« "Ég segi yður: ef þessir þegja, munu steinarnir hrópa"Greinar sem snerta lífsverndarmál »

25.11.08

Jón Arason á aftökustaðnum

Þrátt fyrir meint frjálslyndi sitt í trúarefnum og jafnvel únitarisma* framan af var hinn mikli skáldjöfur Matthías Jochumsson (1835–1920) afar jákvæður gagnvart kaþólskri trú og kirkju, þar með talið trúararfi hennar hér á landi. Öðrum samtímamönnum fremur í Þjóðkirkjunni lúthersku átti hann giftudrjúgt samstarf við kaþólsku kirkjuna, og sér þess umfram allt stað í ljóðakverinu Kaþólskir sálmar, sem útgefið var fyrir 100 árum, í Reykjavík 1908, 63 bls. að stærð. Það var að öllu leyti hans þýðingarverk, þótt hans væri þar ekki getið sem þýðanda; mun hann sjálfur hafa viljað halda því leyndu. Margt af sálmunum í þessu ljóðakveri er enn sungið við raust í kaþólskum kirkjum landsins, m.a. á stórhátíðum.** Meðal sálmanna þar er Hljóða nótt, heilaga nótt, sem við kaþólskir syngjum um jólin í stað Heims um ból, sem er ekki jafn-nákvæm þýðing Sveinbjarnar Egilssonar á sama sálmi. En söguástundun var Matthíasi einnig í blóð borin (sbr. rit hans Smáþættir um byggingu Íslands og vora fornu siðmenningu, Rv. 1913), og þar kom hann eins og Jón Sigurðsson forseti sannarlega auga á það, hve persóna Jóns biskups Arasonar rís yfir flestar aðrar í sögu okkar og sjálfstæðisbaráttu. Leikrit hans Jón Arason, harmsöguleikur í fimm þáttum, kom út hjá Ísafold árið 1900. Leikritið gerist allt árið 1550, á Hólum, Alþingi, í Skálholti, aftur á Hólum, á Sauðafelli og lokaþátturinn í Skálholti. Í leikverkinu eru allnokkur ljóð, en þetta, sem hér fer á eftir, er sjálfstætt ljóð og segir mikla sögu. Jón Arason á aftökustaðnum Allir orð mín heyri, eg vil kveða' og syngja, grípa lands míns gígju, gamla skapið yngja. Hátt í hinzta sinni hljómi málið goða; yfir svik og sorgir slæ ég morgunroða.

Langt og ríkt var lífið, lof sé föður hæða; gefið hann mér hefir hendur fullar gæða; frægð og gull og fljóð með fagurhvíta arma, dætur tvær með tryggð og tignarblíða hvarma. Gefið hann mér hefir hrausta sonu' og fríða, vildi ei hinn aldna einan láta stríða; land var fullt af fjendum, frækinna þurfti seggja, hart mót heljar sinnum höggva varð og leggja. Fyrir trú og frelsi, fósturjörðin dýra, hóf ég leik í landi, lögum vildi stýra; greip hinn gamla mæki, gall þá styrjar hani, „út á flæðar flaustur“ flæmdi' eg alla Dani. — Hverjir hrósa sigri? Hví eru vellir rauðir? Nú eru bræður báðir Björn og Ari dauðir! — Nú mun gjalla grátur góða landsins hvíta; hvasst þeir dönsku hundar hærur mínar slíta! Gefið gaum og þegið, grátið ei né hljóðið. Lítilsigldu lýðir, líf mér eigi bjóðið. Feginn skal nú falla, fylgja mínum sonum; þeir mér fylgdu fyrri, fer það nærri vonum. — Horfi ég á höggstokk: Herra lífs og dauða, dæm nú þér til dýrðar dropana mína rauða. Fylgi mér til moldar mín hin fornu vígi: fylgist þá til foldar falstrú öll og lygi! Einna hrópa' eg hefnda: Herra, láttu spretta upp af okkar blóði allt hið sanna og rétta: trú og frelsið forna, frægð og þrek og tryggðir. Drekkið svo minn dreyra, dýru fósturbyggðir! Helga, Helga! Þórunn! hjartans kveðju dýra! — Nú skal breyskan biskup blóðið endurskíra. Sankti Tómas sælan sé ég hjá mér standa. — Fram! Í föðurhendur fel ég líf og anda. * Únitarismi er sú afstaða sem viðurkennir ekki Þrenningareðli Guðdómsins. ** Meðal þekktra ljóða í Kaþólskum sálmum Matthíasar eru eftirfarandi (blaðsíðutal fylgir): Við skírnarheitið held ég traust (6) Hvar helzt er klukkur kalla (gloria, 12) Ó, þigg, Guð, gáfu þessa (offertorium, 13) Syng: Helgur, helgur, helgur (sanctus, 14) Þér faðir vor á himni hæstum (consecratio, 14) Ó, þú sem til bjóst himins her (21) Helgasta nótt (23) Hljóða nótt! Heilaga nótt! (Stille Nacht, heilige Nacht, 26) Í gröf var heilagt holdið lagt (40) Heill þér, hafsins stjarna (Ave, maris stella, 53) Stóð við krossinn (Stabat mater, 55–58). Sjá einnig þessar greinar hér á vefsetrinu: Jón Arason biskup og ætt hans – og: Doktorsrit um Jón biskup Arason.

No feedback yet

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

multiblog