« Helgisiðir messunnar - eftir Sr. Róbert BradshawFegurð heimsins »

09.06.06

  20:44:40, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 793 orð  
Flokkur: Greinar eftir Sr. Róbert Bradshaw (dó 1993)

Kirkjan er líkami Krists

Kirkjan er líkami Krists

Kirkjan er líkami Krists. Með því er ekki átt við hinn heilaga líkama Krists í altarissakramentinu. Ekki er heldur átt við hinn dýrlega líkama Krists, sem steig upp til himna eftir upprisuna.

Hverskonar líkami er þá kirkjan? Kirkjan er auðvitað stofnun, en hún er meira. Hún er persónulegt starf Krists sem haldið er áfram á jörðinni. Kirkjan er stundum kölluð hinn "algjöri Kristur." Það merkir að hún er uppbyggð af Kristi, sem er höfuð líkamans, og okkur, sem erum limir hans.

Þegar Jesús Kristur kom til starfa á þessari jörð, átti hann tvöfalt hlutverk fyrir höndum. Hann kom í fyrsta lagi til að gera himneskan Föður sinn vegsamlegan, og í öðru lagi kom hann til þess að þjóna og bjarga öllum mönnum. Til þess að geta það, notfærði hann sér þann mannlega líkama og limi þess líkama sem hann hafði þegið af alsælli Maríu mey, fyrir mátt hins Heilaga Anda.

Hann notaði hendur sínar til að vinna, blessa fólkið, lækna sjúka og bera krossinn. Hann notaði fætur sína til að heimsækja fátæka, trúleysingja og holdsveika og til að ganga upp á Kalvaríufjallið. Hann notaði munninn til að boða fagnaðarerindi sitt, mæla fyrirgefningarorð, hugga og biðja.

Síðar gerðust þau voðatíðindi að hann var krossfestur. Hendur hans og fætur gátu þá ekki lengur starfað í þágu mannanna. Heilagur munnur hans gat ekki lengur kennt eða huggað. Limir líkama Krists voru hreyfingarlausir og þöglir.

Þó var því hlutverki ekki lokið, sem Jesús kom til að inna af hendi. Framkvæmd þess var meira að segja ekki nema nýhafin. En ætlun Jesú var að ná til allra manna, allra kða og allra landa. Og þess vegna varð Jesús að finna sér nýjan líkama.

Og hvar fékk svo Jesús þennan nýja líkama? Við, þið og ég, erum hinn nýi líkami Krists.

Jesús stofnaði sérstakt sakramenti, skírnina, til þess að veita okkur hlutdeild í guðlegu lífi hans sjálfs. Með skírninni erum við, ef svo mætti til orða taka, grædd á Krist. Í skírninni verðum við limir á líkama Krists. Með skírninni heldur Kristur áfram, að lifa oðan og leyndardómsfullan hátt. Hann heldur áfram starfi sínu fyrir meðalgöngu okkar. Við erum nú orðin að höndum, fótum og munni þessa nýja líkama Krists. Kristur er höfuðið, við erum limirnir. Þennan nýja líkama Krists köllum við kirkju.

Ef við eruðlimir kirkjunnar, ættum við að vita hvert hlutverk kirkjunnar er, hversvegna Kristur stofnaði kirkju. Er þá hlutverk okkar það eitt að bjarga eigin sál eða er búist við einhverju meira af okkur?

Ef við höfum það hugfast, að kirkjan er líkami Krists, liggur beint við að gera sér ljóst að hlutverk kirkjunnar sé í engu frábrugðið hlutverki Krists. Og það hlutverk var að boða fangaðrerindi hans og gera öllum mönnum fært að finna leið til hjálpræðis. Þess vegna er það eðli kirkjunnar að boða trúna. Og hver einasti skírður maður verður sjálfkrafa trúboði. Það er sjálf skírnin sem gerir hann að trúboða.

Það er hvorki presturinn né biskupinn og ekki einu sinni páfinn, sem kallar leikmenn til að taka þátt í trúboðs og útbreiðslustarfi kirkjunnar. Það er Drottinn sjálfur.Það er einmitt til þess sem leikmenn voru skírðir, til þess voru þeir gerðir að limum á líkama Krists. Vatíkanþingið endurtekur þetta: "Drottinn hefur sjálfur falið leikmönnum að vinna postullegt starf, er þeir voru innlimaðir í hinn leyndardómsfulla líkama Krists fyrir skírnina og styrktir af mætti Heilags Anda í fermingunni" (II. Vatíkanþingið: Leikmenn, 3. gr.).

(Grein eftir Sr. Róbert Bradshaw (dó 1993))
___

Bréf Páls til Efesusmanna 5:29-30. "Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast, eins og Kristur kirkjuna, því vér erum limir á líkama hans." Fyrra bréf Páls til Korintumanna 12:12. "Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi, en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur." Fyrra bréf Páls til Korintumanna 12:27. "Þér eruð líkami Krists og limir hans hver um sig."

No feedback yet