« Vitnisburður úr lífsins náðarljóðiJón Arason biskup og ætt hans »

12.11.06

Íslenzkukennsla fyrir útlendinga og aðgangur þeirra að atvinnu á Íslandi (úr erindi í Útvarpi Sögu 10. 11. 2006)

Ríkisstjórnin tilkynnti í hádeginu 10. nóv., að hún hyggist leggja 100 milljónir króna í íslenzkukennslu útlendinga og nýbúa á næsta ári. Þetta er þó allt of lítið.[1] Ég hafði áður lagt til á annarri vefsíðu, að ríkisframlög til þessara mála yrðu tuttugufölduð. En hver eru framlög ríkisins til íslenzkukennslu útlendinga á þessu ári? Hugsið fyrst út í þetta: Hve miklu eyðum við í menntamál? Sumir sjá jafnvel ofsjónum yfir því, að við leggjum peninga í að kenna útlendingum íslenzku! Hvað ætli það séu margir tugir milljarða, sem íslenzka skólakerfið fær í sinn hlut? En á þessu ári eyðir ríkið einungis 18,8 milljónum í það að kenna útlendingum íslenzku! [2]

Verkalýðsfélögin hafa verið látin bera þessar byrðar að miklu leyti – og fólkið sjálft, sem fer í þetta nám. Það er alveg rétt, sem var sagt í fréttum [3], að það þarf raunverulega að skylda útlendinga til að læra íslenzku, þá sem ætla sér að vera hér eitthvað til frambúðar. Þetta á einfaldlega að vera eins og t.d. í Bandaríkjunum og öðrum löndum, þar sem menn t.d. vilja stefna að því að verða ríkisborgarar : þá þurfa þeir að kynna sér ýmislegt um landið (m.a.s. sjálfa stjórnarskrána þarna í Bandaríkjunum), kynna sér lýðréttindi, sem hér gilda, og aðrar reglur og eins að tileinka sér tungumálið. Það er bara sjálfsagt mál. Mér finnst raunar 100 milljónir allt of lítið í þennan málaflokk, íslenzkukennslu, því að um er að ræða geypilegan fjölda manna sem á henni þurfa að halda.

Margir eru að átta sig á því, að nú eru 15.000 erlendir ríkisborgarar á íslenzkum vinnumarkaði. Erlendir ríkisborgarar eru þó miklu fleiri en svo, þar á meðal börn þessa fólks, sem eru að reyna að aðlaga sig íslenzka skólakerfinu, sem er ekki með neina sérstaka íslenzkukennslu fyrir þau börn.

Íslendingar eru með hærra hlutfall erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði en nokkur önnur þjóð í Evrópu, eins og Jón Magnússon benti á í ágætum Kastljósþætti í gær [fimmtudagskvöld]. Hér er þetta 8,4% vinnuaflsins á Íslandi, þessi 15.000 manns. Í fyrra voru þeir 9.000 (5,5%), þannig að menn sjá, hve gífurlegur vöxtur er í þessum málum. T.d. í fyrra, þegar við vorum með 5,5%, voru Norðmenn með 4,4%, Danir með 3,4%. En síðan jókst þetta upp í 8,4% hjá okkur á þessu ári. [4]

Ég er ekkert á móti útlendingum, ég þekki fullt af útlendingum og kann að meta þá hér, Pólverja sem aðra og líka fólk frá Suðaustur-Asíu. Ég lít ekki á nokkurn hátt niður á þetta fólk og ekki heldur niður á múslima og vil taka það fram, að ef ég ætti að vera einhver rasisti, kristinn maðurinn, þá væri það nú eitthvað einkennileg hugarsmíð í mínu höfði, að líta niður á Araba, til dæmis. Arabar eru bræðraþjóð Gyðinga, athugið það, þeir eru komnir af sama kyni. [5] Og var ekki Jesús Kristur Gyðingur? Að sjálfsögðu. Þar að auki hef ég algera andstyggð á allri kynþáttahyggju og aðskilnaðarstefnu sömuleiðis, ekkert síður en Guðjón Arnar Kristjánsson, sem sjálfur er nú kvæntur pólskri konu, til dæmis. Og ég veit ekki til þess, að Jón Magnússon hafi t.d. verið að boða einhvern rasisma. Það var einhver að minna á það í morgun hér í útvarpinu, að hann væri meðlimur í félaginu Ísland–Palestína. Ég er það nú ekki. En ég, eins og hann, náttúrlega vandamál sem blasa við í ýmsum löndum Evrópu. Í Frakklandi eru múslimir orðnir sex milljónir og mjög mikið um atvinnuleysi þar á meðal, og það er auðvitað partur af vandamálinu. Það á ekki að kenna fólkinu sjálfu um málin, þ.e. vandræði, – að það sé vegna þess að þetta sé fólk af þessum þjóðernum, Marokkóbúar eða eitthvað annað, eða vegna þess að það fylgi þessum trúarbrögðum, Islamstrú. Atvinnuleysi hefur alltaf í för með sér alvarlegar afleiðingar, t.d. fyrir ungmenni, sem þarna eru, sem eru jafnvel upp í helminginn eða meiri hluta í sumum hverfum [Parísar o.fl. borga], þ.e. ungmenni sem eru atvinnulaus. En við gerum rétt í því, eins og Jón Magnússon hefur minnt á, að fara varlega í þessar sakirnar.

Við erum náttúrlega með sjálfkrafa kerfi hérna gagnvart þjóðum, sem eru utan Evrópu [Schengen-svæðisins], að þær hafa ekki lengur auðveldan aðgang hér á landi, vegna aðskilnaðarstefnu Evrópubandalagsins, sem segja má að við höfum tileinkað okkur á vissan hátt : þannig er þetta bandalag að opna sig meira inn á við – þ.e. þjóðirnar sem eru í því bandalagi auk þjóðanna sem eru á Evrópska efnahagssvæðinu [6] – en aftur á móti loka sig meira gagnvart öðrum þjóðum. Meira að segja Hollendingar og Bretar hafa þrengt kvóta sína gagnvart innflutningi fólks frá öðrum löndum en Evrópulöndum nú á síðustu árum, einmitt vegna vandræða sem komið hafa upp og öllum eiga að vera kunn.

Það var frétt í Morgunblaðinu í dag [10. nóv.] um að breska leyniþjónustan MI5 fylgist með um 1600 einstaklingum vegna gruns um að þeir séu að undirbúa hryðjuverk. Það hefur fjölgað í starfsliði MI5 um nærri 50%. Þar starfa nú um 2800 manns. Þetta samsvarar því, að við værum hérna með 140 manna leyniþjónustu og þessi mikla þörf á mannafla þar væri tengd ótta við hryðjuverk.

Það hefur líka komið fram í könnunum í Bretlandi, ekki aðeins [7] að 40% brezkra múslima myndu vilja, að sjaría-lögin giltu á þeirra svæðum, þar sem múslimar eru fjölmennir. 41% múslima eru andvígir því, það ber að taka það fram líka, en fyrrnefnda talan er samt mjög hátt hlutfall. [8] Sjaría-lögin er ákaflega ströng lög gagnvart ekki einungis konum, heldur líka karlmönnum, s.s. handarhögg o.fl. sem þar gildir. Eins eru [í siðum sumra múslima] svokölluð "heiðursmorð" eða "ærumorð", sérstaklega í tengslum við konur sem eru t.d. eru með kristnum manni eða farnar að ná sambandi við mann fyrir hjúskap. Slíkt er alveg hryllingur að horfa upp á – líka í Svíþjóð og Noregi, það eru mörg dæmi um þetta nú á síðustu árum, þannig að við hljótum að fara varlega í þeim efnum líka.

Ég hygg að kristnir menn í þessu landi þurfi að fara að hugsa með sér: Eigum við ekki að standa vörð um okkar arf? Eigum við að láta þagga niður í okkur? Eigum við alltaf að hlusta bara á fjölmenningarkórinn, að allt sé betra en einhver "einangrunarhyggja" kristinna manna? Við erum ekki að leggja það til, að landsmenn taki afstöðu gegn fólki af öðrum trúarbrögðum. Okkur ber að virða alla menn, segir postulinn í Nýja testamentinu (I.Pét.2.17) – það er alveg undantekningalaust – og sýna öðrum kærleika. Eins vil ég minna á það, sem stendur nú í Gamla testamentinu: "Útlendum manni skalt þú eigi sýna ójöfnuð né veita honum ágang, því að þér sjálfir voruð útlendingar í Egyptalandi,” segir þar í 2. Mósebók [22.21, sbr. 23.9]. – Og önnur merkileg ákvæði koma þar fram, þar sem sagt er, að það sé vilji Guðs jafnvel, að útlendingarnir í landi Ísraelsmanna “stígi hærra og hærra upp yfir” þá, en að þeir sjálfir, Ísraelsmennirnir, skuli “færast lengra og lengra niður á við,” þ.e.a.s. ef Ísraelsmenn hlýða ekki raustu Drottins og halda skipanir hans og lög [sjá 28.15 o.áfr.]. – Þetta er stef, sem klingir á mörgum stöðum hjá spámönnunum og í Mósebókum, það er umhyggjan fyrir útlendingum, ekkjum og munaðarleysingjum [um allt þetta, sjá nánar grein mína: Til hamingju með daginn, 1. maí – Verkalýðsbarátta og frjálst flæði vinnuafls], m.a. sú umhyggja fyrir fátækum og útlendingum, sem birtist í sérstökum ákvæðum um að skilja eftir ákveðna hluta af ökrum Ísraelsmanna til handa þessu fólki til að nýta sér í þrengingum. Þannig að þessi umtalaða "einangrunarhyggja" er í rauninni ekki partur af Biblíunni.

Samt sem áður vil ég minna á það, góðir hlustendur, að við erum með mikinn fjölda útlendinga hér. Ójafnvægi í einu samfélagi er ekki gott. Við sjáum, að við erum komin fram úr öðrum þjóðum með þessa hluti. Og það var ágæt ákvörðun ríkisstjórnarninnar að taka sér umþóttunartíma – það er ekki umþóttunartími fyrir útlendinga, heldur fyrir íslenzka landsmenn – frá 1. janúar á næsta ári fram til 2009, þ.e. tveggja ára umþóttunartími gagnvart því að fá óheft flæði vinnuafls frá Rúmeníu og Búlgaríu, þar sem ríkir mikil fátækt. En við verðum að geta haft stjórn á þessu. Ef okkur vantar vinnuafl, getum við jafnvel opnað fyrir eitthvert vinnuafl þaðan á þessum tíma. En ég hygg að við þurfum að draga aðeins saman seglin. Þenslan hefur verið allt of mikil í þjóðfélaginu, og ríkisstjórnin hefur borið mjög mikla ábyrgð á því. Hún gerir það líka með því að loka ekki á þessi áform að þrefalda Straumsvíkurverksmiðjuna, sem eykur mengun hérna í nágrenni höfuðborgarinnar, og Hafnfirðingar hafa þar að auki fengið allt of lítið út úr þessari verksmiðju fjárhagslega séð.

Samt sem áður vil ég benda á, að málið er ekki aðeins þetta, að við séum með 15.000 útlendinga í landinu, sem flestir eru að vinna hér mjög vel. Við þurfum ekki einungis að kenna þeim íslenzku og sinna þeim á miklu betri hátt en gert er og koma í veg fyrir að börn þeirra fari illa út úr skólakerfinu, verði eftirbátar annarra – það eru þrefalt meiri reykingar, drykkja, kynlíf fyrir lok grunnskólanámsins o.s.frv. í þessum hópi, og þau falla út úr námi [og tiltölulega fáir sem komast af þeim sökum upp í háskólanám]. Þetta er alls ekki gott. Við þurfum að gera miklu meira fyrir þetta fólk. En málið er, endur tek ég, ekki bara þetta, að við séum með 15.000 manns hér og nú. Þar hefur verið aukning um 1000 manns á mánuði, síðustu mánuðina – alveg eins og í Svíþjóð: Svíarnir meðtaka núna flóttamenn frá Írak, 1000 manns á mánuði – en við getum enn verið að auka við þetta með þessu áframhaldi: þó að við lokum á Búlgari og Rúmena, getur þessi heildartala þess vegna aukizt upp í 20 eða 30 þúsund bara á næsta ári eða þarnæsta.

Þetta er ekki heppilegt, góðir hlustendur. Við eigum væntanlega eftir að ræða þessi mál frekar. En ég þakka Frjálslynda flokknum [sem ég tilheyri þó ekki] fyrir hans framtak í þessum málum, og hygg að ríkisstjórnin hefði hvorki farið út í þessa ákvörðun í dag um íslenzkukennsluna, að auka fé til hennar, sem var þó ekki nóg, né heldur þessa ákvörðun með Búlgaríu og Rúmeníu, nema einmitt vegna þessara góðu, framtakssömu manna í Frjálslynda flokknum sem þorðu að tala um mál sem ekki hefur verið lenzka að tala um eða menn hafa ekki þorað að tala um, því að hér ríkir þöggunin á svo mörgum sviðum, því miður.

Góðir hlustendur, ég þakka áheyrnina. Verið þið sæl.

–––––––––––––––––––––––
PS. Pistill þessi var fluttur á föstum tíma hádegiserinda í Útvarpi Sögu, kl. 12.40–13.00 (föstudag 10. nóv. 2006; í fremsta hluti erindisins, sem hér er sleppt, var stuttlega fjallað um vændi á íslandi og vitnað til orða Karls biskups Sigurbjörnssonar þar um á Kirkjuþingi í október sl.).

Ég efast ekki um, að ýmsir kunna að vera mér ósammála um eitthvað af því sem hér hefur verið sagt, en til þess er einmitt athugasemdakerfið: að setja fram athugasemdir og ræða málin. Betur sjá augu en auga, og partur af því að reynast náunga sínum sannur bróðir er að leiðrétta hann, fari hann ekki rétt með staðreyndir.

–––––––––––––––––––––––
NEÐANMÁLSGREINAR:

[1] Mismæli, sem mér urðu þarna á (og leiðréttust raunar strax í máli mínu) eru hér færð til réttrar meiningar minnar. Sumt annað í máli mínu, sem talað var frjálst fram að miklu leyti (með punktum, en einnig með stöku skrifuðum textum) er lagað hér til fyrir útlits sakir eða stíls og til að forðast endurtekningar. Talmálskeimurinn er þó enn auðfundinn af erindinu.

[2] Fréttablaðið, þrd. 31. okt. 2006, bls. 4: 'Ríkið niðurgreiðir kennslu um þúsund krónur á mann'. Þar koma þessar tölur fram um ráðstöfunarfé samkvæmt fjárlögum til íslenzkukennslu fyrir útlendinga: 2002: 15,9 milljónir. – 2003: 16,3 milljónir. – 2004: 16,6 milljónir. – 2005: 17,3 milljónir. – 2006: 18,8 milljónir.

[3] Í hádegisfréttum Rúv 10. nóv. 2006, í viðtali við menntamálaráðherra.

[4] Fréttablaðið, þrd. 7. nóv. 2006, bls. 16.

[5] Gyðingar og Arabar eru Semítar, afkomendur Sems, sonar Nóa. Raunar eru þeir enn náskyldari en svo, því að þeir eru sömuleiðis afkomendur Abrahams sem skv. Biblíunni var 9. ættliður frá Sem (sjá I. Mósebók, 10.–11. kap.). Með egypzku ambáttinni Hagar átti Abraham (Abram) soninn Ísmael (I.Mós.16), en með Söru konu sinni eignaðist Abraham soninn Ísak (I. Mós. 17.15. o.áfr., 21.1 o.áfr.). Ísak var faðir Esaús og Jakobs, sem einnig var nefndur Ísrael, og af honum og sonum hans tólf eru Ísraelsmenn hinir fornu komnir, þ.á m. Júda, ættfaðir Gyðinga (sjá t.d. I.Mós. 46 og 49). En Ísmael varð ættfaðir ættbálka og þjóða sem "bjuggu frá Havlíla til Súr, sem er fyrir austan Egyptaland, í stefnu til Assyríu. Fyrir austan alla bræður [þ.e. frændur, innskot JVJ.] sína tók hann [Ísmael] sér bústað" (I.Mós. 25.(12–)18). Sjá einnig I. Kronikubók, 1.24–34. Til Ísmaels telja Arabar ætterni sitt og gera raunar hlut hans öllu meiri en Ísaks, ólíkt því sem fram kemur í I. Mósebók um þá hálfbræðurna.

[6] Mismæli í erindinu sjálfu leiðrétt hér.

[7] Hér láðist mér, við flutning erindisins, að fjalla um hitt atriðið, sem til stóð að nefna, að fimmti hver múslimi á Bretlandseyjum hefur samúð með "tilfinningum og hvötum (motives)" sjálfsmorðssprengjumannanna sem réðust á farþega lestanna í Lundúnum 7. júlí 2005 og drápu þar 52 manns, "þó að 99% hafi litið svo á, að sprengjumennirnir hafi gert rangt með því að framkvæma ódæðisverkið," skv. þessari frétt í Sunday Telegraph 19. febr. 2006, en nánar er fjallað um þetta í annarri frétt í sama blaði, Sunday Telegraph 19. febr. 2006. Nánar tiltekið höfðu 20% svarendanna samúð með hvötum sjálfsmorðssprengjumannanna sem réðust á farþega lestanna, en 75% höfðu ekki samúð með þeim. Eitt prósent taldi, að árásirnar hafi verið réttar ("right"). En ef 1% lítur svo á, þá er það samt skelfilega há tala í einstaklingum talið, sem reiðubúnir eru að taka afstöðu með slíkum voðaverkum og því (sennilega eða hugsanlega) að gerast samverka- eða vitorðsmenn þeirra glæpamanna sem að slíkum ódæðisverkum standa. Í Stóra-Bretlandi teljast múslimir nú meira en 1,6 milljónir (meira en þrefalt fleiri en Gyðingar þar), skv. The Times (Timesonline.co.uk) 7. febr. 2006. 1% af þeim þjóðfélagshópi gerir um 16.000 manns. Ýmsar fleiri athyglisverðar upplýsingar koma fram í þeirri Times-grein, m.a. um það, hvaða fjölmiðla múslimir á Bretlandseyjum leiti mest í, og um fjandsamleg viðhorf þeirra til Gyðinga, því að 37% múslima í Bretlandi líta á Gyðinga sem "lögmætt (legitimate) skotmark," eða eins og segir þarna orðrétt:

Nearly two fifths (37 per cent) believe that the Jewish community in Britain is a legitimate target “as part of the ongoing struggle for justice in the Middle East”. Moreover, only 52 per cent think that the state of Israel has the right to exist, with 30 per cent disagreeing, a big minority. One in six of all Muslims questioned thinks suicide bombings can sometimes be justified in Israel, though many fewer (7 per cent) say the same about Britain. This is broadly comparable to the number justifying suicide attacks in ICM and YouGov polls of British Muslims after the July 7 attacks.

Einnig má vitna til sömu Times-fréttarinnar (þ.e. Populus-könnunar, sem The Times lét framkvæma), þar sem fram kemur enn meiri róttækni meðal múslima um tvítugt, einkum karlmannanna:

However, according to Populus, 12 per cent of 18 to 24-year-old Muslims believe that suicide bombings can be justified here, and 21 per cent in Israel. A fifth of all Muslims, and a quarter of men, say suicide attacks against the military can be justified, though only 7 per cent say this about civilians.

Orðinu "only" (aðeins) í þessum síðustu orðum sýnist mér ofaukið í fréttinni.

Þessum tölum til samanburðar má nefna, að í Indónesíu, fjölmennasta múslimaríki heimsins, styður tíundi hver múslimi "heilagt stríð með valdbeitingu" (violent jihad), sjá t.d. þessa vefsíðu. Í Indónesíu eru um 220 milljónir íbúa, þar af um 85% múslimir, þ.e. um 190 milljónir. Þetta er því viðhorf nál. 19 milljóna manna í því ríki einu saman.

Jafnvel þótt yfirgnæfandi meirihluti múslima á Vesturlöndum sé friðsamt fólk, löghlýðið og góðir borgarar, þá valda þessi virðhorf lítils minnihluta miklum áhyggjum.

[8] Frá þessari skoðanakönnun um sjaríalögin segir nánar í fyrrnefndri frétt í Sunday Telegraph 19. febr. 2006 (sbr. ennfremur Mánudagspóstinn 27. febr. 2006 á Íhald.is, sem fjallar einnig í lengra máli um áðurnefnd sjaría-lög).

22 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég var að auka talsvert efni þessarar vefgreinar í neðanmálsgreinum [5], [7] og [8].

12.11.06 @ 15:50
Athugasemd from: Janus Hafsteinn Engilbertsson
Janus Hafsteinn Engilbertsson

Jón Valur, ég vil sérstaklega þakka þér fyrir erindi þitt á Útvarpi Sögu á föstudaginn 10. Ég er þér algjörlega sammála. Já, orð þín voru eins og töluð út úr mínu hjarta.

Þú átt líka hrós skilið fyrir það, hvernig þú ætíð styður skrif þín og ræður með tilvitnunum. Já, einsog þú gerir hér að ofan, í meðanmálsgreinunum. Þessar upplýsingar mættu svo sannarlega koma í umræðuna og væri gott fyrir þá að heyra, sem eru að reyna að bendla talsmenn Frjálslynda flokksins, í máli þeirra um innflytjendur, við rasisma.

Jón Valur, ég hvet þig til að halda þínu striki, sem mér sýnist ætíð vera í rétt norður, eða uppá við. Drottinn blessi þig og gefi þér og þinum áframhaldandi styrk.

Kveðja,
Janus Hafsteinn.

12.11.06 @ 23:32
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hjartans þakkir, Janus Hafsteinn, fyrir þín góðu orð.

13.11.06 @ 00:26
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Á annarri vefslóð minni komu innflytjendamálin til umræðu, og þar sagði ég m.a.: “innflytjendur eru ekki vandamál, heldur er óheftur fjöldi þeirra vandamál, þ.e. hve margir þeir stefna í að verða, sem og okkar eigin vanbúnaður að taka við þeim, svo að vel sé, auk annarra vandamála, sem þessu tengjast ….”

Því er við þetta að bæta, að vandamálið felst ekki aðeins í hinum mikla fjölda innflytjenda, sem veldur hér ýmiss konar ójafnvægi (um leið og hann hefur þó vissulega fært í för með sér visst jafnvægi líka, þ.e. til að byrja með), því að þessi opna stefna er í sjálfri sér vandamál líka, þegar ekki er t.d. krafizt sakavottorðs af innflytjendum né (fyrr en þeir eru komnir hingað) heilbrigðisvottorðs. Það er ekki heilladrjúgt, að á sama tíma og við vorum að vísa á brott (með afstöðu okkar í varnarviðræðunum) hervörnum í landinu, þá skyldum við hafa opnað hér allt upp á gátt fyrir hverjum sem er frá Evrópska efnahagssvæðinu, já, þess vegna tugþúsundum manna. Það getur ekki kallazt gætilega farið, hvorki varðandi innri öryggisvarnir okkar né sóttvarnir (sbr. alla alvarlegu sjúkdómana í Austur-Evrópu, berkla, alnæmi, lifrarveiki o.fl.) né eftirlit með eða viðnám gegn innflutningi glæpamanna úr ýmsum áttum.

Menn geta fleygt því fram í umræðu, að innflytjendurnir séu ágætir, jafnvel “frábærir", en það er innantóm alhæfing, jafn-marklaus og hið vitlausa slagorð á hommastoltsdögunum í sumar: ‘Hommar eru gæðablóð!’ Það er ekki hægt að alhæfa þannig um drjúgan hóp manna, ekkert frekar en hægt sé að alhæfa: “Íslendingar eru gæðablóð!” Það er misjafn sauður í mörgu fé – það á við um innflytjendur ekkert síður en aðra hópa, og jafnvel er sérstök ástæða til að gera ráð fyrir, að glæpalið frá örfátækum löndum (tvö hafa sérstaklega verið nefnd) sjái sér færi á að auðgast með mun árangursríkari hætti hér en í heimalöndum þeirra (því að hér er eftir miklu meira að slægjast); það ferli virðist jafnvel byrjað, eins og fréttir síðustu vikna bera vitni um.

Andvaraleysi ríkisstjórnarinnar er hér fyrst og fremst um að kenna. Eftir að hafa predikað ágæti hins rándýra Schengen-kerfis, stöndum við nú gapandi af undrun að heyra, að það kerfi gagnist okkur ekki til að bægja héðan glæpamönnum. Ráðherrarnir ættu að kynna sér, af hverju Bretar eru ekki í Schengen, og eru þeir þó ESB-þjóð.

Að þessu sögðu ber vitaskuld að taka fram, að flestir innflytjendur hingað hafa reynzt okkur vel. Það breytir þó engu um réttmæti orðanna hér á undan, enda er hætta þar á ferðum.

08.12.06 @ 00:04
Matthías Ásgeirsson

Þetta eru einkennilegir útúrsnúningar hjá Jón Val og þessari síðu til skammar.

Hin umræðan snýst um þá vá sem Jón Valur sér í því að fæðingartíðni hér á landi er ekki nægilega há að hans mati.

Það er ósköp einfaldlega staðreynd að innflytjendur eru “lausn” á því “vandamáli", því Íslendingum mun fjölga þrátt fyrir lága fæðingartíðni af því að innflytjendur koma hingað til að starfa og búa.

Auk þess forðast Jón Valur algjörlega að ræða þá augljósu staðreynd að fæðingartíðni tengist kvenréttindum afar sterkum böndum. Í stað þess að ræða það lokaði Jón Valur Jensson umræðunni og sakaði mig um útúrsnúninga því ég vildi ekki eltast við þessa umræðu hér (í athugasemdum við hina greinina).

Ég hefði gaman að því að sjá álit annarra penna á kirkju.net við þessari hegðun Jóns Vals.

Af hverju þorir hann ekki að ræða tengsl kvenréttinda og fæðingartíðni? Er sannleikurinn óþægilegur?

Hvernig getur svo Jón Valur verið á móti tæknifrjóvgunum á sama tíma og hann hefur áhyggjur af of lágri fæðingartíðni? Það er ekki nokkuð vit í þessu.

08.12.06 @ 10:21
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Lesendur Kirkjunetsins eru nú búnir að fá smjörþefinn af orðbragði og þankagangi Matthíasar Vantrúarmanns (en hafa þó í raun lítið séð ennþá). Eigum við ekki bara að þakka pent fyrir okkur? Bíða bara og vona, að hann fari að tilmælum okkar um hófstillingu í orðavali? En ég ætla ekki að svara þessu hjali hans hér að sinni, geri það ekki fyrr en mér þókknast, en læt hins vegar öðrum bræðrum mínum það eftir að svara því sem M. beinir til þeirra, hafi þeir lyst á því.

[Viðbót (eftir miðnættið): Spurningu MÁ um hugsanleg tengsl kvenréttinda og mannfjölgunar/fækkunar svaraði ég fyrir miðnættið þar sem það átti heima, þ.e. á vefsíðu minni: Ískyggileg fækkun fæðinga í Evrópu – og sérstaða Íra, HÉR. – Önnur viðbót: Varðandi tæknifrjóvganir, þá hef ég ekki lýst hér skoðunum mínum á þeim í heild, á eftir að gera það seinna, og nenni ég sízt að þrasa við Matthías um hans meiningar um mínar meintu skoðanir, sem ekki hafa komið fram. Hefði hann viljað ræða þau atriði sem ég í reynd var að fjalla um, tengd tæknifrjóvgunum, þá var honum sú umræða fullkomlega heimil, en hann hafði víst hug á einhverju öðru. – JVJ.]

08.12.06 @ 11:23
Matthías Ásgeirsson

Þarna Þekki ég J. - hleypur undan þegar hann kemst í bobba. Jæja, ég vona að aðrir kirkjunetspennar taki upp hanskann fyrir hann.

Ekki skil ég af hverju vísun á Vantrúargrein dagsins var fjarlægð, hún tengist þessari umræðu. […]

Hvað í ósköpunum á J svo við með þessu væli um orðbragð og þankagang? Af hverju þarf J alltaf að dylgja í stað þess að tala hreint út?

J. vertu maður.

08.12.06 @ 13:49
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég tók vefslóðina út, af því að hún kom mér svo fyrir sjónir sem M. væri einfaldlega og að óþörfu að nota Kirkjunetið sem tilkynningatöflu fyrir Vantrúarnetið. Engan vilja hef ég til að þola það, meðan þeir Vantrúarmenn setja illa dregna smánarmynd af manni á krossi efst á hverja einustu vefsíðu – og á trúlega að vera þeirra hæðnisfulla mynd af Kristi. Þar og í ýmsum ummælum sumra meðlimanna sést vel sá haturshugur sem þeir bera jafnvel til Jesú Krists. Það er ekki að tilefnislausu sem ég hef kallað þetta lið “herskátt".

Á þeirri vefslóð, sem vísað var til, var ekki verið að ræða sjónarmið okkar Ragnars Brynjólfssonar í trúfræðslumálunum, heldur það meinta ástand (eða stefnu), að Þjóðkirkjan fái að sitja ein að trúfræðslu skólakrakka. Það er ekki viðhorf mitt né vilji, ekkert fremur en Reynis Harðarsonar í Siðmennt (sjá umræðuna á vefslóð Ragnars um Vinaleiðina). Og þetta er ástæðan fyrir því, að ég kallaði þessa vefslóðartilvísun Matthíasar “óþarfa".

Svo vil ég ekki meira um þetta hér né fleiri kjánaleg frýjunarorð frá Matthíasi þessum. En ef Vantrúarmennirnir tækju burtu smánarmyndina efst úr vefhausi sínum, væri kannski von til þess að ég ætti við þá orðastað, hér sem hjá þeim sjálfum. Eftir að vefhauss-lógóið þeirra fór að birtast með vefslóðinni í betur uppfærðri tölvu minni, þ.e. í listanum yfir ‘history’ (nýlega notaðar vefslóðir), var mér öllum lokið, því að þær slóðir ber fyrir augu barna minna, þegar þau nota tölvuna, og get ég engan veginn umborið slíka hraksmán. Ég held við Matthías ættum að takast í hendur upp á það að vera ekki að heimsækja vefsetur hvor annars, meðan þeir notast við þessa ömurlegu smánarmynd í vefhaus sínum. En haldi þeir uppteknum hætti, væri rétt að lögsækja þá fyrir að smána þannig opinberlega kristna trú og sannfæringu stórs hluta landsmanna (enda virðist sá vera tilgangur þeirra).

08.12.06 @ 14:31
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Sjá Almenn hegningarlög nr. 19/1940 með áorðnum breytingum:

125. gr. “Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum].1) Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.”
[1) Lög nr. 82/1998, 48. gr.]

Oft mun þó málssókn að fyrirlagi saksóknara hafa verið háð vegna ábendinga almennra borgara, sem málið kann að snerta.

08.12.06 @ 14:55
Matthías Ásgeirsson

lol, þú ert dásamlegur.

Þess má geta að lengi vel setti J vísun á síðu um fóstureyðingar með öllum innleggjum sínum á Vantrú, jafnvel þó umræðan hefði ekkert með fóstureyðingar að gera.

Auk þess vil ég taka fram að það er lygi hjá J að greinin sem ég vísaði á fjalli um Vinaleið, hún fjallar um útlendinga og umburðarlyndi.

08.12.06 @ 16:36
Matthías Ásgeirsson

ps. J, kærðu okkur. Ég mana þig.

08.12.06 @ 16:36
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Aths. við fyrra innleggið kl. 16.36: við 2. klausu: Vísun sú var ekki sett fram í texta, heldur þar sem ég var beðinn (fyrir ofan innleggið) um vísun á vefsíðu mína. Ég hef nánast alfarið vísað þar (með þeim einfalda hætti, eins og M. vísar hér á vefsíðu sína Örvitann) á Kirkju.net eða mína slóð þar.

Við 3. klausu: Ég sagði ekki, að vefsíðan sem slík (eða öll) fjallaði um Vinaleið, en hitt var samt 100% rétt hjá mér, að þar var rætt um “það meinta ástand (eða stefnu), að Þjóðkirkjan fái að sitja ein að trúfræðslu skólakrakka.” M. ætti ekki að vera með svona útúrsnúning úr máli mínu, tefjandi fólk frá vinnu vegna hégóma. Þeim mun fremur er ástæða til að ítreka tilboð mitt (útréttu sáttahöndina).

En menn skoði aftur innlegg mitt kl. 14:31 og veiti því eftirtekt, hvað Matthías forðast að ræða af þeim alvarlegu hlutum sem þar koma fram.

Svo tek ég ekki við neinum mönunum frá M. En þótt ég sé upptekinn við að sinna ennþá mikilvægari málum, geta þeir Vantrúarmenn ekki útilokað, að aðrir taki upp þann hanzka, álíti menn það nauðsynlegt.

08.12.06 @ 17:06
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég get nú ekki betur séð en vandlæting Matthíasar sé á misskilningi byggð. Jón Valur reifar hér ýmis mál á málefnalegan hátt og reynir á kurteisan hátt að halda umræðum innan ramma þeirra málefna sem fjallað er um í pistlunum.

Við kaþólskir höfum ríka ástæðu til að gleðjast vegna hinna fjölmörgu af erlendum uppruna sem hafa lífgað upp á kirkjuna okkar og þjóðfélagið allt með nærveru sinni. En margir í okkar hópi hafa (þar á meðal ég og greinilega Jón Valur líka) hafa án efa lengi gert sér grein fyrir því að opinberir aðilar þyrftu að standa betur að móttöku hinna erlendu vina okkar og aðstoð við að aðlaga sig að aðstæðum hér. Það þarf ekki annað en skoða fjárveitingar hins opinbera til íslenskukennslu eins og Jón Valur bendir á til að sjá hve mikið hefur vantað uppá. En nýlegt útspil menntamálaráðherra (100 milljónirnar) lyftir vonandi grettistaki í þeim efnum.

Eins og við sem fyrir erum í landinu vinnur þetta fólk gjarnan langan vinnudag og þegar heim er komið bíða fjölskylduskyldur sem þarf að sinna. Og það þarf engum blöðum um það að fletta að kvöldnámskeiðahald fjarri heimilum eða vinnustað er því miður ekki nægilegt. Ég er alls ekki að lasta þetta námskeiðahald heldur miklu frekar lofa. Það hefur hjálpað mörgum og það ætti að efla. En það sem ég er að segja er að fjölbreytnina í framboði námsins þarf að auka. Vinnustaðanám t.d. í formi farkennslu þarf að efla að miklum mun og jafnvel bjóða upp á einkakennslu á heimilum með reglulegu millibili fyrir þá sem ekki eiga heimangegnt en eru allar stundir bundnir við heimilisannir. Þessir heimilskennarar eða stuðningsfulltrúar gætu þá líka tekið þátt í því að gefa góð ráð varðandi heimanám barnanna. Þó nám með þessu fyrirkomulagi sé dýrt þá verður þetta að gerast ef vel á að vera. Einnig gætu þeir tölvufæru í þessum hópi eflaust nýtt sér fjarnám.

08.12.06 @ 18:50
Matthías Ásgeirsson

ísun sú var ekki sett fram í texta, heldur þar sem ég var beðinn (fyrir ofan innleggið) um vísun á vefsíðu mína. Ég hef nánast alfarið vísað þar (með þeim einfalda hætti, eins og M. vísar hér á vefsíðu sína Örvitann) á Kirkju.net eða mína slóð þar.

Þú vísaðir þar á síðu sem a) var ekki persónuleg heimasíða þín og b) tengdist ekki umræðunni.

ps. Ég því sett vísun á greinina við nafn mitt. Þannig vill J hafa það.

08.12.06 @ 18:59
Matthías Ásgeirsson

En menn skoði aftur innlegg mitt kl. 14:31 og veiti því eftirtekt, hvað Matthías forðast að ræða af þeim alvarlegu hlutum sem þar koma fram.

Að sjálfsögðu ætla ekki að eltast við barnalega viðkvæmni þína, mynd af […] á krossi er eitthvað það saklausasta g[…]uðlast sem ég veit um.

08.12.06 @ 19:00
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég vil sérstaklega taka undir allt það, sem Ragnar segir hér í síðasta innleggi sínu um íslenzkukennsluna og nauðsyn útvíkkunar hennar á ýmsa lund.

08.12.06 @ 19:46
Matthías Ásgeirsson

Kæra ritstjórn, hví fjarlægir J hér orðið “[…]” og bókstafinn “v"? Er þessi ritskoðunarstefna hans ekki komin út fyrir allan þjófabálk?

[Allt guðlast, sem berst inn á þennan vef, er fjarlægt, þannig eru reglurnar. Já, svo sannarlega er guðlast bannað á þessari kristnu vefsíðu. –JVJ.]

08.12.06 @ 19:53
Matthías Ásgeirsson

Þetta er mynd af geimveru. Hvernig getur geimvera verið Gvuðlast? Eru Gvuðinn þinn geimvera?

Hélstu að þetta væri mynd af Jesús? Það er ósköp einfaldlega þinn misskilingur, þarna er mynd af geimveru sem búið er að krossfesta, á Vantrú fáumst við við öll hindurvitni.

09.12.06 @ 18:34
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta á sennilega að heita fyndið hjá M. En sennilega er það afrakstur heilabrota hans og félaga hans – sjálfum sér til varnar gegn hugsanlegri lögsókn. En eru Vantrúarmenn reiðubúnir að setja þann texta á vefhausinn, að þetta sé ekki meint sem “mynd af Jesú"?

Ég býð M. að svara þessu, en ef vefhaus Vantrúar verður ekki breytt, ítreka ég það sanngjarna tilboð til hans, að hann hætti að skrifa hér innlegg, eins og ég hef af fyrrgreindum ástæðum neyðzt til hins sama á hans vantrúarneti.

09.12.06 @ 19:54
Matthías Ásgeirsson

En eru Vantrúarmenn reiðubúnir að setja þann texta á vefhausinn, að þetta sé ekki meint sem “mynd af Jesú"?

Nei, að sjálfsögðu ekki. Lesendur okkar eru ekki fífl (upp til hópa) og sjá vel að myndin er af geimveru. Það er augljóst.

Ég mun ekki hætta að skrifa hér athugasemdir nema ég verði leiður á því.

Kærðu okkur fyrir gvuðlast eða hættu þessu væli.

09.12.06 @ 22:58
Birgir Baldursson

En sennilega er það afrakstur heilabrota hans og félaga hans – sjálfum sér til varnar gegn hugsanlegri lögsókn.

Við erum alveg til í lögsókn. Látt’ana koma.

Til sannindamerkis um að þetta er ekki eftiráskýring hjá M, þá fylgir hér vefslóðin þar sem Erich er kynntur til sögunnar. Klausan sú er frá því í ágúst 2005:

http://www.vantru.is/2005/08/22/00.00/

10.12.06 @ 00:44
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hvers vegna er “Erich, geimvera” þeirra Vantrúarmanna, á krossi? Ætli það sé tilviljun? Ekki endaði Erich von Däniken, fyrirmynd þeirra, ef fyrirmynd skyldi kalla, ævi sína á krossi, né heldur neinar geimverur, svo að spurnir fari af.

Þessum mönnum er ljúft að látast, af því að það hentar þeim.

Þeir, sem óska eftir að leggja hér inn málefnalegar athugasemdir um efni vefgreinar minnar hér fyrir ofan eða beina umræðu í sambandi við hana, er bent á að senda mér slíka aths. í netbréfi, til: jvjensson@gmail.com – en þessari hliðarumræðu í lok þessarar vefslóðar er hér með lokið á mínum vefsíðum.

10.12.06 @ 01:39
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

blog engine