« Maður skyldi frá manni getastAuknar fóstureyðingar á börnum með Down einkenni »

10.03.06

  17:47:41, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1132 orð  
Flokkur: Fóstureyðingar og vernd

Jesús og börnin

Allflest okkar þekkja afstöðu Jesú til barnanna. Þeir sem gera það ekki geta lesið um hana í Lúkasarguðspjallinu 18. 15-17. Fólkið kom með börnin til Jesú svo að hann gæti snert þau. Lærisveinarnir atyrtu foreldra barnanna, Jesú hefði ýmislegt betra við tímann að gera en að sinna krökkum! Þetta væri hreinasta tímasóun. En Jesús ávítaði lærisveinana og tók fagnandi á móti börnunum: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki“ (Lk 18. 17).

Gríska orðið sem Lúkas grípur til er það sama og í frásögninni af barninu í lífi Elísabetar (Lk 1. 41, 44). Þetta er orðið vréfos. Augljóslega gerir Lúkas engan greinarmun á börnunum og hann var jú reyndar læknir. Vissulega eigum við öll að temja okkur sömu afstöðu og Jesús til barnanna, allt frá getnaði þeirra.

Nú koma öll „efin“ og en-in,“ frá talsmönnum fóstureyðinga. Þeir segja að barn (vréfos) í móðurlífi sé ekki barn og því megi deyða það. Lítum á staðreyndir málsins. Fyrir getnað er ekki um neitt mannslíf að ræða. En á andartaki getnaðarins verður nýtt mannslíf til. Það hefur 46 litninga sem eru bæði aðgreindir frá móðurinni og föðurnum. Hér á ég við okfrumuna. [1] Líffræðilega séð er barnið ekki hluti líkama móðurinnar. Að liðnum 21 degi tekur hjartað að slá. Eftir 45 daga er unnt að mæla heilabylgjurnar. Í níundu og tíundu viku taka eitlarnir að starfa. Á tólftu viku má sjá neglurnar og barnið sýgur fingur sína. Það skynjar sársauka sem fullvaxta maður og hefur jafnvel sín eigin fingraför. Það eina sem þessi einstaklingur þarfnast er tími, næring, umhyggja og vernd móðurinnar.

Þegar í Gamla sáttmálanum má sjá hvað Guð ber mikla umhyggju fyrir barni í móðurlífi. Barnið er jafn mikilvægt og barn sem hefur verið fætt, já fullorðinn maður!. Þetta sjáum við í Annarri Mósebók:

Ef menn fljúgast á og stjaka við þungaðri konu, svo að henni leysist höfn, en verður ekki annað mein af, þá haldi hann bótum uppi, slíkum sem bóndi konunnar kveður á hann, og greiði eftir mati gjörðarmanna. En ef skaði hlýst af, þá skalt þú láta líf fyrir líf (2 M 21. 22, 23).

Skaðinn er að sjálfsögðu fósturlát og af þessum ástæðum ólu Gyðingar upp öll sín börn, ólíkt heiðnu þjóunum umhverfis þá, og fyrir þetta voru þeir hafðir að háði og spotti. Í augum Guðs er óborið barn jafngildi fulltíða einstaklings. Jeremía og Páll postuli játuðu báðir að Guð hefði myndað þá í móðurlífi (Jer 1. 5; Gal 1. 15) og Jesaja víkur einnig að þessu hvað áhrærir Messías (Jes 49. 1-5).

Jóhannes skírari þekkti Jesú þegar í móðurlífi (Lk 1. 35-36 og 39-44). Elísabet var gengin sex mánuði þegar Heilagur Andi gat Jesú í lífi Maríu. María fór að heimsækja frændkonu sína Elísabetu áður en Jóhannes fæddist. Kirkjufeðurnir fornu sögðu að í þessari fyrstu ferð sinni sem var rósum skrýdd boðaði hún Jesú heiminum í fyrsta skiptið, hafi bókstaflega verið lifandi guðslíkamahús. Elísabet hefur þannig verið nær fullgengin, en María á fyrstu þremur mánuðum meðgöngunnar. En Jóhannes þekkti Jesú og tók kipp í móðurlífi.

Ef til vill er þetta einhver áþreifanlegasti boðskapurinn í öllum Ritningunum um að maðurinn sé skapaður í mynd Guðs (1 M 1. 24). Við megum ekki tortíma slíku lífi af hagkvæmisástæðum. 95% allra fóstureyðinga eru af hagkvæmisástæðum. Í íslensku lögunum um fóstureyðingar má lesa þetta:

9. gr. Fóstureyðing er heimil:
   1. Félagslegar ástæður: Þegar ætla má, að þungun og tilkoma barns verði konunni og hennar nánustu of erfið vegna óviðráðanlegra félagslegra ástæðna. Við slíkar aðstæður skal tekið tillit til eftirfarandi:
   a. Hafi konan alið mörg börn með stuttu millibili og skammt er liðið frá síðasta barnsburði.
   b. Eigi konan við að búa bágar heimilisástæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu.
   c. Þegar konan getur ekki vegna æsku og þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt.
   d. Annarra ástæðna, séu þær fyllilega sambærilegar við ofangreindar aðstæður.

Biblían bannar okkur að úthella saklausu blóði og í augum Guðs er óborið barn maður eða kona eins og ég og þú. Þegar þessi börn eru deydd er það að brjóta gegn boðum Jesú Krists.

Ung stúlka sem verður vanfær og piltinum skortir ábyrgðartilfinningu til að gerast foreldrar. Fæðing barnsins þýðir vandræði í peningamálunum, eða jafnvel að þau verða að hætta námi. Fóstureyðing af hagkvæmisástæðum er auðveld leið til að hlaupast á brott frá ábyrgð sinni. Sumir halda því fram að þetta sé þeirra einkamál. Þetta er rökleysa vegna þess að skattborgarar viðkomandi lands verða að borga kostnaðinn. Því er þetta samfélagslegt vandamál, en ekki einkamál hvers og eins, þrátt fyrir alla frjálshyggjuna og félagsfræðingaguðfræðina.

HINIR SVARA ÞESSU SVO AÐ GUÐ SÉ EKKI TIL! En samkvæmt opinberun kristindómsins setur Guð okkur umferðarreglur. Og rétt eins og gildir í jarðneskri umferð er þar um græn ljós og rauð að ræða. Sumir kjósa að aka yfir á rauðu ljósi, en í hinu Himneska umferðarráði eru slik brot skráð í Bók lífsins. Allir verða að standa skil á þeim brotum sem þar eru skráð samkvæmt orðum sjálfs Drottins. Það er því trúin sem dregur línuna milli lífs og dauða að eilífu! Kristið fólk leggur ferilsskrá sína í hendur miskunnsams Drottins sem kveður upp hinn hinsta dóm, hvað sem svo ofurfrjálslyndisguðfræðin boðar í þessum efnum!

[1]. Sumir vilja miða getnað við það þegar eggið festist í slímuð legsins sem gerist um 10 dögum síðar. Getnaðarvarnarpillur koma einmitt í veg fyrir að eggið nái að festast við slímhúðina.

[2]. TENGILL Sá vísindavef: Hvernig verðum við til?

No feedback yet