« Fróðlegt sjónvarpsviðtal um Skriðuklaustur og kaþólsk áhrif á Íslandi | Vaxandi andstaða við róttækni í siðferðismálum og upplausn í kenningarmálum kirkna erlendis » |
Klaustrin í tímaröð: Jarðir sem fylgdu þeim til konungs
1. Þingeyraklaustur, um 1106–1551 Um 65 jarðir
2. Munkaþverárklaustur, 1155–1551 57 jarðir
3. Hítardalsklaustur, 1166–fyr.1270
4. Þykkvabæjarklaustur í Veri, 1168–1550? 47 jarðir
5. Flateyjar- & Helgafellsklaustur, 1172–1550 30 jarðir
6. Kirkjubæjarklaustur, 1186–1542/51? 42 jarðir
7. Saurbæjarklaustur, fyr.1200–um 1224
8. Viðeyjarklaustur, 1226–1550 (fjöldi jarða)
9. Reynistaðaklaustur, 1295–1551 46 jarðir
10. Möðruvallaklaustur, 1295/6–1551 67 jarðir
11. Skriðuklaustur, 1493–1552 um 37 jarðir, 2 hjáleigur
Nánar um kirkjulegar jarðeignir: hér neðar ("Öll færslan").
Heimild: Séra Janus Jónsson: Um klaustrin á Íslandi, langur þáttur, fyrst prentaður í Tímariti Hins íslenzka bókmenntafélags, VIII (1887), síðar sem sérprent, Rv. 1980, Endurprent offsetprentaði. – Heimild um Skriðuklaustur: Heimir Steinsson, „Jarðir Skriðuklausturs og efnahagur“. Múlaþing. Rit Sögufélags Austurlands. 1. hefti. (1966), bls. 74-103.
Nánari upplýsingar: Um nr. 1 (Þingeyraklaustur): nefnt rit sr. Janusar, bls. 182–200. Um nr. 2: nefnt rit, 200–213. Um nr. 3: nefnt rit, 213–15. Um nr. 4: nefnt rit, 216–27. Um nr. 5: nefnt rit, 227–36. Um nr. 6: nefnt rit, 236–40. Um nr. 7: nefnt rit, 240–1. Um nr. 8: nefnt rit, 241–50. Um nr. 9: nefnt rit, 251–6. Um nr. 10: nefnt rit, 256–64. Um nr. 11: nefnt rit, 264–4. Á Skriðuklaustri hafa á síðustu árum farið fram gagngerar fornleifarannsóknir.
Við siðaskiptin sló konungur eign sinni á öll þáverandi klaustur landsins og skipaði eftir það klausturhaldara á hvert þeirra (íslenzka oftast, af veraldlegu eigna- og valdastéttinni) til að annast tekjur hans af klausturjörðum. Hann tók einnig til sín yfirstjórn allra stólsjarða, þ.e. biskupsstólanna tveggja, og verulega hluta tekna þeirra.
Um 1650 var þriðjungur jarðeigna í eigu kirkna, biskupsstóla, Kristfjárjarða og spítala, sjöttungur eign konungs og helmingur bændaeign.*
Í kringum aldamótin 1800 var allmikið af stólsjörðunum selt og andvirðið látið ganga í ríkissjóð (konungsjötu); þó eru ýmsar af gömlu stólsjörðunum ennþá ríkisjarðir.
Jarðeignir kirkna héldust í þeirra eigu og voru um 1907 nálægt því að vera sjötta hver jörð á landinu, en fóru þá flestar undir ráðsmennsku ríkisins, sem hirti af þeim tekjur, en galt í staðinn prestum Þjóðkirkjunnar laun. Það var þó ekki fyrr en á 21. öld, sem ríkið tók þær jarðir alfarið til sín, sem eignir sínar, gegn samkomulagi við Þjóðkirkjuna um að halda áfram að borga prestum hennar og starfsmönnum biskupsstofu laun. Þau laun eru þó mun meiri að raungildi nú en þau voru fyrir um 30–40 árum.
Kaþólska kirkjan hefur aldrei fengið neitt af jarðeignum sínum hér á landi til baka. Henni er hins vegar gert að greiða fasteignaskatta af kirkjubyggingum sínum, ólíkt því sem tíðkast í ýmsum öðrum löndum. Sóknargjöld fær hún frá meðlimum sínum, innheimt af ríkinu, en af þeim fyrir fram ákveðnu gjöldum hafa síðustu ríkisstjórnir þó klipið verulega í óþökk safnaðanna** og aukið þau undanskot sín með árunum. Mál er að linni.
* Sjá grein JVJ í Mbl. 19. des. 2002: Gegn árásum á Þjóðkirkjuna.
** Sjá grein eftir séra Gísla Jónasson prófast í Mbl. 3. des. 2011: Ætla stjórnvöld að leggja starfsemi trúfélaganna í rúst? (sbr. og umræðu hér og einnig hér).
Síðustu athugasemdir