« Nonna minnzt í KölnGuðsdýrkun í veglegum kirkjuhúsum eða náungaþjónusta? »

01.05.11

  20:30:19, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 256 orð  
Flokkur: Úr lífi og starfi kirkjunnar, Kirkjusaga nýaldar, alþjóðleg, Páfadæmið í Róm

Jóhannes Páll II páfi lýstur blessaður í morgunmessu í dag

See full size image

Hátíðarandi var ríkjandi í blíðskaparveðri í Rómaborg í dag, þegar því var lýst yfir, að pólski páfinn Jóhannes Páll 2., fæddur Karol Józef Wojtyła, væri kominn í tölu blessaðra. Péturstorgið í Vatíkaninu og allar nærliggjandi götur voru yfirfullar af pílagrímum, m.a. frá Póllandi. Meira en milljón manns tók þátt í gleðinni sem þarna ríkti, og heima í hverju kaþólsku landi var gerla fylgzt með atburðunum í sjónvarpi.

Íslenzk trúsystkini þess, sem þetta ritar, fylgdust t.d. með beinni útsendingu þýzks sjónvarps, sænska sjónvarpsins og EWTN-stöðvarinnar bandarísku.

Öllu pólsku fólki á Íslandi er hjartanlega óskað til hamingju af þessu tilefni, sem og öllum trúsystkinum okkar og öðrum Íslendingum sem báru mikinn hlýhug til Jóhannesar Páls páfa eftir heimsókn hans hingað til lands árið 1989. Hún er okkur öllum ógleymanleg, m.a. hin fagra stund í Kristskirkju, þegar pólsku Karmel-nunnurnar auðsýndu honum kærleika sinn og gleði með því skyndilega að varpa fram á hápallinn fyrir framan altarið ótal rósum.

Jóhannes Páll varð þjóð sinni blessun og kirkjunni sá styrkur frá Guði, sem hún þarfnaðist svo átakanlega á ofanverðri 20. öld. Hann var andstæðingur allra alræðisstefna og átti sinn dýrmæta þátt í falli kommúnismans í Evrópu, en á innra sviði kirkjunnar var hann eins og lýsandi viti sem beindi mönnum að bæninni, að Maríu, móður frelsarans, og að því að helgast Jesú sjálfum trúfastlega í andlegu lífi og í köllun til siðferðis. Eins og í frumkirkjunni rækti hann trúlega "uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar" (Post. 2.42) og varð ótalmörgum fyrirmynd og hvatning til kristins lífernis. Af honum stafaði sannarlega ljómi hins kærleiksríka fræðara.

1 athugasemd

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir þennan góða pistil Jón! Ég fylgdist með þessari messu á EWTN. Hún var afar hátíðleg og ekki spillti veðrið sem var eins og best var á kosið. Eftirminnilegt var að sjá mannfjöldann sem fyllti Péturstorg og nálægar götur.

02.05.11 @ 20:39
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution