftri klausturs á Norðurlöndum. Vegna þess að klaustrinu og hjúkrunar-húsnæði þess var einfaldlega lokað með siðaskiptunum og ábúendur á jörðinni (oft sýslumenn) tóku sér búsetu í bæjarhúsunum þar, þá hefur húsaskipan þarna, þótt grotnað hafi niður, varðveitzt í óbreyttri mynd að öðru leyti en því, hvernig náttúran braut þetta niður.
Konungur lagði undir sig þessa klausturjörð eins og allar aðrar, ...
Klaustrin í tímaröð: Jarðir sem fylgdu þeim til konungs
1. Þingeyraklaustur, um 1106–1551 Um 65 jarðir
2. Munkaþverárklaustur, 1155–1551 57 jarðir
3. Hítardalsklaustur, 1166–fyr.1270
4. Þykkvabæjarklaustur í Veri, 1168–1550? 47 jarðir
5. Flateyjar- & Helgafellsklaustur, 1172–1550 30 jarðir
6. Kirkjubæjarklaustur, 1186–1542/51? 42 jarðir
7. Saurbæjarklaustur, fyr.1200–um 1224
8. Viðeyjarklaustur, 1226–1550 (fjöldi jarða)
9. Reynistaðaklaustur, 1295–1551 46 jarðir
10. Möðruvallaklaustur, 1295/6–1551 67 jarðir
11. Skriðuklaustur, 1493–1552 um 37 jarðir, 2 hjáleigur
Nánar um kirkjulegar jarðeignir: hér neðar ("Öll færslan").
Þessi grein birtist í Morgunbl. 4. jan. 2001. Orðhvöss er hún, einkum framan af. Það skýrist af herskáum anda í blaðaskrifum um Þjóðkirkjuna og kristna trú árið 2000, er greinin var rituð; upp hafði því safnazt "réttlát gremja" hjá höf. þessarar greinar. Þótt í lófa lagið væri að lina hér tóninn, eins og betra hefði verið í upphafi, er ótrúverðugt að láta þetta líta neitt öðruvísi út en það gerði, þegar það birtist fyrir ellefu árum. Því er greinin hér óbreytt. –JVJ.
Tilhæfulausar ásakanir á hendur kristindómi og kirkju eru orðnar næsta algengur lestur á síðum þessa blaðs á kristnihátíðarári. Þegar um þverbak keyrir, er ekki auðvelt að leggja frá sér blaðið, hristandi hausinn yfir fáfræði náungans, en umbera allt í nafni málfrelsis. Rennur mér blóðið til skyldunnar þar sem ég nam guðfræði og miðaldafræði við háskóla heima og heiman og get ekki endalaust horft upp á sögufalsanir manna sem hafa það mark og mið að gera aðra jafnfordómafulla og þeir eru sjálfir.
Síðustu athugasemdir