« Trúarvakning í Frakklandi og QuébecKom þú Heilagur Andi – í tilefni Uppstigningardags »

26.05.06

  20:30:36, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 4156 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir

Kaþólska fréttasjáin: Vikan 21. til 28. maí 2006

Kaþólska kirkjan í Afríku hefur þrefaldast að stærð á tæpum 30 árum.
Margt fróðlegt ber fyrir augu þegar skyggnst er í Kaþólsku árbókina sem nú er nýkomin út á vegum Libreria Editrice Vaticana og unnin er af hagdeild Páfastóls. Þar kemur í ljós að Afríka er það trúboðssvæðanna þar sem vöxturinn hefur verið mestur frá árinu 1978 til 2004. Samkvæmt tilkynningu upplýsingadeildar Páfastóls hefur gætt „hraðs vaxtar“ kaþólskra um allan heim í embættistíð Jóhannesar Páls páfa II eða frá 757 milljónum í 1.09 milljarði.

„En tölurnar eru ekki eins spennandi þegar þær eru lesnar í ljósi mannfjöldaþróunarinnar almennt í heiminum á sama tímabili sem jókst úr 4. 2 milljörðum í 6.4 milljarða. Hnattrænt séð hefur meðlimum kirkjunnar fækkað örlítið eða úr 17.99% í 17.19%. En ástandið í hinum ýmsu heimsálfum er afar breytilegt,“ sagði upplýsingafulltrúi Vatíkansins.

Hvað áhrærir Evrópu er um augljósa stöðnun að ræða sem má útskýra með fólksfjöldafækkuninni í Gamla heiminum. Í augnablikinu er íbúafjöldinn í jafnvægi (með straumi innflytjenda) en reiknað er með að hann fari ört minnkandi á komandi áratugum. Fjöldi skírna í Evrópu árið 2004 nam 280 milljónum, en þetta er um 12 milljón fleiri en 1978. Hlutfallslega hefur fjöldi kaþólskra lækkað úr því að vera 40.5% í 39.5% á hverja hundrað íbúa.

Í Afríku blasir allt annað við sjónum þar sem kaþólskum hefur fjölgað úr 55 milljónum árið 1978 í 149 milljónir árið 2004. Segja má að ákveðið millibilsástand sé ríkjandi í Ameríku og Asíu. Í Ameríku er fjöldi trúaðra stöðugur eða um 62% af íbúafjöldanum, en í Asíu hefur fjöldi trúaðra aukist úr því að vera 2.5% í 3%. Í Eyjaálfu er ástandið einnig stöðugt eða 26%. Í Afríku eru kaþólskir nú 13.5% af heildarfjölda kaþólskra um allan heim eða hefur vaxið úr því að vera 7% árið 1978. Evrópskir kaþólikkar eru 25.4% af heildarfjölda kaþólskra um allan heim, en hér er um minnkun að ræða síðan 1978 eða úr 35%. Nær helmingur kaþólskra í heiminum býr í Ameríkunum. Í Asíu eru þeir 10.3% og aðeins 0.8% í Eyjaálfu.

Yfirlýsing Vatíkansins í máli föður Marcial Maciel sem leystur hefur verið frá allri opinberri þjónustu.
Í síðustu viku var vikið að máli reglustofnanda Kristslegionunnar, föður Marcial Maciel sem lág undur grun um kynferðislegt áreiti. Hér kemur yfirlýsing Stjórnardeildar trúarkenninga:

Frá árinu 1998 hefur Stjórnardeild trúarkenninga borist í hendur ásakanir sem þegar höfðu verið opinberaðar að hluta gegn föður Marcial Degollado, stofnanda Kristslegionunnar sem eru dómstólamál. Árið 2002 gaf faðir Maciel út yfirlýsingu þar sam hann neitaði þessum ásökunum og tjáði andúð sína á þeim ásökunum sem voru bornar fram á hendur honum af fyrrum meðlimi í Kristslegioninni. Árið 2005 dróg faðir Maciel sig í hlé sem yfirboðari Kristslegionarinnar sökum aldurs síns.

Stjórnardeild trúarkenninga hefur vegið og metið alla þætti málsins gaumgæfilega og í krafti „motu prorpio“ „Sacramentorum Tutela“ sem þjónn Guðs Jóhannes Páll páfi annar innleiddi þann 30. apríl 2001 bauð þáverandi forseti Stjórnardeildar trúarkenninga, hans háverðugheit Joseph Ratzinger kardínáli að rannsókn ásakananna skyldi hafinn. Í millitíðinni féll Jóhannes Páll páfi II frá og kjör Ratzingers kardínála sem páfa fór fram.

Eftir að hafa rannsakað alla efnisþætti málsins hefur Stjórnardeild trúarkenninga undir forsæti hans háverðugheitar William Levada kardínála ákveðið, bæði með hliðsjón af hinum háa aldri föður Maciel og slæmu heilsufari hans, að binda enda á hina kanónísku rannsókn og bjóða honum að lifa í bæn og iðrun og segja skilið við alla opinbera þjónustu. Hinn heilagi Faðir hefur samþykkt þessa ákvörun.

Óháð persónu stofnandans er hið merka trúboðsstarf Kristslegionunnar og Regnum Christi viðurkennt með þakklæti.

Kærleikssystur móður Teresu hefja störf í Kabúl.
Kærleikstrúboðarnir sem blessuð Teresa frá Kalkútta stofnaði hafa komið upp systrasamfélagi í Kabúl. Samfélagið var stofnað þann 10. apríl og faðir Giuseppe Moretti, svæðisstjóri trúboðssvæðisins blessaði það þann 9. maí. Faðir Moretti sagði í viðtali við AsiaNews að tilkoma trúarreglu kvenna hafi ekki fram að þessu „kallað fram andstöðu eins og sumir hefðu haldið. Þær hafa tekið til við að hjálpa börnum, en aðstæður þeirra í landinu eru afar slæmar.“ Unnið hefur verið að stofnun þessa samfélags í um það bil eitt ár.. Íbúar Afghanistans eru 31 milljón og þar af eru 99% íbúanna múslimar.

Reglumeðlimum fer fækkandi
Samkvæmt Árbók kirkjunnar yfir hagtölur áranna 1978-2004 sem Libreria Editrice Vaticana gefur út hefur meðlimum í trúarreglunum í Afríku og Asíu farið fjölgandi, en þeim hefur fækkað í örðum heimsálfum. Árið 2004 voru var fjöldi karlmanna 55.000 en kvenna 767.000.

Fjöldi karlmanna minnkaði um 27.7% á 26 ára tímabili, eða því sem næst allri embættistíð Jóhannesar Pála páfa II úr 75.000 árið 1978. Tölur frá Afríku sýna fram á 48% aukningu karlmanna og samkvæmt tölum frá Asíu er um 39% aukningu að ræða. Í Evrópu er um 46% fækkun hjá karlmönnum að ræða, í Ameríkunum 30% og í Eyjaálfu 47%. Af fjölda karlmanna í trúarreglunum í heiminum búa 16.40% í Asíu, 14.16% í Afríku, 30.14% í Ameríkunum, 36.24% í Evrópu og 3.06% í Eyjaálfu.

Vatíkanið segir að fjöldi kvenna í trúarreglunum hafi einnig „fækkað umtalsvert“ eða um 22% um allan heim, en konurnar voru 990.768 árið 1978. Um áþreifanlega aukningu var að ræða í Afríku og Asíu eða um 62% og 64%. Í Evrópu nam fækkunin um 38%, Ameríkurnar tillynna 27% fækkun og Eyjaálfa 41%. Af konum innan trúarreglnanna búa 19.64% í Asíu, 7.48% í Afríku, 28% í Ameríkunum, 43% í Evrópu og minna en 2% í Eyjaálfunni.

George Pell kardínáli: Leikmenn ættu að segja kaþólskum stjórnmálamönnum frá vonbrigðum sínum hvað áhrærir afstöðu þeirra til fóstureyðinga.
Þegar ástralski kardínálinn Pell var inntur eftir því hvernig leikmenn ættu að bregðast við gegn kaþólskum stjórnmálamönnum sem berjast ekki gegn fóstureyðingum, sagði hann: „Leikmenn ættu að segja stjórnmálamönnunum að það hafi orðið fyrir vonbrigðum. Ef viðkomandi stjórnmálamenn standa fast á afstöðu sinni svaraði Pell kardínáli þessu sem svo: „Þið verðið að vekja máls á því hversu samstíga þeir eru kirkjunni yfirleitt. Ef þeir kalla sig kaþólska en eru samt andstæðingar okkar í veigamiklum málum, þá ættu þeir í það minnsta að hafa hljótt um það að þeir séu kaþólskir.

Kardínálinn viðurkenndi að um aðrar erfiðar spurningar væri að ræða í þessu sambandi eins og hvað áhrærði meðtöku evkaristíunnar: „En ef einstaklingur snýr baki við lífsverndarstefnunni þá tel ég að þið eigið að leggja þessa spurningu fyrir viðkomandi: Hvernig getur þú talið þig verðan að ganga til altaris?“

Evrópubandalagið boðar trúarleiðtoga til fundar um siðrænt gildismat og mannréttindi.
Evrópubandalagið hefur kallað leiðtoga ýmissa trúarbragða til fundar í Brüssel þann 30. maí næstkomandi. Fundurinn mun snúast um siðrænt gildismat og önnur atriði eins og frelsi, lýðræði, umburðarlyndi og mannréttindi. Jose Manuel Durao Barroso, forseti Evrópuráðsins og Wolfgang Schuessel Austurríkiskanslari og núverandi forseti EB boða til fundarins. Önnur atriði sem rædd verða er hlutverk trúarsamfélaga til að draga úr ágreiningsefnum og hvers ýmsir trúarhópar geta vænt af stofnunum bandalagsins.

Fulltrúar Búddista, Íslam, Gyðinga og kristinna manna munu verða viðstaddir. Jose de Cruz Policarpo kardínáli frá Lissabonn, Christoph Schoenborn kardínáli frá Vín og Adrianus Van Luyn biskup frá Rotterdam sem skipar forsætið í Biskuparáði Evrópubandalagsins munu sitja fundinn fyrir hönd kaþólsku kirkjunnar.

Sérfræðingar gagnrýna áform sem gætu lögleitt fóstureyðingar í Argentínu.
Frá Buenos Aires berast nú þær fréttir að faðir Alberto Bochatey sem er framkvæmdastjóri Líffræðideildar kaþólska háskólans í Argentínu hefur varað við lagasetningu sem gerði fóstureyðingar löglegar í landinu: „Stjórnvöld ættu fremur að gefa því gaum að uppfræða konur um það hvernig þær geti verndað líf barna sinna.

Í viðtali við AICA fréttastofuna var faðir Bochatey inntur um álit sitt á breytingum á argentískum hegningarlögum sem yrðu þess valdandi að fóstureyðingar yrðu heimilaðar í landinu sagði hann að hann væri vongóður um að haft yrði samráð við kirkjuna í sambandi við væntanlegar breytingar: „Það kann aldrei góðri lukku að stýra að lögleiða glæpi líkt og fóstureyðingar.“
Hann bætti síðan við: „Vandamálið er augljóst þegar læknar leita lagaverndar til að afsaka gerðir sínir og leita stuðnings í lögum til að framkvæma það sem þeir vilji gera en er ekki heimilt.“

Spænsk mannréttindasamtök hvetja Suðurameríkuríkin til að standa gegn stefnu Sameinuð þjóðanna hvað áhrærir fóstureyðingar.
Í viðleitni sinni til að koma í veg fyrir útbreiðslu fóstureyðinga til annarra landa Suðurameríku, en í síðustu viku heimilaði Kolumbía þær að hluta, hefur spænska mannréttindasíðan Hazteoir.org hvatt Suðurameríkuríkin að gera lífsverndarsinnum kleift að taka til máls hjá Sameinuðu þjóðunum til að andmæla afstöðu samtakanna til fóstureyðinga.

Hópur sérfræðinga gáfu nýlega út skýrslu á vefsíðunni um fóstureyðingar í Suðurameríku þar sem þeir mótmæltu því hvernig voldug samtök fóstureyðingarsinna héldu Sameinuðu þjóðunum í kverkataki sem innu að því öllum árum að lögleiða fóstureyðingar í Suðurameríku. Í skýrslunni er vakin athygli á því að Kolumbía er fyrsta landið sem hefur látið undan þessum þrýstingi og Brasilía gæti orðið næst í röðinni.

Upplýsingar um það hvernig unnt er að senda bréf til ýmissa lífsverndarsamtaka:

Páfastóll segir að bréf Musterisriddaranna sé fölsun.
Angelo Sodano kardínáli segir að bréf sem sagt er að viðurkenni Musterisriddararegluna að nýju sé fölsun. Bréfið sem hefur gengið manna á meðal í Þýskalandi á undanförnum mánuðum þar sem lesa má að Vatíkanið viðurkenni nýja „Musterisriddarareglu“ sé fölsun. Borist hefur fjöldi fyrirspurna sökum bréfsins. Páfastóll svaraði þessum fyrirspurnum með athugasemd sem birtist í hinni ítölsku útgáfu á L´Osservatore Romano s. l. sunnudag. Eins og kunnugt er bannaði Klement páfi V (1305-1314) regluna og hún var aldrei endurreist. Kirkjan viðurkennir einungis Mölturiddarana og Reglu hinnar heilögu grafar í Jerúsalem.

Vatíkanið leggur áherslu á að staðir evkaristíuundra geti glætt elsku á sakramentunum.
Evkaristíundrin eru ekki grundvöllur kaþólskrar trúar, en þau geta vissulega laðað fólk að nýju til sakramentanna. Það er þetta sem lögð er áhersla á í nýrri bók „Miracoli Eucaristici. Tesori Nascosti“ (Evkaristíuundrin: Hulinn fjársjóður) sem nýlega er komin út á vegum ART. Monsignor Raffaello Martinelli, talsmaður Stjórnardeildar fyrir trúarkenningar og fyrrum meðlimur í nefndinni sem stóð að samningu Trúfræðsluritsins komst svo að orði: „Trú okkar grundvallast ekki á evkaristíuundrunum og kristnum mönnum ber ekki einu sinni skylda til að trúa á þau. Evkaristíundrin geta orðið okkur hvatning til að læra að þekkja og elska evkaristíuna,“ bætti hann við og sagði ennfremur: „Þau geta hjálpað fólki til að enduruppgötva leyndardóm, fegurð og auðgi evkaristíunnar sem er uppspretta og hátindur hins kristna lífs.“

Benedikt páfi XVI heimsækir Auschwitz.
Í heimsókn sinni til Póllands mun páfi heimsækja dauðabúðirnar og talsmaður Vatíkansins segir að hans heilagleiki muni ganga inn um hliðið fótgangandi í stað þess að aka í bifreið. Benedikt páfi mun biðja í fyrrum Auschwitz-Birkenau dauðabúðunum síðasta daginn í fjögurra daga heimsókn sinni. Um það bil ein og hálf milljón manna, flestir Gyðingar, voru myrtir í búðunum í gasklefunum eða dóu úr sjúkdómum, hungri og í nauðungarvinnu.

Skoskir skólar munu uppfræða börn um „öruggt“ kynlíf samkynhneigðra.
Brátt munu kennarar skoskra barna uppfræða þau um það hvernig iðka má „öruggt“ kynlíf samkynhneigðra og verða frædd um hvernig kynvilla er iðkuð. Dagblaðið Scotsman greindi frá þessu á sunnudaginn var þar sem samkynhneigð verður gerð að hluta námskrárinnar. Lagasetning um þetta efni var þrýst í gegnum skoska þingið árið 2000 þrátt fyrir að 89% almennings væri andvígur slíkri lagasetningu samkvæmt skoðanakönnunum.

Þeir sem eru andvígir lögunum hafa gefið út harðorðar yfirlýsingar gegn hinni nýju námskrá skoskra fræðsluyfirvalda. Talsmaður kaþólsku kirkjunnar í Skotlandi kemst svo að orði: „Áður en námskránni (Share) verður breytt, ættum við fremur að sjá viðleitni í þá átt að draga úr notkun getnaðarvarna meðal ungmenna, sýkingum af völdum kynsjúkdóma og úr fóstureyðingum. Allt bendir til þess að þetta ástand hafi versnað til muna. Hann bætti síðan við: „Að sýna börnum bókstaflega með myndrænu fræðsluefni kynlíf fólks af sama kyni og að það sé æskilegt, er reginhneyksli og með öllu ónauðsynlegt. Hvar var þess krafist að kynlíf í öllum sínum myndum yrði gert að hluta námskrár skólanna?” Dr. Alastaire Noble, fræðslustjóri „the Christian Charity Care for Scotland“ tekur svo til orð: „Það eru skír mörk á milli þess að veita réttar upplýsingar og að glæða undir samkynhneigð með þeim hætti að hvatt sé til að reyna slíkt.

Skoska kynfræðslan hlutverki sínu ekki vaxin, sjá:

Elton John ásakar kaþólsku kirkjuna um dauða vina sinna en ekki kynmök samynhneigðra.
Enska poppstjarnan Elton John réðst á kaþólsku kirkjuna og ásakaði fyrir dauða 60 vina sinna sem létust úr eyðni. Hann komst svo að orði á fræðsluráðstefnu: „Við höfum ekki undir hendi læknisfræðilega bólusetningu, en samfélagslega bólusetningu og hún er nefnd menntun.“ Honum yfirsást sú staðreynd á ráðstefnunni, að smokkar kunna að vera ein meginástæðan fyrir útbreiðslu eyðnifaraldursins. Jafnvel sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna í þessum efnum hafa viðurkennt að smokkar bregðist í 10% tilvika.

Edward C. Green við Harvard School of Public Health komst svo að orði árið 2003 að það hversu iðulega smokkar brygðust í svo ríkum mæli væri ekki nægilega góð vörn gegn eyðni, „ekki nægilega gott gegn banvænum sjúkdómi.“ Hann bætti við: „Eins og smokkar eru markaðsettir í Afríku og öðrum þróunarlöndum er talað eins og þeir séu 100% öruggir.“ Baráttan gegn eyðni í Úganda þar sem lögð er áhersla á aðhaldsemi í kynlífi og því næst tryggð og smokkar væru einungis notaðir ef fólk væri nægilega geggjað til að hafna hvoru tveggja hinna fyrra, hefði leitt í ljós að þetta væri eina raunhæfa leiðin í Afríku til að snúa þróuninni við í baráttunni við eyðnina.

Þegar Green kom fram fyrir undirnefnd banadarísku Öldungadeildarinnar um málefni Afríku þann 19. maí 2003 upplýsti hann nefndina um „að smitunartíðinin í Úganda hefði minnkað úr 21% í 6% síðan 1991. Fjölmörg okkar í heilbrigðisþjónustunni trúðum því ekki að aðhaldsemi í kynlífi og trúnaður væru raunhæfar leiðir. Nú virðist sem við höfðum rangt fyrir okkur.

Sameinuðu þjóðirnar segja að smokkar bregðist í 10% tilvika sem vörn gegn eyðni:

Sérfræðingur um eyðni og fyrrum áróðursmaður fyrir smokkum mælir með aðhaldsemi í kynlífi:

Aðgerðahópur samkynhneigðra hótar að trufla kaþólskar messur á Hvítasunnunni í BNA.
Meðlimir í Regnbogabandssamtökunum, sem er andspyrnuhópur hómósexualista sem krefst þess að kaþólska kirkjan samþykki kynlíf fólks af sama kyni hafa lýst því yfir að þeir muni enn að nýju trufla messur á Hvítasunnunni í Bandaríkjunum. Hópurinn sem ber regnbogalituð axlarbönd meðan messan stendur yfir til að gefa til kynna að þeir stundi virkt kynlíf en ætli sér þrátt fyrir það að ganga til altaris ögra þannig kenningu kirkjunnar sem boðar að virkt samlíf fólks af sama kyni sé dauðasynd. Samkvæmt kenningum kirkjunnar getur kaþólskur einstaklingur ekki meðtekið evkaristíuna meða hann lifir í dauðasynd án þess að iðrast.

Francis Arinze kardínáli sem er skrifstofustjóri Stjórnardeildar sakramenta og helgisiða sagði í viðtali við EWTN: „Þetta fólk í Regnbogabandssamtökunum er í raun og veru að segja að við iðkum virkt kynlíf sem samkynhneigt fólk og ætlum að halda því áfram, en krefjumst þess að meðtaka heilaga bergingu.“ Í Trúfræðsluriti kaþólsku kirkjunnar má lesa: „að kirkjan dæmi ekki fólk sem hafi tilhneigingu til samkynhneigðar. Við dæmum engan fyrir slíkt, en þegar fólk iðkar slíkt dæmum við það.“ Þrátt fyrir afdráttarlausar yfirlýsingar Vatíkansins s. l. ár gengu meðlimir samtakanna upp að grátunum og hrifsuðu til sín hóstíuna og brutu sundur og gáfa hvort öðru að öðrum kirkjugestum ásjáandi.

Aðgerðarhópur samkynhneigðra truflar messur og hrifsa til sín hostíuna:

Voice of the Faithful í Bandaríkjunum fagnar skjótum viðbrögðum Páfastóls í máli Maciels Degollado.
Í nýjasta fréttablaði sínu „The Vineyard“ lýsa Voice of the Faithful ánægju sinni með hin skjótu viðbrögð Vatíkansins í málinu: „Í hugum allra kaþólskra lýsa viðbrögð Vatíkansins nú meir árvekni og umhyggju en áður hefur tíðkast. Megi það verða áfram . . . Og við biðjum fyrir öllum fórnardýrum kynferðislegrar misnotkunar presta um allan heim.“

Voice of the Faithful eru samtök presta og leikmanna sem urðu til í Boston árið 2002 og breiddust skjótt út um öll Bandaríkin og starfa nú í öllum helstu borgum. Samtökin hafa verið vakandi yfir því að biskupar afgreiði skjótt öll mál sem koma upp þar sem prestar og starfsmenn kirkjunnar eru ásakaðir um óviðurkvæmilega framkomu. Frá árinu 1920 hafa um 4000 ákærur verið lagðar fram um kynferðislega misnotkun presta. Margar þeirra hafa reynst tilhæfulausar með öllu og með hliðsjón af fjölda presta sem eru nú um 400.000 er þetta að vísu alltof há tala. En þegar horft er til veraldlegra yfirvalda, eins og til að mynda starfsmanna í opinberri þjónustu innan heilbrigðiskerfisins, menntamála eða á barnaheimilum, mætti ríkisvaldið taka sér kirkjuna til fyrirmyndar í þessum efnum þar sem mál eru iðulega þöguð í hel.

Skólabækur í Saudi Arabía uppfullar af áróðri gegn kristnum mönnum og Gyðingum.
Mannréttindasamtökin Center for Religious Freedom hefur gefið út úrdrætti úr skólabókum sem Saudi Arabísk yfirvöld dreifa er meðal múslima um allan heim. Nina Shea, framkvæmdastjóri samtakanna segir að barnaskólanemum sé kennt að Gyðingar og kristnir menn séu dæmdir „til að brenna í helvíti.“ Í annarri kennslubók sé skírskotað til Múhammeðs og að hann kenni að dómsdagur „renni ekki upp fyrr en múslimar berjist við Gyðinga og drepi þá.“ Saudíski fræðimaðurinn Ali al-Ahemed kemst svo að orði: „Þessar kennslubækur gera milljónir barna að hatursfullri og reiðri æsku sem fær ranga uppfræðslu og eru einungis skrefi frá því að verða að hryðjuverkamönnum.“ Hann kallaði útgáfu þeirra „beina árás.“

Arnold Schwarzenegger fylkisstjóri í Kaliforníu segir að hann muni beita neitunarvald gegn nýjum fræðslulögum hliðhollum samkynhneigðum.
Svo virðist að Arnold Schwarzenegger fylkisstjóri í Kalíforníu hlusti á það sem foreldrafélög eru að segja. Samtök foreldra hafa harðlega gagnrýnt S.B. 1437, lög sem Sheila Kuehl senator hefur lagt fyrir fylkisþingið, en hún er lesbía. Lögin krefjast þess að allar skólabækur fjalli um samkynhneigð, tvíkynhneigð og kynskiptinga og framlag þeirra til samfélagsins. Samtökin Campaign for Children and Families (CCF) sem staðsett eru í Sacramento hafa krafist þess að fylkisstjórinn beiti neitunarvaldi gegn lögunum, en þau voru samþykkt á fylkisþinginu fyrr í mánuðinum. Talsmaður samtakanna segir að afleiðing laganna yrði sú „að allar námsskrár, kennslubækur og gögn myndu fela í sér „fyrsta skrefið til að neyða skólabörn í öllum ríkisskólum í Kaliforníufylki til að „umbera“ samkynhneigð og tvíkynhneigð og jafnvel líta á slíkt kynlíf sem valkost fyrir þau sjálf.

Ítalskir biskupar fordæma lög Evrópubandalagsins um hommahatur (homophobia).
Biskuparáð Ítalíu tók undir fordæmingu biskuparáða Spánar og Póllands á lögunum. Í opnunaræðunni til ítalskra biskupa sem komu saman í Róm þann 25. maí komst Camillo Ruini kardínáli svo að orði: „Evrópuþingið heldur áfram að gefa út lög sem virða ekki samstöðu, menningu og arfleifð hinna ólíku meðlimaríkja þess og ganga þvert gegn mannfræðilegum staðreyndum. Við getum tekið sem dæmi lögin frá 18. janúar um hommahatur í Evrópu sem með réttu fela í sér afnám ójafnaðar, óréttlætis og ofbeldis gagnvart fólki með hneigð til samkynhneigðar. En þau gera jafnframt kröfu til þess að samlíf fólks af sama kyni verði jafngilt fjölskyldulífinu og fara þess á leit við meðlimaríkin að þau breyti löggjöf sinni til samræmis við þetta. Biskuparáðstefnur Póllands og Spánar hafa þegar mælt gegn þessari lagasetningu og við tökum undir með þeim.“

Breytingartillaga við stjórnarskrá til að tryggja réttarstöðu hjónabandsins sem sambands karls og konu lögð fram í bandarísku öldungadeildinni.
Leiðtogi meirihluta öldungardeildarþingamanna, Bill Frist, segir að umræður hefjist næstkomandi mánudag um tillögu til breytingar á stjórnarskránni sem skilgreinir hjónabandið sem samband á milli karls og konu. Hann segir að þörf sé á þessari breytingartillögu til að koma í veg fyrir að dómarar haldi áfram að heimila samband fólks af sama kyni, þrátt fyrir andstöðu kjósenda og kjörinna fulltrúa þeirra. Stuðningsmenn stjórnarskrárbreytinganna telja að þeir hafi stuðning tveggja þriðju hluta þingmanna sem nauðsynleg er til stjórnarskrárbreytinga. Ólíklegt er talið að Bush forseti grípi til neitunarvalds (veto) síns.

Brandari vikunnar.
Einar Oddur, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson voru allir komnir til himna og engillinn sagði: „Þið verðið að ganga yfir þessa á og við munum dæma ykkur til samræmis við það hversu djúpt þið sökkvið.“ Einar Oddur fer fyrstur og sekkur upp að háls, en kemst þó yfir ána. Hann horfir til baka og sér að Davíð gengur á vatninu. Hann segir því við engilinn: „En hann hefur syndgað alveg jafn mikið og ég, hver er ástæðan“ Engillinn segir: „Hann stendur á öxlunum á Halldóri.“

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kærar þakkir, Jón Rafn, fyrir hressilegan fréttapakka. Þú gefur okkur nóg um að hugsa! – og ágætt að í hverjum pulsuenda leynist góð rúsína. En þessar fréttasendingar þarf maður nú að ræða frekar, þess er full þörf. Í þeim orðum mínum leynist ekki gagnrýni á þig, tíðinda-boðberann, heldur á tíðar–andann.

26.05.06 @ 22:53