« Páfinn í SarajevoPétur biskup biðst lausnar »

18.05.15

Kaþólska kirkjan um hjónabandið, hreinlífi og samkynhneigð

Öllum má vera ljóst, að kaþólska kirkjan stendur vörð um hjónabandið, eins og um það er fjallað í guðspjöllum og bréfum Nýja testamentisins. Ennfremur hvikar hún hvergi frá því, sem þar er sagt um kynferðislegt samband fólks af sama kyni, og hafnar því, að samband þeirra geti verið grundvöllur hjónabands. Í þremur greinum í  Trúfræðsluriti Kaþólsku kirkjunnar segir svo:

 • 2357. Samkynhneigð vísar til sambands milli karla og milli kvenna sem með algjörum eða ráðandi hætti laðast kynferðislega að persónum af sama kyni. Það hefur tekið á sig ýmsar myndir í aldanna rás og á hinum mismunandi menningarsvæðum. Sálræn tilurð þess hefur að mestu leyti verið óútskýrð. Með því að styðjast við heilaga Ritningu, er lýsir samkynhneigðum athöfnum sem alvarlegri siðspillingu, [141] hefur erfikenningin ávallt lýst því yfir að "samkynhneigð athöfn feli í sér eðlislæga röskun." [142] Hún stríðir gegn náttúrulögmálinu. Hún útilokar að kynlífið kveiki nýtt líf. Hún sprettur ekki af sannri gagnkvæmri fyllingu, tilfinningalegri og kynferðislegri. Hana má ekki undir nokkrum kringumstæðum viðurkenna.
 • 2358. Þeir karlar og konur sem hafa djúpstæða samkynhneigð eru ekki lítill hópur. Þessi tilhneiging, sem á hlutlægan hátt er röskun, er fyrir flest þeirra erfið raun. Þau ber að umgangast af virðingu, samúð og nærgætni. Sérhverja tilhneigingu til óréttmætrar mismununar gagnvart þeim ber að forðast. Þau eru kölluð til að uppfylla vilja Guðs í lífi sínu og, ef þau eru kristin, að sameina þá erfiðleika, sem skapast vegna ástands þeirra, fórn Drottins á krossinum. [Frh. hér neðar!]
 • 2359. Samkynhneigðar persónur eru kallaðar til hreinlífis. Með dyggð sjálfsögunar, sem kennir þeim innra frelsi, og stundum með stuðningi ósérplæginnar vináttu, með bænum og sakramentislegri náð, geta þær og eiga þær að ná smám saman og af öllum hug tökum á kristinni fullkomnun.
 • (https://docs.google.com/document/d/1otltDYfFJr-obIHfcbOl_BgOmM_P4kmnsM2__SUvjlI/edit# – Óopinber útgáfa Trúfræðsluritsins (TKK), Reynir K. Guðmundsson þýddi, bráðabirgðaþýðing. Hér er: Efnisyfirlit Trúfræðsluritsins)
 • Neðanmálsgreinar:
 • 141. Sbr. 1 Mós. 19:1-29; Róm. 1:24-27; 1Kor. 6:9; 1Tím. 1:10.
 • 142. CDF (Congregatio pro Doctrina Fidei, þ.e. stjórnardeild trúarkenninganna, Páfagarði): Persona humana, 8. 
 • Í Trúfræðsluriti kaþólsku kirkjunnar segir m.a. orðrétt um hjónabandið:

  • „Köllun til hjónabands er letruð í innsta eðli karls og konu eins og þau koma frá hendi skaparans. Heilög Ritning staðfestir að karl og kona voru sköpuð hvort fyrir annað: „Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall." Konan, „hold af hans holdi", jafningi hans og trúnaðarvinur, er gefin honum sem „meðhjálp"; þannig stendur hún fyrir Guð en frá honum kemur hjálp okkar. „Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold." Drottinn sýndi sjálfur fram á að þetta þýddi órjúfanlega einingu þegar hann rifjaði upp hver fyrirætlun skaparans hefði verið „frá upphafi": „Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður"." (TKK 1605; miklu ýtarlegar er fjallað um hjónabandið í fleiri greinum úr TKK, sem lesa má á íslenzku á næsta veftengli hér fyrir neðan). 

  Umsögn Péturs Bürcher Reykjavíkurbiskups, dags. 5. maí 2010, um það frumvarp til laga um breytingu á hjúskaparlögum, sem gerði pörum af sama kyni heimilt að ganga í hjónaband, má nálgast í heild á pdf-formi á þessum tengli: http://www.althingi.is/pdf/umsogn.php4?lthing=138&malnr=485&dbnr=2058&nefnd=a 

  Umsögninni fylgdu 6 fylgiskjöl, en þar vega m.a. þungt:

  • Réttindaskrá fjölskyldunnar, lögð fram af Páfastóli (1983). 
  • Útdráttur úr Trúfræðsluriti Kaþólsku kirkjunnar.(TKK, 1993). 
  • Bréf til fjölskyldna, eftir Jóhannes Pál páfa II (1994). 
  • Sannleikurinn um mannlegt kynferði og merking þess, frá Fjölskylduráði Páfastóls (1995). 

  Í lok eins fylgiskjalanna, þ.e. bréfs Péturs biskups til Björns Bjarnasonar, þáv. dóms- og kirkjumálaráðherra, dags. 28. júní 2008, segir svo: 

  • "Til að vera trú köllun sinni leggur kirkjan mikla áherslu á öll þau gildi sem liggja til grundvallar heilbrigðu og siðmenntuðu fjölskyldumunstri. Hún sættir sig engan veginn við rangar og óeðlilegar hugmyndir um kynlíf og fjölskyldumunstur, sem stangast á við boðskap kristilegs siðferðis. 
  • Enn fremur minnir hún ráðamenn í íslensku þjóðfélagi á kristilega arfleifð, sem í aldanna rás hefur mótað farsællega íslensku þjóðina og varar við röskun á fjölskylduímynd, sem téðar lagabreytingar hafa í för með sér. Íslenska þjóðin á betra skilið. 
  • Að lokum vil ég minna á að kirkjan er sjálfráð í trúmálum og meðhöndlun sakramentanna og lýtur engu öðru valdi í þeim efnum, hvorki Alþingis né stjórnvalda né nokkurra veraldlegra valdhafa. Þess vegna munu lögin 55/2008 ekki hafa nein áhrif á starfsemi Kaþólsku kirkjunnar."

  Þetta áréttar herra Pétur biskup með áðurnefndri umsögn sinni um nýja hjúskaparfrumvarpið til Alþingis 5.5. 2010, en hún endar þannig:

  • "Kaþólska kirkjan vonar að Alþingi muni ekki stíga þetta ógæfuspor, en haldi þess í stað verndarhendi yfir helgi fjölskyldunnar og hjúskaparins, og hún lofar að halda ótrauð áfram að bera fram bænir sínar í þágu þjóðarinnar og ráðamanna hennar. 
  • Sem svar við spumingu allsherjarnefndar Alþingis getur Kaþólska kirkjan þess vegna ekki samþykkt fyrirhugaðar breytingar á hjúskaparlögunum. Í raun hefur ekkert mannlegt yfirvald leyfi til þess að breyta þeim náttúrulegu lögmálum sem koma beint frá Skaparanum. Fyrir sitt leyti mun Kaþólska kirkjan á Íslandi halda sig við Guðs lög eins og henni ber, boða heilbrigð og eðlileg viðhorf um mannleg gildi og fara þar með eftir fordæmi Krists eins og hún hefur alltaf gert."

  No feedback yet

  Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

  Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
  [jvj.blog.is]
  [krist.blog.is] (þátttaka)
  [lifsrettur.blog.is]

  Leit

    XML Feeds

  open source blog tool