« „Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu“ (Mk 12. 28-34) | Þorsti hins Alhelga Hjarta Jesú eftir mannssálunum – úr Andlegri erfðaskrá blessaðrar Teresu frá Kalkútta (1910-1997) » |
Mig langar að víkja enn frekar að Kristsrósakransi hins Alhelga Hjarta Jesú jafn blessunarrík og áhrif hans eru á mannssálina. Ég greindi örlítið frá honum hér að framan (Tengill) en ætla nú að greina frá því hvernig ég bið hann sjálfur. Á meðfylgjandi skýringarmynd má sjá þetta enn frekar.
(a) Dýrðarbænin (Við signum okkur fimm sinnum til að minnast hinna fimm heilögu sára).
(b) Faðirvorið
(c) Á perlunum þremur:
Alhelga Hjarta Jesú, líknarríkt náðardjúp loga lifandi elsku. Miskunna þú mér syndugum manni svo að mitt bersynduga hjarta megni að samlíkjast þér í náðinni í logum þinnar brennandi elsku. Amen
(d) Hér biðjum við upphafserindi bróður Eysteins í Lilju:
Almáttugur Guð allra stétta,
yfirbjóðandi engla og þjóða.
Ei þurfandi stað né stundar,
stað haldandi í kyrrleiks valdi.
Senn verandi uppi og niðri,
úti og inni og þar í miðju,
þér sé lof um aldur og ævi,
eining sönn í Þrennum greinum.
(e) Við hjartað biðjum við eitt erindanna úr Stallinum Christí eftir Einar Sigurðsson frá Heydölum. Við segjum: Drottinn minn og Guð minn
„Skapaðu hjarta hreint í mér,
til híbýlis sem sómir þér,
syndgan allri síðan ver,
svo ég þér gáfur (dyggðir) færi.“
Við allar deildirnar 5 er endurtekið tíu sinnum á litlu perlunum:
Alhelga Hjarta Jesú, miskunna þú mér syndugum manni.
Á stóru perlunum (1-5) er síðan beðið:
Alhelga Hjarta Jesú, líknarríkt náðardjúp loga lifandi elsku. Miskunna þú mér syndugum manni svo að mitt bersynduga hjarta megni að samlíkjast þér í náðinni í logum þinnar brennandi elsku. Amen.
Blíða og flekklausa hjarta Maríu. Umvef okkur öll börnin þín í hjúpi verndar þinnar með sama hætti og Juan Diego á Tepeyachæðinni í Mexíkó forðum. [1]
Heilagur Jósef og ástvinur hins Alhelga Hjarta Jesú og hins Flekklausa hjarta Maríu. Bið þú fyrir mér syndugum manni svo að ég öðlist náð til að sjá hið Óskapaða ljós í hreinleika hjartans í samhljóman við orð Drottins okkar: „Sælir eru hjartahreinir, því það þeir munu Guð sjá“ (Mt 5. 8).
Þannig er haldið áfram allar deildirnar. Það er síðan Heilagur Andi sem blæs okkur í brjóst hvort við biðjum fyrir okkur sjálfum eða meðbræðrum okkar hverju sinni.
Ef fólk hefur af einhverjum ástæðum ekki rósakrans við hendina eða biður að næturlagi í rúminu má nota fingur mannshandarinnar sem bænaband. Þá skírskota fyrstu 5 fingurnir til liða (a-e). Allir 10 fingurnir skírskota til hverrar deildar rósakransins. [2]
[1]. Sjá má frásögn af Tepeyachæðinni í Opinberanir Maríu Guðsmóður sem njóta kirkjulegrar viðurkenningar í skráarsafni mínu.
[2]. Finna má margvíslegar frekari upplýsingar um tilbeiðslu hins Alhelga Hjarta Jesú í skráarsafni mínu á kirkju.net