« Ritningarlesturinn 8. október 2005Ritningarlesturinn 7. október 2006 »

07.10.06

  09:24:41, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1353 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Jesús og María Guðsmóðir (Panhagia Þeotokos: Alhelga Guðsmóðir)

Í gær mátti sjá spurningu lagða fyrir fimm fulltrúa þeirra ungmenna sem erfa skulu landið í Fréttablaðinu, fjórar stúlkur og einni pilt. Spurningin var: Hver er höfundur Faðirvorsins? Spurningin stóð í stúlkunum, það er að segja þær höfðu ekki minnstu hugmynd um það, en pilturinn svaraði: „Ég held að það hafi verið einhver jesúkall!“ Svona langt er afkristnun íslensku þjóðarinnar komin. Þökk sé Alþingi þjóðarinnar sem markvisst hefur dregið úr trúfræðslu í skólum.

En núna skulum við beina athygli okkar að sambandi Jesú og Maríu vegna þess að það svarar tveimur spurningum. Önnur þeirra hljóðar: Er Jesús maður? Hin: Er Jesús Guð? Til forna áttu menn ekkert erfitt með því að trúa því að Jesús væri Guð, jú sjáið þið til, sjálfur keisarinn var guð og því gat hann ekki jafnframt verið maður. Í dag segja hins vegar fjölmargir: „Ég trúi því að Jesús hafið verið góður maður, en Guð! Ég tek nú ekki mark á gömlum gyðingasögum, ég er menntaður nútímamaður á 21. öldinni.

Þegar á annarri öld voru það þrír kirkjufeðranna sem svöruðu fyrri spurningunni. Þetta voru þeir heil. Justin píslarvottur (100-165). heil. Íreneus frá Lyon (130-202) og Tertúllían (155-230). Þið takið eftir því að Tertúllían ber ekki nafnbótina heilagur. Þrátt fyrir að vera frábær guðfræðingur ánetjaðist hann montanismanum á efri árum. Montanisminn hafnaði hinni heilögu arfleifð, stofnanakirkjunni, sakramentunum og biskupsembættinu sem náðargjöf stjórnunarvaldsins. Hann boðaði jafnframt að sá sem á annað borð glataði náð Guðs væri fordæmdur að eilífu. Sumir guðfræðingar hafa þannig nefnt hvítasunnuhreyfinguna neo-montanisma. Þetta er réttmætt hvað áhrærir þá meðlimi kaþólsku kirkjunnar sem hafnað hafa hinni heilögu arfleifð rétt eins og forverar þeirrar og þar á meðal hlutverki Maríu Guðsmóður og jafnframt Maríubæninni.

Það sem gerir ummæli þessara feðra svona athyglisverð er sú staðreynd að heil, Justin var frá Palestínu, heil, Íreneus frá Litluasíu og Tertúllían frá Norðurafríku. Þetta sýnir okkur að afstaða þeirra var ríkjandi innan allrar fornkirkjunnar við Miðjarðarhafið. Á þessum tíma háði kirkjan harðvítuga baráttu við Markíonismann, Docetismann og hin ýmsu afbrigði gnóstikismans. Sameiginlegt þessum stefnum var að játa tvíhyggju heiðinnar heimspeki þar sem líkaminn var fangelsi sálarinnar og þar með óhreinn, afstaða sem lifir góðu lífi enn í dag í dulspekiarfleifðinni.
Kristindómurinn boðar hins vegar að allur maðurinn muni frelsast og líkaminn sé óaðskiljanlegur hluti mannsins sem heildarsköpunar líkama, sálar og anda. Allir gripu þessir kristnu höfundar til líkingarinnar af Evu og Maríu Guðsmóður sem hinni nýju Evu.

Heil. Íreneus frá Lyon setti dæmið þannig upp:

(1) Eva enn mey – María meyjan.
(2) Eiginkona Adams – María, heitbundin Jósef.
(3). Eva var óhlýðin og varð að uppsprettu dauðans fyrir allt mannkynið – María varð að orsök hjálpræðis fyrir allt mannkynið sökum hlýðni sinnar.
(4). Það sem Eva fjötraði með vantrú sinni – það leysti María með trú sinni [1]

Lucien Deiss hefur komist svo að orði að önnur öldin hafi verið vor Maríguðfræðinnar og þessi skilgreining feðranna hefur verið notuð allt fram á daginn í dag. Heil. Efraím nefni Maríu „hlið lífsins“ og Evu „hlið heljar.“ [2] Á okkar eigin tímum vitnar Annað Vatíkanþingið í ummæli heil. Íreneusar og nefnir Maríu orsök hjálpræðisins fyrir allt mannkynið og endurtekur fullyrðingar kirkjufeðranna að hún hafi afmáð sekt Evu og sé uppspretta lífsins [3] Í skjölum Vatíkansþingsins hefur því ekkert breyst: María er enn ambátt Drottins. Annað Vatíkanþingið leggur áherslu á að í „hlýðni við hann [Jesús] og ásamt honum hafi hún þjónað leyndardómi hjálpræðisins sökum náðar almáttugs Guðs. [4].

Þetta felur þó ekki í sér annað en að hún kaus af fúsum og frjálsum vilja að verða að samverkamanni Guðs í hjálpræðisverkinu.

Ljóst er að engin Maríuguðfræði er hugsanleg án Krists. Kjarni Maríuguðfræðinnar er trúarsetningin um Þeotokos (Guðsmóðurina) sem samþykkt var á kirkjuþinginu í Efesus árið 431. Þessi rökrétta niðurstaða sem beint framhald af Maríuguðfræði annarrar aldarinnar er þó ekki fullkomin án Holdtekju Guðs. [5] Þannig er ekki unnt að fjalla um kristna guðfræði án þess að skírskota jafnhliða til Guðsmóðurinnar. Ég ráðlegg því þeim sem segja að þeir grundvalli trú sína einungis á Ritningunni en ekki á hinni heilögu arfleifð að lesa fyrsta kaflann í Lúkasarguðspjalli vel og best af öllu með því að biðja um upplýsingu Heilags Anda. Þannig tel ég að spurningum hafi verið svarað sem varpað var fram í upphafi þessarar umfjöllunar. Jesús er maður getin í skauti Meyjarinnar en jafnframt Guð eða með orðum Jóhannesar Páls páfa II í hugleiðingunni með Ritningarlestri dagsins:

Í hinni háleitu játningu á Guði sem Föður opinberar Jesús frá Nasaret sjálfan sig, hið guðdómlega „ÉG“ sitt vegna þess að hann er Sonurinn sem er „sameðlis“ Föðurnum og því veit „enginn, hver Sonurinn er, nema Faðirinn“ eða hver Faðirinn er nema Sonurinn, Sonurinn sem varð „maður sökum okkar og endurlausnar okkar“ (Túarjátningin) í krafti Heilags Anda og var fæddur að Mey, en nafn hennar er María.

Hvaða leyndardómur er það sem erkiengillinn Gabríel boðar meynni Miriam: „Heilagur Andi mun koma yfir þig og kraftur hins Hæsta (Föðurins) mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, Sonur Guðs“ (Lk 1. 35, 36). Þannig verður hún að FYRSTU SÁTTMÁLSÖRK HINS NÝJA SÁTTMÁLA eða með orðum heilags Páls: „Í henni var gullkerið með manna í (Sonurinn), stafur Arons sem laufgaðist hafði, (Heilagur Andi) og sáttmálsspjöldin (Faðirinn)“ (Heb 9. 4).

Þeir sem segja að Jesú hafi einungis verið „góður maður“ hafa þannig misst sjónar af Móðurinni. Þetta er það sem kirkjufeðurnir lögðu sífellt áherslu á: „Sá sem missir sjónar af Móðurinni glata fyrr en síðar sjónar af Syni hennar.“ Öllum er okkur ætlað að verða að lifandi sáttmálsörkum í lífi náðarinnar og það verðum við einungis með því að tileinka okkur AUÐMÝKT GUÐSMÓÐURINNAR. Þannig fer hinn eilífi getnaður Orðsins fram í okkur sjálfum og við verðum að mæðrum Jesú. Og sjálfur sagði hann:

„Hver er móðir mín, og hverjir eru bræður mínir?“ Og hann rétti út höndina yfir lærisveina sína og sagði: „Hér er móðir mín og bræður mínir. Hver sem gjörir vilja Föður míns, sem er á himnum, sá er bróðir minn, systir og móðir“ (Mt 12. 49, 50).

Þá sagði María: „Sjá, ég er ambátt Drottins. VERÐI MÉR SAMKVÆMT ORÐUM ÞÍNUM“ (Lk 1. 38). Amen (verði mér samkvæmt vilja þínum).

[1]. Lucien Deiss, C.S.Sp., Mary, Daughter of Sion, trans. Barbara T. Blair (Collegeville,
Minn.: The Liturgical Press, 1972), p. 204.
[2]. Thomas Livius, M.A., The Blessed Virgin in the Fathers of the First Six Centuries,
(London: Burns & Oates, 1893),bls. 48.
[3]. Vatican II, p. 88.
[4]. Ibid.
[5]. Edward Rochie Hardy, "General Introduction: Faith in Christ, Theology, Creeds" in
Christology of the Later Fathers, (Philadelphia: The Westminster Press, 1954), bls. 31.

3 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þú hefur veitt því sama eftirtekt og ég, nafni. Ég var einmitt tilknúinn til að skrifa stuttan pistil um þetta í nótt á Mbl.-bloggsíðu mína, kallaði hann: Enginn veit neitt – svo blöskraði mér. En þú kennir Alþingi um þetta. En er nokkur réttlátur í þessu efni? Er ekki prestastéttin ábyrg líka, sem og við foreldrar, í raun allir kristnir menn sem veigra sér við að bera vitni um trú sína, bera höfuðið hátt sem kristnir menn og “vera ávallt reiðubúnir til varnar fyrir hverjum manni, sem krefst af [o]kkur reikningsskapar fyrir þá trú (eða von) sem í [okkur] býr, en þó með hógværð og ótta” (I.Pét.3.15).

Já, þakka þér þessa góðu grein þína, m.a. það sem þú segir um Tertullian og villurnar sem kirkjan gat og getur ekki samþykkt, enda í andstöðu við Krist og játningu trúar okkar.

07.10.06 @ 11:13
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Segir ekki að syndir foreldranna komi niður á börnunum? Ég nefndi Alþingi, já, sem samnefnara þessa alls. „Því að eigi eiga börn að safna fyrir foreldrana, heldur foreldrarnir fyrir börnunum“ (2Kor 12. 14).

07.10.06 @ 12:25
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég bið líka þá, sem eru að hugleiða trúna og hjálpræðið, að líta á umræðuna um fyrrnefnda grein mína, eins og og hún hefur nú óvænt þróazt út í síðustu klukkutímana: sjá Enginn veit neitt.

07.10.06 @ 17:47