« Kaþólska fréttasjáin: Vikan 7 til 13. maí 2006 Líknarmorðahreyfingin flettir ofan af takmarki sínu »

07.05.06

  13:11:36, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 3062 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir

Kaþólska fréttasjáin: Vikan 1. til 6. maí 2006

Zenith greinir frá því að í ávarpi sínu til Vísindaakademíunnar um þjóðfélagsvísindi þann 27. apríl s. l. hafi Benedikt páfi XVI. sagt að „að nú verðum við vitni að því um allan heim, en einkum þó í þróuðum ríkjum, hvernig tveir áþreifanlegir og samofnir þættir haldast í hendur. Annars vegar er hér um hækkaðar lífslíkur að ræða og hinsvegar þverrandi fæðingartíðni.“ Hann bætti við: „Eftir því sem þjóðfélögin eldast, skortir fjölmargar þjóðir eða samfélög þjóða nægilegan fjölda ungs fólks til að endurnýja íbúafjöldann.“
Jafnframt því að viðurkenna að orsök vandans væri „flókin,“ lagði hann áherslu á að „rót meinsins væri siðferðileg og andleg. Hún er samofin alvarlegum skorti á trú, von og í raun elsku.“ Hann hélt síðan áfram: „Þegar börn fæðast krefst slíkt eros sem fullkomnast í skapandi agape sem grundvallaðist á fórnarlund og trú og von á framtíðinni.“ Að lokum sagði páfi: „Ef til vill er það skorturinn á slíkri skapandi og vonarríkri elsku sem verður þess valdandi að sambúðarfólk kýs ekki að kvænast í dag vegna þess að svo mörg hjónabönd bíða skipbrot og hvers vegna dregið hefur svo mjög úr fæðingartíðninni. Sjá

Segja má með réttu að stjórn sósíalista á Spáni hafi nú farið fram úr sjálfri sér í fimbulfambi sínu. Jafnvel meðlimir Amnesty International lýstu yfir furðu sinni yfir nýrri lagasetningu um „mannréttindi mannapa“ (górilla, simpansa og órangúta). Eða eins og Deutsche Presse Agentur segir: „Sú sama stjórn sem svipti ófædd börn réttinum til að lifa og heimilaði óheftar rannsóknir á frumfóstrum, hefur nú lagt fram lög til að tryggja mannöpum rétt til að lifa, njóta frelsis og þurfa ekki að sæta illri meðferð. Allur hefur ferill þessarar stjórnar verið harla dapurlegur og þannig hafa fóstureyðingar aukist um 72% á Spáni frá valdatöku hennar. Um þetta furðulega mál má lesa á LifeSiteNews.com.

Eitt síðasta embættisverk Silvio Berlusconis var að skipa fyrrverandi leiðtoga ítalsks sósíalistaflokks – Franco Frattini – í stjórn Evrópubandalagsins í stað Rocco Buttiglione, en hann er kaþólskur og andvígur því að hreyfingu hómósexualista yðri gert hátt undir höfði í evrópskum stjórnmálum. Kveðjuorð Buttiglione voru þau að stjórn Evrópubandalagsins drægi sífellt meira keim af „lævísu vinstra alræðisvaldi“ sem „stefni að ríkistrúarbrögðum sem einkenndust af guðleysi og níhilisma, en væri engu að síður ætlað að verða ráðandi afl.“ Með skipuninni var Berlusconi að þakka Frattini fyrir stuðningin við stjórn sína. Bein afleiðing af skipun Frattini lét ekki standa á sér og hefur nú EB sett þrýsting á þrjú meðlimaríkja sinna, Pólland, Ítalíu og Möltu að lögleyfa hjónaband samkynhneigðra. Um þetta má lesa nánar á LifeSiteNews.com.

Skömmu fyrir mánaðarmótin (28. apríl) bárust bresku lávarðadeildinni 72.000 mótmælabréf vegna nýrra laga um líknardráp sem lögð verða fyrir lávarðadeildina þann 12. maí næstkomandi. Þetta er mesta mótmælaaldan sem risið hefur í Bretlandi fram til þessa. Að baki bréfanna stendur starfsfólk í heilbrigðistéttum, læknar, hjúkrunarkonur, fólk í ummönnunarstörfum (care workers) og aðstandendur aldraðra. Tony Blair hefur lýst því yfir að hann hyggist sitja sem fastast fram að kosningunum 2009, en eins og ég hef vikið að áður, er honum þetta einungis unnt með því að njóta stuðnings róttækasta arms Verkamannaflokksins. Til þessa má meðal annars rekja hin nýju lög um getnaðarvarnir þar sem stúlkum allt niður í tólf ára aldur er afhent neyðargetnaðarpillan. Það sem er annars af hjónakornunum að frétta, er að frú Claire Blair var óvænt kvödd á fund Benediktusar páfa í s. l. viku, en hún sat ráðstefnu um fjölskyldumál í Róm. Það kemur vafalaust mörgum á óvart að hún er kaþólsk og það virkur kaþólikki og margra barna móðir. Hætt er við að góð áhrif hennar á eiginmann sinn verði til lítils með hliðsjón af þeirri pólitísku spennitreyju sem hann hefur sett sig í með því að leita á náðir vinstri sinnaðra sósíalista. Um hin væntanlegu lög um líknardráp (Terminally III Bill) má lesa á LifeSiteNews.com.

Frá vinum mínum á Noticias Globales berast þær fréttir að þrír ráðherrar í argentísku ríkisstjórninni undirrituðu samstarfssamning við Evrópubandlagið þann 20, apríl s. l. þar sem sjóðir þess munu standa straum af fóstureyðingum í Argentínu. Flauelisfasistarnir í EB vinna þannig af ákafa að útbreiðslu fagnaðaraerindis fóstureyðinganna. Þeir sem eru spænskumælandi geta lesið nánar um þetta á heimasíðu þeirra: 773 Argentina: La Union Europa Financia el aborto.

Ljóst er af frétt á WorldNetDaily.com að Moammar Gadhafi Líbýuforseti er gæddur meiri innsæisgáfu en Brüssellobbýið. Í ræðu á Al Jazeera stöðinni sagði hann í dag (3. maí): „Íslam mun leggja Evrópu að fótum sér.“ Hann bætti við: „Við höfum þú þegar 50 milljónir múslima í Evrópu. Allt bendir til þess að Allah láti Íslam sigra Evrópu, ekki með sverði og án skotvopna. Innan örfárra áratuga mun Evrópa verða að múslimsku yfirráðarsvæði.“ Þetta er nú reyndar öllum orðið ljóst nema bjöllusauðunum í Brüssel. Gadhafi bætti við: „Ef Tyrkland gengur í EB munu 50 milljónir múslima bætast í hópinn.“

Af hollenskum er það helst tíðinda að líknardrápin „blómstra“ sem aldrei fyrr og líkt og rotið epli í tunnu hafa þeir nú sýkt nágranna sína í Belgíu, einkum í flæmska hlutanum af þessari óáran eða svartadauða hinum nýja. Sama aukning á líknarmorðum hefur átt sér stað í Belgíu og í Hollandi. Samkvæmt opinberum tölum voru 80% þeirra sem báðu um að láta binda enda á líf sitt af hollenskum uppruna. Í október 2005 gaf alþjóðlegur hópur lækna úr ólíkustu sérgreinum út sameiginlega yfirlýsingu og vísuðu til Hollands. Þeir bentu á að eftir að búið væri að lögleiða líknarmorð á annað borð væri því sem næst útilokað að hafa nokkra stjórn á þeim og þau myndu óhjákvæmilega leiða til þess að sjúklingar yrðu myrtir án samþykkis þeirra. „Líknarmorð svipta sjúkling sjálfræði og skapa andrúmsloft þar sem álitið verður auðveldara að myrða sjúklinga en að lækna þá.“ Lesa má yfirlýsingu þeirra á: tengill.

Jákvæðar fréttir berast nú frá Kanada eftir að stjórn Frjálsynda flokksins var hrakin frá völdum. Í gær (2. maí) kynnti stjórn íhaldsmanna hin nýju fjárlög þar sem fjölskyldan skipar að nýju lykilhlutverki: „Öflugt fjölskyldulíf er hornsteinn heilbrigðs og styrks þjóðlífs og tryggir Kanada bjarta framtíð. Mikilvægasta fjárfestingin sem við getum gert sem þjóð er að hjálpa fjölskyldum til að ala upp börn sín.“ Lesa má meira um þetta á: tengill.

Zenith greinir frá því í dag (4. maí) að afstaða Þjóðverja til Benediktusar páfa XVI hafi gjörbreyst á því ári sem hann hefur gegnt embætti. „Oh, mein Gott!“ hljóðaði fyrirsögnin í Die Tageszeitung fyrir ári síðan. Nú skrifa þýsku blöðin í afar jákvæðum tón um „blessunarrík“ áhrif hans. Um trúarvakningu virðist vera að ræða í Þýskalandi fullyrða margir. Fjöldi guðfræðistúdenta fer vaxandi og skírn fullorðinna hefur aukist til muna, auk fjölda kaþólskra sem snúa að nýju til kirkjunnar. Það hefur vakið mikla athygli meðal lífsverndarsinna að allir þeir nýju 15 kardínálar sem skipaðir voru í embætti í febrúar s. l. eru kunnir af baráttu sinni fyrir lífsverndarmálum. Sem sagt: Hinn heilagi faðir er réttur maður á réttum stað!

Sama má segja frá BNA. Fjöldi þeirra sem gengu í kirkjuna nú fyrir páskanna hefur ekki verið meiri í áratugi. Einnig gætir aukningar í guðfræðinám og það hefur vakið athygli að meðal þeirra sem hlutu prestvígslu í Washington D. C, nú fyrir páskana voru þó nokkrir fyrrverandi lúterskir prestar sem snúið hafa heim til móðurkirkjunnar.

Flestir hafa frétt af því að kínversk stjórnvöld komu upp kaþólskri „falskirkju“ sem lýtur ekki viðurkenningar Rómar í viðleitni sinni til að hafa stjórn á kirkjunni. Í dag (4. maí) greinir Zenith frá því að Benedikt páfi XVI hafi meðtekið fréttirnar um ólöglega vígslu biskupa í Kína af „mikilli vanþóknun.“ Talsmaður Vatíkansins, Joaquin Navarro Valls sagði að þetta atvik „vekti samúð“ Páfagarðs gagnvart þjáningum alls hins kaþólska samfélags í Kína: „Athöfn sem gegnir jafn mikilvægu hlutverki fyrir allt líf kirkjunnar eins og vígsla biskupa hefur nú verið framkvæmd tvisvar sinnum á þremur dögum, án þess að hirt sé um sameiginlegan játningargrundvöll við páfa.“

Hann hélt síðan áfram: „Ég get greint ykkur frá afstöðu Páfastóls hvað áhrærir biskupsvígslu prestanna Joseph Ma Yinglin og Joseph Liu Xinhong sem fór fram þann 30. apríl í Kunming [. . .] og á miðvikudaginn 3. maí í Wuhu. Þetta er djúpt sár hvað lítur að einingu kirkjunnar.“

Joaquin Navarro Valls hélt áfram og sagði: „Biskupar og prestar hafa verið beittir miklum þrýstingi og hótunum af öflun utan kirkjunnar til að taka þátt í biskupsvígslunum . . . Fjölmargir höfnuðu slíkum þrýstingi, jafnframt því sem aðrir voru tilneyddir að láta undan nauðugir. Við horfumst hér í augu við alvarlegt brot á trúfrelsi.“

AgapePress greinir okkur frá því í dag (4. maí) að Guttmacher Institute sem eru ein af systrasamtökum Planned Parenthood í BNA hafi gefið út skýrslu sem nefnist „Abortion in Women´s Lives“ þar sem öllum rannsóknarniðurstöðum um skaðleg áhrif fóstureyðinga er alfarið hafnað. Troy Newman hjá Operation Rescue kemst svo að orði í þessu sambandi: „Ef það væri ekki slíkt alvörumál að milljónir kvenna hafa beðið skaða af völdum fóstureyðinga bæði líkamlega og sálrænt, væri skýrslan einfaldlega hlægileg. Newman bætti síðan við: „Þeir hvítþvo fóstureyðingar svo algjörlega, að þeir halda því beinlínis fram að fóstureyðingar séu í reynd heilsusamlegar.“ Talsmenn lífsverndarsinna segja að taka beri skýrslu Guttmachers jafn alvarlega og „skýrslur tóbaksframleiðanda um nikótín.“ Vert er í þessu sambandi að benda á skýrslu um skaðsemi fóstureyðinga frá CWA (Concerned Women for America). Hana má finna hér: Tengill.

Zenith greinir frá því í dag (4. maí) að breski leikarinn Ian McKellen sem varð víðfrægur fyrir hlutverk sitt í Lord of the Rings sem gerð var 2001 hefur notað þá frægð sem kvikmyndin aflaði honum til að boða kynvillu. Jafn kaldhæðnislegt og það er taldi höfundur verksins – J.R. Tolkien – að kynvilla bæri vott um „brenglun“ og stóð sjálfur fast á kenningum kaþólsku kirkjunnar um siðgæði í kynlífinu, eftir því sem sérfræðingar segja. Síðasta framlag McKellens var að berjast fyrir „giftingu“ samkynhneigðra í Bretlandi. Í vikunni kvartaði McKellen sáran yfir því að bresku lögin sem heimila hommum að stofna til borgarlegs sambands gengju alls ekki nógu langt: „Ég fæ ekki skilið hvers vegna ríkisstjórnin gat ekki einfaldlega sagt að samkynhneigt fólk gæti gifst. Slíkt hefði verið raunverulegt jafnrétti og miklu einfaldara. En þetta gerðu þeir ekki vegna þess að þeir óttuðust reiði almennings.“ Kanadíski rithöfundurinn Michael D. O´Brien sem ritað hefur mikið um Tolkien segir í viðtali við LifeSiteNews.com að Tolkien hafi verið „rétttrúaður kaþólikki og sótt daglega messu. Þrátt fyrir að Lord of Rings sé skáldræn ímynd alheimsins er verkið fullkomlega trútt siðrænni tilhögun þess alheims sem við lifum í.“

Væntanleg er skýrsla frá spænska heilbrigðisráðuneytinu og í viðtali við dagblaðið „Alba“ greinir Elena Salgado heilbrigðismálaráðherra frá því að „lokaniðurstöður skýrslunnar leiði í ljós, að meginástæðan sem búi því að baki að konur fari í fóstureyðingu sé sökum þess að karlmenn snúi við þeim baki.“ Niðurstöður spænsku skýrslunnar eru til samræmis við könnun sem framkvæmd var í desember s. l. á vegum AVA (Association of Victims of Abortion) sem 3000 konur á aldrinum 14 ára til 40 tóku þátt í. Könnunin leiddi í ljós að „meginástæðan að baki fóstureyðinga í 87% tilvika væri skortur á tilfinningalegum stuðningi.“ Samkvæmt AVA könnuninni tóku allar konurnar fram að „þær hefðu ekki fengið nægilegar upplýsingar um hugsanleg hliðaráhrif fóstureyðinga.“ Könnunin leiðir einnig í ljós að 99, 1% kvennanna kvörtuðu sökum skorts á upplýsingum um aðra valkosti en fóstureyðingar, líkt og félagslega hjálp eða ættleiðingu. Könnunin leiðir í ljós skort á stuðningi og þrýsting þann sem vanfærar konur verða fyrir af hálfu feðra, vinnustaða, samfélags og lækna. Ef konurnar fengju fremur skilaboð um stuðning „myndu þær halda meðgöngunni áfram.“ AVA og önnur samtök hafa hvatt heilbrigðisráðuneytið til að koma á fót stuðningsneti fyrir konur sem horfast í augu við vandamál meðan á meðgöngunni stendur. Þetta er mjög til samræmis við niðurstöður Elliotstofnunarinnar í Bandaríkjunum sem hefur hvað eftir annað vakið athygli á mikilvægi þessara þátta í baráttu lífsverndarsinna sem leitt hefur til afstöðubreytingar almennings í BNA til fóstureyðinga. Hvað um okkur Íslendinga? Sjá: Chatolic News Agency.

Framkvæmdanefnd Evrópsku biskuparáðstefnunnar (COMECE) hvetur til að hugað verði nánar að framtíð Evrópu í tilefni Evrópudagsins (þann 9. maí 2006). Þeir hvetja þá sem taka á sig skyldur fyrir hönd Evrópulanda og ýmissa stofnana að snúa sér að vandamálum Evrópu af endurnýjuðum krafti og að skapa Evrópubandalaginu starfsvettvang til að byggja upp réttlátari þjóðfélög. Í yfirlýsingu sinni sem birt var á föstudaginn lögðu þeir áherslu á að Evrópubandalagið yrði að gera sjálfan manninn og manngildið að kjarna allra þjóðfélagsumbóta. Þeir hvetja einnig til þess að kristindómurinn verði hafður meira að leiðarljósi ásamt siðfræðilegri sannfæringu fjölda Evrópubúa (CNA).

Fjölmörg samtök lífsverndarsinna og þar með hin kaþólsku samtök ACN (Aid to the Church in need) hafa mótmælt því að mannréttindasamtökin Amnesty International hafa lýst því yfir að þau ætli að vinna að útbreiðslu fóstureyðinga um allan heim sem hluta mannréttindabaráttu sinnar. Faðir Alliende, prestur frá Chile, komst svo að orði í þessu sambandi: „Með því að hvetja til fóstureyðinga hefur AI horfið frá sínum eigin göfugu siðrænu grundvallaratriðum og þar með skekið til grundvöll sinnar eigin tilvistar vegna þeirrar einföldu ástæðu, að ófætt barn í móðurlífi er vanmáttugust allra þeirra mannvera sem sæta ofsóknum.“ Núverandi afstaða Amnesty International hvað áhrærir fóstureyðingar kveður svo á „að þau taki enga afstöðu til þess hvort konur hafi rétt eða ekki til að binda enda á meðgöngu þar sem engan rétt er að finna fyrir fóstureyðingum í alþjóðlegum mannréttindalögum“ (CNA).

Hér að framan hefur þegar verið vikið að hinni dæmalausu skýrslu Guttmacher Institute um afleiðingar fóstureyðinga. Í dag (5. maí) gáfu Lífsverndarskrifstofa bandarísku biskuparáðstefnunnar og CWA (Concerned Women for America) út sameiginlega yfirlýsingu og vöktu athygli á ósamkvæmni hennar og drógu áreiðanleika hennar í efa: „Hún gefur annars vegar til kynna að draga beri úr fóstureyðingum samtímis því sem hún gerir kröfu til aukins aðgengis að fóstureyðingum. Í þeim ríkjum þar sem aðgengið að fóstureyðingum er mest, meðal annars Kalifornía og New York, er tíðni fóstureyðinga hæst. Samkvæmt því sem konurnar í CWA segja leitast skýrslan jafnframt við að hafna auknum rannsóknum sem leiða í ljós að fótsureyðingar skaða konur bæði líkamlega og sálrænt (CNA).

Að lokum þetta. Hvers vegna er biðröðin fyrir framan hlið kommúnistadeildar helvítis miklu lengri en hjá kapítalistunum? Jú, það eru einkum þrjár ástæður sem búa þessu að baki. Viðvarandi skortur á eldsneyti til að kynda eldana, alvarlegur skortur á kvíslum, krókum og klípitöngum og loks hafa fjölmörg djöflaherfylki beðið um pólítiskt hæli hjá kapítalistunum eftir að þeir Lenín, Stalín, Mao Tse Tung og Pol Pot mættu á svæðinu.

Fréttasjáin birtist daglega á Vefrit Karmels.

5 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Stór pakki þetta, efnismikill og afar góður, nafni, og vertu velkominn aftur. Heilar þakkir fyrir að taka púlsinn á þessum fréttaefnum sem íslenzkir fjölmiðlar vanrækja svo mjög. Það er margt í þessu frá þér, sem vekur djúpa umhugsun og vert er að staldra við. Bara fréttin ein af Ghaddafí ætti nú að vera á forsíðum dagblaðanna – en þau þegja! Ég les fyrst um þetta hjá þér. Og þakka þér líka rúsínuna í pylsuendanum!

07.05.06 @ 23:02
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Fróðlegur og góður fréttapakki. Bestu þakkir fyrir þetta Jón.

10.05.06 @ 18:17
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þakka bræður. Ég læt hér fylgja inngangsorðin að þessari fréttasjá sem sjá má á Vefrit Karmels þar sem hún birtist dagleg.

Sá háttur verður hafður á framvegis að birta hér daglega erlent fréttayfirlit um það helsta sem gerist á vettvangi kirkjunnar.

Þetta er viðleitni til að sporna við fótum gagnvart þeim látlausu rangfærslum sem úthellt er yfir almenning í landinu um kirkjuleg málefni, framkoma sem er fyrrverandi félögum mínum í Blaðamannafélagi Íslands lítt til sóma.

Vondandi verður þetta til að einhverjir haldi vöku sinni í þeim ragnarökum ósannsögli sem hellast nú yfir
heimsbyggðina. Orð Opinberunarbókarinnar koma óhjákvæmilega upp í þessu sambandi:

Og höggormurinn spjó vatni úr munni sér á eftir konunni [kirkjunni], eins og flóði, til þess að hún bærist burt með straumnum (Opb 12. 15).

Næsta fréttayfirlit kemur á kirkju.net á laugardag.

12.05.06 @ 13:42
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Hvað áhrærir kaþólsku fréttasjána langar mig að koma hér með tilvitnun úr riti Jim Gallagher: „Padre Pio – a Holy Priest“ sem Catholic Truth Society gaf út 2002:

Í mars 1919 komu fyrstu fulltrúar blaðanna til San Giovanni Rotondo. Það sem Padre Pio átti eftir ólifað varð hann tilefni til alls kyns kynjasagna eða uppspuna sem blöðin bjuggu til. Jafnvel enn í dag grípa dagblöðin á Ítalíu til mynda af Padre Pio eða „tilbúinna sagna“ af honum til að auka söluna.

En kirkjan boðar að fjölmiðlar séu „náðargjöf Guðs“ (sjá Miranda Prorsus, 1957) og við getum þakkað kvikmyndamönnum frá BBC að til er myndskeið af síðustu messunni sem Padre Pio saung einungis nokkrum tímum fyrir andlát sitt árið 1968.

Engu að síður gengu stundum rangar eða öfgafullar frásagnir um hann meðan hann lifði sem rekja mátti til þeirra sem vildu styðja Padre Pio. Öfugt við þetta kváðu aðrir upp óbilgjarna dóma og gripu til rangra ásakana. En Padre Pio stóð óhagganlega á lífsafstöðu sinni: Hlýðni við lögmæta yfirboðara sína.

Ég nem staðar við orðin „náðargjöf Guðs“ úr Miranda Prorsus. Getum við ekki fallist á mikilvægi þess að andæfa fjölmiðlum þegar þeir fara vísvitandi með rangt mál með sannleikann að leiðarljósi? Kirkju.net er ekki fjölmiðill sem er útbreiddur, en þetta er í það minnsta viðleitni til að spyrna við fótum.

14.05.06 @ 19:59
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Jú, svo sannarlega, Jón bróðir, og þakka þér fyrir þessa vönduðu, vikulegu pistla þína, sem hjálpa til að rétta af kúrsinn og lagfæra balanzinn á umfjöllun fjölmiðla. Við erum að vísu ekki óskeikulir, fjarri fer því, en við viljum byggja á góðum heimildum, og hér er þó alltaf hægt að senda inn athugasemdir, ef einhver getur upplýst betur um málin. Það er meira en sagt verður um ýmsa hinna stóru fjölmiðla.

14.05.06 @ 20:28