« Séra Jón Habets – á 15. ártíð hansPáfinn hneykslast að vonum á barnaníðingshætti prestahóps á Írlandi »

16.12.09

  23:30:09, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 766 orð  
Flokkur: Kirkjusaga, íslenzk, Úr lífi og starfi kirkjunnar, Kristindómur og menning, Kaþólskir Íslendingar

Kaþólsk kirkja í Árbæjarsafni?

Það er yndislegt að koma í Árbæjarsafn og sjá þá miklu uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað, í miklum fjölda margvíslegra safnhúsa. Síðastliðinn sunnudag var þar mikil gestakoma, og sjálfur komst pistilshöfundur í guðsþjónustu í fornri sóknarkirkjunni, rétt við pílárana hjá Flóaprestinum Kristni Ágústi Friðfinnssyni, sem þar hefur séð um helgiþjónustu á aðventunni. 

En er þar kaþólsk kirkja að auki? Ekki fyllilega, því að afhelguð var hún formlega, og þó er nánd hennar þar sterkari en þegar sama hús stóð við Túngötu fyrir um aldarfjórðungi. Nú fer lesandinn að renna grun í, hvað skrifarinn er að fara. Já, það er íþróttahús ÍR, sem flutt var upp í Árbæ, en það var upphaflega kaþólsk kirkja ...

Nú er það hluti af Árbæjarsafni, og þó að meginsalur þess sé tileinkaður íþróttunum og sögu hússins sem félags- og íþróttaaðstöðu ÍR, þá er þó loftið í eystri enda hússins tileinkað þeim kaþólska helgistað sem þarna var áður – svo vel, að menn ná þar miklu betur anda þess tíma en þá hefði órað fyrir. Svo fór mér að minnsta kosti, og átti ég þar langa dvöl, lengri en í öðrum markverðum húsum á svæðinu.

Þegar gengið er inn loftstofuna, blasir þar við manni stór og fallegur, steindur gluggi með mynd Jesú Krists og hjartað sýnt í barmi hans, með geislandi eldslogum kærleikans. Glugginn er vel varðveittur, en þó vantar í hann tvö gler, sem kemur lítt að sök. Standandi uppi á loftinu getur maður séð yfir allan salinn, allt til vestari enda, þar sem kórinn og altarið voru áður, en sneru þá í austurátt, til Jerúsalem.

Meðfram veggjum í loftstofunni er svo nokkur fjöldi mynda og gripa ásamt textaskýringum sem setja menn vel inn í aðstæður fyrri tíma og sögu kirkjunnar. Mig langar að koma á framfæri svolitlu söguyfirliti, sem ég hripaði niður eftir þeim upplýsingum. Þetta eru atriði, sem margir í kaþólska söfnuðinum þekkja vel og skrifað hefur verið um, sennilega mest í Merki krossins, tímariti kirkjunnar, og í ritum Gunnars F. Guðmundssonar sagnfræðings, en vonandi gefur eftirfarandi einhverjum svolitla innsýn í sögnu kirkjubygginganna á Landakotshæð.

Fyrsta kirkjan þar, á seinni hluta 19. aldar, var helguð hinu heilaga hjarta Jesú. Þar var um gamalt geymsluhús að ræða (vestan við prestahúsið). Eftir að nýtt kirkjuhús tók við, var hið fyrra notað sem sjúkraskýli St Jósefssystra.

Ný kirkja var reist eftir að trúboðið hófst 1895. Hún var flutt hingað tilsniðin frá Mandal í Noregi 1896 og byggingarleyfið veitt í desember það ár. Var hún fullbyggð í september 1897, kostaði 1000 krónur í byggingu og rúmaði 200 manns í sæti. Hún var eins og gamla kirkjan helguð hinu heilaga hjarta Jesú og oft kölluð Jesú hjarta kirkjan, rétt eins og ein systurkirkja hennar í Kaupmannahöfn. En húsið sjálft er sem sagt það, sem við þekkjum flest sem gamla ÍR-húsið, nú í Árbæjarsafni. Af því, utan frá séð, var mestur ljóminn, þegar það stóð við Túngötuna seint á 20. öld, en nú fær það miklu betur að njóta sín eftir endurbætur og er fallegt að utan sem innan. 

Árið 1903 komu fyrstu Montfort-trúboðarnir til Íslands, en af reglu Montforts voru margir prestanna út 20. öld, m.a. séra Franz Ubaghs, sóknarprestur Kristskirkju, séra Jón Habets í Stykkishólmi, d. 1994, og séra Georg, skólastjóri Landakotsskóla, d. 2008, síðastur Montfortpresta.

Fyrstu Montfort-trúboðarnir voru Marteinn Meulenberg, síðar nafnbiskup hér (d. 1941), og séra Jón Servais. Varð Meulenberg fyrsti útlendingurinn til að fá hér ríkisborgararétt, og var hann vel kynntur og reyndist mörgum vel.

Ekki nægði þetta kirkjuhús söfnuðinum, en mikill var stórhugurinn, þegar tekin var ákvörðun um byggingu nýrrar kirkju af steini. Leyfi til byggingar hennar, nokkru ofar á hæðinni, var veitt 1926, og var hún vígð fullbyggð í júlí 1929 og helguð Kristi konungi. Til hafði staðið að fá þangað nýtt altari, en vegna vanefna var það gamla notað áfram, einnig kirkjubekkirnir, sem enn er setið á í þessari basiliku Krists konungs, eins og hún heitir nú, eftir að Jóhannes Páll II páfi veitti þessari kaþólsku dómkirkju í Reykjavík hina virðulegu stöðu basiliku.

Gamla kirkjan var afhelguð, þegar sú nýja var tekin í notkun fyrir 80 árum. Var húsið svo gefið Íþróttafélagi Reykjavíkur og þjónaði því vel og lengi, eins og fræðast má um í núverandi safns-hlutverki þess í Árbæjarsafni.

Nokkrir munir eru úr Jesú hjarta kirkju í safninu, m.a. bænastóll presta, og merkilegar þóttu mér tvær stórar ljósmyndir þaðan, sem sýndu hve tilkomumikið var yfir að líta, séð af loftinu, yfir kórinn og kirkjuskipið framanvert, með skreytingum þar, krossferilsmyndum á úthliðum, steinda gluggann fagra fyrir aftan kórinn og prúðbúna kirkjugesti og skrýdda presta við altarið.

Þessi heimsókn í Árbæjarsafn var mér upplifun, og ég hvet alla til að fara þangað og kynnast þar íslenzkri menningu og sögu "innan frá" – í lifandi snertingu þann veruleika!

1 athugasemd

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir þennan fróðlega pistil Jón. Ég á enn eftir að koma inn í þetta sögufræga hús, en hlakka því meira til.

17.12.09 @ 22:05
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution