« Að taka afstöðuEfasemdir og vantrú hafa sína þýðingu fyrir trúaðan mann »

20.04.08

  18:20:33, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 516 orð  
Flokkur: Kraftaverk gerast

Jesús, læknaðu mig ef þú vilt!

Systir Briege McKenna segir frá eftirfarandi atviki í bók hennar, Kraftaverk gerast:

"……… Kona kom til staðar þar sem faðir Kevin og ég vorum að prédika. Hún kom til mín frammi á gangi í húsinu og bað mig um að biðja með sér. Hún var örvæntingafull vegna þess að hún þjáðist af magakrabbameini. Hún var með æxli sem orsakaði mikla bólgu. Læknarnir höfðu sagt henni að það væri til einskis að skera hana upp vegna þess að ………

………krabbameinið hafði dreifst of mikið.

Ég vissi að halda átti messu þetta síðdegi, svo ég sagði henni að ég myndi biðja með henni, en ég sagði henni einnig að fara til messu og biðja Jesú að lækna sig.

Hennar aðaláhyggjuefni var óttinn við dauðann. Hún sagði, "Systir, ég er svo hrædd við að deyja. Bara að Guð tæki burt þennan hræðilega ótta sem í mér býr!"

Ég sagði við hana, "Farðu og hittu Jesú í altarissakramentinu. Þar sem ég er ekki Guð get ég ekki sagt neinum að hann verði læknaður eins og hann sjálfur vill, en Jesús mun gefa þér styrk til að mæta hverju því sem að höndum ber í lífi þínu. Ef hann ætlar að fara með þig um dauðans dyr, þá mun hann gefa þér þá náð að fara í gegn um þær dyr laus við þennan hræðilega ótta. Og ef þú átt að lifa, þá mun hann gefa þér þá náð að lifa."

Án þess að ég vissi hafði hún líka farið til föður Kevins og hann hafði sagt henni það sama.

Þetta var snemma laugardags. Um kvöldið þegar við vorum á fundi, kom konan hlaupandi milli sætaraðanna í salnum, vafði mig örmum og sagði, "Systir, það gerðist! Það gerðist!"

Ég velti fyrir mér hver þessi kona væri og hvað hefði gerst.

Ég spurði hana, "Hvað gerðist?"

Hún sagði, "Líttu á mig. Ég kom til þín í morgun. Ég fór til messu eins og þú sagðir. Þegar ég var að ganga til altaris, sagði ég við sjálfa mig ,Eftir nokkrar mínútur er ég að fara að hitta Jesú. Ég ætla að taka hann í hendur mínar og biðja hann um að hjálpa mér.' "

Þar sem hún var kaþólsk og fór oft til altaris, horfði hún á hið heilaga altarissakramenti og sagði, "Ég veit að þú ert raunverulega hérna. Í dag þegar þú kemur inn í mig, taktu þá burt ótta minn. Læknaðu mig ef þú vilt eða gerðu eitthvað annað fyrir mig."

Hún sagði, "Ég hafði ekki fyrr sett altarissakramentið á tungu mína og gleypt það, en ég fann eitthvað brenna háls minn allt niður í maga. Ég leit niður á magann og vöxturinn var horfinn."

Þessi kona var læknuð.………"

http://www.sisterbriege.com/

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Heil. Nikolás Kabasílas (um 1320-1363), grískur djúphyggjumaður og guðfræðingur, komst svo að orði um þennan leyndardóm trúarinnar í „Líf í Kristi,“ IV. 6-8):

Fyrirheitið sem samtvinnað er borði evkaristíunnar gerir okkur kleift að lifa í Kristi og Kristi í okkur því að skrifað stendur: „Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, er í mér og ég í honum“ (Jh 6. 56). Ef Kristur lifir í okkur, hvers annars þörfnumst við þá? Hvað getur okkur þá skort? Kristur dvelur í okkur og hvað meira viljum við? Hann er bæði hostía okkar og bústaður. Hversu sæl erum við ekki að vera sá staður þar sem hann býr! Hvílík gleði að við erum sjálf athvarf slíkrar hostíu! Hvað getur þeim skort sem hann meðhöndlar með þessum hætti? Hvað eiga þeir sem eru uppljómaðir í slíku ljósi sameiginlegt með guðleysinu? Hvaða illska getur staðist slíka gæsku? Það er ekkert annað sem megnar að dvelja í okkur eða getur verið okkur mótsnúið þegar Kristur sameinast okkur með þessum hætti. Hann umlykur okkur og snertir okkar dýpsta sjálf. Hann er vernd okkar, skjól og skjöldur til beggja handa. Hann er bæði bústaður okkar og hostían sem fyllir bústað hans.

Við meðtökum ekki hluta hans, heldur hann sjálfan, ekki einungis einn sólargeisla, heldur sólina . . . „En sá er samlagar sig Drottni er einn andi ásamt honum“ (1Kor 6. 17) . . . Sál okkar sameinast hans sál, líkami okkar hans líkama, blóð okkar hans blóði . . . Eða eins og heilagur Páll segir: „Til þess að hið dauðlega uppsvelgist af lífinu“ (2Kor 5. 4) og: „Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér“ (Gl 2. 20).

21.04.08 @ 07:17