« Karmelsystur gefa út tvo geisladiska með aðstoð Jónasar SenKöllunarbæn »

17.01.20

  16:29:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 423 orð  
Flokkur: Minningar

Jón Valur Jensson minning

Mig langar að minnast vinar míns Jóns Vals Jenssonar sem lést 5. janúar á 71. aldursári. Útför hans fór fram frá Kristskirkju í Landakoti í gær 16. janúar og í dag 17. janúar 2020 var hann jarðsettur í Gufuneskirkjugarði.

Leiðir okkar lágu saman fyrir rúmum 30 árum í starfi kirkjunnar, við páfakomuna og í ritnefnd kirkjublaðsins. Við héldum vinskap okkar áfram á blogginu á kirkju.net og blog.is og síðar í málefnastarfi Kristilegra stjórnmálasamtaka sem hann stofnaði.

Jón var léttur í lund, það var stutt í brosið og spaugið. Hann var vel lesinn, fróður og hafði gott minni og frásagnargáfu. Það var því tilhlökkunarefni að hitta hann. Hann var fljótur að koma auga á röksemdir og sjónarhorn og hafði afar gott vald á rituðu máli. Textarýni hans var einstök.

Jón hafði mikinn áhuga á málefnum samfélags og kirkju. Hann var lífsverndarsinni og starfaði ötullega að þeim málum. Í þjóðfélagsumræðu liðinna ára sem einkenndist af örri þróun, var gjarnan gengið á hólm við ýmis ríkjandi viðhorf. Hann tók þeim áskorunum og tókst gjarnan á við sjónarmið sem gengu gegn hefðbundnum gildum. Á þessu sviði var hann mikilvirkur og kom víða við. Í skrifum hans endurspeglaðist mikill sannfæring á þeim málstað sem hann varði, sannfæring sem getur aðeins hafa sprottið af því að hann hafði helgað lífið baráttumálum sínum.

Hann lýsti sjálfum sér sem aðgerða- og umbótasinna og nýtti óspart bæði blogg og innhringiþætti til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Sum þeirra mála sem hann tjáði sig um voru eða eru hita- og átakamál. Það eru ekki allir tilbúnir til að opinbera afstöðu í slíkum málum, hvað þá ganga fram fyrir skjöldu á opinberum vettvangi og einkum og sér í lagi ekki ef sú frammistaða brýtur á meginstraumi. En við þetta var hann bæði duglegur og djarfur og hlaut fyrir bæði lof og last. Hann barðist samt málefnalega og drengilega og uppskar virðingu margra andstæðinga.

Hann fékkst við ljóðagerð og gaf út bækurnar Sumarljóð 1991, Hjartablóð 1995 og Melancholic Joy 2011. Ljóð og skrif á erlendum málum er einnig að finna á bloggsíðunni jonvalurjensson.livejournal.com.

Ég var svo lánsamur að vera í vinahópi Jóns og ég veit að ég á eftir að sakna hans. Reykjavíkurferðirnar verða ekki hinar sömu þegar hann er horfinn af sviðinu með glaðvært bros sitt, hlýlegt fas og fróðleik. Nú er langri vöku lokið. Mér er efst í hug þakklæti fyrir afar ánægjuleg kynni. Hvíl í friði vinur og ármaður Íslands. Megi ljósið eilífa lýsa þér. Aðstandendum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Ragnar Geir Brynjólfsson


Þessi minningargrein birtist fyrst í Morgunblaðinu í gær 16. janúar. Hér er lítillega við þá grein aukið.

No feedback yet