« Ritningarlesturinn 2. júlí 2006Ritningarlesturinn 1. júlí 2006 »

01.07.06

  08:47:25, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 4248 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir

Kaþólska fréttasjáin: Vikan 25. júní til 30. júní 2006

Páfi: Þjóðfélagið stendur frammi fyrir „alræði óreiðunnar“ – Kaþólskan blómstrar sem aldrei fyrr í Bandaríkjunum – Og hvað um Ísland? – Tíðni fóstureyðinga í Víetnam veldur áhyggjum meðal lífsverndarsinna – Einhver auðugasti maður heims, William Buffet, gefur Bill Gatesstofnunni 31 milljarð Bandaríkjadala – Fjöldi indverskra kaþólikka fer vaxandi þrátt fyrir lög sem banna trúskipti – Heimildarmynd um líknarmorð vinnur kvikmyndaverðlaun Evrópskra útvarpsstöðva – Kardínáli óttast að kirkjan verði dregin fyrir alþjóðlegan dómstól fyrir að verja lífið og fjölskylduna – Amnesty International: „Réttur“ til fóstureyðinga og nú „réttur“ til að iðka kynlíf með aðila af sama kyni? – Indland: Lögreglan handtekur nokkrar Kærleikssystur móður Teresu fyrir að stunda trúboð – Breskir læknar hafna líknarmorðum – Forystumaður meðal slóvaskra biskupa: Baráttan gegn vestrænni frjálshyggju er „forgangsmál kirkjunnar“ – Lögleiðingu líknarmorða í Kaliforníu hafnað – Kaþólsku kirkjunni skilað kirkju sem Sovétstjórnin lagði hald sitt á – Ef ný kanadísk rannsókn eru marktæk er samkynhneigð óeðlileg – Sá létti í vikulokin.

Páfi: Þjóðfélagið stendur frammi fyrir „alræði óreiðunnar.“
Þann 23. júní s. l. tók Benedikt páfi á móti biskupum frá Lettlandi, Eistlandi og Litháen og hvatti þá til að standa vörð um lífið og fjölskylduna og sagði, að án raunverulegra gilda horfðist samfélagið í augu við „alræði óreiðunnar.“ Samhliða fjölskyldustefnunni mætti sjá aðrar áherslur líkt og sambönd fólks af sama kyni, áþján fóstureyðinganna og það neyðarástand sem fólksfækkunarstefnan hefur leitt af sér. Annað áhyggjuefni væri skortur á því að miðla börnum fræðslu um varanleg lífsgildi, samfélagslega afstöðu sem hyggi á tengslin á milli kynslóða og vaxandi tilfinningu ungs fólks gagnvart innri tómleika.

Páfi bætti við að „nútímalegt samfélag sem ekki væri grundvallað á áþreifanlegu manngildi væri dæmt til að lúta alræði óreiðunnar og glata áttum. Af þessum ástæðum væri sérhvert samfélag kirkjunnar kallað til þess í ljósi eigin trúar og með styrk náðar Guðs að eiga samræður við það samfélag sem það væri hluti að.“ Páfi hvatti biskupana síðan til að vera ætíð „hugrakka verndara fjölskyldugilda.“

Kaþólskan blómstrar sem aldrei fyrr í Bandaríkjunum.
Þessar upplýsingar komu fram á biskuparáðstefnu þeirri sem haldin var í Washington D. C. s. l. mánudag. Um 2025 er áætlað að 36% íbúa Kaliforníu verði kaþólskir í stað 30% nú. Nú eru 11, 1 milljón íbúa Kaliforníu kaþólskir en eru taldir verða 16, 7 milljónir árið 2025. Með hliðsjón af tölfræðilegum upplýsingum sem lagðar voru fram á ráðstefnunni munu 4, 3 milljónir nýrra kaþólikka verða skírðir árið 2025, meira en 3, 1 milljón barna ganga í fyrsta skiptið til altaris og hefðbundin sókn hafa vaxið í 1800 fjölskyldur. Árið 1990 töldust meðlimir kaþólsku kirkjunnar vera 53, 6 milljónir. Þessi tala var í 65, 3 milljónir árið 2005 og gæti verið orðin 82, 7 milljónir árið 2025. Forsendur skýrslunnar ganga út frá því að 60% innflytjenda af spænskum ættum muni halda tryggð við kirkjuna.

Og hvað um Ísland?
Svipaðrar þróunar gætir á Íslandi eins og í Bandaríkjunum, það er að segja að með vaxandi fjölda innflytjenda hefur kaþólskum fjölgað umtalsvert. Þannig er liðlega 25% íbúa Vestfjarða nú kaþólskir. Kaþólska kirkjublaðið (16. tlbl, júní 2006) greinir frá því að nýr pólskur prestur, faðir Pétur Gardon, muni taka til starfa á Ísafirði í september og leysa föður Marek af hólmi sem flyst til Akureyrar. Mun hann sinna sálusorgarþjónustu við Pólverja sem búsettir eru á Norðurlandi og Austurlandi í samráði við föður Patrick Breen.

Slóvösku kapúsínamunkarnir, þeir faðir Davíð Tencer og faðir Anton Majerack eru nú að ljúka íslenskunámi við Háskóla Íslands. Hugmyndin er að staðsetja kirkju til bráðabirgðar á Reyðarfirði, áður en kemur til þess að hið nýja klaustur taki til starfa. Það mun bera nafnið „Boðun Drottins“ og kirkjan bera nafna hl. Þorláks. Sem stendur verður Austurland „bráðabirgðarprestakall“ undir stjórn föður Davíðs. Kapúsínaklaustur boðunar Drottins er fyrsta karlaklaustrið sem stofnað verður á Íslandi eftir siðaskipti sem eru allmikil tíðindi út af fyrir sig. Þegar klaustrinu hefur verið fundinn varanlegur staður munu síðan fleiri kapúsínamunkar koma frá Slóvakíu. Kaþólska kirkjan á Íslandi getur því horft björtum augum til framtíðarinnar og allt bendir til þess að meðlimir hennar verði orðnir 10.000 um 2010.

Tíðni fóstureyðinga í Víetnam veldur áhyggjum meðal lífsverndarsinna.
Tíðni fóstureyðinga í Víetnam hefur aldrei verið meiri en í dag. Nýjar tölfræðilegar upplýsingar leiða í ljós að í Ho Chi Minh einni nam fjöldi myrtra barna 74. 264 árið 2005. Vandamálið er orðið slíkt að 1000 manna ráðstefna var haldin í borginni í febrúar s. l. Faðir Joseph sem var einn þeirra sem skipulagði ráðstefnuna sagði „að það væri aðkallandi að koma á fót aðgerðaáætlun til verndar mannslífinu og standa gegn dauðamenningunni í Víetnam og uppræta samfélagslega glæpi líkt og kynferðislegri misnotkun á börnum.

Einn þátttakendanna á ráðstefnunni komst svo að orði í viðtala við AsiaNews: „Með þátttöku minni á ráðstefnunni hafa augu mín lokist upp gagnvart þjóðfélgsmeinum sem hafa áhrif á alla í sókninni, þannig að ég hef einsett mér til að gera mitt besta til að vernda fjölskyldu mínu og fyrst og fremst sjálfan mig gagnvart dauðamenningunni. Hluti andstöðunnar gegn þessari vaxandi dauðamenningu er að kaþólskir sjálfboðaliðar í Hué, fyrrum höfuðborg Víetnam, hafa opnað kirkjugarð fyrir börn sem myrt hafa verið í fóstureyðingum. Kirkjugarðurinn sem var opnaður árið 1992 hefur nú að geyma lík 30.000 barna.

Að sögn AsiaNews verða stofnendur kirkjugarðsins að fara huldu höfði af „öryggisástæðum.“ Enn er Víetnam kommúnistaríki þar sem kristnir menn jafnt og aðrir trúarhópar sæta ofsóknum. Vandamálið felst þó ekki einungis í stjórn kommúnista segir stjórnandi kirkjugarðsins, „hr. H.“ Þetta lýsir sér fyrst og fremst í vaxandi veraldarhyggju og einstaklingshyggju sem rekja má til efnahagstengsla við Vesturlönd sem hefur orðið þess valdandi, að fóstureyðingar hafa aukist til muna: „Í morgun hef ég þegar komið fyrir tíu börnum hérna. Síðdegis í gær jörðuðum við sextán börn. Þið verðið að sjá þetta með eigin augum. Öllum barnalíkunum hafði verið komið fyrir í grænum plastpokum. Stundum jörðum við allt að 20 börn í einni og sömu gröfinni. Fyrstu þrjá mánuði ársins jörðuðum við að minnsta kosti 400 börn.“ Verið er að opna hliðstæða kirkjugarða í Pleiku og Ho Chi Minh og jafnvel leiðtogar kommúnista hafa lofað þetta framtak sem „heilagt kærleiksverk.“

Einhver auðugasti maður heims, William Buffet, gefur
Bill Gatesstofnunni 31 milljarð Bandaríkjadala.

Þessi frétt ætti ekki heims hér í Kaþólsku fréttasjánni nema fyrir þær sakir, að Gatesstofnunin er einn af helstu styrktaraðilum Planned Parenthood International sem útbreitt hefur dauðamenningu fóstureyðinga og ófrjósemisaðgerða (geldinga) um allan heim. Í reynd greindi RUV 1 frá þessari gjöf með svo hástemmdum orðum að lítil sál eins og ég táraðist yfir góðmennskunni, áður en þær „gráu“ tóku að starfa til fulls. Buffet hefur tilkynnt að hann muni afhenda Gatesstofnunni um 80% eigna sinna. Þessi tíðindi eru þó lífsverndarsinnum lítt til gleði. Bill Gates og William Buffet hafa verið „Síamstvíburar“ í gegnum árin í áróðri fyrir fólksfækkun og hafa veitt gífurlegum fjármunum til áróðurs fyrir fóstureyðingum, getnaðarvörnum og geldingum í Þriðja heiminum, einkum undir því yfirskini að hefta útbreiðslu eyðni, sem er nýjasta birtingarmynd dauðamenningar Margaretar Sangers.

Á umliðnum árum hefur „góðgerðarstofnun“ Buffets stutt dyggilega samtök líkt og Planned Parenthood, Population Council, Catholics for Choice og fjölmörg önnur samtök sem beita sér fyrir útbreiðslu fóstureyðinga og berjast gegn lífsvernd. Sama má segja um Gatesstofnunina sem hefur veitt milljónum dala til Planned Parenthood einna í gegnum árin. Tvímenningarnir sem hafa leikið saman bridge áratugum saman segjast hafa rætt þetta sín á milli s. l. tíu ár. Nýlega komst Bill Gates á forsíður blaða um allan heim þegar hann geri heyrum kunnugt að hann hyggðist draga sig smám saman í hlé frá Microsoft til að geta einbeitt sér að „góðgerðamálum.“

Sjá: Glæpurinn gegn mannkyninu – Kynþáttahyggjan og markviss fækkun
jarðarbúa, einkum kaflann um Bill Gates bls. 79 og áfram.
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/index.html

Fjöldi indverskra kaþólikka fer vaxandi þrátt fyrir lög
sem banna trúskipti.
Þrátt fyrir lög sem beint er gegn kaþólsku kirkjunni á Indlandi fer fjöldi trúaðra fjölgandi. Arunchal Pradesh fylkið varð það fyrsta sem setti lög sem bönnuðu trúskipti árið 1978. „Í dag eru skírnir bannaðar“ sagði John Thomas Kattrkudiyil biskup í Itanagar í norðaustur Indlandi: „Þrátt fyrir þessar hindranir eru um 100.000 kaþólskir í Itanagar í dag. Og fjöldinn fer vaxandi, þannig að kristnir menn hafa orðið að skotspæni stjórnmálamanna. Það mikilvægasta er að þjálfa fleiri trúfræðslukennara, þannig að unnt sé að senda þá til afskekktra þorpa.

Næst mikilvægasta verkefnið er að mennta fleiri presta. Það sem biskupsumdæmið þarfnast er prestaskóli til að vígja unga menn til starfa í suðurhéruðunum – Tamil og Kerala. Fjölkvænið sem er afar útbreitt hér um slóðir er helsti þrándur í götu þess að ungir menn vilji gefa skírlífsheiti. Þannig mun líða langur tími þar til innfæddir prestar taka til að starfa hérna. Itanagarbiskupsumdæmið var stofnað árið 2003 og íbúarnir eru um 660.000. Nú sem stendur þjóna sautján prestar 17 sóknum.

Heimildarmynd um líknarmorð vinnur kvikmyndaverðlaun
Evrópskra útvarpsstöðva.

Heimildarmynd um líknarmorð vann gullverðlaunin á fimmtu hátíð Evrópskra útvarpsstöðva sem haldin var í Marseilles í Frakklandi í s. l. viku. Myndin – EXIT, le droit de mourir (rétturinn til að deyja) var framleidd með fjárstuðningi frá fimm evrópskum útvarpsstöðvum, en í henni er borið mikið lof á „frjálslynda“ afstöðu Svisslands til líknarmorða. Tilgangurinn að baki myndarinnar er að sýna „hvernig sjálfboðaliðar hjálpa sjúkum og fötluðum til að deyja að eigin ósk.“

Aleax Schadenberger, framkvæmdastjóri Samtaka gegn líknarmorðum, segir hins vegar: „Raunveruleikinn er hins vegar sá að líknarmorð felur í sér að snúið er endanlega baki við einstaklingum sem þarfnast mikillar umhyggju, en ekki að deyja. Líknarmorðin og afstaðan sem býr þeim að baki gagnvart lífi fólks sem er fatlað, snýst alls ekki um það í Exit hvort viðkomandi fær nauðsynlega hjálp og stuðning til að lifa eða njóti tilfinningalegrar eða sálrænnar aðstoðar. Hún snýst um að deyja og draga fram í ljósið rök til að réttlæta slíkt.

Kardínáli óttast að kirkjan verði dregin fyrir alþjóðlegan dómstól fyrir
að verja lífið og fjölskylduna.

Í viðtali í tímaritinu Famiglia Christiana sem kom út þann 27. júní segir Alfonso Lopez Trujillo kardínáli, forseti Stjórnardeildarinnar um fjölskyldumál, að þeir sem tækju þátt í rannsóknum á fósturvísum í frumfóstrum sem leiddu til dauða þeirra væru settir út af sakramentinu. Í viðtalinu sem fjallar um Fimmta heimsmót fjölskyldna sem haldið verður á Spáni frá 1.-9. júlí er kardínálinn inntur eftir því hvort fóstureyðingar verði þess valdandi, að fólk sé sett út af sakramentinu. Hann svarar þessu svo til að þetta gilti um lækna, hjúkrunarkonur og mæður. Hann bætti við að þetta gilti einnig um þá feður sem væru samþykkir fóstureyðingunni.

Inntur eftir því hvort þetta gilti einnig um þá sem tækju þátt í rannsóknum á fósturvísum svaraði hann: „Vissulega, hér er um hið sama að ræða. Að tortíma frumfóstri er eitt og hið sama og fóstureyðing.“ Hann bætti því við að þetta ætti við um foreldra, lækna og rannsakendur þá sem deyddu fóstrið. Þegar vikið var að þeim stjórnmálamönnum sem styðja fóstureyðingar sagi Trujillo kardínáli, að þeir ættu „alls ekki að koma nærri Evkaristíunni.“ Hann tók jafnframt fram að páfi hefði hvað eftir annað ítrekað við sig af áhersluþunga, að leggja bæri áherslu á þetta við stjórnmálamenn: „Stundum skipta þeir um skoðun.“

Í viðtalinu varar kardínálinn við því að Vatíkanið óttist að kirkjan verði einhvern daginn „dregin fyrir einhvers konar alþjóðlegan dómstól,“ ef látið sé undan enn róttækari kröfum. Hann sagði máli sínu til útskýringar, að í „sumum ríkjum væri vörnin gegn lífinu og rétti fjölskyldunnar orðið að eins konar glæp gegn ríkisvaldinu, að óhlýðnast stjórnvöldum og beita konur misrétti.“

Amnesty International: „Réttur“ til fóstureyðinga og nú „réttur“ til
að iðka kynlíf með aðila af sama kyni?
Amnesty International hefur nú fordæmt Lettland fyrir að þverskallast við að setja orðið „kynhneigð“ inn í jafnréttislöggjöf sína á vinnumarkaðnum. Samtökin hafa fagnað því að Vike_Freiberga hafi gripið til neitunarvalds síns gegn löggjöf sem feli ekki í sér orðið „kynhneigð“. Þessi síðasta þróun mála hefur staðfest þær grunsemdir að samtökin séu einfaldlega að verða að enn öðru vopninu í höndum vinstri sinna í baráttu þeirra gegn fjölskyldugildum og lífsvernd þar sem samtök eru grímuklædd sem mannréttindasamtök. Fjölmargir meðlima AI hafa harðlega gagnrýnt samtökin að undanförnu fyrir að ætla að taka fóstureyðingar upp á arma sína sem mannréttindamál. Nýlega gagnrýndi Vatíkanið þessa afstöðu AI til fóstureyðinga með þungum orðum: „Verja þau rétt allra? Nei! Ekki ófæddra barna þegar þau eru myrt.“

Indland: Lögreglan handtekur nokkrar Kærleikssystur móður Teresu
fyrir að stunda trúboð.

Indverska lögreglan handtók fjórar Kærleikssystur þegar þær heimsóttu sjúkrahús sem rekið er á vegum stjórnvalda. Þetta gerðist í Ruia sjúkrahúsinu í Tirupati í Andhra Pradesh. Systurnar hafa vitjað sjúklinga á sjúkrahúsinu líkt og þær hafa gert síðustu 20 árin, en Tirupati er vinsæll pílagrímsstaður Hindúa. Atvikið átti sér stað þann 25. júní s. l. og var systrunum haldið á lögreglustöðinni til kl. hálf ellefu um kvöldið. Systir Rosaria sem er svæðisstjóri reglunnar segir að um 50 manns hafi safnast saman um systurnar og ásakað þær fyrir trúðboð. Mannfjöldinn óx og að lokum voru systurnar fluttar á næstu lögreglustöð til yfirheyrslu að kröfu hindúskra öfgamanna: „Líklega hefur fólkið ekki skilið hverjar við erum og hvað við erum að gera.“

Faðir Antoniraj Thumma, talsmaður Samtaka kristinna trúfélaga sagði í þessu sambandi: „Leiðtogar kristinna manna munu ganga á fund Y.S. Rajasekharta, ráðherra fylkisins og þrýsta á að stjórnvöld bregðist við slíkum tilvikum. Samband kaþólskra í Hyderabad sem kom saman þann 26. júní s. l. krafðist tafarlausra aðgerða stjórnvalda gegn slíkum öfgamönnum.

Kristnir leiðtogar bregðast við ofbeldi gegn kristnum mönnum og lögum sem óheimila trúboð:
http://www.lifesite.net/ldn/2006/jun/06062011.html

 
Breskir læknar hafna líknarmorðum.
Í atkvæðagreiðslu sem fór fram í þessari viku tók British Medical Association (BMA) afgerandi afstöðu gegn líknarmorðum á fundi í Belfast þar sem 65% læknanna voru andvígir líknarmorðum. Þetta er stefnubreyting í ljósi þróunarinnar á s. l. mánuðum þegar samtökin neituðu að taka afstöðu til málsins. Joffe lávarður sem lagði þingsályktunartillögu um líknarmorð fram bar lof á þessa afstöðu læknanna.

Tillagan féll í þinginu í maí en Joffe lávarður og stuðningsmenn hans hafa hótað að leggja hana fram aftur þar til þingið samþykki hana. Skoðanakönnun meðal breskra lækna leiddi í ljós að 70% þeirra væru andvígir líknarmorðum. Dr. Andrew Davies frá Cardiff komst svo að orði í viðtali við BBC: „Ég óttast að rétturinn til að deyja verði að skyldu til að deyja til að létta áhyggjum af fjölskyldunni.“

Forystumaður meðal slóvaskra biskupa: Baráttan gegn vestrænni
frjálshyggju er „forgangsmál kirkjunnar.“

Formaður Biskuparáðs Slóvakíu, Frantisek Tondra, komst svo að orði í þessu sambandi: „Frjálshyggjan er allsráðandi í slóvakískum fjölmiðlum og gegnsýrir þannig og umsnýr öllum kristnum gildum, afstöðunni til fjölskyldunnar og allra lífsgæða í hugum almennings. Þetta gegnir einkum um sjónvarpsrásir í einkaeigu og meðal nokkurra útbreiddra dagblaða.“ Biskupinn vék einnig að þeim þrýstingi sem kæmi frá Evrópubandalaginu gegn allri lífsvernd sem hefði áhrif á aðildarviðræður Slóvakíu innan við bandalagið: „Í grundvallaratriðum er þetta af hinu góða. En frjálshyggjuhópar setja þrýsting á stjórnvöld til að lögleiða líknarmorð og giftingu samkynhneigðra, undir því yfirskini að þetta sé að koma til móts við kröfur Evrópubandalagsins.

Lögleiðingu líknarmorða í Kaliforníu hafnað.
Réttarfarsnefnd Kaliforníuþings hafnaði með naumum meirihluta tilraun til að lögleiða líknarmorð. Í atkvæðagreiðslu s. l. þriðjudag var það demókratinn Joe Dunn sem réði úrslitum í atkvæðagreiðslunni innan nefndarinnar þar sem atkvæðin féllu 3 á móti 2. Á fréttamannafundi greindi Dunn blaðamönnum frá því að það hefði verið með „tregablöndnu hjarta“ sem hann hefði tekið þessa ákvörun. Hann sagðist hafa óttast að í framtíðinni yrðu það „peningasjónarmiðin“ sem myndu verða allsráðandi: „Í þessu samfélagi í Kalifórníu og Bandaríkjunum, eru það því miður iðulega „peningasjónarmiðin“ sem ráða ferðinni, en ekki almenningsálitið.“

Lögin – Bill AB651 – höfðu lög Oregonsfylkis um líknarmorð til hliðsjónar. Síðustu tölfræðilegu upplýsingarnar frá Oregon leiða í ljós að líknarmorð hafa aukist um 273% síðan lögin um líknarmorð voru samþykkt s. l. ár. Andstæðingar laganna héldu því fram að lögin væru óþörf vegna þess að sjúklingum væri tryggður réttur til að hafna sérmeðferð og hefðu óheftan aðgang að deyfilyfjum. Nýlegar skoðanakannanir hafa gefið til kynna, að þegar almenningur gerir sér á annað borð ljóst um hvað líknarmorð snúast verur almenningsálitið þeim andsnúið. Arnold Schwarzenegger landstjóri hafði lýst því yfir fyrr á þessu ári, að hann myndi grípa til neitunarvalds síns ef lög um líknarmorð yrðu samþykkt í Kaliforníu.

Skoðanakannanir leiða í ljós að fólk verður andvígt líknarmorðum þegar það
gerir sér ljóst um hvað þau snúast:
 http://www.lifesite.net/ldn/2006/mar/06031704.html

Kaþólsku kirkjunni skilað kirkju sem Sovétstjórnin lagði hald sitt á.
Erkisbiskuðsdæmi Móður Guðs í Moskvu hefur verið skilað kirkju í hendur sem Sovétstjórnin tók eignarnámi fyrir 50 árum. Í athöfn s. l. sunnudag afhentu fulltrúar stjórnvalda Tadeusz Kondrusiewitsj í hendur á nýju Kirkju hl. Jóhannesar skírara með táknrænni athöfn. Í messunni blessaði erkibiskupinn íkonu Vorrar Frúar frá Fatíma sem gerð hafið verið sérstaklega fyrir kirkjuna. Bygging Kirkju hl. Jóhannesar skírara var hafin að boði Alexanders I tsars árið 1823 og var smíði hennar lokið árið 1826. Sovétstjórnin lét loka kirkjunni eftir að hafa handtekið prestinn og þvingað hann til að skrifa undir skjal þar sem hann lýsti því yfir „að hann gæti ekki annast viðhald hennar eða greitt af henni eignarskatta.“ Fyrsta messan var sungin í kirkjunni að nýju árið 1991, en á tímum Sovétstjórnarinnar hafði hún verið notuð sem samkomuhús og til tónlistarflutninga.

Ef ný kanadísk rannsókn eru marktæk er samkynhneigð óeðlileg.
Í umfjöllun um kanadíska rannsókn um uppruna kynhneigðar voru margir fjölmiðlar fljótir að grípa til kenningarinnar um „hommagenið“ (gay gene). CBC birti fréttina þegar á mánudagsmorgun og CNN fylgdi í kjölfarið: „Kynhneigð karla ákvarðast fyrir fæðingu.“ Í reynd setti rannsóknin spurningarmerki við það sem fjölmiðlarnir fullyrtu. Hún leiðir í ljós – ef hún fær staðist – að samkynhneigð megi rekja til frávika í þroska fóstursins í móðurlífi.

Rannsóknin var framkvæmd við Brock University í St. Catharines í Ontario og birt í tímariti National Academy of Sciences undir heitinu: „Biological versus nonbiological older brothers and men´s sexual orientation.“ Í niðurstöðunum er sú spurning sett fram, hvort kynheigð karla hvers til annars sé tengd því að eiga eldri bróðir, jafnvel þó bræðurnir alist ekki upp saman. Vísindamennirnir varpa fram þeirri tilgátu, hvort samkynhneigð megi rekja til viðbragða ónæmiskerfis móðurinnar til drengs í móðurlífi. Svo er komist að orði í skýrslunni: „Kenning um samkynhneigð karla sem gæti samrýmst þeim niðurstöðum sem liggja fyrir gæti falist í viðbrögðum ónæmiskerfis móðurinnar þegar hún ber dreng undir belti við næstu þungun. Ef þessi kenning um ónæmiskerfið fær staðist, þá gæti viðbrögð ónæmiskerfis móðurinnar á kynhneigð drengsins í framtíðinni falist í einhverjum viðbrögðum baktería eða vírusa á kyngreiningu heilans.“

Dr. John Shea, læknisfræðilegur ráðunautur „Campaign Life Coalition“ sagði í viðtali við LifeSiteNews.com að rannsóknin varpaði ljósi á þá athyglisverðu niðurstöðu sem gæti gefið til kynna „að viðbrögð ónæmiskerfis líkama móðurinnar skaði kyngreiningarstarfsemi heilans á dreng í móðurlífi sem leiddi til óeðlilegrar hegðunar hjá fóstrinu.“ Ef þessi kenning fær staðist leiðir hún í ljós að samkynhneigð sé óeðlileg hneigð, þvert gegn því sem fjölmiðlar fullyrða í umfjöllun sinni um niðurstöður hennar: „Ég fæddist afbrigðilegur og því er „ég er eðlilegur“ hvað mig áhrærir rökleysa.“

Sá létti í vikulokin.
Nú þegar tími ferðalaganna stendur sem hæst eru ekki óviðeigandi að koma með einn „ferðabrandara.“ Eftir að Iceland Express vélin til London hafði náð góðri lofthæð sagði flugstjórinn við farþegana í hátalarakerfið: „Góðir farþegar, þetta er flugstjórinn sem talar. Velkomin um borð og njótið flugsins til London. Veðrið á leiðinni verður frábært og því ætti ferðin að verða öllum þægileg. Njótið því flugsins og slappið af.“ Síðan kom skyndileg þögn . . . „GUÐ MINN GÓÐUR, GUÐ MINN GÓÐUR,“ hljómaði svo í hátalaranum. Eftir nokkra mínúta þögn heyrist síðan aftur í flugstjóranum sem sagði: „Kæru farþegar. Mér þykir leitt ef ég hef hrætt ykkur. Meðan ég var að tala við ykkur áðan kom flugfreyjan og hellti sjóðandi heitu kaffinu niður á mig. Þið ættuð að sjá hvernig buxurnar mínar líta út að framan! Það er ekkert að óttast.“ Þá heyrðu nærstaddir farþegar fullorðinn mann segja stundarhátt: „Þú ættir að sjá hvernig mínar líta núna út að aftan!“

4 athugasemdir

Athugasemd from: Guðmundur Guðmundsson
Guðmundur Guðmundsson

Í framhaldi af ákaflega undarlegri túlkun þinni á rannsókn AF. Bogaert í PNAS, langar mig að vita hvort börn, sem fæðast heyrnarlaus vegna veirusmits í móðurlífi séu óeðlileg að þínu mati?

01.07.06 @ 14:06
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég myndi orða það sem svo að „þau gangi ekki heil til skógar“ að þessu leyti til. Sjálfur fékk ég snert af mænuveikifaraldrinum sem gekk 1954 sem leiddi til þess að hendurnar á mér samhæfðust í hreyfingum, það er að segja hreyfingar annarrar handarinnar eru nákvæmlega þær sömu og hinnar. Læknar hafa aldrei getað útskýrt þetta öðru vísi en sem „truflun“ í greiningarstöð heilans. Því geng ég ekki „heill til skógar“ að þessu leyti til.

Guðmundur! Ég er ekki að túlka neitt heldur einungis að greina frá umsögnum Kanadamannanna sjálfra og eins og þú sérð sjálfur eru þeir afar varkárir að draga neinar ályktanir. Hér er einungis um huglægar tilgátur að ræða, en fréttnæmar út af fyrir sig, mun varkárari en fjölmiðlamennirnir.

01.07.06 @ 17:12
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Sæll, Jón, og þakka þér fréttapistil þinn hinn mikla. Ég vil fagna orðum Alfonsos Lopez Trujillo kardínála, forseta Stjórnardeildarinnar um fjölskyldumál, að þeir, sem tækju þátt í rannsóknum á fósturvísum í frumfóstrum sem leiddu til dauða þeirra, væru settir út af sakramentinu (sjá hér miklu ofar, 7. frétt að ofan: “Kardínáli óttast …"). Slík afstaða er hárrétt ákvörðun af kirkjunnar hálfu og sýnir vonandi mörgum, hvílík alvara hér er á ferð. Kirkjan getur ekki komið í veg fyrir ósiðlegt athæfi af hálfu meðlima sinna, en skýr siðferðiskenning hennar hjálpar þó í því efni. Það er engin dygð að þegja um rétt siðferði, sama hve heimurinn hamast; og við skuldum ekki heimshyggjunni þá þjónustu að hjálpa óhlýðnum einstaklingum, sem bera kristið nafn, til að framganga í vondum verkum, af því að þeir telji “óvíst” hvort þau séu í reynd vond, sem byggist á því að við eða kirkjan hafa ekki staðið sig sem skyldi að gera þeim ljóst, hvað sé leyfilegt og hvað ekki. – Það eru margir hræsnarar sem reyna að réttlæta það, að þeir séu vel kristnir, þrátt fyrir að þeir verji fósturdeyðingar eða framkvæmi þær jafnvel sjálfir. Trujillo kardínáli minnir menn á, að jafnvel frumfóstur verðskulda fulla virðingu fyrir lífi sínu; og þyngd hinnar kirkjulegu refsingar sýnir, að hér er ekki um léttvægt atriði að ræða, heldur alvarlega synd, ef ekki farið að þessari leiðsögn móður okkar kirkjunnar. Við eigum ekki að hjálpa neinum – hvorki með loðinni kenningu né slapplegum vitnisburði trúar okkar – til að hræsna um, að þeim leyfist að deyða ófætt manneskjulíf, fóstur eða frumfóstur, eða til að ímynda sér, að slíkt framferði af þeirra hálfu sé ekki stóralvarlegt.

01.07.06 @ 18:58
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Trúir orðum Felix páfa III nafni. Þau snurtu mig djúpt. Sumir segja eins og konan sem ætlaði sér að fara til Kína: „Ég þarf ekkert Vísa, ég hef Mastercard!“
Mastercard ósannsöglinnar verður skammgóður vermir í hreinsumareldinum!

01.07.06 @ 20:57