« Boëthius: Quod mundus stabili fideTorfi Ólafsson, sálmahöfundur og velgjörðarmaður kaþólskrar kirkju »

19.09.09

  20:39:12, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 514 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Bænamál, Miðaldafræði íslenzk, Ýmis skáld, Miðaldasaga og kirkjan

Karla-Magnúsar bæn

  • Róms af bás þó ræðu spinni,
  • rekks ei mýkir lyndi það,
  • hefur hann lás í hendi sinni
  • Himnaríkis dyrum að.

Nokkur gömul handrit á ég, þar á meðal vísna- og bænamál, og var vísan sú undarlega úr einu þeirra. Er þar um að ræða 3. erindi úr átta vísna bréfi, ortu af Ólafi Erlindssyni til Jóns í Bót. Er það austfirzkt efni, ritarinn B. Sveinsson í Viðfirði.

En efnið, sem hér fer á eftir, handrit sem ég birti nú þennan hluta úr: Karla-Magnúsar bæn, er fagurlega ritað, en skrifarans eða eiganda ekki getið. Tvískipt er það og hér aðeins birt úr fyrri hlutanum, en í upphafsorðum þess seinni sést, að skrifað er þetta örugglega eftir 1747.

Stafrétt reyni ég að birta það, þótt stafsetning sé oft röng, eins og algengt var að þeirrar tíðar rithætti; eins leysi ég úr s.k. böndum (styttingum) með því að sýna það bundna með skáletri.

style="text-align: center;">Karla Magnúsar Bæn

eður

Ein Bæn sem Engill Guðs kom með af Himnum og færði þeim Heilaga Legurd Páfa í Róm, hvör eð var bróðir Karla Magnúsar Keysara; Og med því hvör sem þessa Bæn á sjer ber, skal ecki í Sjó nje Vatni druckna, ei eldur nje eytur granda nje pílur slá, ecki galdur nje gjörningar, ecki uppvakningar, Draugar nje nockurs manns íllur ásetningur og ecki heldur Djöfullinn sjálfur granda, og hvör sú Dandis Kvinna sem þessa Bæn á sjer ber, skal sitt fóstur ei með Harmi fæða og aldrei daudt heva, heldur Móðurina Líf og Lausn fá, enn Barnið skírn og sköpun rétta. Margar aðrar dygðir fylgja þessari Bæn, hvörjar oflangt er upp að telja.

Bæninn Sjálf

IESU CHristí kross + [stór kross, jafnan í handriti þessu myndaður með þremur láréttum o-um og þremur lóðréttum; biðjandinn signir sig sennilega við hvert krossmark;  innsk. jvj] er eitt dásamlegt Tákn, IESU CHristí kross + gjörir hvört vatn hreint, IESU CHristí kross + er eitt verðugt Teikn þeim hann þar um biðja; IESU CHristí kross + veri minn vegur til allra dygða og mannkosta, IESU CHristí kross + verndi mitt Líf og taki frá mjer allt vondt og alla pínu; IESU CHristí kross + heilbrygði mig í dag og veri með mér, fyrir og eptir, hvar sem sá leiði Djöfull og Andskote sjer mig, þá flýi hann frá mjer Í Vors HErra IESU Nafne. IESU CHristí kross + verndi mig og geimi frá allri Olucku. Í IESU CHRISTE [sic] Kross Nafni gjöri eg alla krossa þessa sem útuegast fyrir mig. IESUS CHRISTUS NX [?] Iharæus [?] Juda Konungur, hann velsigni mig, JESUS CHRISTUR [sic] géck á móti þeim hann krossfestu. IESUS CHRISTUS Lifandi Guðs Son, sá blessaði og krossfesti, hann velsigni mig til Eylífs lífs, O IESU Lifande Guðs Son verndi mig og geimi frá allri Olucku, Í Nafni Guðs Föðurs, Guðs Sonar og Guðs Heilags Anda, A M E N.

Þannig lýkur þessari "Karla-Magnúsar bæn", en Karl sá var vitaskuld Karl mikli Frakkakeisari, og skal hér engum getum að því leitt, hvort bænin sé margra alda gömul, jafnvel komin frá honum sjálfum. Vera má að bænin sé þýdd úr þýzku; þar tíðkaðist t.d. að skrifa Drottinn þannig: (der) HErr, því að öll nafnorð voru skrifuð með stórum staf, og því þótti við hæfi að skrifa Drottinn með tveimur upphafsstöfum. – JVJ.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Hreggviður Jónsson
Hreggviður Jónsson

Jón! Þakka þér fyrir að draga fram þessa gömlu bæn. Það er því miður allt of lítið birt af okkar gömlu trúarljóðum, en ef ég hefi tekið rétt eftir þá munum við eiga óbirt í handritum mörg hundruð þúsund ljóð og vísur.

23.09.09 @ 11:25
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kærar þakkir fyrir þetta, Hreggviður, með góðri kveðju.

29.09.09 @ 00:05
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution