« Um bókina „Jesús frá Nasaret“Allt um Ágústus keisara - eða Júlíus Sesar Oktavíanus »

01.07.10

  06:56:35, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 660 orð  
Flokkur: Sr. Þórhallur Heimisson

Íslenski krossfáninn

Pistill eftir séra Þórhall Heimisson.

Við Norðurlandaþjóðirnar eigum margt sameiginlegt, saga landanna er á margan hátt tengd og menning sömuleiðis. Enda er það oft þannig að þeir sem eru frá landsvæðum utan Norðurlandanna líta á Norðurlöndin sem eina heild. Eitt af því sem einkennir Norðurlöndin og undirstrikar sameiginlega menningu eru fánarnir okkar. Yfir öllum Norðurlöndum nema Grænlandi blakir krossfáninn.

Við hugsum kannski ekki út í það frá degi til dags en það að merki krossins skuli blakta yfir þessum löndum alla daga sýnir, að hér fara þjóðir sem eru helgaðar krossinum í tíma og sögu. Svo getum við deilt um allt milli himins og jarðar að öðru leyti.

En manngildi krossins ræður för.

Krossfáninn á sér reyndar langa sögu sem fáir þekkja. Hann rekur upphaf sitt alla leið aftur til krossferðanna á 11. öld eftir Krist. Þá voru stofnaðar tvær munkareglur sem helguðu sig því hlutverki að verja krossfararíki í Ísrael, svokallaðir riddaramunkar. Hétu þær annars vegar Musterisriddarar og hins vegar Jóhannesarriddarar.

Musterisriddarar tóku nafn eftir musterinu forna í Jerúsalem, en Jóhannesarriddarar eftir Jóhannesi skírara. Musterisriddarar lögðu áherslu á hernað hverskonar. Jóhannesarriddarar helguðu sig aftur á móti aðhlynningu sjúkra og særðra og vernduðu pílagríma í köstulum sínum. Urðu báðar reglurnar með tímanum ákaflega ríkar og voldugar.

Með falli Landsins helga í hendur múslima á 13. öld var tilverurétti riddarareglnanna tveggja stefnt í tvísýnu. Þessi tilvistarkreppa varð Musterisriddurunum eða Musterisherrunum eins og þeir einnig kölluðust, til falls. Páfinn og Frakkakonungur blésu til ofsókna gegn þeim. Voru þeir ákærðir fyrir hvers konar upplognar sakir. Árið 1310 leið regla þeirra undir lok.

Jóhannesarriddararnir fóru á allt annan og betri veg út úr endalokum krossferða. Ljóst var, að hinni kristnu Vestur-Evrópu var það gagnlegt að hafa öflugt varnarlið við Miðjarðarhaf til að stemma stigu við herhlaupi múslima vestur á bóginn. Þetta verkefni varð nú hlutskipti riddaranna. Eftir lok krossferða settust Jóhannesarriddararnir um stundar sakir að á eynni Kýpur, en litlu síðar unnu þeir eyjuna Ródos, og sátu þeir þar næstu tvær aldirnar.

Árið 1522 settist Tyrkjasoldán um Ródos og hrakti Jóhannesarriddarana þaðan. Voru þeir nú á flækingi í 7 ár, en tóku sér að svo búnu bólfestu á eynni Möltu og réðu henni allt fram til ársins 1798, er Napóleon mikli Frakkakeisari hernam eyna.

Jóhannesarriddararnir á Möltu eða „Mölturiddararnir“, eins og þeir löngum eru nefndir, komu upp miklu veldi á þessari litlu Miðjarðarhafseyju og á nágrannaeyjunni Gozo. Enn þann dag í dag telja Möltubúar valdatíma Jóhannesarriddaranna hafa verið mesta blómaskeiðið í sögu eyjarinnar.

Yfir haf aldanna tengjumst við Íslendingar og Norðurlandabúar allir Mölturiddurunum fornu og þar með krossfarariddurunum. Og þar með erum við komin að sögu hinna norrænu krossfána. Þjóðartákn okkar fáninn og fáni hinna fornu krossfararreglna er í gruninn hinn sami, þ.e. krossinn. Skýringin á þessu fyrirbæri er einföld: Danski fáninn, hvítur kross á rauðum grunni, er upphaflegi fáni krossriddara.

Hluti hinna fornu krossriddara settist að norður á Þýskalandi eftir lok krossferða og tók sér nafnið þýsku riddararnir eða Tevtónsku riddararnir. Þessir riddarar gengu til liðs við Valdimar sigursæla danakonung á 13. öld. Konungur tók við krossfánanum og gerði hann að sínum. Frá danska fánanum eru síðan komnir aðrir krossfánar Norðurlanda, þ.á.m. hinn íslenski, sem þannig rekur rætur sínar til fána hinna fornu Musterisherra og Jóhannesarriddara.

Mölturiddararnir héldu allt til hins síðasta í hinn forna [sið] Jóhannesarbræðranna að veita sjúkum aðhlynningu. Á Möltu hafði á tímum þeirra í fyrsta sinni í veraldarsögunni verið til að dreifa hvílurúmum fyrir hvern sjúkling, en áður lágu þeir allir meira og minna í einni kös. Þeir voru líka frægir um öll lönd fyrir lækniskunnáttu sína, en þá kunnáttu námu þeir upphaflega meðal annars frá Aröbum í Landinu helga. Með þeim barst þekking í læknislitinni og hverskonar fræðum til Vesturlanda. Þeir urðu með tímanum miklir alþjóðasinnar og tileinkuðu sér menningarstrauma hvaðanæva að.

Sú menning sem hefur þróast á Norðurlöndum undir blaktandi krossfánum ber enn keim af hugsjónum Jóhannesarbræðranna fornu. Allt lifandi starf í kirkjum landsins er meiður af þeirri fjölmenningarlegu og frjálslyndu grein sem byggir í grunninn á kærleiksboðskap Jesú Krists.

Birtist áður á http://thorhallurheimisson.blog.is 30.06.2010

No feedback yet