« Gleðilegt nýtt ár 2007!Albert Einstein: Skynjun hins dulúðuga er rót allra vísinda »

25.12.06

  21:53:22, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 246 orð  
Flokkur: Fjölmiðlarýni

Kirkjutónlist í RÚV - Sjónvarpi um jólin

Á aðfangadagskvöld jóla sýndi RÚV - Sjónvarpið dagskrárliðinn
„Renée Fleming syngur helgisöngva“ kl. 19.50, rétt eftir að Helgi Skúlason las jólasálminn „Nóttin var sú ágæt ein“ að loknu hléi. Í þessum þætti var þekktum jólasálmum gerð góð skil af söngkonunni Renée Fleming ásamt drengjakór og kammerhljómsveit. Upptakan var líklega gerð í kaþólsku dómkirkjunni í Mainz. Tónleikarnir voru í heild metnaðarfullir og áheyrilegir.

Söngkonan og aðrir flytjendur sýndu snilldartúlkun. Þar næst á eftir komu norrænu jólatónleikarnir frá Hjálpræðishernum í Noregi. Að loknum aftansöng jóla komu svo upptaka frá jólatónleikum Fíladelfíukirkjunnar í Reykjavík.

Á jóladag var svo tónverk Gunnars Þórðarsonar, Brynjólfsmessa flutt kl. 20.20. RÚV menn gætu kannski athugað að endurflytja eitthvað af innlenda efninu, svo sem Brynjólfsmessuna því þarna er um nýtt íslenskt kirkjutónverk að ræða og nánast víst að einhverjir áhugasamir hafi misst af því vegna jólaboða eða annarra jólaanna. Hvort Megas með passíusálmaflutning sinn eða Voces Thules með Þorlákstíðir koma á einhverjum næstu kirkjuhátíðum skal ósagt látið en það er lofsvert að Ríkissjónvarpið skuli vilja gera kirkjutónlist þessi góðu skil og sýna brot því besta sem sést erlendis sem og hérlendis.

7 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Við þetta má bæta að á eftir upplestri Helga á sálminum „Nóttin var sú ágæt ein“ var hann sunginn af Sigríði Ellu Magnúsdóttur ásamt barnakór.

26.12.06 @ 09:40
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Núna áðan, á annan jóladag, rétt um kl. 18 var verið að enda við að sjónvarpa á RÚV-1 glæsilegum tónleikum frá Fíladelfíu: „Fyrir þá sem minna mega sín“ var yfirskrift tónleikanna þar sem fjölmargir flytjendur lögðust á eitt að gera þessa stund ánægjulega.

26.12.06 @ 16:52
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Einnig voru á dagskrá þennan dag heimildarmynd um ferð þriggja íslenskra stúlknakóra til Toscana á Ítalíu, athyglisverð og falleg frásögn af ferð stúlknanna til Ítalíu prýdd fallegum söng.

Síðar um kvöldið var svo upptaka frá tónleikum Sálarinnar og Gospel í Laugardalshöll. Þó ekki væri um eiginlega kirkjutónlist að ræða þá var þar á ferðinni sérlega áheyrileg tónlist sálarinnar og andans.

26.12.06 @ 21:43
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Áðan sá ég í Kastljósinu upptöku með Hamrahlíðarkórnum þar sem hann flutti jólalag ríkisútvarpsins 2006. Það var lagið ‘Jólasöngur’ eftir Huga Guðmundsson, við ljóð Steingríms Thorsteinssonar. Líklega er nýjung að jólalagið sé flutt í Kastljósinu, en það er vel til fundið og mun eflaust glæða áhuga fólks á þessu verðuga framtaki RÚV. Sjá nánar hér: [Tengill]

27.12.06 @ 21:17
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Kl. 23.30 á gamlárskvöld var á dagskrá RÚV - sjónvarps þátturinn „Frostrósir 2006“ Um hann segir á vef RÚV: „Upptaka frá stórtónleikum sem haldnir voru í Hallgrímskirkju í desemberbyrjun. Þar komu fram söngkonurnar Eivör Pálsdóttir, Eleftheria Arvanitaki, Patricia Bardon, Ragnhildur Gísladóttir og Sissel Kirkjebø ásamt hljómsveitum og kórum. Sérstakir gestir á tónleikunum voru þau Petula Clark og Jóhann Friðgeir Valdimarsson.“ [Tengill]

01.01.07 @ 11:09
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Við síðustu athugasemd má bæta að kórarnir sem þarna eru nefndir voru Karlakórinn Fóstbræður og Drengjakór Reykjavíkur. Vart þarf að taka fram að þessir tónleikar voru í alla staði vel heppnaðir enda var þeim afar vel tekið af áheyrendum í Hallgrímskirkju. Hæfileikamiklar söngkonurnar nutu sín í upptökunni svo af varð eftirminnilegur tónlistarviðburður.

Upptakan var vel gerð og hljómurinn komst vel til skila að svo miklu leyti sem hægt er í sjónvarpsútsendingu. Ef einhvers var vant þá var það kannski myndskot af lágstrengjadeild hljómsveitarinnar, en þetta atriði varð áberandi vegna þess hve flautuleikari kom oft í mynd sem og að yfirlitsmyndum af hástrengjadeildinni brá oft fyrir án þess að nein myndskeið birtust af lágstrengjadeild. Einnig hefði mátt sýna fleiri myndskot af stjórnandanum, t.d. framan frá eða frá hlið. En hugsanlega er erfitt um vik að koma myndavélum fyrir þannig að slík sjónarhorn náist í Hallgrímskirkju.

En í heildina var þetta mikil tónlistarveisla og ánægjusvipurinn á gestum tónleikanna leyndi sér ekki sem og ákveðið klapp þeirra sérstaklega í lok síðasta lagsins „Ó helga nótt“.

Sjónvarpið á því enn frekar lof skilið fyrir metnað sinn og framtak á sviði kirkjutónlistar um þessi jól.

01.01.07 @ 12:12
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Tímaröð athugasemda við þessa færslu hefur riðlast og eru lesendur beðnir velvirðingar á því en tvær þær síðustu á undan þessari koma fyrir næst á eftir færslunni.

01.01.07 @ 12:30