« Hörmulegt þingmál orðið að veruleika: gifting samkynhneigðraAð fararheill við jarðlífs endi »

18.05.10

Kaþólsk tónlist endurreisnartímans

Í fyrradag var glæsilegur tónlistarþáttur á Rás 1, "Endurreisninni þeytt", þar sem þáttarstjórnandi, Halla Steinunn Stefánsdóttir, ræddi við Árna Heimi Ingólfsson tónlistarfræðing. Fjallaði hann um endurreisnartímabilið, ekki sízt kaþólska tónlist síðmiðalda og fram undir lok 16. aldar, m.a. um Thomas Tallis og William Byrd í Bretlandi (sbr. fyrri pistil um þá HÉR á Kirkjunetinu).

Þessi þáttur ber kaþólskri menningu fagurt vitni, tónlistin hafði náð þar svo miklum hæðum í lok miðalda, að tónverkin, sem varðveitzt hafa, sýna, með greiningu fræðimanna, að það hefur útheimt ótrúlega þjálfun og færni, sem fáir kórar ráða við nú, til að geta flutt margt af þeim verkum.

Dæmi um það er s.k. Eton-kórbók frá því skömmu eftir 1500, sem sýnir, að drengjakórinn þar hefur ráðið við tónbeitingu og lengd flóknustu helgiverka, sem fáum veitist mögulegt nú nema allra færustu kórum. (Það var Hinrik konungur VII, sem stofnaði hinn fræga Eton-skóla.)

Menn fyllast reyndar trega við að hlusta á frásögn Árna Heimis af því, hve markvisst var gengið í að útrýma hinum háþróaða tónlistararfi kaþólsku kirkjunnar í Englandi við siðaskiptin. Það er ekki fyrr en á 16. öld, sem farið er að prenta nótur, og því fór mikið af einstæðum hlutum forgörðum með þeim handritum, sem eyðilögð voru. Var það raunar hliðstætt við örlög margra kaþólskra trúmanna, því að hver sá, sem uppvís var að því að iðka kaþólska trú, átti dauðann vísan að enskum lögum.

Þetta ástand hafði sín áhrif á tónsmíðar á þessum tíma, t.d. er orðið misericordia (miskunn) afar algengt þema í verkum Williams Byrd, og það er naumast tilviljun, að Thomas Tallis semur verk út frá Harmljóðum Jeremía, þar sem spámaðurinn syrgir örlög Jerúsalemborgar, hliðstæðu við hlutskipti kaþólsku kirkjunnar í Englandi, eins og Árni Heimir ræðir um á svo upplýsandi hátt.

En Tallis og Byrd, sem báðir voru kaþólskir að sannfæringu, tókst að lifa af þrátt fyrir ofsóknir á hendur trúbræðrum þeirra og meira en það, því að þeir náðu því jafnvel að að fá einkarétt á útgáfu tónlistar hjá Elísabetu I drottningu. Tónlistarlíf Bretlands á þeim báðum mikið að þakka, og eins og fram kom í máli Árna Heimis, er þekking og flutningur á endurreisnartónlist á jafnháu stigi og raun ber vitni í Bretlandi ekki hvað sízt því að þakka, hve mikil rækt hefur verið lögð við arfleifð þeirra í mörgum beztu skólunum þar í landi, eins og þeir menn þekkja, sem sótt hafa tónlistarviðburði í glæsilegum háskólakapellum eða eiga plötur eða diska með upptökum þaðan (t.d. frá King's College Choir og St John's College Choir, Cambridge). Frá skólunum hafa svo kórar eins og The Tallis Scholars og Taverner Consort and Choir fengið stöðugt nýtt blóð til að fást við enn fleiri verk og halda við hefðinni með ýtrustu listrænu kröfum.

Árni Heimir er blessunarlega djúpt sokkinn í þá fínu músík, sem þarna er um að ræða, sem vera ber hjá fagurkera, og ræðir kunnáttusamlega um hana, svo að unun er á að hlýða, með öllum sínum fallegu tóndæmum.

Hér er vefslóð á skrif um þennan þátt hjá Rúv, með ýtarlegri skrá um verkin, sem þar voru flutt. Þar undir er tengill til að smella á og hlusta á allan þáttinn. Í styttri upptalningu eru verkin þessi: Andreas Christi famulus eftir Thomas Crecquillon, Kyrie úr Missa Pange lingua eftir Josquin des Prez (d. 1521), Ave verum corpus eftir William Byrd, í ólíkum flutningi tveggja kóra, hluti úr Infelix Ego eftir hinn sama, Vigilate úr Cantiones sacrae 1, 1589, enn eftir Byrd, hluti úr Salve Regina eftir William Cornysh (d. 1523) í Eton-kórbókinni og úr fyrrnefndu verki, Lamentations of Jeremiah, eftir Thomas Tallis.

Já, það er ýmislegt menningarlegt á Rás 1, og það má hikstalaust mæla með þessum tónlistarþáttum Höllu Steinunnar, en upplýsingar um þá nýjustu er jafnan að finna á vefsíðuþætti hennar á Ruv.is: Girni, grúsk og gloríur.

En á fyrr nefndri vefsíðu um þáttinn er þess getið, að Árni Heimir er stofnandi og stjórnandi kammerkórsins Carmina, sem kemur fram á Listahátíð í Reykjavík í ár. "Þar mun kórinn flytja nokkrar af perlum fjölraddatónlistar endurreisnarinnar, en efnisskráin er undir yfirskriftinni Maríusöngvar."

1 athugasemd

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir þennan fróðlega pistil Jón.

20.05.10 @ 18:23
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software