« Kaþólska fréttasjáin: Vikan 18. júní til 24. júní 2006Áminning hl. Ágústínusar (354-430) til vantrúarmanna »

17.06.06

  08:42:11, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2731 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir

Kaþólska fréttasjáin: Vikan 11. júní til 17. júní 2006

Harðsvíraður guðleysingi gerist trúmaður, spænska ríkisstjórnin stendur fyrir áróðursherferð gegn heimsókn páfa; pólsk stjórnvöld fordæma kynfræðslu um samkynhneigð; áhrif fólksfækkunarstefnu Sameinuðu þjóðanna í Keralafylki í Indlandi; kaþólskri aðstoð til Norðurkóreu hafa opnast nýjar leiðir; Evrópuþingið samþykkir tilraunir á fósturvísum; kardínáli fagnar snörpum viðbrögðum við yfirlýsingunni um kynferði manna; Lettland hafnar kröfum Evrópubandalagsins um að setja orðið „kynhneigð“ inn í löggjöf sína; Evkaristían er „Brauðið af himnum“ segir páfi; sá létti í vikulokin.

Harðsvíraður guðleysingi gerist trúmaður
Sú hugmynd að raunvísindin „afsanni“ tilvist Guðs er afar útbreidd í heimi nútímans. En samkvæmt því sem Francis Collins – eins af þeim vísindamönnum sem auðnaðist að leysa gátuna um erfðamengi mannsins – þá er þessi hugmynd „afar villandi.“ Þessi heimsfrægi vísindamaður mun gefa út bók í september næstkomandi sem heitir „Tungumál Guðs“ (Language of God). Þar sýnir hann fram á að vísindin eru ekki í stakk búin til að afsanna tilvist Guðs vegna þess að þau fjalla um hinn náttúrlega heim. Ef eitthvað er er hið gagnstæða staðreynd, segir Collins, vísindin afsanni ekki tilvist Guðs heldur renni fremur stoðum undir hana.

Þegar hann víkur að vísindalegum rannsóknum sínum kemst Collins svo að orði: „Það var mér bæði undraverður vísindalegur árangur, en vakti jafnhliða hjá mér lotningu að ráða fram úr erfðamengi mannsins. Þegar þú hefur fyrir augunum í fyrsta skiptið leiðarvísi með 3. 1 milljörðum bókstafa sem veitir þér fjölþættar upplýsingar og uppfræðir um alls kyns leyndardóma hvað áhrærir mannkynið, þá kemstu ekki hjá því að kenna til ótta þegar þú lest eina blaðsíðuna af annarri. Ég get ekki annað en litið á þessar blaðsíður án þess að fá það á tilfinninguna, að hér gefist mér tækifæri til að skyggnast inn í huga Guðs.“

Þessu var ekki ávallt lífsafstaða Collins, eða eins og hann kemst að orði um sjálfan sig: Þegar ég var 27 ára gamall var ég harðsvíraður guðleysingi. Þá benti einhver mér á litla bók eftir C. S. Lewis sem heitir „Mere Christianity.“ Hún svipti á brott öllum þeim röksemdafærslum sem ég taldi svo „pottþéttar,“ að trúin væri einungis óskynsamleg og leiddi mér fyrir sjónir að þær fengust alls ekki staðist. Í reynd leiddi hún mér hið gagnstæða fyrir sjónir og að trúin væri í raun hin rökrétta niðurstaða þegar staðreyndirnar allt umhverfis okkur væru vegnar og metnar. Ég tel að það stangist á engan hátt á að vera strangvísindalega hugsandi og jafnframt að trúa á Guð sem hefur persónulegan áhuga á hverju okkar og einu. Svið vísindanna felst í því að rannsaka náttúruna. Svið Guðs er hinn andlegi heimur, svið sem ekki er unnt að rannsaka með tækjum og aðferðum vísindanna. Það verður að rannsaka með hjartanu, huganum og sálinni – og hugurinn verður að finna leið til að samþykkja bæði þessi svið.

Ég leiði að því rök að þessar tvær afstöður geti ekki einungis farið saman í einum og sama einstaklingnum, heldur með þeim hætti að þær auðgi og upplýsi mennska reynslu. Raunvísindin eru eina leiðin til að skilja hinn náttúrlega heim. En vísindin standa ráðþrota frammi fyrir spurningum líkt og: „Hvernig varð alheimurinn til?“ eða „Hver er tilgangur mennskrar tilveru“ eða „Hvað gerist eftir að við deyjum?“ Einhver sterkasta hvöt mannkynsins er að leita svara við djúpstæðum spurningum og við verðum bæði að grípa til alls þess sem vísindin hafa fram að færa og hinnar andlegu sýnar til að skilja hið synilega og ósýnilega. Tilgangur bókarinnar er að kanna leið til að sameina með heiðarlegum hætti þessa tvenns konar afstöðu.

Spænska ríkisstjórnin stendur fyrir áróðursherferð gegn heimsókn páfa.
Sósíalistastjórn Jose Luis Rodriguez Zapatero mun efna til ráðstefnu samkynhneigðra daginn fyrir heimsókn Benediktusar páfa XVI til Spánar dagana 8. til 9. júlí næstkomandi sem ætlar að taka þátt í Heimsráðstefnu fjölskyldunnar. Bandalag samkynhneigðra og vinstrisinnaða kaþólikka standa að baki þessara aðgerða og njóta fjárstuðnings Atvinnu og félagsmálaráðuneytisins. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem núverandi stjórnvöld eru talin „ögra“ kirkjunni með þessum hætti. Árið 2005 sagði sendiherra Zapaterostjórnarinnar í Vatíkaninu að „að stjórnin hefði stungið fingrinum í auga kirkjunnar“ með því að lögleiða hjónaband fólks af sama kyni tveimur dögum fyrir vígslu Benedikts páfa.

Síðan stjórn Zapatero komst óvænt til valda eftir sprengitilræðið í Madrid hefur hún gert það að forgangsmáli sínu að umbylta hefðbundnum fjölskyldugildum. Hún hefur neytt „hjónabandi“ samkynhneigðra upp á fólk í andstöðu við mikinn meirihluta þess og heimilað rannsóknir á fósturvísum og rýmkað mikið um skilnaðarlöggjöfina.

Pólsk stjórnvöld fordæma kynfræðslu um samkynhneigð.
Menntamálaráðherra Póllands, Roman Giertych, hefur lýst því yfir að það verði ekki liðið að dreifingu bæklings, Compass, meðal pólskra ungmenna verði haldið áfram: „Þessi fræðslubæklingur fjallar um efni líkt og samkynhneigð sem eitthvað sem sé sambærilegt við hjúskapartengsl karls og konu. Meðal annars má sjá kenningu í bæklingnum um að það feli í sér misrétti að hafna hjónabandi samkynhneigðra og að þeir ættleiði börn. Þetta er ekki í samhljóðan við núgildandi námsskrá í almennri menntun og er því ekki unnt að líta á sem heimildagögn.“

Evrópuráðið gagnrýnir harðlega þessa afstöðu Póllands, en slíkt kemur í reynd ekki á óvart vegna þess að það var sjálft ráðið sem samdi bæklinginn. Aðalritari þess, Terry Davis, komst svo að orði: „Ég fæ ekki skilið hvernig ákvæði námsskrárinnar eru ástæður höfnunarinnar.“ Hann gekk jafnvel svo langt að segja: „Ég hef tjáð þá afstöðu mína afdráttarlaust, að pólskum stjórnvöldum er frjálst að ákveða hvort þau vilji styðjast við það fræðsluefni sem Evrópuráðið hefur á boðstólum hvað lýtur að mannréttindum, en ef fræðsluefnið er sett til hliðar, gildir það svo sannarlega ekki um það efni sem þar má sjá.“

Áhrif fólksfækkunarstefnu Sameinuðu þjóðanna í Keralafylki í Indlandi
Í Keralafylki í Indlandi er einhvert elsta samfélag kristinna manna í heiminum, Sýrlenska Malabarkirkjan kaþólska sem á rætur að rekja til Tómasar postula. LifeSiteNews.com átti viðtal við Varkey Viheryathil, kardínála þann 30, maí s. l. sem fór fram í Cochin, verslunarhöfuðborg Keralafylkis. Í viðtalinu staðfestir kardínálinn mikilvægi kaþólskrar trúar í Kerala, en tók jafnframt fram að kaþólskir þar um slóðir hafi tileinkað sér þá afstöðu sem sameinist ekki kaþólskri trú, að „notkun getnaðarvarna sé einkamál hvers og eins,“ sem rekja mætti til „vestrænna landa sem ekki væru kaþólsk.“ Hann greindi LifeSiteNews frá því að kaþólskir Keralabúar hefðu komist í kynni við presta og biskupa á Vesturlöndum sem væru andvígir boðskap hirðisbréfs Páls páfa VI, eins og hann kæmi fram í Humanae Vitae.

Hin illræmda Winnipegyfirlýsing og sú guðfræði sem þar væri boðuð og haldið stíft fram í Kanada væri þrýst fram sem alþjóðlegri afstöðu sem hefði áhrif á kaþólskt fólk í öðrum löndum. Útivinnandi mæður, áhrif sjónvarpsins og neysluhyggjan hefði orðið þess valdandi að fæðingartíðnin hjá kaþólskum í Kerala hefði hrunið. Hin lága fæðingartíðni meðal kristinna manna og hindúa yrði þess valdandi að á næstu 20 árum yrði Kerala að múslimsku ríki vegna þess að múslimar væru hvattir til að eignast „að minnsta kosti 8 börn vegna þess að slíkt væri sérstök blessun Allah.“

Kristnir menn í Indlandi sjá fram á hrun í fæðingartíðni:

Kaþólskri aðstoð til Norðurkóreu hafa opnast nýjar leiðir.
Hin suðurkóreanska deild Caritas hefur orðið að farvegi fyrir aðstoð hins alþjóðlega kaþólska samfélags til Norðurkóreu. Fram að þessu hefur það verið Caritas í Hong Kong sem gegnt hefur þessu hlutverki allt frá árinu 1990. Eftir nýlega heimsókn til Norðurkóreu komst Lazarus You Heung-sik, biskup í Taejon í Suðurkóreu svo að orði: „Fyrir hönd Caritas Intenationalis ræddum við um þróunarhjálp og samstarf við Kim Seong-il, varaformann Þjóðarráðs Norðurkóreu um efnahagsmál sem samþykkti tillögur okkar.“ Íbúafjöldi Suðurkóreu er alls 48 milljónir og fjöldi kaþólskra þar af 4 milljónir.

Evrópuþingið samþykkir tilraunir á fósturvísum.
Evrópskir biskupar hafa lýst yfir hryggð sinni sökum ákvörðunar Evrópuþingsins um að hafa ákveðið að styðja rannsóknir á fósturvísum sem leiða til deyðingar þeirra. Tillagan var samþykkt með 284 atkvæðum gegn 249, en 32 voru fjarverandi.
Monsignor Noël Treanor, aðalritari Evrópska biskuðaráðsins (COMECE) komst svo að orði: „Út frá vísindalegu sjónarhorni er engin ástæða til að gera siðrænan mun á frumfóstri í upphafi lífs hans eða hennar eða eftir ígræðslu að fjórtán dögum liðnum. Manngildið hvílir ekki – og má ekki hvíla – á mennskum ákvörðunum.“ COMECE notaði þetta sama tilefni til að „ítreka stuðning sinn við að Evrópubandalagið leggi fram fé til rannsókna á frumum fullorðins fólks.“

Kardínáli fagnar snörpum viðbrögðum við yfirlýsingunni um
kynferði manna.

Alfonso Lopez Trujillo kardínáli fagnaði hinum snörpu viðbrögðum ítalska blaðsins La Rebubblica við hinni 60 blaðsíðna skýrslu um „Fjölskylduna og mennskan getnað“ sem birtist þann 6, júní s. l. Forseti Stjórnardeildar Vatíkansins um fjölskyldumál sagði að viðbrögð blaðsins væru „jákvæð.“ En hann bætti við að skýrslunni hefði einnig verið fagnað af mörgum.

Kardínálinn sagði að skýrslunni væri ætlað að vera áminning til stjórnmálamanna: „Þeim stjórnmálamönnum sem fylgja ekki siðaboðskap kaþólsku kirkjunnar er hér með boðið að kynna sér að nýju kenningar kirkjunnar, hin mannfræðilegu rök og sannleika sem hefur gildi í sjálfu sér, ekki út frá trúarlegu sjónarmiði, heldur einfaldlega af mennskum forsendum.“ Þegar hann var inntur eftir því hvort kirkjan gæti ekki glatað samúð sumra sem aðhylltust aðra afstöðu til pólitískra ágreiningsefna, taldi hann „ákveðna hættu á þessu.“ En hann bætti við að þessi áhætta yrði léttvæg gagnvart skyldum kirkjunnar til að boða ljósan kenningargrundvöll og til að vara við því að fólk væri misnotað.

Kardínálinn neitaði að láta draga sig inn í umræður um opinbera yfirlýsingu Carlo Maria Martin kardínála, erkibiskups Mílanó, sem nú væri sestur í helgan stein, en hann hafði boðað mun frjálslyndari viðhorf hvað áhrærir rannsóknir á fósturvísum. Trujillo kardínáli sagði að hann hefði ekkert um yfirlýsingu erkibiskupsins að segja sökum þess hversu umfjöllun dagblaða væri iðulega yfirborðskennd. En hann bætti við: „Það sem ég les í frásögn blaðsins er ekki til samræmis við kenningar kirkjunnar.“

Lettland hafnar kröfum Evrópubandalagsins um að setja
orðið „kynhneigð“ inn í löggjöf sína.

BBC greinir frá því að lettneska þingið hafi hafnað kröfum Evrópubandalagsins um að setja orðið „kynhneigð“ inn í jafnréttislöggjöf landsins. Óljóst er hvaða áhrif þetta muni hafa á framtíðarstöðu landsins innan bandalagsins. Lettland gekk í bandalagið árið 2004 með þeim skilyrðum að innleiða lög Evrópubandalagsins. Í umræðum í lettneska þinginu kallaði einn þingmanna Kristilegra demókrata samkynhneigð „synd.“ Lettland er eina landið innan EB sem hefur ekki sett ákvæðin um „kynhneigð“ inn í löggjöf sína.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Lettland hefur hafnað því að beygja sig undir afstöðu EB til samkynhneigðra. Í desember 2005 samþykkti lettneska þingið stjórnarskrárbreytingu þar sem hefðbundin skilningur á hjónabandinu sem sambandi karls og konu var veittur lagavernd með atkvæðum 73 af 100 þingmönnum. Meðlimir á Evrópuþinginu hafa lýst því yfir að Lettland verði að beygja sig undir ákvæði Evrópuþingsins. Hollenskur fulltrúi á Evrópuþinginu komst svo að orði: „Evrópuþingið verður að mótmæla hægrisinnuðum „hommahöturum“ í evrópskum stjórnmálum sem vilja þvinga íhaldsamri afstöðu sinni á allt þjóðfélagið.“

Aðgerðarhópur samkynhneigðra á Evrópuþinginu mótmæla
fjölskylduáætlunum í Lettlandi:

Lettneska þingið samþykkir stjórnarskrárbreytingu til verndar hjónabandinu:

Evkaristían er „Brauðið af himnum“ segir páfi.
Á Dýradag (Hátíð Kristslíkamans) í gær sagði Benedikt páfi að evkaristían væri Brauðið af himnum þar sem Guð gefst manninum sem fæða. Páfinn hélt þeirri hefð áfram sem Jóhannes Páll páfi II innleiddi að nýju árið 1979 þar sem Dýradegi er fagnað í Basilíku hl. Jóhannesar á Lateranhæðinni og gekk í fararbroddi skrúðgöngunnar eftir Via Merulana til Basilíku hl. Maríu hinnar meiri.

Í hugvekju sinni íhugaði Benedikt páfi táknræna merkingu brauðsins, hinnar „hvítu hostíu, einföldustu ímynd brauðsins sem næringar sem einungis væri gerð úr hveiti og vatni, inntak sköpunarinnar,“ vegna þess að hostían er „samruni himins og jarðar og starfs mannsandans.“ Íhuguninni lauk með bæn þar sem páfi ákallaði Krists í evkaristíunnu: „Leiðbeindu okkur á vegum sögunnar. Leið kirkjunni og hirðum hennar hin sanna veg að nýju fyrir sjónir.“

Í evkaristíuskrúðgöngunni báru þátttakendur kertaljós. Páfi sagði að skrúðgangan væri athöfn þar sem þátttakendurnir tjáðu að þeir vildu ganga í fótspor Krists í lífi sínu. Að athöfninni lokinni kraup páfi niður við stórt sýniker til að tilbiðja hið Blessaða sakramenti.

Sá létti í vikulokin.
Kona nokkur átti tvo kvenkynspáfagauka sem hrópuðu í sífellu: „Við erum vændiskonur, viltu njóta gleðistundarinnar?“ Dag nokkurn var hún að tala við prestinn sinn um þetta. Hann sagði henni þá að hann ætti tvo karlkynspáfagauka og það eina sem þeir gerðu væru að lesa Biblíuna. Honum datt í hug að ef til vill væri það alls ekki svo vitlaust að setja páfagaukana fjóra í eitt og sama búrið, ef til vill myndu karlfuglarnir hafa góð áhrif á hið veikara kyn. Þeir voru því settir í sama búrið. Kvenfuglarnir tóku þegar að hrópa: „„Við erum vændiskonur, viltu njóta gleðistundarinnar?“ Annar karlfuglinn sagði þá við hinn: „Bróðir! Legðu frá þér Biblíuna, við erum komnir til himna!“

6 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Með tilvísun til fremstu fréttarinnar hér að framan, þá hef ég aldrei skilið þá „hundalógikk,“ að það sé komið undir trúarafstöðu hvort einhver nái árangri í lausn á stærðfræðiþraut eða við að læra rússnesku. Að sjálfsögðu skiptir það engu máli hvort viðkomandi er kaþólskur, búddisti eða trúleysingi. Útkoman ræðst af hans eigin eljusemi (og gáfnafari!). Eins og fjöldi framúrskarandi kaþólskra háskóla gefur til kynna verður trúin mönnum ekki að fótakefli á sviði raunvísindanna. Allir þeir Íslendingar sem numið hafa við kaþólska háskóla geta borið þessu vitni, enda margir hverjir meðal þeirra fremstu í heiminum. Að halda öðru fram er einungis heimóttarskapur rökþrota manna!

Sumir kjósa að ganga um heiminn eins og „Captain Blood“ með lepp fyrir öðru auganu. En að fullyrða að aðrir sjái ekki með því af því að maður gengur sjálfur með lepp er að verða að fórnardýri eigin leppsýki.

17.06.06 @ 12:33
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Sæll, nafni, ég þakka þér fréttirnar, sem eru þó margar af sorglegra taginu og færa okkur heim sanninn um, á hve alvarlegt stig efnishyggjuþróun heimsins er komin. Það er nánast sama hvert litið er: alls staðar (nema helzt í Póllandi) er veraldarhyggjan í uppgangi og skilur eftir sig blóðslóð fórnarlambanna, hinna ófæddu; og Evrópubandalagið er sýnu verst, ásamt Spánarstjórn og íslenzkum stjórnvöldum. Jafnvel kristnir leiðtogar og safnaðarmenn í fornkristnu samfélagi í Kerala ætla að láta nýjungagirnina teygja sig til að útrýma líka sér, ekki aðeins Vesturlandamönnum, og bjóða múslimum að hirða leifarnar. Heimurinn er ekki með öllum mjalla.

Þakka þér innilega fyrir að halda uppi þessu fræðslustarfi þínu, bróðir Jón. Við þurfum að vekja athygli almennings á þessu vefsetri okkar. Lesendur eru hér með hvattir til þess sama.

19.06.06 @ 23:32
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Gregoríos frá Narek (um 944 – 1010), armenskur munkur og ljóðskáld, Úr Bókinni um bænina, 74.

Mikil er sekt mín, takmarkalaus,
en hún er léttvæg í ljósi miskunnar þinnar.
Margar eru syndir mínar,
en enn léttvægari í ljósi fyrirgefningar þinnar.
Hvað er þó stund myrkursins
í þínu guðdómlega ljósi?
Hvernig getur skammvinnt rökkrið
keppt við ofurskærleika geisla þinna!
Hvernig getur líkamlegur vanmáttur minn
jafnast á við píslir krossins?

Hinn Almáttugi! Hversu léttvægar eru ekki syndir heimsins
frammi fyrir gæskuríku augnatilliti þínu?
Þeim má líkja við dropa vatns sem hverfur,
þegar ríkulegt regn þitt fellur til jarðar.

Það ert þú sem lætur sólina skína
á rangláta sem réttláta,
og gefur þeim regnið án manngreinarálits.
Mikill friður gefst sumum
þar sem þeir bíða endurgjalds síns.
En í fyrirgefningu miskunnar þinnar
afmáir þú sekt þeirra sem kusu jörðina:
Líkt og þeim fyrstu gefur þú þeim smyrsl
og væntir endurkomu þeirra.

Ég minni þig á, bróðir, að atkvæðagreiðslan í EB var þó ekki nema 284 atkvæðum gegn 249, en 32 voru fjarverandi. Einhverjir spyrna þannig við fótum. Collins er dæmi um mann sem hugsar sitt í hljóði og áður höfum við séð fréttir um vakningu í Frakklandi og Þýskalandi hér á Fréttasjánni.

En hvað skal segja um okkur sem lifum í hinni stríðandi kirkju á jörðu á endatímanum? Er það ekki þetta sem hl. Ritning segir:

„Látið engan villa yður á nokkurn hátt. Því að ekki kemur dagurinn nema fráhvarfið komi fyrst og maður syndarinnar birtist. Hann er sonur glötunarinnar, sem setur sig á móti Guði og rís gegn öllu því, sem kallast Guð eða helgur dómur“ (2 Þ 3-4).

Þetta er það sem hin blessaða Mey áminnti okkur um í La Saliette og Fatíma. Við sáum hvernig Sovétríkjunum var feykt á brott að liðnum árunum 72 þegar Guð lyfti upp litla fingrinum. (La Saliette – 1846; Fatíma – 1917; hrun Sovétríkjanna – 1989). Þetta sagði hin Alhelga Mey og Guðsmóðir fyrir í Fatíma, ef við viljum einungis leggja við eyru. Hún hefur einnig áminnt okkur um að við lifum núna á endatímanum. Eftir þetta rökkurskeið hefst öld Hinna tveggja hjartna: Hins Alhelga Hjarta Jesú og hins Flekklausa hjarta Maríu (sjá boðskapinn í La Saliette)

Sama gegnir um þetta mýflugnager sem rís upp gegn Guði. Þegar tími Guðs er fullnaður verður þeim blásið á brott eins og mýflugnaplágu þegar sumarblærinn kemur óvænt í kjölfar svikalogns Satans.

20.06.06 @ 06:52
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Góð hugvekja þetta. Þakka þér. Og gott er ljóðskáldið, munkurinn Gregoríos frá Narek.

20.06.06 @ 08:10
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég set hér inn bréfið sem ég sendi þér í morgunn, bróðir Jón Valur:

Já, bróðir. Þetta er allt undir styrkri hendi okkar himneska Föður. Þess vegna er boðskapur (eða opinberun) systur Erszbetar Szantos svo athyglisverður. Guðsmóðirin og Jesús opinberuðust henni í tæp 30 ár og greindu henni frá Öld hinna tveggja hjartna þar sem LOGI ELSKU HINS FLEKKLAUSA HJARTA MARÍU mun blinda Satan og svartengla hans.

Þú getur séð eina opinberanna hennar á Vefritum Karmels, en ég er að þýða bók hennar í sumar ásamt Loga lifandi elsku Jóhannesar af Krossi. Þar leggur hann fram trúfræðilegan grundvöll fyrir guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú, rétt rúmlega einni öld áður en Margaret Alcoque opinberðist leyndardómur þess í Par-de-Mondial. Ungverska biskuparáðið vekur athygli á því í hversu mikilli samhljóðan við boðskap þeirra opinberun Erszbetar er, enda hefur kirkjan veitt heimild til að dreifa bók hennar.

Kjarninn er sá að við lifum nú á endatímunum þar sem Satan berst um á hæl og hnakka sem aldrei fyrr þar sem honum er ljóst að tími hans er að renna út. Það vekur mér reyndar furðu hversu virk mótspyrnan er innan EB eins og atkvæðagreiðslan leiðir í ljós. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart vegna þess að meðal þeirra 600.000 ungmenna sem dvöldu í Commune de Taize voru margir sem gegna nú lykilhlutverki í Evrópskri pólitík. Í fyrra héldu Pólverjarnir þannig sýningu í höfuðstöðvum EB í Brüssel um guðrækni hins Alhelga Hjarta laumukommum til mikillar hrellingar.

Að lokum má svo bæta við að mikil trúarvakning er hafin á Aþosfjalli og Klaustur hl. Panteleimons (rússneska klaustrið) smám að fyllast aftur, en þar bjuggu 2000 munkar fyrir byltinguna (þar á meðal hl. Silúan). Pútín var þar í heimsókn um daginn. Í Medjugorje sagði Guðsmóðirin að Rússland ætti eftir að verða Guði til mikillar dýrðar! Það verður fróðlegt að sjá hvað gerast mun kringum árið 2061, en þá verðum við hvorugur í hinni stríðandi kirkju á jörðu!

20.06.06 @ 21:43
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Gott er að heyra góðar fréttir, bróðir minn góður.

20.06.06 @ 23:16