« Páfi fordæmir vopnagný og ofbeldi„Jólin eru hátíð hinnar endurreistu sköpunar“ »

29.12.07

  08:26:21, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1230 orð  
Flokkur: Fjölmiðlarýni

Jólasjónvarpið - hugsað upphátt

Þó sá sem hér heldur á penna hafi oft gagnrýnt RÚV sjónvarpið fyrir hitt og annað þá verður að segjast að dagskráin á aðfangadagskvöld jóla var ein sú allra besta með tilliti til trúarlegra dagskrárliða sem þessi ritari man eftir. Á eftir hefðbundum upplestri Helga Skúlasonar á 'Nóttin var sú ágæt ein' og söng Sigríðar Ellu kom dagskrárliður með völdum jólalögum úr dagskrá sjónvarpsins frá liðnum árum. Þarna var efni sem greinilega var vel tímabært að endurflytja og þó fyrr hefði verið.

Þar á eftir kom upptaka með söng Mormónakórsins og Sissel Kyrkjebø ásamt hljómsveit á jólatónleikum. Upptakan og öll umgjörð þeirra tónleika sem og listrænn flutningur var með einstökum glæsibrag. Sissel sýndi þarna að hún er sérlega sterkur listamaður og segja má að hún sé á hátindi frægðar sinnar. Tónleikarnir voru liðlega klukkustund og af þeim tíma var hún í nærmynd stóran hluta tímans - að vísu þó með dálitlum frímínútum. Þrátt fyrir þetta var túlkun hennar lýtalaus og stórkostleg án afláts og krafturinn að því er virtist ótakmarkaður. Hún söng þarna nokkra af hinum vinsælustu og þekktustu jólasálmum.

Þáttur upptökumannanna í þessum tónleikum var stór. Guðshús þeirra mormóna er greinilega afarstórt og rúmar mikinn fjölda fólks í sætum. Þar er hátt til lofts og hljómburður virðist vera með eindæmum góður - alla vega skilaði hann sér vel í upptökunni. Ekki þurfti t.d. að sakna breiddar á hljóðsviði eða skorts á hljóðum eins og stundum vill brenna við, t.d. með dýpri nótur. Myndatökumennirnir gættu sín líka á því að sýna alla hljóðfæraleikarana í yfirlitsmyndum en ekki bara suma aftur og aftur í nærmynd eins og komið hefur fyrir.

Mormónakórinn birtist þarna sem sérlega heilsteyptur kór og formfastur. Karlarnir til hægri svartklæddir og konurnar til vinstri rauðklæddar. Þessi formfasta uppröðun var skemmtileg á að líta og gladdi augað. Tónlistarlega séð skiptir þetta eflaust máli líka t.d. með tilliti til hljómburðar, upptöku og möguleika stjórnandans. Á bakvið kórinn gat að líta stórfenglegar orgelpípur sem virtust geta framleitt mikla hljóma þó þær hafi af skiljanlegum ástæðum ekki verið þeyttar af neinu afli við þessar aðstæður en sem baksvið og umgjörð við kórinn voru þær frábærar.

Næst á eftir eða kl. 22 kom svo aftansöngur jóla úr Dómkirkju Þjóðkirkjunnar við Austurvöll í Reykjavík. Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson prédikar, Dómkórinn söng. Athöfnin í heild var látlaus og einföld lúthersk guðsþjónusta. Mynd- og hljóðupptaka var lýtalaus en þó saknaði ég mynda af söfnuðinum en ég man ekki eftir að hann hafi komið í mynd sem er frekar sérkennilegt. Þó getur vel verið að það hafi gerst því ekki hafði ég augun á skjánum allan tímann.

Predikun hr. Karls Sigurbjörnssonar var óaðfinnanleg, bæði djúp og persónuleg. Karl biskup sýndi að hann er óumdeilanlega mikill predikari og kennimaður hins lútherska siðar og verðugur leiðtogi kirkju sinnar. Predikanir eru alltaf kærkomnar þeim sem áhuga hafa á trúnni en líklega má hafa ýmsar skoðanir á því hversu heppilegar þær eru sem sjónvarpsefni sem líklegt er til að halda athygli - sér í lagi þeirra sem yngri eru. Ég er á þeirri skoðun að ef þær þurfi að vera í sjónvapsmessu þá eigi þær helst ekki að vera lengri en 10 mínútur og þær ætti helst ekki að flytja af blöðum, jafnvel ekki blöðum sem litið er á af og til því upplestur af blöðum er líklegur til að eyða spennunni sem fylgir ræðunni og gera hana örugga en jafnframt lausa við átök ræðumannsins við að halda einbeitingunni og velja réttu orðin.

Ég velti því fyrir mér af hverju hið stórkostlega guðshús Hallgrímskirkja með glæsihljóðfæri sínu fær ekki að birtast í þessum mesta athyglispunkti ársins sem jólamessan óneitanlega er. Rýmisins vegna væri hægt að laða meiri fjölda tónlistarmanna þangað og gera þátt tónlistarinnar enn meiri. En þarna togast líklega á viðhorfin að halda í einfaldleikann og látleysið annars vegar og löngunin til að gera mikla kirkjuhátíð hins vegar. Lúthersk og kaþólsk viðhorf má kannski segja.

Um kl. 22.55 kom svo á skjáinn upptaka frá tónleikum Fíladelfíukirkjunnar í Reykjavík. Tónlistarfólkið sem þarna kom fram er greinilega búið að ná góðum og öruggum tökum á list sinni sem er trúarleg - svo góðum tökum að tónleikarnir voru í alla staði mjög glæsilegir. Sem sjónvarpsefni var þessi atburður afar vel heppnaður. Þarna komu fram landskunnir listamenn en einnig minna þekktir listamenn sem greinilega gáfu hinum ekkert eftir og virtust spretta fram fullmótaðir og sterkir. Þetta sýnir að mikil gróska hlýtur að vera í tónlistarmálum Fíladelfíukirkjunnar um þessar mundir. Bæði hljóðfæraleikur og söngur var sérlega áferðarfallegur og flutningurinn einkenndist af öryggi þeirra sem vanir eru að koma fram. Andlegur leiðtogi hvítasunnumanna Vörður Leví Traustason sem þarna talaði og leiddi samkomuna gætti sín á því að vera mátulega stuttorður en var þó svo gagnorður að allt sem segja þurfti kom fram.

Um önnur atriði sem voru á dagskrá RÚV sjónvarpsins þetta kvöld hef ég ekki mikið að segja en langar þó að minnast á að á milli atriða var flutt aftur og aftur upptaka af flutningi enska þjóðlagsins Greensleves og með því var sunginn íslenskur texti sem ég hef ekki heyrt fyrr. Í myndskeiðunum sem voru frábærlega falleg var flytjandinn sem stóð sig sérlega vel ekki kynntur, né heldur höfundur hins nýja texta. Hvítasunnukórinn söng sama lagið við texta eftir Hinrik Bjarnason þetta sama kvöld og því stakk þessi ókynnti flutningur nokkuð í stúf sem og mikil tíðni á flutningi þessa eina lags - en þó það væri í alla staði áferðarfallegt og vel flutt þá má spyrja sig af hverju það var flutt aftur og aftur. Skemmtilegra hefði verið að fá að heyra fleiri lög en þetta eina og mun betra hefði verið ef flytjendur hefðu verið kynntir þó ekki nema með texta eins og tíðkast almennt þegar tónlistarmynskeið eru flutt.

Í heildina fær RÚV ágætiseinkunn fyrir frammistöðu sína á aðfangadagskvöld jóla. Hafi þeir þökk fyrir frábæra dagskrá.

Með bestu kveðjum til ykkar lesendur góðir og þökk fyrir þolinmæðina við lesturinn.

--
Aths. höf. 04.01.08: Greinin er nokkuð stytt frá upphaflegri gerð sinni 29.12.07

No feedback yet