« Hinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar: Nikulás frá MyraHinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar: Karl Borromeus »

02.12.06

  21:59:33, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 7711 orð  
Flokkur: Gunnar F. Guðmundsson

Jón Arason í vitund Íslendinga

Grein eftir Gunnar F. Guðmundsson sem birtist áður í Merki krossins, tímariti kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, 1. hefti 1989 og er endurbirt hér með leyfi höfundarins. (Aths. RGB )

I

Hinn 7. nóvember árið 1950 voru 400 ár liðin, síðan Jón Arason Hólabiskup og synir hans tveir, Ari og Björn, voru teknir af lífi í Skálholti. Þessa viðburðar var minnst með ýmsum hætti bæði norðan lands og sunnan. Minningarathöfn fór fram í Háskóla Íslands á vegum heimspekideildar, og fjölmenn hátíð var haldin á Hólum 13. ágúst það ár.

Þar voru samankomnir helstu leiðtogar lútersku þjóðkirkjunnar, biskup, vígslubiskupar og um þrjátíu prestar ásamt forsætisráðherra og öðrum gestum. Reistur hafði verið veglegur turn skamman spöl frá dómkirkjunni til heiðurs Jóni Arasyni, og var mannvirkið vígt við þetta tækifæri. 1) Allmargar greinar voru birtar um Jón Arason, og á þessu ári voru gefin út tvö mikil ritverk um þennan síðasta kaþólska biskup á Íslandi: Jón biskup Arason í tveimur bindum eftir Torfhildi Þorsteinsdóttur Hólm og Herra Jón Arason eftir Guðbrand Jónsson. Tveimur árum áður hafði komið út ritið Jón Arason eftir Gunnar Gunnarsson skáld, og var það einn þáttur í sagnabálki sem höfundur kallaði Landnám og átti að fjalla um helstu viðfangsefni í sögu Íslendinga. Loks skal þess getið, að í Þjóðleikhúsinu var frumsýnt leikritið Jón Arason eftir Tryggva Sveinbjörnsson, sendiráðsritara í Kaupmannahöfn, en það hafði áður verið á fjölum Konunglega leikhússins þar í borg. 2)

Þetta er ekki eina leikritið, sem samið hefur verið um ævi og örlög Jóns Arasonar. Áður hafði norskt skáld. Kristófer Janson, gert um Jón Arason harmleik, sem prentaður var í Björgvin 1867. Þekktast mun þó leikrit Matthíasar Jochumssonar vera, en skáldið vann að gerð þess veturinn 1896-1897. 3)

Í Kristskirkju, Landakoti, var haldin hátíðarguðsþjónusta af þessu tilefni. Það er eðlilegt, að söfnuður þeirrar kirkju skyldi vilja halda á lofti minningu Jóns Arasonar, síðasta málsvara kaþólsks siðar í landinu. En hvað kom til, að öll þjóðin með leiðtoga lútersku kirkjunnar í fararbroddi virtist nær einhuga um að gera nafn þessa manns veglegra en flestra annarra Íslendinga fyrr og síðar?

II

Lærðir menn og leikir hafa þóst sjá fleiri strengi bærast í brjósti biskupsins Jóns Arasonar en þá, sem knúðir eru af trúrækni og umhyggju fyrir hinni kaþólsku kirkju. Flestir viðurkenna, að Jón Arason hafi látið sér annt um kirkju sína, en hann á einnig að hafa staðið vörð um réttindi þjóðarinnar gegn ásælni konungsvaldsins. Þetta viðhorf kemur skýrt fram í ritum Páls Eggerts Ólasonar, sem rækilegast hefur kannað sögu Íslendinga á 16. öld. 4) En skáldin kveða sterkar að orði en fræðimaðurinn. Gunnar Gunnarsson segir í eftirmála bókar sinnar, að Jón Arason sé eina þjóðhetjan, sem við Íslendingar höfum átt í nærfellt fjögur hundruð ár. 5) Og Torfhildur Hólm lýkur hinu mikla ritverki sínu með því að leggja, eins og hún segir, „þessi merkilegu orð Jóns Jónssonar, sagnfræðings, (Ísl. þjóðerni, bls. 152), sem sigurkrans yfir minningu trúarhetjunnar og föðurlandsvinarins: ‘Það er ekki Jón Arason einn, sem er leiddur á höggstokkinn í Skálholti 7. nóvember 1550, heldur meðfram annað og meira: Það er sjálfstæðistilfinning íslensku þjóðarinnar.’ “ 6)

Þegar Þórhallur Bjarnason biskup tók þátt í minningarathöfn um Jón Arason 7. nóvember 1910, vakti það nokkurt umtal, og er sagt, að kaþólsku prestarnir í Landakoti hafi furðað sig mjög á þessu. En Þórhallur biskup hafði hreina samvisku. Í ræðu, sem hann flutti af þessu tilfeni, tók hann skýrt fram, að lúterskir menn gætu ekki minnst Jóns Arasonar með kirkjulegri hátíð, en minningin um hann væri þjóðleg. „Hann er íslensk þjóðhetja“, sagði Þórhallur biskup, „og vér berum höfuðið hærra sem Íslendingar hans vegna.“ Þórhallur bætti því við, að Jón Arason hefði fyrstur fundið skýrt og glöggt íslenska þjóðernið í andstöðu við útlend þjóðerni og útlent vald. 7)

Þá tilhneigingu sumra landsmanna að lýsa Jóni Arasyni sem þjóðhetju og láta þá mynd yfirskyggja aðra þætti í fari hans má tvímælalaust rekja til Jóns Sigurðssonar og viðhorfa hans til sögu Íslendinga. Alkunn er sú staðhæfing Jóns Sigurðssonar um nafna sinn Arason, að með biskupinum og sonum hans hafi fallið hinir seinustu Íslendingar, hin innlenda stjórn liðið undir lok og hin útlenda byrjað. 8) Jón Sigurðsson lét ekki biskupsvald nafna síns og aðgerðir hans í þágu kirkju sinnar draga úr þeim ljóma, sem af frelsishetjunni stafaði. Í greininni Fyrrum og nú fórust Jóni Sigurðssyni þannig orð:

Með Jóni Arasyni má telja að fornöldin á Íslandi dæi gjörsamlega út, að minnsta kosti í verki, því hann hefir verið forneskjulegastur allra þeirra manna, er þar hafa verið síðan landið kom undir konúnga. Í honum reis Ísland hið forna enn einusinni og síðasta skipti móti útlenda valdinu, og þó stríðið í fyrstu hefðist útaf trúarbrögðunum einum, þá er þó auðséð á öllu, að eftir því sem fram í sótti og leið að endanum, var það einkum mótstaðan á móti útlendri yfirdrottnan, sem vakað hefir fyrir Jóni biskupi, og fór það að líkindum, því af biskupunum einum var að búast við nokkurri verulegri mótspyrnu. Aldrei var nokkur maður íslenskari eða norrænni í lund en hann eður ópápiskari í raun og veru, það er að skilja ófúsari í að lúta öllum þrældómi, bæði andlegum og veraldlegum, og því eru menn nú, sem rétt er, fúsir á að fyrirgefa honum það, sem honum að öðru leyti kann að hafa yfirsést. 9)

Ekki hafa allir verið á eitt sáttir um þann skilning, að Jón Arason hafi verið þjóðfrelsishetja. Í bókinni Herra Jón Arason eftir Guðbrand Jónsson kveður við nokkuð annan tón. Að sögn Guðbrands hefur siðabyltingin á sér tvo fleti nú á tímum. Annars vegar eru trúarbrögð og hins vegar fjárdráttur og stjórnmál. En í augum þeirra manna, sem lifðu á tímum átakanna, var þessi tvígreining óglögg. Guðbrandur heldur því fram í bók sinni, að siðabyltingin hafi beinst að því einu, að fella kaþólsku kirkjuna og barátta Jóns Arasonar aðeins ósjálfrátt orðið vörn fyrir landsréttindin, því að hinir margvíslegu þættir byltingarinnar hafi í samtíðinni verið ein ósundurgreinanleg flækja með svip trúarbragðadeilu. 10).

Hver var þá Jón Arason? Hvað knúði hann til verka, og hverjar voru þær athafnir sem gerðu hann svo minnisstæðan löngu eftir að æviskeið hans var liðið? Sagan um Jón Arason er flestum vafalaust kunn. En ég ætla samt að rifja hana upp og nota til þess æviágrip, sem sonarsonur Jóns, Magnús Björnsson, tók saman. Frásögn Magnúsar var prentuð í Biskupasögum Hins íslenska bókmenntafélags, en hér verður farið eftir handriti, sem var ekki notað við þá útgáfu að því er virðist. Handritið er geymt í Landsbókasafni og er nr. 724, 4to (Lbs.). Texti handritsins er hér birtur með nútímastafsetningu, en leitast við að halda fornum orðmyndum.

III

Skrif Magnúsar Björnssonar um Jón biskup og hans sonu.

Anno 1484 fæddist Jón biskup Arason í Eyjafirði 11) og ólst upp til þess hann var 24 ára gamall í þeirri sveit. Hans faðir hét Ari Sigurðsson, sonur príors á Möðruvöllum. Móðir hans hét Elen Magnúsdóttir. Hún var systurdóttir ábótans Einars Ísleifssonar á Munkaþverá. Vann biskup Jón fyrir móður sinni, þá hans faðir var látinn, til þess hann var 24 ára gamall. Þá fór hann til Hóla og vígðist til Helgastaða í Reykjadal. Þar fékk hann sína barnamóður, Helgu Sigurðardóttur. Á öðru ári síns prestsdæmis fékk hann Hrafnagil og hélt þann stað til þess hann var kjörinn bil biskups.

Á þeim tíma sigldi hann tvisvar til Noregs fyrir biskup Gottskálk. Í fyrra sinni kom hann út með kirkjuvið, en síðar fór hann með níu merkur gulls og lét þar úr smíða gullkaleikinn góða, sem sagt er að danskir hafi haft frá Hólum. Meðan hann sat á Hrafnagili, hélt hann þrjár kirkjur og var prófastur í Eyjafirði. En eftir afgang Gottskálks biskups, varð hann officialis á Hólum og so kjörinn til biskups af öllum prestum á Munkaþverá. Situr hann þann vetur á Hólum, því ei var fært að sigla um haustið, þá hann var til biskups kjörinn.

Á sama hausti kom út biskup Ögmundur anno 1522. Vildi hann þá hafa ráð yfir öllu landinu, bæði um biskupskjör og annað og vildi í öngvan máta líða, að síra Jón Arason væri í þeim kjörum, heldur að hans prestur, síra Jón Einarsson, væri til biskups kosinn, hvar fyrir að Ögmundur biskup í Skálholti sendi með forboðsbréf norður til Hóla síra Ólaf Gilsson þess erindis, að hann skuli lesa það yfir síra Jóni Arasyni. En síra Ólafur þorði ei að fara lengra en til Víðiness og sendi síra Jóni Arasyni orð að finna sig þar. En síra Jón lést kom mundi daginn eftir. Hann lét þá leggja yfir síra Þorstein Gunnarsson sín klæði og húfu með strút, sem þá var vani, og sendi hann so, einnin Ara son sinn og alla sína sveina að Víðinesi til fundar við síra Ólaf. Þá þeir fundust, meinti síra Ólafur, að síra Þorsteinn væri biskupsefnið og hneigði hönum mjög, stakk sínum hatti undir sína hönd, leitaði bréfapungsins með mestri hæfersku og fékk so síra Þorsteini bréf Ögmundar biskups. En í því prestur tók við bréfinu, þá féll niður hans hattur. Síra Þorsteinn skipaði af valdi Ara, syni síra Jóns, að taka strax upp sinn hatt, hvað Ari gjörði með mikillri reverentiu. Hann var þá ungur piltur. Skyldu þeir so með það. Reið so síra Ólafur til baka og þóttist vel hafa vegið. Síra Þorsteinn sá ráð fyrir bréfinu, so Jón prestur sá það aldrei, skrifaði þó til biskupi Ögmundi síðar og neðan á bréfið vísu, hvur so endast: „setti niður sinn hatt og sveinninn fann hann Þorstein. “ Þá vissi Ögmundur biskup, að brögð voru í tafli og líkaði stórilla. Þar eftir sendi biskup Ögmundur síra Pétur Pálsson, sem fyrr er nefndur. Hönum var strax, þá til Hóla kom, fylgt í Arnarstofu, hvar hann dvaldi, þar til hann í burt fór, og fann aldrei síra Jón. Seinast sendi biskup Ögmundur síra Jón Einarsson, sem hann vildi að biskup yrði, til Hóla. Jón prestur Arason tók hann heiðarlega og hélt hönum ágæta veislu og öllum hans mönnum. Ekki varð enn af bréfalestrinum, því síra Jón vildi ei það lesa og reið so í burtu. Á móti páskum sendi síra Jón Arason Ólaf Ormsson í Dal suður í Skálholt með friðar- og vinsemdarbréf til biskups Ögmundar. Biskup tók vel við hönum og lét setja drykkju veglega um páskana, setti til tvo sveina hönum að veita og hjá hönum vera í einnri stofu. En á fjórða í páskum hvurfu sveinarnir frá hönum. Um morguninn eftir fékk hann njósn af því, þó leynt ætti að vera að biskup Ögmundur hefði í gærdag riðið með fjölda manns norður í land og ætlaði til Hóla. Ólafur náði seint hestum sínum tveimur, sem hann hafði meðferðis, reið þó sem merst mátti, þá hestana fékk, og náði biskupi í Mælifellsdal og framhjá hönum og hans sveinum, yfir um vötn að Þverá og so framhjá hönum og hans sveinum, yfir um vötn að Þverá og so fram eftir Hjaltadal að Hólum og sagði síra Jóni Arasyni um biskupskomu. Síra Jón Arason reið þá strax til skips ofan í Kolbeinsárós, hvar hann vildi utan sigla. En þá síra Jón reið hjá Ási, þá reið biskup Ögmundur frá Skúfstöðum og heim til Hóla. Þrengdi hann þá Hólaprestum að taka síra Jón Einarsson til biskups. Tóku þá allir aftur sín fyrri kjör nema tveir prestar. Annar var ráðsmaðurinn síra Nicolaus, en annar var kirkjupresturinn, síra Thomas, er síðar varð ábóti á Munkaþverá. Fór þá ráðsmaðurinn að altarinu í kirkjunni og lét staðarlyklana upp á skrínin og tók tvo stóra matknífa sinn í hvurja hönd. Þeir báru að hönum þófa og tóku hann so, drógu hann út úr kirkjunni og höfðu hann burt í hesttagli, allt fram í Mælifellsdal og slepptu hönum þar.

Ögmundur biskup sendi þýskum í Ósinn boð og fyrirbýður þeim að flytja síra Jón, ellegar skyldi hann koma sjálfur og láta skammslá þá. Þeir sendu hönum boð aftur, að þeir þyrðu vel að finna hann og hans menn, og mundu þeir þá hvurki spara kruð né lóð. Úr því lét biskup vaka yfir sér tólf sveina. Hann lá í Arnarstofu.

Eina nótt sendi síra Jón Arason Magnús klerk með þriðja mann að stefna biskupi Ögmundi fram fyrir erkibiskupinn. Síra Magnús var kunnugur vegi og fór hið efra um dalinn, so enginn vissi af fyrr en kom upp á Arnarstofu glugga, þar biskupinn svaf, og stefndi biskupi. Þá var uppi fótur og fit á hvurjum manni. Síra Magnús fékk sínum mönnum stefnuna og skipaði þeim að fara sama veg til baka aftur. En hann gat ei so fljótt í burt komist, komst inn í stöpulinn um síðir og beið þar, til þess að kirkjunni var upp lokið. Þaðan fór hann inn í kirkju og so inn í biskupskapellu og hélt sig þar. Hafði hann nóg að gjöra að verja sig fyrir þeirra ásókn. En meðan máltíð stóð yfir, vóru menn til settir að geyma stöpuldyrnar, en hann með leynd komst upp stigann á stöpulloftið, so þeir gátu þá ei haft hans meira. Um nóttina eftir var vakað og hafðar gætur á kirkjunni. Þá komst síra Magnús út um einn glugga ofan á útbrotið, renndi sér so ofan eftir trjánum og slapp með það úr þeirra höndum.

Biskup Ögmundur lætur þar eftir þann boðskap út berast, að enginn maður skuli dirfast að fá þeim í Ósnum kost eða síra Jóni, því þeir höfðu ekki matföng ánægjanleg enn þá fengið. 12) So sigldu þeir nær því kostlausir, fengu storma stóra. Rak þá allt undir Grænland, og þaðan komust þeir með áheitum hingað aftur og til Húsavíkur innan 14 daga og fengu sér kost hjá Þorleifi, föður Þorgríms á Núpum, sigldu so til Noregs. Þar kom þá strax í veg fyrir síra Jón Arason umboðsmaður biskups Ögmundar, síra Jón Einarsson, með allar sakargiftir, dóma og forboð. Sú var ein sökin, að síra Jón Arason hefði stolið öllu kirkjunnar silfri frá Hólum og haft með sér. En síra Jón Arason hafði þar á mót vitnisburð ráðsmannsins og kirkjuprestsins, að það væri allt í Hólakirkju niðurgrafið. Og með soddan móti eyddi síra Jón öllum sakargiftum biskups Ögmundar, so biskupar þrír og allir kanúkar. Þeir dæmdu ónýtar allar klaganir biskups so sem sá dómur útvísar, hvörs útskrift er á lögbók Péturs Magnússonar á Hólum. Fékk þá síra Jón Arason biskupsdæmið á Hólum, en Oddastað fyrir síra Jón Einarsson og urðu so ástvinir.

Anno 1525 kom út Jón Arason til Hóla og ríkti þar vel 25 ár. Sat hann eitt ár í kyrrðum í sínu biskupsdæmi, en á öðru árinu fjölmenntu báðir biskupar til alþingis. Hafði biskup Jón 900 manns, en Ögmundur biskup 1400. Sættust þá biskupar báðir fyrir meðalgöngu ábótanna og höfuðprestanna og héldu so vinskap og tryggð sín á millum meðan lifðu.

Þá siðaskiptin urðu eftir biskup Ögmund, sendi biskup Jón Arason út son sinn, síra Sigurð, að fá fríun af kónginum, að hann mætti blífa við sína siði og eið, á meðan hann lifði, hvað ég hygg hann fengið hafi. Og alltíð var hann í kóngsins vingan og fóvetanna, þar til að Marteinn biskup var tekinn. Stundum veittu þeir hönum kóngsins sýslur allar í Norðlendingafjórðungi, að hann mætti fá þær til lénis þeim, sem hann vildi.

Ei veit ég gjörla, hvað þeim biskupi Jóni og Marteini biskupi hefur á milli borið annað en siðaskiptin, og hönum þókti hann linur við Daða að ávíta hann fyrir hórdóma og frændsemisspjöll.

Aldrei hefi ég heyrt, að Jón biskup eða hans synir hafi nokkurn tíma tekið góts eða peninga af neinum án dóms eða laga. Að sönnu reið hann í Bjarnanes og tók þær eignir að sér eftir kóngsbréfi og dómum, sem dæmdir vóru um Teit Þorleifsson. Útskrift af öllum þeim bréfum er hjá erfingjum sáluga síra Sigurðar Jónssonar. Þar sá ég þaug öll á einni bók hjá hönum.

Eitt bréf skrifaði biskup Jón til páfanum í Róm með Úlfi Hanssyni og bað hann að skrifa sér til, hvað hann gjöra skyldi af þeim Rómarskatti, sem félli í hans biskupsdæmi, því þá var enginn erkibiskup í Þrándheimi að taka við hönum. En hann fékk það andsvar aftur af páfanum, að hann skyldi gefa það fátækum. Engin landráð voru í því bréfi. Ég sá það hjá síra Sigurði sáluga í pjáturkoffri og var ei meir en þrjár línur. 13)

Ekki vissa ég biskup Jón annað á móti kónginum brjóta en það, að hann vildi ei leggja af kirkjuréttinn gamla og að biskup Marteinn var tekinn.

Í Breiðafjarðardali reið hann til þess að koma lögum og stefnu fram við Daða fyrir þaug brot, er hann féll í. En það var undirrót þeirra óvinskapar, að hann umvandaði um hans breytni.

Sú síðasta reið biskups Jóns og hans sona með hönum, síra Björns og Ara, í Breiðafjarðardali skeði 1550. Riðu þeir þá til Sauðafells. Þá kom Daði þar með 100 manns. Biskup gekk til kirkju og þeir bræður, einnin nokkrir þeirra menn og luktu að sér kirkjuna. En menn Daða skutu þar inn. Biskup stóð fyrir altari. Þeir rufu þá kirkjuna á bak við altarið, brutu þilið í burtu, en slógu og skammfærðu fyrir kirkjudyrunum, þá sem ei komust inn í kirkjuna. En þeir sem í kirkjunni voru, hlífðu sér fyrir skotunum með þófum. Sagt hefur verið, að eirn stór kompán, kallaður Dala-Markús, hafi dregið biskupinn frá altarinu, en hann hafi haldið á helguðu brauði, hvurt niður féll og hafi einn prestur tekið það upp með tungu sinni. Þá hafi þessi Markús dregið biskup upp á vegginn og slegið hann, so úr hönum hafði fallið þrjár tennurnar, og þá hefði Daði slegið þennan Markús aftur. Eftir það brutu þeir þilið framan undan kirkjunni. Skipaði Daði þá þýskum dreng að skjóta síra Björn. Hann skaut í hans handlegg, en hann sat á kistunni fyrir kórdyrunum. Ari ætlaði að skjóta Daða, en byssan hans vildi ei lossa. Og þá sló Daði Ara til blóðs.

Þegar biskup og synir hans voru nú fangaðir, þá dæmdi Ormur lögmaður þeirra mál til nærsta alþing(i)s, og með þeim voru þeir fluttir til Snóksdals, en þeirra menn fóru þá allir norður, sárir og meiddir. Þeir vóru fangaðir 2. dag octobris. Reið síra Sigurður biskups son þá í Rútafjörð og sendi þaðan 12 menn með friðarboðum. Var síra Gottskálk formaður fyrir þeim. Hann fékk litla stund að tala við biskupinn, Daða hjáveranda, en ei fengust þeir lausir, hvað sem í boði var. Sneru þá Norðlendingar aftur norður. En Daði sendi eftir umboðsmanni til Bessastaða. Hann kom strax, riðu síðan á stað suður til Reykholts með allan skarann og þá feðga. Biskup Marteinn fylgdi með. Keypti Ari þá af hestamanni umboðsmannsins, er Christian hét, að vísa sér að besta hesti í ferðinni, og það gjörði hann. Ari komst þá á bak og ætlaði í burt. En hesturinn var þá rammstaður og fór ei úr stað. Síðan fluttu þeir þá feðga með stóru varðhaldi í Skálholt.

Þann fimmta dag novembris vildi umboðsmaðurinn ríða heim frá Skálholti og ekki þar hafa með þá feðga. Sté hann so á bak. Drakk Daði hönum þá til af silfurstaupi og gaf hönum það, en biskup Marteinn af silfurskál og gaf hönum hana og báðu hann báðir í staðinn að láta forvara þá feðga, þar til skip kæmi, þóttist ekki fá menn til að geyma þá fyrir Norðlendingum og hertu mjög að hönum um þetta. Hann sté þá af baki aftur og sagði, að jörðin kynni að geyma þá. Og nærsta dag þar eftir lét hann lífláta þá, Ara fyrst. Hann gaf böðlinum sinn góða hatt til þess, að hann skyldi hreinlega í einu af höggva, og það skeði so. Eftir það var síra Björn útleiddur, var fyrst höggvinn miklu sári. Þá bað hann sér lífs sökum sinna barna og gjörði þá góða og merkilega ræðu. Þá varð stans á. Þá gekk Daði að með stórum hasti og skipaði böðlinum strax að aflífa hann, so hann talaði ei meir, og so var gjört. Síðarst var biskupinn útleiddur. Var hönum þá sagt líflát hans sona. Gekk hann með glöðum yfirlit út og hafði kross í hendi sem kvæði Ólafs útvísar. Er það sögn sumra manna, að hönum hafi líf boðið verið, en hann hafði sagt, fyrst sínir synir hafi farið með sér, þá vildi hann fara með þeim. Og þá hann gekk framhjá Daða, upphóf hann sína hægri hönd og rétti hana að hönum með signuðu krossmarki, þegjandi, og gekk so til síns lífláts með gleði og gaf öllum blessan með mörgum góðum orðum. Og í þriðja axarhöggi sagði hann: In manus tuas Domine etc. Og heyrðu menn hann það seinasta orð tala. En í sjöunda höggi tók af höfuðið. Var mælt, að danskur maður hafi sagt, að hvít dúfa hefði upp á kirkjuna flogið, þá Ari var aftekinn, tvær þá síra Björn var deyddur, en þrjár, þá biskupinn var líflátinn og flugu allar í loft upp, so langt sem hann sá til, og grét beisklega. Höfðu þeir messu hvurn dag, meðan þeir voru í fangelsinu, og gaf biskup sér og þeim guðs líkama og líka þann seinasta daginn. Þá þetta skeði, var ég níu vetra.

Þá umboðsmaðurinn kom heim til Bessastaða, þá drap hann sinn böðul og sagði hann væri ei þess verðugur að bera so góðan hatt eftir Ara, því böðullinn vildi ei sleppa hönum. En vermenn drápu umboðsmanninn, sem norðan að komu, og 14 alls með hönum. Var þá sagt, að umboðsmaðurinn hefði afturgengið og komist á hnén. So var hann afhöfðaður.

Um vorið eftir sókti síra Sigurður, sonur Jóns biskups, með 30 mönum þá feðga til Skálholts og voru so jarðaðir í Hólakirkju, hvör út af öðrum. Þá var mikill harmur á Hólum, þá líkin að staðnum komu. Klukkum öllum var hringt, þá fyrst sást til þeirra hjá Leikskálaholti, allt til þess þeir voru í dómkirkjuna komnir. En kennimenn allir og kirkjulýður gengu út yfir traðir á móti þeim sálugu feðgum og létu bera líkamana alla heim með miklu fjölmenni. En fyrir þessu öllu gekk og fyrirsagði sá sálugi góði mann, Síra Sigurður, sonur biskups Jóns.

Magnús Björnsson með eigin hendi.

IV

Skiptar skoðanir hafa jafnan verið um Jón biskup Arason. Finnur Jónsson, sem varð biskup í Skálholti 1754, lætur þess getið í hinum mikla riti sínu um kirkjusögu Íslands, að heimildir um Jón Arason séu fjölskrúðugar, en ekki að sama skapi auðveldar viðfangs, því þar standi fullyrðing gegn fullyrðingu. Annars vegar eru vildarmenn Jóns Arasonar, vinir, ættingjar og afkomendur, sem halda því fram, að hann hafi viljað efla réttlæti og guðrækni í landinu, en orðið að úthella saklausu blóði sínu fyrir hina kaþólsku trú. Þeir líta margir á Jón sem dýrling og píslarvott. En svo eru hinir, að sögn Finns sem kenna Jón biskup Arason við villutrú, ójöfnuð og landráð. 14) Lítum nánar á nokkrar umsagnir þeirra manna, sem Finnur Jónsson hefur haft í huga, þegar hann ritaði þetta.

Skömmu fyrir andlát Jóns Arasonar orti Andrés Magnússon um hann kvæði. Andrés var fylgdarmaður Daða í Snóksdal og andstæðingur Jóns. Kvæðið er um heimreið Jóns Arasonar og manna hans í skálholt 1548 og tilraun þeirra til að ná staðnum. Norðlendingar með biskup í broddi fylkingar ríða upplitsdjarfir suður, en mæta harðri mótspyrnu í Skálholti og leggja á flótta með lítilli reisn. Jóni Arasyni er í kvæðinu lýst sem ójafnaðarmanni, en eftir þessa hraksmánarlegu för biskups trúir höfundur því, að „drambið digra drjúpi og verði að krjúpa“. 15)

Önnur mynd og hugnæmari er dregin upp af þeim feðgum, Jóni, Ara og Birni, í kvæðum þeirra Odds handa Halldórssonar og Ólafs Tómassonar. Í kvæðum þeirra beggja er Jón biskup Arason vörður laga og réttar og baráttuglaður formælandi kirkjuaga og betra siðferðis. Ólafur Tómasson var nokkuð yngri meður en Oddur handi og sonur stjúpdóttur Jóns biskups. Í kvæði Ólafs leynir sér ekki sú hugmynd, að á Íslandi búi sérstök þjóð með sín réttindi og leiðtogi þessarar þjóðar er Jón biskup Arason:

Þessir feðgar, þér hafið spurt,
þeir stýrðu ísa láði,
með herradómi, heiðr og kurt,
og helsta góðu ráði,
með hreinni hjartans dygð,
svo yfirgang skyldi enginn mann
Íslands veita bygð,
heldur mætti hver sem kann
haldast vel í trygð.

Jóni Arasyni er líkt við Alexander mikla, hina helgu menn Ólaf og Knút og aðra afreksmenn, sem að sögn höfundar vörðu lönd sín framandi þjóðum. En öfundarmenn Jóns sigldu um haf og báru róg í útlenda þjóð. Þeir feðgar gátu ekki rönd við reist, og síðan hefur allt farið á verri veg:

Herranna er nú hugsun mest
að haga svo sínu valdi:
að komast megi undir kónginn flest
með klögun og sekta gjaldi
eða kosta kroppsins pín,
að útarma svo sitt eigið land,
ötlun er það mín,
svo eigi hafi það eftir grand
af öllum peningum sín. 16)

Minningin um Jón biskup Arason kulnaði ekki, þó að kominn væri nýr siður í landið. Enginn leyfði sér lengur opinberlega að réttlæta Jón biskup fyrir baráttu hans gegn hinum nýja sið og sendimönnum konungs. En Jón Arason var í augum margra tákn hetjulundar og karlmennsku, og um trú hans efaðist enginn, þótt menguð væri páfans villu. Til voru þeir embættismenn innan lútersku kirkjunnar, sem settu það ekki fyrir sig, þó að Jón Arason hefði verið kaþólskur. Einn af þeim var alnafni biskups og prestur í Vatnsfirði um miðbik 17. aldar. Hann orti vísur um kappann Jón biskup Arason, og er ein þeirra á þessa leið:

Blessaður sé hann biskup Jón
bæði lífs og dauður,
hann var þarfur herrans þjón
þó heiminum virtist snauður. 17)

Yfirmaður prestsins í Vatnsfirði, Brynjólfur biskup Sveinsson, gekk enn lengra í þá veru að auðsýna hinum látna Hólabiskupi virðingu sína, ef trúa má heimildum. Þar hefur Brynjólfi runnið blóðið til skyldunnar, því að hann var kominn frá Jóni Arasyni í 4. lið. En auk þessa virðist Brynjólfur biskup ekki hafa verið mjög frábitinn hinum gamla sið. Jón prófastur Halldórsson segir í Biskupasögum sínum, að Brynjólfur hafi fastað hvern föstudag í árinu „og þar til hvern miðvikudag um langaföstu, hallmælti ekki katólskum og ei vildi hann láta hallmæla fyrir sínum eyrum í þvílíkum lífernisháttum“. Prófastinum þykir þó rétt að taka fram, að ekki hafi annað verið formerkt í kenningum biskups en réttur skilningur á höfuðgreinum „vorrar kristilegrar trúar“. 18) En óvenjuleg hlýtur samt að hafa verið í augum rétttrúaðra sú athöfn, sem fram fór í Skálholti 23. ágúst 1674 undir handarjaðri Brynjólfs Sveinssonar, eftir að hann hafið vígt Jón Vigfússon til biskups á Hólum. Að vígslu lokinni var gerð ágæt veisla, „og var af trúverðugum sagt, að biskup Jón hefði borið út ljós í döggu og stormi, hver ei slokknuðu, til að votta þar með um píslarvætti Jóns biskups Arasonar og hans sona, sem af teknir voru í Skálholti. Svo var undir skilið, að ef ljósin slokknuðu eigi, þá hefði biskupinn og synir hans saklausir líflátnir verið, og þetta gjörðist í fyrrskrifaðri veislu“. 19)

Dauðdagi Jóns Arasonar og sona hans var mörgum hugstæður. Arngrímur Jónsson lærði og Espólín draga enga dul á það, að þeir Hólafeðgar voru teknir af lífi án dóms og laga. 20) Þetta hefur áreiðanlega orðið til þess að draga úr dómhörku í garð Jóns Arasonar. En fleira hafði Jón sér til málsbótar. Um þetta farast Birni á Skarðsá þannig orð:

Þessir feðgar voru merkilegir menn í mörgum greinum, og í öllum manndómlegum háttum vel á sig komnir. Er og margt afburðafólk og göfugt hér á landi af þeim komið, bæði karla og kvenna. - Biskup Jón hefur og verið hér hið besta skáld á hans dögum. Hann orti þann merkilega kveðling, er hann nefndi Píslargrát, um pínuna vors herra Jesú Christi, og er það kvæði eftir ritningunni rétt ómeingað, án allrar hjátrúar, er þeir segja biskup Jón hafi kveðið skömmu fyrir sinn dauða. 21)

Jón Arason var höfuðskáld á sinni tíð. Eftir hann liggja fimm helgikvæði, ef Ljómur er talinn með. En dregið hefur verið í efa, að það kvæði sé eftir Jón Arason, m.a. vegna þes hvernig á efninu er tekið. Ljómur er í senn trúarjátning í skáldlegum búningi og saga mannkyns frá sköpun til dómsdags. Á efsta degi skilur drottinn réttláta frá ranglátum og dæmir hina útskúfuðu til eilífrar kvalar í víti. Þá koma til hans María móðir Jesú, og Jóhannes lærisveinn hans og biðja hinum fordæmdu vægðar. Fyrir bænarstað þeirra breytir drottinn dómi sínum og hinir glötuðu stíga upp til eilífs fagnaðar. Í helvíti verður enginn eftir nema fjandinn, fangaður og fjötraður af drottni.

Í Niðurstigningarvísum, sem víslega eru eftir Jón Arason, örlar á svipuðu viðhorfi. Ógnir helvítis eru ekki yfirþyrmandi, því að höfundur setur allt traust sitt á miskunnsemi lausnarans og mildi Maríu meyjar. Slíkar hugmyndir áttu ekki alls kostar upp á pallborðið hjá fylgdarmönnum rétttrúnaðarins á Íslandi. Það var því ekki að ástæðulausu, að Björn á Skarðsá nefndi einungis Píslargrát af kvæðum Jóns Arasonar.

Píslargrátur er um pínu og dauða Jesú Krists og minnir að andagift og formi mjög á Passíusálmana. Hallgrími Péturssyni er hugstæð kvöl og þjáning Krists á krossinum og hann staldrar lengi við „blóð drottins blíða“ og „lausnargjaldið góða“, eins og hann kemst að orði í 47. sálmi. Svipað viðhorf kemur fram hjá Jóni Arasyni í Píslargráti:

Jesú lífið lýða leysi,
Jesú öndin eyði gröndum,
Jesús pínan oss gjöri hreina,
Jesús dauðinn frelsi nauðir!
Megnist ást þó að málið þagni
minn drottinn, á pínu þinni!
Gráturinn fellur, en gef oss alla
guði í vald um aldir alda. 22)

Í þessu erindi Píslargráts birtist trúarafstaða, sem prestar rétttrúnaðarins gátu gengist við, enda tekur Finnur biskup Jónsson undir þá fullyrðingu, að Jón Arason hafi verið mesta skáld síns tíma. Finnur telur það einnig Jóni til ágætis, að hann fyrstur manna hóf prentun bóka hér á landi, en tekur um leið fram, að vegna vankunnáttu sinnar í latínu hafi Jón þurft að fá hingað til lands sænskan mann, sem bæði kunni latínu og prentlist. Að öðru leyti er Jón Arason ekki borinn miklu lofi í Kirkjusögu Finns. Jón er sagður hafa verið óbilgjarn og metnaðarfullur maður, sem fór um landið með flokk manna og efndi til uppreisnar. 23)

Í Oddeyrardómi um Jón Arason og syni hans, sem kveðinn var upp ári eftir aftöku þeirra, voru þeim m.a. gefin að sök drottinsvik og landráð án nákvæmrar útskýringar, við hvað væri átt. 24) En Jón var grunaður um að hafa ritað keisaranum í Þýskalandi bréf og beðið hann fulltingis í baráttunni fyrir réttindum kirkjunnar á Íslandi. Karl 5. keisari var á þeim tíma sá leiðtogi, sem kaþólskir menn litu vonaraugum til í átökunum við siðaskiptamenn. En keisarinn var einnig yfirmaður Danakonungs að því leyti, að Holtsetaland, hertogadæmi konungs, var í þýska ríkjasambandinu. 25)

Guðbrandur Jónsson telur í fyrrgreindri bók sinni það á misskilningi byggt, að Jón Arason hafi leitað til keisarans um stuðning. Hann lætur einnig í það skína, að samkvæmt lands- og kirkjulögum hafi Jón haft fullan rétt til allra þeirra ráðstafana, sem hann greip til á síðustu árum biskupsdóms síns. 26) Í bókinni gerir kaþólskur maður tilraun til að skilja og skýra viðbrögð Jóns Arasonar og hreinsa hann af öllum ákærum Oddeyrardóms. En í augum konunghollra embættismanna innan kirkju og utan var Jón Arason uppreisnarmaður, ef ekki drottinsvikari og landráðamaður.

Áður en öld var liðin frá því, að Finnur Jónsson felldi dóm sinn um Hólabiskup í Kirkjusögu sinni, ritaði Jón Sigurðsson þá grein, sem fyrr er til vitnað um seinustu Íslendingana. En þess ber að minnast, að þá var þjóðréttarbarátta Jóns Sigurðssonar hafin.

V

Í ritdómi um bók Guðbrands Jónssonar, Herra Jón Arason, nefnir Björn Þorsteinsson ýmislegt henni til lofs og lasts, en lýkur máli sínu með þeim ummælum, að enn hafi síðasta orðið ekki verið sagt um Jón Arason. 27) Ég ætla mér ekki þá dul að komast að endanlegri niðurstöðu um hinn stórbrotna kirkjuhöfðingja. En mér þykir augljóst, að Jón Arason var fyrst og síðast andlegur leiðtogi, sem var trúr kirkju sinni til hinstu stundar. Hann fylgdi þeim leikreglum dyggilega, sem forverar hans höfðu tileinkað sér, að ganga hart eftir því, ef nauðsynlegt var, að lögum kirkjunnar væri hlýtt.

Í Gamla sáttmála, sem samþykktur var 1262 - 1264, hafði konungur heitið því að láta landsmenn ná friði og íslenskum lögum, ef þeir játuðu honum skatt ævinlega. Jón Arason var ekki eini Íslendingurinn, sem minnti konung á þessi réttindi landsmanna, þegar vegið þótti að hagsmunum þjóðarinnar. Jón hafði hins vegar annað í huga en þeir menn, sem áður höfðu reynt að sporna við ásælni konungsvaldsins. Konungur virðist ekki hafa ætlað að breyta stjórnsýslu landsins eða skerða réttarstöðu þess gagnvart krúnunni. En Jóni Arasyni var ljóst, að ýmsar kenningar hins nýja siðar fóru í bág við kristnirétt, sem samþykktur hafði verið á alþingi eins og önnur landslög. Og breyting á kristnirétti hlaut að snerta alla landsmenn, því að kirkja og þjóð varð ekki sundurskilið. Trúarjátning, helgisiðir og ýmis agameðöl hinnar rómversk - kaþólsku kirkju voru löghelguð með kristnirétti, og það var þetta, sem Jón Arason átti öðru fremur við, þegar hann var að vitna í forn réttindi landsins og sankti Ólafs lög. 28)

Jón Arason var ekki baráttumaður þjóðfrelsis í þeim skilningi, sem við leggjum í það hugtak nú á dögum. Þvert á móti vildi hann vera trúr konungi og kvaðst jafnvel í einu bréfi til hans fremur vilja yfirgefa landið en gera upp á milli skipunar konungs og eigin samvisku. 29) Mér virðist það einnig bera vitni um hollustu Jóns við konung, að árið 1548 sendi hann Sigvarð Halldórsson, mann hins gamla siðar og nýkjörinn biskup til Skálholts, til fundar við konung. Það var gömul venja, að konungur staðfesti biskupskjör, og gat Jón naumast sýnt konungi meira traust en að viðhalda þeirri venju, eins og málum var þá háttað. Vígsluför var þetta ekki, eins og sumir hafa getið sér til, því að Jón Arason vissi, að á þeim tíma var hann einn eftir þeirra manna í ríki Danakonungs, sem höfðu postullegt vígsluvald. Sigvarður sneri ekki aftur úr þessari för, en biskupsefni lúterstrúarmanna, Marteinn Einarsson, var vígður til Skálholts. Þessar málalyktir hafa loks sannfært Jón Arason um, að konungi væri ekki treystandi, hann hefði brugðist heilagri skyldu sinni að styrkja og vernda hina kaþólsku kirkju, og með páfabréfið í höndum hefur Jón Arason ákveðið að láta skeika að sköpuðu.

Kirkjan hafði farið með dómsvald í sínum eigin málum og einnig löggjafarvald, en leitaði þó stundum samþykkis þingmanna, ef um var að ræða verulegar breytingar eða meiri háttar mál. Eftir siðaskiptin glataði kirkjan þessari sérstöðu sinni og var sett beint undir vald konungs. En þetta breytti ekki réttarstöðu alþingis, þó að viðmótsþróttur landsmanna gegn konungsvaldinu hljóti að hafa dvínað. Ekki var síður mikils um vert fyrir konung, að hann sló eign sinni á jarðir klaustra og einstaklinga, sem staðið höfðu gegn honum, og lagði hald á ýmsa tekjustofna biskupa, t.a.m. sektargjald fyrir siðferðisbrot (sakeyri). Stærri hluti þjóðartekna rann nú í hirslu konungs, og þjóðin tók að snúa sér til hans með vonir sínar og bænir.

Ef til vill varpar þessi grein einhverju ljósi á það, hvers vegna Jón Arason var ýmist landráðamaður, píslarvottur, dýrlingur eða þjóðhetja, allt eftir því, hver sú kynslóð er eða einstaklingur innan sömu kynslóðar, sem lítur í skuggsjá sögunnar.

1) Morgunblaðið 15. ágúst og 7. nóvember 1950.
2) Mbl. 9. nóv. 1950.
3) Steingrímur J. Þorsteinsson: „Um leikrit Matthíasar Jochumsonar.“ Leikrit Matthíasar Jochumssonar. Rvk. 1961, bls. xli.
4) Sjá t.d. Sögu Íslendinga IV. Rvk. 1944, eink. bls. 159 og Menn og menntir I. Rvk. 1919, bls. 451.
5) Gunnar Gunnarsson: Jón Arason Rvk. 1948, bls. 433.
6) Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm: Jón biskup Arason II. Akureyri 1950, bls. 315.
7) Mbl. 7. nóv. 1950.
8) Sjá formálsorð Jóns Sigurðssonar að Biskupaannálum Jóns Egilssonar í Safni til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju. I. Kbh. 1852, bls. 15.
9) Ný félagsrit 12. ár. Kbh. 1852, bls. 13-14.
10) Guðbrandur Jónsson: Herra Jón Arason. Rvk. 1950, bls. 145.
11) Sumar heimildir geta þess, að Jón hafi fæðst á smábýlinu Grýtu í Eyjafirði, en fræðimenn hafa dregið þetta í efa og lagt fram rök fyrir því, að Jón hafi átt til stöndugra að telja (sbr. Saga Íslendinga IV, bls. 61-62). Er jafnvel talið, að hér sé komið hið alkunna þjóðsagnarminni um kotsoninn, sem kemst til mikilla metorða vegna gæfu sinnar og gervileika (sbr. ritdóm Björns Þorsteinssonar í Þjóðviljanum 4. febr. 1951).
12) Deilur biskupanna voru mjög harðvítugar, eins og sést á því, að Ögmundur Pálsson bannfærði Jón Arason. Þegar Ögmundur biskup var kominn heim í Skálholt að norðan, ritaði hann bréf á latínu, þar sem segir, að hann sendi Karl Pálsson klerk sinn til Þýskalands, Noregs, Danmerkur, Ítalíu og fleiri landa til að komast að því, hvert Jón prestur Arason hafi storkið með auðæfi Hóladómkirkju og stefni hinum bannsetta presti fyrir dóm. (Ísl. fornbr. IX, bls. 162-163).
Einnig ritaði Ögmundur biskup páfanum í Róm bréf og fór fram á það, að hinn heilagi faðir veitti sér lögsögu yfir prestinum Jóni Arasyni, sem hefði gerst brotlegur og flúið land. Páfinn varð við þessum tilmælum með ákveðnum skilyrðum. (Þórarinn Þórarinsson frá Eiðum: „Gamalt biskupsbréf kemur í leitirnar.“ Saga IX (1977), bls. 23-27).
13) Svo mikið þótti Jóni Arasyni til um, að sjálfur páfinn skyldi virða hann svars, að hann stefndi prestum sínum saman í Hóladómkirkju „og bjóst hinum besta biskups skrúða, setti upp mítur og tók bagal í hönd, gekk fyrir háaltari og hóf hendur og augu til himins, lét síðan lesa bréfið fyrir klerkunum öllum, er þar stóðu umhverfis hann sem skrýddir, og er þeim lestri var lokið og klerkarnir höfðu glatt sig með honum yfir þeirri virðingu er honum var veitt, gjörði hann þakkir Guði og Páfanum og hét að láta fyrri lífið en trúnað sinn við Páfann.“ (Jón Espólín: Íslands árbækur IV. deild. Kbh. 1825, bls. 45).
14) Finnur Jónsson: Historia ecclesiastica Islandiæ. Tomus II. Kbh. 1774 (ljóspr. 1970), bls. 644-645.
15) Sjá Biskupa sögur Hins ísl. bókmenntafélags II. Kbh. 1878, bls. 478-484.
16) Sama bls. 485-489 (sbr. 26., 28., 29., 30. og 48. erindi).
17) Sama, bls. 508.
18) Jón Halldórsson: Biskupasögur I. Rvk. 1903, bls. 281-282.
19) Biskupa sögurHins íslenska bókmenntafélags II, bls. 451-452.
20) Sjá t.d.: Jakob Benediktsson: Annálsgreinar Arngríms lærða um Jón biskup Arason, bls. 146 (Sérpr. úr Fólk og fróðleikur 1979). Jón Espólín: Íslands árbækur IV. deild, bls. 69-70.
21) Björn Jónsson á Skarðsá: Annálar 1400-1800 I. Rvk. 1922-1927, bls. 121.
22) Biskupasögur Hins íslenska bókmenntafélags II, bls. 521.
23) Finnur Jónsson: Historica ecclesiastica Islandiæ II, bls. 721-722.
24) Ísl. fornbr. XII, bls. 274-277.
25) Páll Eggert Ólason: Saga Íslendinga IV, bls. 144.
26) Sbr. Herra Jón Arason bls. 214.
27) Þjóðviljinn 4. febr. 1951.
28) Sjá Einar Arnórsson: Réttarstaða Íslands. Rvk. 1913, bls. 275-281. Auk þeirra rita, sem hér hefur verið vitnað til, skal bent á tvö yfirlitsverk: Björn Þorsteinsson: „Jón biskup Arason.“Tímarit Máls og menningar 1.-2. hefti. 1950, bls. 170-203.
Þórhallur Guttormsson: Jón biskup Arason. Rvk. 1968.
29) Ísl. fornbr. X, bls. 537.

Gunnar F. Guðmundsson

No feedback yet