« Heilög Gianna Beretta Molla (1922-1962)María og Eva (Grein eftir Sr. Frans van Hooff (dó 1995)) »

28.12.07

  17:37:00, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 635 orð  
Flokkur: Prédikanir

Jólaprédikun 2007

• „Ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs“ (Lk 2:10-11).

• Kæru bræður og systur í Kristi.

• Mig langar að bjóða ykkur öll velkomin til kirkjunnar á þessari hátíðarstundu.

• Þetta er dagurinn sem við minnumst að Sonur Guðs gerðist maður. Sá sem getinn var sem maður í skauti Maríu frá Nasaret, af Heilögum Anda, er enginn annar en eilífi Sonur Föðurins, önnur persóna hinnar heilögu þrenningar.

Og hann kom til að frelsa okkur. Jesús lagði líf sitt í sölurnar til að frelsa okkur frá synd. En fæðing hans og dauða hans er, ein og sér, ekki nægileg okkur til sáluhjálpar. “Einungis þegar Jesús er myndaður í okkur verður leyndardómur jólanna uppfylltur í okkur.” (Tkk 526.) Guð hefur gefið okkur frjálsan vilja. Það merkir að við stöndum frammi fyrir vali. Við getum tekið á móti Guði eða hafnað honum og Guð virðir ákvörðun okkar - jafnvel um alla eilífð. Þ.e.a.s. að sérhvert jáyrði eða neiyrði hefur áhrif á eilífa velferð okkar!

Mig langar að segja ykkur stutta sögu:
Eitt sinn kom lítil stúlka að dyrum prestbústaðarins og spurði: "Getur þú sagt mér hvar Guð býr?" Presturinn benti á kirkjuna. Stúlkan þakkaði fyrir og fór í kirkjuna. Hún hafði greinilega eitthvað í höndunum. Klukkustund síðar fór presturinn í kirkjuna. Þegar hann kom inn í hana varð hann undrandi að sjá sælgæti og kexkökur á altarinu. Þar lá einnig miði sem á stóð: "Kæri Guð, hér er lítil gjöf handa þér. Ég elska þig mjög mikið, Svala."

Við vitum að elskendum finnst gaman að gefa hvort öðru gjafir. Fyrstu jólanóttina sýndi Guð elsku sína til okkar með því að gefa okkur eitthvað fallegt - þ.e.a.s. hann gaf okkur Jesú. Og um hver jól gefum við líka þeim sem við elskum og þykir vænt um, gjafir. En mig langar að spyrja: hvað ætlum við að gefa Guði núna í dag?

"Að verða eins og barn í samskiptum við Guð er skilyrði fyrir því að komast inn í himnaríki. Því er það nauðsynlegt að auðmýkja sig og gerast lítill gagnvart honum. Og það sem meira er, til að verða “Guðs börn” verðum við að “fæðast að nýju” eða vera “af Guði fædd”. Einungis þegar Kristur er myndaður í okkur verður leyndardómur jólanna uppfylltur í okkur." (Tkk. 526.)

Þessi kærleikur Guðs til okkar krefst viðbragða af okkar hálfu. Við megum ekki gleyma að Guð er kærleikur og það hefur verið sagt að einungis kærleikur getur endurgoldið kærleika. Þess vegna erum við beðin um að “Elska Drottin Guð, af öllu hjarta.”

• Við skulum gefa okkur smá tíma núna að horfa á Jesúbarnið í jötunni. Hvað er það sem þig langar helst að segja við hann í dag?

• Mig langar að enda þessa prédikun með bæn.

“Drottinn, vér höfum fyrir fagnaðarboðskap engilsins orðið þess vísari, að Sonur þinn er maður orðinn. Vér biðjum þig, úthell náð þinni í hjörtu vor, svo að sakir milligöngu hinnar heilögu meyjar og fyrir þjáningar Krists og kross verðum vér leiddir til upprisu dýrðarinnar. Fyrir Krist, drottin vorn. Amen.”

• Kæru bræður og systur í Kristi, ég óska ykkur gleðilegra jóla!

No feedback yet