« Föstuboðskapur Frans páfa 2017Hið alhelga Altarissakramenti »

08.07.13

  11:55:00 pm, by Jon Valur Jensson   , 316 words  
Categories: Sr. Patrick Breen

Jóhannes biskup Gijsen látinn

Úr predikun sr. Patricks Breen frá sunnudeginum 30. júní:

Í dag minnumst við fyrrum Reykjavíkurbiskups, Jóhannesar Gijsen. Hann lést síðastliðinn mánudag, 24. júní, sem var einnig nafndagur hans, þar sem hann bar nafn Jóhannesar skírara. Eftir að hafa gegnt embætti biskups í Roermond-biskupsdæmi í suðurhluta Hollands árin 1972 til 1993, var hann sendur hingað 1995 og var biskup hér til október 2007.

„Af ávöxtum þeirra skulið þér þekkja þá,“ sagði Jesús. Maður gæti spurt: Hvaða ávöxt hefur embættistíð Jóhannesar biskups borið? Án mikillar umhugsunar mætti nefna nokkrar kapellur, t.d. nýja kapellu á Ísafirði sem var blessuð 4. júlí 1999 og nýja kirkju á Akureyri, Péturskirkju, sem var blessuð 3. júní árið 2000. Loks má nefna nýja kapellu á Reyðarfirði sem var vígð 28. júlí 2007 og Dómkirkjan okkar var endurnýjuð árið 1999.

Þegar Jóhannes biskup kom hingað voru kaþólskir hérlendis 2400 að tölu, en árið 2007 voru þeir líklega um 10.000.

Til að mæta þörfum þessa aukna fjölda kaþólskra auðnaðist Jóhannesi biskupi að fá hingað bæði presta og systur. Í hans tíð komu hingað Kapúsínamunkar en einnig systur Móður Teresu, Karmelsystur á Akureyri, Margrétarsystur sem voru hér, Maríusystur sem byrjuðu í Hafnarfirði en eru nú einnig í Stykkishólmi. Einnig komu hingað prestar af reglu hins holdgaða orðs og síðast en ekki síst pólskir prestar sem tilheyra prestareglu Societas Christi.

Við þökkum Guði fyrir verk Jóhannesar biskups. Þegar hann var að ljúka störfum sínum hér tók séra Denis viðtal við hann sem birtist í Kirkjublaðinu í október 2007. Hann var spurður: Hverju ert þú stoltastur yfir þegar þú lítur yfir tólf ára embættistíma þinn sem Reykjavíkurbiskup?

Hann svaraði: „ Ég held að málið snúist ekki um stolt. En hins vegar hefur sú eining, sem ég hef fundið fyrir hér allt frá byrjun, fyllt mig mikilli gleði. Þá á ég við einingu prestanna, einingu systranna, einingu leikmanna. Eining í trúnni og eining í þránni eftir að byggja upp kirkjuna hér á landi. Ég held að hún sé alltaf mjög mikilvæg," sagði biskupinn m.a. í þessu viðtali.

No feedback yet