« „Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu“ (Mk 12. 28-34)Þorsti hins Alhelga Hjarta Jesú eftir mannssálunum – úr Andlegri erfðaskrá blessaðrar Teresu frá Kalkútta (1910-1997) »

25.02.08

  16:26:48, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 495 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

Ítarlegri umfjöllun um Kristsrósakrans hins Alhelga Hjarta Jesú

SJÁ SKÝRINGARMYNDIR.

Mig langar að víkja enn frekar að Kristsrósakransi hins Alhelga Hjarta Jesú jafn blessunarrík og áhrif hans eru á mannssálina. Ég greindi örlítið frá honum hér að framan (Tengill) en ætla nú að greina frá því hvernig ég bið hann sjálfur. Á meðfylgjandi skýringarmynd má sjá þetta enn frekar.

(a) Dýrðarbænin (Við signum okkur fimm sinnum til að minnast hinna fimm heilögu sára).

(b) Faðirvorið

(c) Á perlunum þremur:

Alhelga Hjarta Jesú, líknarríkt náðardjúp loga lifandi elsku. Miskunna þú mér syndugum manni svo að mitt bersynduga hjarta megni að samlíkjast þér í náðinni í logum þinnar brennandi elsku. Amen

(d) Hér biðjum við upphafserindi bróður Eysteins í Lilju:

Almáttugur Guð allra stétta,
yfirbjóðandi engla og þjóða.
Ei þurfandi stað né stundar,
stað haldandi í kyrrleiks valdi.
Senn verandi uppi og niðri,
úti og inni og þar í miðju,
þér sé lof um aldur og ævi,
eining sönn í Þrennum greinum.

(e) Við hjartað biðjum við eitt erindanna úr Stallinum Christí eftir Einar Sigurðsson frá Heydölum. Við segjum: Drottinn minn og Guð minn

„Skapaðu hjarta hreint í mér,
til híbýlis sem sómir þér,
syndgan allri síðan ver,
svo ég þér gáfur (dyggðir) færi.“

Við allar deildirnar 5 er endurtekið tíu sinnum á litlu perlunum:

Alhelga Hjarta Jesú, miskunna þú mér syndugum manni.

Á stóru perlunum (1-5) er síðan beðið:

Alhelga Hjarta Jesú, líknarríkt náðardjúp loga lifandi elsku. Miskunna þú mér syndugum manni svo að mitt bersynduga hjarta megni að samlíkjast þér í náðinni í logum þinnar brennandi elsku. Amen.

Blíða og flekklausa hjarta Maríu. Umvef okkur öll börnin þín í hjúpi verndar þinnar með sama hætti og Juan Diego á Tepeyachæðinni í Mexíkó forðum. [1]

Heilagur Jósef og ástvinur hins Alhelga Hjarta Jesú og hins Flekklausa hjarta Maríu. Bið þú fyrir mér syndugum manni svo að ég öðlist náð til að sjá hið Óskapaða ljós í hreinleika hjartans í samhljóman við orð Drottins okkar: „Sælir eru hjartahreinir, því það þeir munu Guð sjá“ (Mt 5. 8).

Þannig er haldið áfram allar deildirnar. Það er síðan Heilagur Andi sem blæs okkur í brjóst hvort við biðjum fyrir okkur sjálfum eða meðbræðrum okkar hverju sinni.

Ef fólk hefur af einhverjum ástæðum ekki rósakrans við hendina eða biður að næturlagi í rúminu má nota fingur mannshandarinnar sem bænaband. Þá skírskota fyrstu 5 fingurnir til liða (a-e). Allir 10 fingurnir skírskota til hverrar deildar rósakransins. [2]

[1]. Sjá má frásögn af Tepeyachæðinni í Opinberanir Maríu Guðsmóður sem njóta kirkjulegrar viðurkenningar í skráarsafni mínu.
[2]. Finna má margvíslegar frekari upplýsingar um tilbeiðslu hins Alhelga Hjarta Jesú í skráarsafni mínu á kirkju.net

No feedback yet