« Íslenzkukennsla fyrir útlendinga og aðgangur þeirra að atvinnu á Íslandi (úr erindi í Útvarpi Sögu 10. 11. 2006)Lýsing Jóns biskups Arasonar »

07.11.06

  16:25:14, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 1678 orð  
Flokkur: Kirkjusaga, íslenzk, Kaþólskir Íslendingar, Jón Arason biskup

Jón Arason biskup og ætt hans

Á 456. ártíð herra Jóns

Óhikað má telja Jón biskup Arason í hópi stórmenna Íslandssögunnar, ekki sízt í kaþólskri kristni, enda var af honum mikil saga, samofin við örlagaríka viðburði í lífi kirkju og þjóðar á 16. öld. Væntanlega verður síðar gert vel við minningu hans herradóms á þessum vefsíðum, auk þess að birta hér sálma hans og kvæði. Í þessari vefgrein verður í örstuttu máli rakin ævi hans og ætt og talinn upp helzti kveðskapur frá hans hendi.

Herra Jón Arason, f. 1484 á Grýtu í Eyjafirði, biskup á Hólum 1524–dd., var höfuðskáld og menningarfrömuður, mikilfengur baráttumaður fyrir kaþólskri trú og kirkju og réttindum lands síns, hálshöggvinn í Skálholti 7. nóvember 1550. Eftirfarandi æviágrip hans er eftir dr. Pál Eggert Ólason (Íslenzkar æviskrár, III, 41):

“Varð prestur á Helgastöðum [í Reykjadal, S-Þing.] 1507, en 1508 er hann orðinn prestur að Hrafnagili, prófastur í Vaðlaþingi (sýslumaður þar einnig um 1518), ráðsmaður að Hólum frá 1514 a.m.k., fekk Odda 1519 að veitingu erkibiskups og hélt til þess, er hann varð biskup, og hafði þar aðstoðarpresta. Varð officialis [1] að Hólum við lát Gottskálks biskups Nikulássonar, kjörinn biskup að Hólum 26. maí 1522, við andstöðu mikla frá Ögmundi biskupi Pálssyni, fór utan 1523, vígðist sumarið 1524 (vígslubréf 7. sept. 1524), kom til landsins 1525 og hafði þá fengið Hegranesþing (með Vaðlaþingi [2]). Hann átti deilur miklar við Teit lögmann Þorleifsson, og stóðu eftirstöðvar þeirra í rauninni út ævi hans. Var ákafur andstæðingur Lútherstrúar, en hélt sér í skefjum, meðan Gizur biskup Einarsson lifði. En eftir að Marteinn Einarsson var biskup orðinn, lagði Jón Skálholtsbiskupsdæmi undir sig, tók Viðeyjarklaustur, náði Marteini biskupi í varðhald, en var handtekinn í Breiðafjarðardölum, hálshöggvinn í Skálholti. Setti fyrstur prentsmiðju í landinu. Var ágætt skáld, bæði á kímikveðskap og andlegan.”

Um ýtarlega frásögn af ævi Jóns biskups ber einkum að vísa til rits dr. Páls Eggerts Ólasonar: Menn og menntir siðaskiptaaldarinnar á Íslandi, I–IV, og kemur hann víða við sögu um mestallt verkið, en I. bindið fjallar allt um Jón biskup. Annað mikið verk er eftir hinn kaþólska Guðbrand Jónsson, prófessor h.c. (1888–1953): Herra Jón Arason, Hlaðbúð, Rvík 1950, 303 bls. – Þá er hér lítil bók eftir Þórhall Guttormsson sagnfræðing (f. 1925): Jón biskup Arason (Ísafoldarprentsmiðja, 1968, 123+2 s., í ritflokknum Menn í öndvegi).

Þrjár greinar má nefna hér, fyrst eftir Þorkel Jóhannesson sagnfræðing (1895-1960): Jón biskup Arason: fjögur hundruð ára minning, í greinasafni hans ágætu: Lýðir og landshagir, II (1966), s. 63–84. Þá er ein afar góð eftir Björn Þorsteinsson sagnfræðing (1918-1986): Jón biskup Arason og siðaskiptin á Norðurlöndum, í Tímariti Máls og menningar, XI/iii (1950), s. 170-203.

Nýleg grein um Jón biskup er eftir Gunnar F. Guðmundsson sagnfræðing (f. 1952): Jón Arason: píslarvottur eða þjóðhetja? í Merki krossins, 1997, 1. hefti: s. 9–27.

Nokkur skáldverk um Jón Arason:

Matthías Jochumsson: Jón Arason, harmsöguleikur (tragedía) í fimm þáttum, Ísafirði 1900 (endurútg. 1961: Leikrit, s. 355–467). – Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm (1845-1918): Jón biskup Arason, er til í a.m.k. tveimur útgáfum. – Gunnar Gunnarsson (1889-1975): Jon Arason: Roman, frumútg. á dönsku, en á þýzku 1932 og 1954, í þýðingu skáldsins Jóhanns Jónssonar). Íslenzk útgáfa: Jón Arason, Almenna bókafélagið, 1980, 376 s.

Loks ber að nefna verðlaunabók trúbróður okkar, Ólafs Gunnarssonar: Öxin og jörðin: söguleg skáldsaga um Jón biskup Arason og syni hans, Rvík 2003. Hefur Ólafur unnið mikið afrek að færa okkur á næstum áþreifanlegan hátt inn í samtíð Jóns og aðstæður; margoft leiðir hann lesandann sjálfan inn í sögusviðið, hvort sem það er á kaupþingi á Gásum við Eyjafjörð, þar sem við næstum finnum leðurlyktina af velbúnum sögupersónunum, í hita bardagans í Skálholti og í Snóksdal eða í stofu konungs í Kaupmannahöfn.

Um kveðskap biskups, mikinn að vöxtum, er fjallað í XV. kapítula í riti dr. Páls Eggerts, Mönnum og menntum, I. bindi, undir kaflaheitinu: ‘Skáldskapur og ritstörf Jóns byskups’, bls. 415–445. Þar í upphafi segir dr. Páll Jón biskup hafa verið “hið helzta skáld, sem uppi er á Íslandi á 16. öld.” Stærstu verk hans, andlegu kvæðin, voru Píslargrátur í 47 erindum, Ljómur í 37 erindum, Davíðsdiktur í 30 erindum, Niðurstigningsvísur í 42 erindum og Krossvísur, einnig í 42 erindum. Fleiri andleg kvæði eru eignuð Jóni biskupi, en veraldleg kveðskapur hans er ekki síður kunnur, einkum lausavísur, sjá um þetta Menn og menntir, I, 426–443. Flest veraldlegu kvæðin eru prentuð í Biskupasögum Bókmenntafélagsins, II, 568–79 og óvissar veraldlegar vísur á sama stað, bls. 589–95; andleg kvæði herra Jóns eru þar á bls. 509–67 og í vísindalegri útgáfu dr. Finns Jónssonar, Jón Arasons religiøse digte, udgivne af Finnur Jónsson, Det kgl. danske Videnskabernes Selskab, Historisk-filologiske Meddelelser, II/2, Kbh. 1918. – Önnur, vísindaleg útgáfa kvæðanna er í Íslenzkum miðaldakvæðum, Islandske Digte fra Senmiddelalderen, útg. af Jóni prófessor Helgasyni, I. Binds 2. hæfte, Kbh. 1936.

Einmitt þessa dagana eru að koma út Ljóðmæli Jóns Arasonar, útg. JPV-útgáfa, en Kári Bjarnason bókmenntafræðingur og Ásgeir Jónsson hagfræðingur önnuðust útgáfuna. Sjá um það verk ágætt viðtal við Ásgeir í Fréttablaðinu í dag, örlagadaginn mikla, 7. nóvember.

Fjölskylduhagir biskups. Fylgikona herra Jóns og móðir barna hans var Helga Sigurðardóttir, Sveinbjarnarsonar, officialis í Múla, Þórðarsonar (Barna-Sveinbjarnar, en frá honum eru ýmsir þekktir menn, m.a. Guðbrandur biskup). “Eigi var Helga auðug, ‘en hún hafði marga ágætis-kosti og atgervi, þá er konu mega einkum prýða’” (dr. Páll Eggert Ólason í Mönnum og menntum, I, 26, vitnar þarna til Biskupasagna Bókmenntafélagsins, II, 429). “Hjúskapur þeirra Helgu og Jóns Arasonar virðist ætíð hafa verið hinn ástúðlegasti. Bjuggu þau saman alla ævi í óslitinni tryggð og áttu saman ekki færri en 9 börn [5]; komust að minnsta kosti 6 þeirra til fullorðins aldurs, 4 synir og 2 dætur. Koma synir hans þrír mjög við sögu landsins, þeir Ari, síra Björn og síra Sigurður. En niðjar þeirra Jóns biskups og Helgu urðu svo kynsælir, að nú mun enginn sá Íslendingur uppi vera, sá er á annað borð verður ættfærður, að ekki sé kominn að einhverju leyti af ætt Jóns biskups Arasonar” (PEÓl. í sama riti, I, 27).

Ætt Jóns biskups Arasonar

1. grein: karlleggur

1. Ari Sigurðsson, bóndi á Grýtu og síðar á Laugalandi í Eyjafirði, en mun hafa andazt þar, meðan Jón sonur hans var enn á ungum aldri. – K.h.: Elín Magnúsdóttir bláhosa, sjá 2:1.

2. Sigurður Jónsson, príor Möðruvallaklausturs í Hörgárdal, kemur fyrst við skjöl 1430 og er þá orðinn kirkjuprestur á Hólum, en príor á Möðruvöllum 1439 og er þar enn 1492.

3. Jón Ólafsson. Í Ísl. æviskrám, IV, 230 er Ólafur sagður líklega sonur Sigurðar lögmanns yngra Guðmundssonar (skv. Steini Dofra), en í sama riti, VI, 551, segir hinn mikli ættfræðingur Einar prófessor Bjarnason um Sigurð ábóta á Möðruvöllum: “Það er mjög hæpið, að Ólafur föðurfaðir hans hafi verið sonur Sigurðar lögmanns Guðmundssonar, og engin rök hafa verið færð fyrir þeirri ættfærslu.”

2. grein
(móðir Jóns biskups Arasonar og ættir hennar)

1. Elín Magnúsdóttir bláhosa, f. nál. 1450. Vann Jón sonur hennar (síðar biskup, en þá enn á ungum aldri) fyrir móður sinni, að manni hennar önduðum, og er svo að sjá, að þá hafi Jón jafnvel orðið að þola neyð stundum (sbr. Menn og menntir siðaskiptaaldarinnar á Íslandi, I, 19–20). – M.h.: Ari Sigurðsson, bóndi á Grýtu og síðar á Laugalandi í Eyjafirði, mun hafa andazt þar fyrir aldur fram, sjá 1:1.

2. Magnús nokkur. – K.h.: Þóra brók, f. nál. 1420, Ísleifsdóttir beltislausa, systir Einars Ísleifssonar ábóta á Munkaþverá, d. 1487. (Mun Jón Arason á unga aldri hafa notið stuðnings Einars ábóta, ömmubróður síns, og hjá ábótum þeim, sem síðar stóðu fyrir klaustrinu, en bærinn Grýta var skammt frá klaustrinu og heyrði undir það. “Það er og sennilegt, að Jón hafi á þessum ferðum sínum að Munkaþverá fengið einhverja nasasjón af bóklegum fræðum,” segir dr. Páll Eggert í Mönnum og menntum, I, 21.) Móðir Þóru var Elín, f. nál. 1390, Oddnýjardóttir, móðir hennar Oddný skyrkerling, f. nál. 1360, Steindórsdóttir, f. nál. 1330, Oddnýjarsonar, en Oddný sú Brandsdóttir Eiríkssonar; var Brandur, f. nál. 1260, e.t.v. bóndi á Draflastöðum í Fnjóskadal (próf. Einar Bjarnason: Íslenzkir ættstuðlar III, 147 og 150–1). Oddný var því systir Magnúsar bónda á Svalbarði, föður Eiríks auðga á Svalbarði og síðar á Möðruvöllum í Eyjafirði, föður Soffíu, móður Lofts ríka Guttormssonar. Eru fleiri stórhöfðingjar skyldir þessu fólki gegnum ætternið frá Brandi Eiríkssyni (loc.cit.). Handritið AM 254 fol., bls. 110, rekur langfeðga Brands þannig: “… Brandssonar Eiríkssonar Einarssonar Guðmundssonar dýra Þorvaldssonar Ketilssonar fljóta Guðmundarsonar Hjaltasonar Guðmundarsonar hins ríka á Möðruvöllum … etc.” (skv. Ísl. ættstuðlum, III, 150–1).

Beinn móðurleggur Jóns biskups, fjórar kynslóðir, og síðan leggur áfram til Guðmundar ríka á Möðruvöllum:
Elín Magnúsd. bláhosa, f.c. 1450, g. Ara Sigurðss. á Grýtu og Laugalandi.
Þóra brók Ísleifsdóttir, f. nál. 1420, gift Magnúsi nokkrum.
Elín Oddnýjardóttir, f. nál. 1390, g. Ísleifi beltislausa.
Oddný skyrkerling Steindórsdóttir, f. nál. 1360.
Steindór Oddnýjarson, f. nál. 1330.
Oddný Brandsdóttir, f. nál. 1300.
Brandur Eiríksson, f. nál. 1260, e.t.v. bóndi á Draflastöðum í Fnjóskadal.
Eiríkur Einarsson.
Einar Guðmundsson.
Guðmundur dýri Þorvaldsson.
Þorvaldur Ketilsson.
Ketill fljóti Guðmundarson.
Guðmundur Hjaltason.
Hjalti Guðmundarson
Guðmundur ríki Eyjólfsson, d. 1025, bóndi á Möðruvöllum í Hörgárdal.
Eyjólfur Valgerðarson, goði og skáld á Jórunnarstöðum í Eyjafirði.
Einar Auðunarson.
Auðun rotinn Þórólfsson, Saurbæ í Eyjafirði.
Þórólfur smjör, kom til landsins með Hrafna-Flóka.
Þorsteinn Grímsson skrofa.
Grímur Kamban, sá er fyrstur norrænna manna byggði Færeyjar.

Athyglisvert er, að þessi langi listi virðist halda sig við Norðurlandið, í nítján kynslóðir, jafnvel einungis Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslur. Þó eru þarna ættliðir margir, sem við höfum enga staðsetningu á. Hafi verið um höfðingjaættir að ræða, eins og frá Guðmundi ríka, geta þeir aftur á móti hafa verið búsettir mun víðar, en ættirnar e.t.v. leitað aftur til óðala sinna. Og víst er, að þótt þessir ættleggir kunni að hafa verið al-eyfirzkir og þingeyskir, hafa ætternisrætur Jóns biskups staðið víðar um landið.

Ættir Guðmundar ríka á Möðruvöllum eru kunnar til margra þekktra manna, Helga magra, Kjarvals Írakonungs, Ketils flatnefs o.fl. Auk þess var hann í frændsemi við merkismenn eins og Guðmund góða Hólabiskup. Þær ættir get ég tekið saman síðar, verði ég um það beðinn. –JVJ.

–––––––––––––––––––––––
NEÐANMÁLSGREINAR:

[1] Ættrakningin og yfirlitið um kveðskap Jóns biskups eru tekin að mestu óbreytt úr riti mínu: Ættir Ólafar Björnsdóttur [1887–1963, dóttur Björns yfirkennara Jenssonar rektors Sigurðssonar], Ættfræðiþjónustan, Rvík 2002, bls. 41–42 og 62.

[2] Officialis: Kirkjulegt embætti, fyrst nefnt hérlendis 1340: umboðsmaður biskups. Officiales (flt.) stóðu næstir biskupi og ábótum að tign og ábyrgð í hverju biskupsdæmi. Officialis in spiritualibus ("o. í andlegum málum") hafði einkum umsjón og eftirlit með kennimönnum og störfum þeirra. Officialis in temporalibus ("í tímanlegum [veraldlegum]efnum") hafði umsjón með fjárhagslegum rekstri biskupsstóls og gat þá allt eins verið leikmaður (sjá nánar Einar Laxness: Íslandssaga, l–ö, Rv. 1977, s. 81–2).

[3] Vaðlaþing er að sjálfsögðu Eyjafjarðarsýsla, en Hegranesþing Skagafjarðarsýsla. Að "fá Hegranesþing" er að fá konungsveitingu fyrir sýsluvöldum þar (sem sýslumaður). Jón var sem sé sýslumaður yfir tveimur sýslum í einu auk biskupsdæmisins.

[5] Dipl. Isl. VIII, nr. 526 (bls. 685–6), en þar kvittar Gottskálk biskup Nikulásson þau Jón og Helgu af þessum barneignum í einu lagi (4. maí 1519). (Þetta er neðanmálsgrein PEÓl. í Mönnum og menntum, I, 27.)

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Athyglisvert söguminni um Jón biskup kemur fram í grein í Mbl. í dag, 19. nóv., eftir Ernu Arngrímsdóttur sagnfræðing. Þar leiðréttir hún fáeinar missagnir í bókinni um Matthías Jochumsson sem nýkomin er út. Eitt atriði þar snertir ætterni (og uppeldiskjör) séra Jens Hjaltalín (síðar prests á Setbergi), en Jens sá ólst upp við kröpp kjör og varð þó að ósekju hlátursefni gamanbrags séra Matthíasar (meðan skáldið enn var ekki orðið, eftir reynslu sína af sorg og þrautum, sá mildi ljúflingur sem við síðar þekkjum). Jens kvað þá ákvæðabrag á móti, og eins og Erna segir: “Látið er að því liggja. að álög vísunnar sem Jens orti, komi fram.” Hafði ég áður heyrt eitthvað í þessa veru. En svo kemur tengingin við Jón Arason:

“Eins og flestir vita eru Hjaltalínar afkomendur Jóns Arasonar Hólabiskups, og alveg fram á okkar daga var það trú manna á Skógarströnd, að illt eitt hefðist af því að áreita þetta fólk.”

Ef þetta lýsir ekki þeirri trú manna, að sérstök vernd hafi fylgt afkomendum Jóns biskups, þá er þetta alltjent, ef rétt er hermt, vitnisburður um, að menn hafi talið að helgi eða guðleg velþókknan hafi hvílt yfir herra Jóni (og e.t.v. fjölskyldu hans).

19.11.06 @ 23:22
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Mér þætti vænt um, ef einhverjir geta staðfest þessar eða aðrar viðlíka sagnir um þá helgi eða djúpu virðingu sem Íslendingar hafa vottað Jóni biskupi gegnum aldirnar.
Netfang mitt er jvjensson@gmail.com

19.11.06 @ 23:53
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software